Borgarráð - Fundur nr. 5020

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2008, fimmtudaginn 27. mars, var haldinn 5020. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstaddir voru Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur Kr. Hjörleifsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 12. mars. R08010009

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 18. mars. R08010012

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 19. mars. R08010024
Samþykkt að vísa 61. og 62. lið afgreiðslufundargerðar byggingarfulltrúa frá 18. mars til skipulagsráðs. B-hluti fundargerðar skipulagsráðs samþykktur að öðru leyti.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 14. mars. R08010028

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 26 mál. R08020152

6. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfi 11 veitinga- og gististaða, sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. R08030002

7. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar um rekstrarleyfi veitingastaðarins Black, Lækjargötu 6a, dags. 17. þ.m. R08030002
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 13. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 12. s.m., varðandi breytingu Kópavogsbæjar á deiliskipulagi í Fossvogsdal vegna íþróttasvæðis HK. R08030098
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 13. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 12. s.m., um auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Fossvogshverfis.
Samþykkt. R08030092

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 13. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 12. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Höfðatorgs. R06080159
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 5. s.m., um breytingu á deiliskipulagi Hampiðjureits vegna lóðanna nr. 2-4 og 3 við Stakkholt. R06090002
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 13. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 12. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi útivistarsvæðis Úlfarsárdals. R06100328
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í fyrirliggjandi auglýsingu um deiliskipulag útivistarsvæðis Úlfarsárdals, er ekki gert ráð fyrir Vatnagarði eins og fyrri tillögur gerðu ráð fyrir. Að því gefnu er mikilvægt að fyrir liggi yfirlýsing frá borgaryfirvöldum um að ekki standi til að hætta við fyrirhugaðan Vatnagarð í Úlfarsárdal. Ef til stendur að borgin haldi sig við fyrirhugaðar hugmyndir um Vatnagarð, hvar stendur þá til að staðsetja hann í Úlfarsárdalnum og hvenær verða skipulagstillögur þess efnis kynntar?

13. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. þ.m. varðandi val á aðila til að annast starfsemi á útivistarsvæði í Gufunesi. Jafnframt lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og Fjöreflis ehf. um afnot af svæðinu, ódags. R06050039
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 11. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins 10. s.m., varðandi kaup á fasteigninni að Kleifarseli 18. R08030059
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 12. s.m., þar sem óskað er eftir 21,5 mkr. fjárveitingu á þessu ári vegna stofnkostnaðar dagdeildar fyrir minnisveika í húsinu nr. 27 við Blesugróf. R07070012
Samþykkt. Færist af liðnum ófyrirséð útgjöld.

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 12. s.m., varðandi nýjar reglur um þjónustuíbúðir fyrir aldraða. R07010047
Samþykkt.

17. Lagðar fram niðurstöður þjónustukannana Capacent Gallup vegna þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar og barnaverndar Reykjavíkur, dags. í janúar 2008, ásamt bréfi sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 17. þ.m. R08030110

Bókun borgarráðs:

Borgarráð fagnar jákvæðum niðurstöðum þjónustukannananna og óskar starfsfólki til hamingju með þennan góða árangur.

18. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 18. þ.m., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um farveg tillagna stýrihóps borgarráðs um Reykjavík Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. s.m. R07100293

19. Lagt fram bréf umhverfis- og samgöngusviðs frá 13. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 11. s.m., varðandi laun nemenda Vinnuskólans á þessu ári.
Samþykkt. R08030102

20. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 13. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 12. s.m., varðandi tillögur að gatnaheitum á svæði ofan Keldna og Laxalóns. R08030084
Samþykkt.

21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, dags. 18. þ.m. R08010032
Borgarráð samþykkir að veita styrki sem hér segir:
Kór Félags eldri borgara í Reykjavík og kórinn Söngfuglar, 150 þkr. starfsstyrkur til hvors um sig.
Þórey Vilhjálmsdóttir, 300 þkr. styrkur til útgáfu bókarinnar Reykjavík barnanna.

Þá eru lögð fram erindi sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs frá 26. þ.m., þar sem óskað er heimildar til að ganga til viðræðna við eftirtalda aðila um gerð þriggja ára samstarfssamninga, sem hér segir:
Gríman, íslensku leiklistarverðlaunin, 1 mkr. árlegt framlag árin 2008-2010.
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, 7 mkr. framlag 2008, 8 mkr. 2009 og 9 mkr. 2010.
Samþykkt.

22. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. frá 11. þ.m. varðandi tilnefningu fulltrúa á aðalfund sjóðsins, sem haldinn verður föstudaginn 4. apríl nk.
Samþykkt að auk borgarfulltrúa sæki fundinn f.h. Reykjavíkurborgar fjármálastjóri, borgarhagfræðingur, sviðsstjóri framkvæmda- og eignasviðs og sérfræðingur á skrifstofu borgarstjórnar. R08030077

23. Samþykkt að tilnefna Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, Gísla Martein Baldursson og Oddnýju Sturludóttur í vinnuhóp vegna barnahátíðar í Reykjavík, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. þ.m. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir verði formaður hópsins. R06030185

24. Samþykkt borgarráðs:

Í ljósi breytinga á eldsneytisverði í heiminum, þéttingar byggðar, umhverfisþátta og áherslu á nýtingu innlendra orkugjafa í samgöngum felur borgarráð umhverfis- og samgöngusviði að kanna hagkvæmni þess og fýsileika að koma á lestarsamgöngum milli Keflavíkurflugvallar og Miðborgar Reykjavíkur annars vegar og léttlestarkerfis í Reykjavík hins vegar. Við úttektina verði endurskoðaðar og uppfærðar fyrri úttektir sem unnar hafa verið um lestarsamgöngur á vegum borgarinnar og fjárhags-, umhverfis- og skipulagsþættir greindir. Ennfemur verði lagðar fram upplýsingar um kostnað vegna rekstrar lesta milli Reykjavíkur/Keflavíkur og rekstrar léttlesta á höfuðborgarsvæðinu. Úttektin verði unnin í samvinnu við skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar og samgönguyfirvöld í landinu. Samráð skal haft við Orkuveitu Reykjavíkur. Umhverfis- og samgöngusviði er falið að leita samstarfs við samgönguyfirvöld í landinu um samstarf og kostun þessa verkefnis. Borgarráð er reiðubúið að leggja allt að 10 mkr. til þessa verkefnis að því tilskyldu að það verði kostað til helminga af ríki og borg.
Umhverfis- og samgöngusvið skal skila til borgarráðs ítarlegri verkefnalýsingu og kostnaðaráætlun vegna verksins eigi síðar en 1. júní nk. R08020113

25. Lögð fram beiðni Bolla Thoroddsen um leyfi frá störfum í íþrótta- og tómstundaráði til 1. ágúst nk. Jafnframt er lagt til að Kjartan Magnússon verði kosinn formaður íþrótta- og tómstundaráðs í stað Bolla. Þá er lagt til að Guðrún Pálína Ólafsdóttir taki sæti Bolla Thoroddsen í menntaráði. Loks er lagt til að Björn Gíslason verði varamaður í velferðarráði í stað Sifjar Sigfúsdóttur. R08010162
Vísað til borgarstjórnar.

26. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 25. þ.m. um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. R08020099
Samþykkt.

27. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar um greiðslu höfundagjalda, ódags., ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. 25. þ.m. R08030113
Vísað til fjármálastjóra til umsagnar.

28. Lagt fram bréf sviðsstjóra fjár- og áhættustýringarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur frá 11. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Orkuveitunnar 6. s.m., þar sem óskað er eftir samþykki eigenda Orkuveitunnar fyrir því að fyrirtækið gangi til samninga við Dexia Crédit Local um lántöku að andvirði 100 milljónir evra. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 26. s.m. R08030078
Vísað til borgarstjórnar.

- Kl. 11.25 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Jórunn Frímannsdóttir tekur þar sæti.

29. Kynntar eru horfur í efnahagsmálum og hugsanleg áhrif á tekjur og útgjöld Reykjavíkurborgar. R08010198

- Kl. 12.36 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi og Kristján Guðmundsson tekur þar sæti.

30. Lögð fram greinargerð formanns KSÍ um framkvæmdir við Laugardalsvöll, dags. 18. þ.m., sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. f.m. og 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. þ.m. R08020127
Þá er lögð fram greinargerð Dags B. Eggertssonar um málið, ódags.

Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar óskar bókað:

Það er miður að bréf formanns KSÍ um framúrkeyrslu við framkvæmdir KSÍ á Laugardalsvelli hafi ratað í opinbera umræðu áður en KSÍ gafst færi á að leiðrétta þær augljósu missagnir sem þar er að finna. Í stuttu máli stangast bréfið í mikilvægum atriðum á við fyrirliggjandi gögn málsins, fundargerðir byggingarnefndar og raunar fyrri yfirlýsingar formanns KSÍ. Ekkert í bréfinu hrekur hins vegar niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar frá 6. mars sl. þar sem atvikalýsing dregur fram að byggingarnefnd, sem þó var undir formennsku KSÍ, var sniðgengin þegar eftirlitshlutverk hennar var annars vegar. Formaður KSÍ segist virða álit innri endurskoðanda og biður Reykjavíkurborg afsökunar í bréfi sínu.
Ástæða er til að gera sérstakar athugasemdir við fimm þætti í bréfi formanns KSÍ, eins og nánar er rökstutt í meðfylgjandi greinargerð.
Í fyrsta lagi dregur formaður KSÍ fjöður yfir það að KSÍ ákvað að ganga til samninga við Ístak, gerði breytingar á samningi miðað við útboðsgögn og skrifaði loks undir samninga án samráðs eða aðkomu Reykjavíkurborgar, eins og fundargerðir byggingarnefndar og vitnisburðir embættismanna Reykjavíkurborgar bera með sér.
Í öðru lagi stangast sú fullyrðing, að byggingarnefndarmönnum hafi mátt vera ljóst að í umframkostnað stefndi vorið 2006, á við fundargerðir byggingarnefndar, niðurstöðu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar og þá staðreynd að KSÍ lagði ekki fram nýja kostnaðaráætlun frá janúar 2006 fyrir byggingarnefnd þótt hún hafi komið saman til fundar eftir að hún lá fyrir.
Í þriðja lagi skýrir formaður KSÍ það hvergi hvers vegna mánuðir liðu frá því KSÍ taldi ljóst að kostnaður færi fram úr áætlunum og fékk nýja kostnaðaráætlun því til staðfestingar og að þessar upplýsingar voru kynntar fyrir embættismönnum Reykjavíkurborgar og hvers vegna þær voru aldrei kynntar byggingarnefnd.
Í fjórða lagi dregur formaður KSÍ fjöður yfir það að veigamiklar ákvarðanir sem leiddu til kostnaðarauka voru ákveðnar einhliða af KSÍ á síðari hluta framkvæmdatímans, raunar eftir að minni setu í byggingarnefnd lauk, eins og minnisblöð framkvæmdasviðs og yfirlit yfir tímasettan viðbótarkostnað og aukaverk ber með sér.
Í fimmta lagi svarar bréf formanns KSÍ því í engu hvort og þá hvernig KSÍ taldi sig hafa sótt umboð til neðangreindra viðbótar- og aukaverka.
Innri endurskoðun og lögfræðingar Reykjavíkurborgar hafa nú til skoðunar þær lykilspurningar um Laugardalsmálið sem lagðar voru fyrir borgarráð í kjölfar niðurstöðu innri endurskoðunar; um ábyrgð KSÍ á þeirri framúrkeyrslu sem orðið hefur í framkvæmdinni; af hverju byggingarnefnd hafi ekki verið gert viðvart um framúrkeyrslu í framkvæmdinni og hvenær, ef einhvern tímann, og á hvaða vettvangi hafi verið samþykkt að Reykjavíkurborg taki á sig þennan umframkostnað, að hluta eða heild, og í hvaða umboði. Mikilvægt er að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er til að borgarráð geti tekið ákvarðanir um næstu skref með sanngirni og fjárhagslega hagsmuni Reykjavíkurborgar að leiðarljósi.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Bogarfulltrúi Dagur B. Eggertsson, var skipaður í byggingarnefnd af þáverandi borgarstjóra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, þann 15. nóvember 2005 og sat þar í 10 mánuði eða til 13. september 2006. Byggingarnefndin átti að hafa eftirlit með framkvæmdinni, ekki síst kostnaðaráætlun.
Nefndin hélt því einungis tvo fundi á meðan Dagur B. Eggertsson sat í henni í 10 mánuði, þ.e. 25. nóvember 2005 og 3. apríl 2006, þrátt fyrir að á þeim tíma hafi verið teknar, eins og segir í bréfi Geirs Þorsteinssonar, formanns KSÍ og fulltrúa í byggingarnefndinni af hálfu KSÍ, „afdrifaríkustu ákvarðanir verksins sem réðu mestu um þann kostnað sem á það féll, þ.e.a.s. samningur KSÍ við Ístak. Á hvorugum fundinum, þ.e. 25. nóv. 2005 og 3. apríl 2006, mótmælti Dagur samningnum við Ístak eða taldi þörf á að sækja frekari heimildir til borgarráðs”. Þessi samningur við Ístak var 207 mkr. hærri heldur en upphafleg áætlun, júlí 2005, gerði ráð fyrir.
Í minnisblaði innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar frá 6. mars. sl. kemur m.a. fram að byggingarnefndin hafi brugðist hlutverki sínu og að fulltrúar Reykjavíkurborgar í nefndinni hefðu átt að að krefjast fleiri funda til að tryggja formlegt eftirlit.
Aldrei á þessum 10 mánuðum óskaði Dagur eftir því að haldinn yrði fundur í byggingarnefndinni til þess að fara yfir framvindu kostnaðar við byggingu þessa mannvirkis.
Allar meiriháttar ákvarðanir sem skýra framúrkeyrslu við framkvæmdina eða að upphæð um 450 mkr. voru teknar í tíð meirihluta R-listans.

- Kl. 13.00 víkur Jórunn Frímannsdóttir af fundi.

Borgarráðfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ber það með sér að vera samin áður en svör við greinargerð formanns KSÍ var kynnt og lögð fyrir borgarráð. Það að henni skyldi ekki vera breytt eða hún dregin til baka í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu í greinargerð Dags B. Eggertssonar er ótrúlegt því hún gengur beinlínis gegn staðreyndum í svörum Dags sem staðfest hefur verið á fundinum að eru réttar. Málflutningur formanns borgarráðs, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, varðandi framkvæmdirnar sem fóru að umtalsverðum hluta fram í hans borgarstjóratíð er með slíkum ólíkindum að það vekur spurningar um það hvaða hagsmuni hann hefur að leiðarljósi. Um gríðarlega fjármuni er að ræða og byggingarnefnd var ekki upplýst um framúrkeyrsluna þegar hún lá fyrir. Formaður borgarráðs kýs að tala máli KSÍ þrátt fyrir augljós afglöp formanns byggingarnefndar og er ljóst að honum þykir meira um vert að snúa málinu upp í pólitískt hnútukast en að gæta hagsmuna borgarinnar. Sést það best á því að þegar vísað er til ákvarðana sem teknar hafi verið á síðasta kjörtímabili er Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að vísa til einhliða ákvarðana KSÍ sem embættismenn Reykjavíkurborgar hafa undirstrikað að enginn hafi samþykkt fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Það er því furðulegt að beina spjótum að Reykjavíkurlistanum í því sambandi. Slíkar áherslur valda áhyggjum en koma ekki á óvart úr þessari átt.

- Kl. 13.20 víkur Svandís Svavarsdóttir af fundi.
- Kl. 13.44 víkur Óskar Bergsson af fundi.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það eina sem staðfest hefur verið á fundinum er að rétt sé vísað í greinargerð innri endurskoðanda.

Að lokum er lagt fram minnisblað sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs til innri endurskoðanda um málið, dags. 10. þ.m.


Fundi slitið kl. 13.55

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Dagur B. Eggertsson Kjartan Magnússon
Kristján Guðmundsson