Borgarráð - Fundur nr. 5019

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 13. mars, var haldinn 5019. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 4. mars. R08010006

2. Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 6. febrúar og 5. mars. R08030050

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 28. febrúar. R08010007

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 25. febrúar. R08010008

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 3. mars. R08010016

6. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 12. mars. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R08020152

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 5. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 15 við Rangársel.
Samþykkt. R08030040

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 5. s.m., um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits vegna Sóltúns 2-4.
Samþykkt. R04100095

10. Lagt fram bréf Akóges í Reykjavík frá 2. þ.m. varðandi úthlutunarskilmála lóðarinnar nr. 70 við Suðurlandsbraut. R05120090
Vísað til meðferðar framkvæmda- og eignasviðs.

11. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra eignasjóðs og yfirlögfræðings skipulags- og byggingarsviðs til Skipulagsstofnunar varðandi landfyllingu við Ánanaust, dags. 15. f.m., ásamt bréfi Einars Arnarssonar, dags. 27. s.m., og fylgiskjölum. Þá er lagt fram minnisblað yfirlögfræðings skipulags- og byggingarsviðs frá 11. þ.m. varðandi málið. R06090260

Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar óskar bókað:

Þessari niðurstöðu er fagnað enda er hún í samræmi við andmæli, bókanir og fyrirvara Samfylkingarinnar allt frá upphafi þessa máls. Í þeirri orrahríð sem staðið hefur undanfarið er ljóst að sjónarmið íbúa hafa orðið ofan á þótt enn sé nokkur óvissa um framhald málsins. Mikilvægt er að þeirri óvissu verði eytt.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Rétt er að íbúar við Ánanaust hafa mótmælt hraustlega uppfyllingu þeirri sem Samfylking, Vinstri græn og Framsóknarflokkur settu í aðalskipulag Reykjavíkur árið 2002. Núverandi meirihluti hefur ekki í hyggju að ráðast í þá risavöxnu uppfyllingu heldur aðeins örlítið brot af henni, m.a. til að koma því efni sem mokað er upp úr grunni Tónlistar- og ráðstefnuhússins. Samráðsfundur hefur verið haldinn með íbúum á svæðinu og því samráði verður haldið áfram og öllum spurningum sem kunna að vakna svarað. Í millitíðinni verður efni úr grunni TRH sett í landfyllingar í Sundahöfn.

12. Rætt um framtíðarstaðsetningu hússins Norðurpólsins, sem áður stóð á lóð nr. 125 við Hverfisgötu. R07040054

13. Lögð fram umsögn Minjaverndar hf. frá 6. þ.m. um tillögu um staðsetningu Hönnunarmiðstöðvar Íslands í Ziemsen-húsinu, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs 21. f.m. R07040083
Málinu er vísað til Hönnunarmiðstöðvar Íslands til upplýsingar.

14. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Atlantsolíu frá 27. f.m. þar sem óskað er eftir úthlutun lóða fyrir tvær til þrjár sjálfsafgreiðslubensínstöðvar í úthverfum Reykjavíkurborgar. R08030031
Vísað til meðferðar framkvæmda- og eignasviðs, skipulags- og byggingarsviðs og umhverfis- og samgöngusviðs.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og samgöngusviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 26. s.m., þar sem lagt er til að almenn bílastæði við götukanta Vesturgötu, milli Garðastrætis og Ægisgötu, verði gjaldskyld og skilgreind sem gjaldsvæði II. R08030028
Samþykkt.

16. Lögð fram umsögn umhverfis- og samgönguráðs frá 26. f.m., sbr. bréf umhverfis- og samgöngusviðs frá 29. s.m., varðandi tillögu um könnun á hagkvæmni þess að koma á lestarsamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og til Keflavíkurflugvallar, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. f.m. R08020113

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:

Í ljósi breytinga á eldsneytisverði í heiminum, þéttingar byggðar, umhverfisþátta og áherslu á nýtingu innlendra orkugjafa í samgöngum felur borgarráð umhverfis- og samgöngusviði að kanna hagkvæmni þess og fýsileika að koma á lestarsamgöngum milli Keflavíkurflugvallar og Miðborgar Reykjavíkur annars vegar og léttlestarkerfis í Reykjavík hins vegar. Við úttektina verði endurskoðaðar og uppfærðar fyrri úttektir sem unnar hafa verið um lestarsamgöngur á vegum borgarinnar og fjárhags-, umhverfis- og skipulagsþættir greindir. Úttektin verði unnin í samvinnu við skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar og samgönguyfirvöld í landinu. Samráð skal haft við Orkuveitu Reykjavíkur.
Umhverfis- og samgöngusviði er falið að leita samstarfs við samgönguyfirvöld í landinu um samstarf og kostun þessa verkefnis. Borgarráð er reiðubúið að leggja allt að 10 mkr. til þessa verkefnis að því tilskyldu að það verði kostað til helminga af ríki og borg. Umhverfis- og samgöngusvið skal skila til borgarráðs ítarlegri verkefnalýsingu og kostnaðaráætlun vegna verksins eigi síðar en 1. júni nk.

Frestað.

17. Lögð fram tillaga starfshóps borgarlögmanns að endurskoðuðum reglum um endurgreiðslu kostnaðar vegna slysa og tjóna sem börn verða fyrir í skipulögðu starfi á vegum Reykjavíkurborgar, ódags., ásamt bréfi starfshópsins, dags. 4. þ.m.
Samþykkt. R07010124

18. Lagt fram svar borgarstjóra frá 11. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um innheimtu fasteignagjalda, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. s.m. R08030036

19. Lagt fram bréf Óskars Bergssonar, dags. í dag, þar sem tilkynnt er að Gerður Hauksdóttir verði áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks í hverfisráði Miðborgar og Sæunn Stefánsdóttir í hverfisráði Vesturbæjar. R08020029

20. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til eftirfarandi breytingar á skipan nefnda og ráða:

Sif Sigfúsdóttir taki sæti í velferðarráði í stað Björns Gíslasonar.
Björn Gíslason taki sæti í mannréttindaráði í stað Sifjar Sigfúsdóttur. Marta Guðjónsdóttir verði formaður mannréttindaráðs.
Sigríður Ragna Sigurðardóttir taki sæti Sifjar Sigfúsdóttur í hverfisráði Vesturbæjar. Ólafur R. Jónsson verði varamaður í hverfisráði Vesturbæjar í stað Sigríðar Rögnu og formaður ráðsins verði Vala Ingimarsdóttir.
Jón Kári Jónsson taki sæti í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar í stað Per Henje. R08010162

Vísað til borgarstjórnar.

21. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. þ.m. í máli nr. E-1153/2007, Magnús Guðmundsson gegn Reykjavíkurborg og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. R07060122

22. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, dags. 12. þ.m., alls 14 mál. R08010032
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum að veita Hálfdáni Pedersen styrk að fjárhæð 250 þkr. til útgáfu ljósmyndabókar 5 ára barna og Iðnmennt 250 þkr. vegna Íslandsmóts iðngreina 2008.

23. Lagt fram minnisblað skipulagsstjóra varðandi fyrirheit um lóðaúthlutanir til stúdenta o.fl., dags. í mars 2008. R08010196

Bókun borgarráðs:

Borgarráð fagnar þeirri miklu vinnu sem unnin hefur verið, allt frá síðustu kosningum, til að tryggja að hægt verði að mæta þörfum stúdenta til uppbyggingar í Reykjavík. Því er sérstaklega fagnað að áætlað er að innan skamms verði undirritað samkomulag borgaryfirvalda við Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands, þar sem tryggðar verða lóðir undir 600 íbúðir fyrir stúdenta á næstu árum.

24. Lögð fram greinargerð innri endurskoðunar, ódags., varðandi niðurstöður áhættumats Minjasafns Reykjavíkur. R07120055
Vísað til menningar- og ferðamálaráðs til eftirfylgdar.

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. þ.m.:

Lagt er til að borgarráð samþykki að ganga til samninga við Alþjóðahús ehf. til eins árs samkvæmt meðfylgjandi drögum að samningi. Reykjavíkurborg greiði Alþjóðahúsi ehf. 30 mkr., 20 mkr. verði greiddar af kostnaðarstað 09512 og 10 mkr. af kostnaðarstað 01271.

Greinargerð fylgir tillögunni. Jafnframt lögð fram drög að þjónustusamningi Alþjóðahússins ehf. og Reykjavíkurborgar, dags. í dag. R06100100
Samþykkt.

26. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 10. þ.m. þar sem lagt er til að veitt verði fyrirheit um úthlutun lóðarinnar nr. 9 við Hádegismóa undir aðstöðu fyrir Vegagerðina, með nánar tilgreindum skilmálum. Jafnframt lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. s.d. R08020140
Samþykkt.

27. Afgreitt er 1 útsvarsmál. R06010038

28. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Hverju sætir að borgarstjóri hefur enn ekki sýnt nein merki þess að setja þær tillögur í farveg sem fram komu í skýrslu stýrihóps borgarráðs um REI og OR og samþykktar voru í borgarráði 7. febrúar og sérstaklega faldar borgarstjóra 14. febrúar á fundi borgarráðs? Þess má geta að borgarstjóri hefur verið spurður ítrekað um stöðu þessara mála bæði í borgarráði og borgarstjórn. R07100293

29. Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að borgarstjóri kanni möguleika Reykjavíkurborgar til að leita endurskoðunar á samningi um sölu/söluverð á hlut Reykjavíkurborgar á Landsvirkjun. R05020109

Frestað.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson óskar bókað:

Degi B. Eggertssyni hlýtur að vera ljóst að markaðsverð einstakra fyrirtækja ræðst ekki af hagnaði eða tapi tiltekin ár.
Staðreyndin er sú að á þeim tíma sem viðskiptin voru gerð var fengin ráðgjöf frá færustu sérfræðingum sem skoðuðu alla þætti rekstrarins og komust að niðurstöðu sem var í fullu samræmi við markaðsaðstæður á þeim tíma.
Það sem hefur breyst síðan þá er fyrst og fremst að álverð, bæði stundarverð og framvirku verðin, hafa stórhækkað. Við þessu var ekki búist og raunar voru spámenn frekar þeirrar skoðunar að verðið myndi lækka.
Hagnaður ársins 2007 byggir að verulegu marki á útreikningi á innbyggðum afleiðum í orkusölusamningum á ákveðnum punkti, þ.e.a.s. um áramótin. Þetta er ekki innleyst frekar en gengishagnaðurinn áður fyrr. Þess vegna getur afkoma LV versnað stórlega ef álverðsferlarnir falla úr þeim hæðum sem þeir eru í núna.
Þeir sem mæla viðskiptunum í mót núna eru að stilla sér upp eins og þeir hafi vitað alla tíð að álverðið myndi hækka frá því sem það var í þegar viðskiptin voru gerð. Með því eru þeir að spá um fortíðina.
Fróðlegt yrði að heyra viðbrögð Dags B. Eggertssonar ef álverð myndi lækka og afkoma LV versna stórlega.

Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar óskar bókað:

Ekkert af því sem gagnrýnt var við sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun stóðst skoðun og því hlýtur það að vera ábyrgðarhluti að kanna ekki endurskoðunarákvæði í samningi um sölu Landsvirkjunar að gefnu tilefni. Það hlýtur að verða gert.

30. Óskar Bergsson leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á síðasta borgarstjórnarfundi bar borgarfulltrúi Framsóknarflokksins fram eftirfarandi spurningar til borgarstjóra:
Var borgarstjóra kunnugt um þegar hann réði sér aðstoðarmann, að sá hinn sami hefði á sínum tíma ráðlagt borgaryfirvöldum niðurrif á húsunum við Laugaveg 4 og 6?
Telur borgarstjóri það vera til þess fallið að auka traust almennings á borgarstjórn Reykjavíkur, sem nú mælist í sögulegu lágmarki, að aðstoðarmaður hans sem myndaði meirihluta um varðveislu húsanna við Laugaveg 4 og 6, hafi verið ráðgjafi borgarinnar um niðurrif húsanna á sínum tíma?
Borgarstjóri neitaði að svara spurningunni og sagði borgarstjórn setja niður vegna nærveru borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Hyggst borgarstjóri svara spurningunni eða voru ummæli hans á borgarstjórnarfundinum endanlegt svar við fyrirspurninni? R07080072

- Kl. 14.08 víkja Kjartan Magnússon, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi.
- Kl. 14.13 víkur Dagur B. Eggertsson af fundi.
- Kl. 14.24 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi.

Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks:

Í spurningu borgarfulltrúa Óskars Bergssonar kemur fram fullyrðing um að aðstoðarmaður borgarstjóra hafi ráðlagt borgaryfirvöldum niðurrif á húsunum við Laugaveg 4 og 6. Fullyrðingin er röng.
Að varpa fram slíkri spurningu í upphafi borgarstjórnarfundar og tengja það skoðanakönnun um fylgi við Borgarstjórn Reykjavíkur svarar sér sjálft og lýsir best vinnubrögðum fyrirspyrjanda. Það er alvarlegt að borgarfulltrúi Óskar Bergsson skuli halda á lofti slíkum fullyrðingum án þess að kanna sannleiksgildi þeirra og reyna þannig að vega að trúverðugleika og starfsheiðri aðstoðarmanns borgarstjóra.
Borgarstjóri telur að slík vinnubrögð séu ekki til þess fallin að auka veg og virðingu Borgarstjórnar Reykjavíkur. Málefni Laugavegar 4-6 voru á dagskrá síðasta borgarstjórnarfundar og var borgarfulltrúanum því í lófa lagið að bera upp fyrirspurnina síðar á fundinum eins og honum var bent á.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks óskar bókað:

Fundarsköp borgarstjórnar gera ráð fyrir því að borgarfulltrúar geti tekið upp mál utan dagskrár ef ekki hefur gefist ráðrúm til þess að setja málið á dagskrá. Í þessu tilfelli birtist skoðanakönnun Gallup, um að stuðningur við borgarstjórn hefði mælst í sögulegu lágmarki, eftir að dagskrá borgarstjórnar hafði verið gefin út. Borgarfulltrúi Framsóknarflokksins var því í fullum rétti að taka málið upp utan dagskrár. Spurningarnar til borgarstjóra voru bornar upp vegna umfjöllunar fjölmiðla um aðkomu aðstoðarmanns hans að húsunum við Laugaveg 4 og 6, og hafa svipaðar fyrirspurnir áður borið að með svipuðum hætti, án þess að veist hafi verið að fyrirspyrjanda.
Fyrir liggur að borgarstjóri sér ekki ástæðu til að draga ummæli sín um borgarfulltrúa Framsóknarflokksins til baka en þau voru svohljóðandi:
“Ég verð að segja að framkoma borgarfulltrúans við aðstoðarmann minn og borgarstjórn alla er með þeim hætti að Borgarstjórn Reykjavíkur setur niður að hafa svona fulltrúa í sinni þjónustu”.
Að veitast að borgarfulltrúa með þeim hætti sem gert var, á sér engin fordæmi og hlýtur að vekja upp spurningar um þróun mála í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Borgarstjóri óskar bókað:

Borgarfulltrúi Óskar Bergsson hefur að undanförnu farið fram með þeim hætti að ég hef ekki kynnst slíku áður í Borgarstjórn Reykjavíkur. Borgarfulltrúinn ætti að líta sjálfum sér nær þegar hann talar um þróun mála í Borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem framkoma borgarfulltrúa hver við annan og við embættismenn borgarinnar er með þeim hætti sem ekki hefur tíðkast í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Fundi slitið kl. 15.00

Hanna Birna Kristjánsdóttir

Ólafur F. Magnússon Óskar Bergsson