Borgarráð - Fundur nr. 5017

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 28. febrúar, var haldinn 5017. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:40. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 12. febrúar. R08010006

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 4. febrúar. R08010008

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 26. febrúar. R08010011

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 21. febrúar. R08010015

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 26. febrúar. R08010017

6. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 27. febrúar. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 22. febrúar. R08010100

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R08010223

9. Lagt fram bréf lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs frá 27. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi í Suður-Mjódd. R08020082
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs frá 27. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Suður-Mjódd. R08020082
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs frá 27. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á deiliskipulagi Vesturhafnar vegna Fiskislóðar og Hólmaslóðar. R07120086
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf umboðsmanns Alþingis frá 22. þ.m. þar sem óskað er eftir svörum við tilteknum spurningum vegna málefna Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Energy Invest. R07100223
Samþykkt að fela borgarlögmanni að semja drög að svari.

- Kl. 9.55. tekur Gísli Marteinn Baldursson sæti á fundinum.

13. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 12. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks um deiliskipulag á Laugavegi, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. janúar sl. R07080072

Óskar Bergsson óskar bókað:

Í svari skipulags- og byggingarsviðs kemur fram að leiðarljósið í deiliskipulagi Laugavegsreita var að Laugavegur sé aðalverslunargata Reykjavíkur, þar sem sjónarmið uppbyggingar og varðveislu haldast í hendur. Í stað þess að nýta alla þá vönduðu vinnu sem borgarstarfsmenn, borgarfulltrúar og húsverndarsérfræðingar hafa lagt til og hér hefur verið lögð fram, hefur Sjálfstæðisflokkurinn og borgarstjóri gert þessa vinnu að engu og hleypt upp verði á óbyggðum fermetrum í Miðborg Reykjavíkur. Kaupin á Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A hafa dregið úr trúverðugleika borgarinnar sem skipulagsvalds, hafa sett skipulag Laugavegsreita í uppnám og hleypt upp verði á gömlum húsum í Miðborginni. Þessi vinnubrögð eru fáheyrð þar sem virðing fyrir almannafé og vandaðri stjórnsýslu er gefið langt nef.

Greinargerð fylgir bókuninni.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það er ekki nýtt að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sé á móti kaupum borgarinnar á húsunum við Laugaveg. Sú afstaða hefur legið fyrir en það liggur jafn ljóst fyrir að meirihluti borgarstjórnar telur kaupin mikilvæg og farsæl fyrir Reykjavík, Miðborgina og þróun skipulagsmála í borginni almennt. Sú endurskoðun sem samþykkt var samhljóða í skiplagsráði er eðlileg í ljósi breyttra áherslna í málefnum Miðborgar, húsverndar og uppbyggingar almennt. Starfið hefur verið leitt af skipulagsstjóra og einkennst af virðingu fyrir þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin, þeirri sátt sem mikilvægt er að ná í málinu og þeim vilja mikils meirihluta borgarstjórnar að uppbygging og verndun haldist í hendur við þessa mikilvægustu verslunargötu borgarinnar. Vegna bókunar Óskars Bergssonar og þeirrar greinargerðar sem henni fylgir er að öðru leyti vísað til ítrekaðra bókana borgarráðs og skipulagsráðs vegna málsins.

14. Lagt fram bréf vegamálastjóra frá 22. þ.m., þar sem Jónas Snæbjörnsson er tilnefndur fulltrúi Vegagerðarinnar í samráðsnefnd um Sundabraut. Jafnframt er gerð athugasemd við bókun borgarráðs frá fundi 17. janúar sl. varðandi lagningu Sundabrautar í göng frá Gufunesi í Laugarnes. R04100023

- Kl. 10.45 víkur Kjartan Magnússon af fundi og Júlíus Vífill Ingvarsson tekur þar sæti.

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra eignasjóðs frá 26. þ.m. varðandi viðbótargreiðslu vegna framkvæmda við Laugardalsvöll. Jafnframt lagður fram viðaukasamningur við samning milli Reykjavíkurborgar og Knattspyrnusambands Íslands um Laugardalsvöll frá 15. september 2005. R08020127
Borgarráð samþykkir að vísa málinu til Innri endurskoðunar. Jafnframt óskaði formaður borgarráðs eftir að Innri endurskoðun svaraði tilteknum spurningum varðandi málið.

16. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Nýsis frá 25. þ.m., þar sem sótt er um lóð nr. 9 við Hádegismóa fyrir starfsemi Vegagerðar ríkisins. R08020140
Vísað til skrifstofustjóra eignasjóðs og skipulagsráðs.

17. Lögð fram bréf slökkviliðsstjóra og framkvæmdastjóra SHS fasteigna ehf. frá 22. nóvember sl. og 19. f.m. varðandi staðsetningu nýrra Slökkvistöðva undir Úlfarsfelli og við Stekkjarbakka. Jafnframt lögð fram umsögn garðyrkjustjóra frá 7. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 12. þ.m. Einnig lögð fram umsögn skipulags- og byggingarsviðs frá 4. f.m. varðandi málið. R07010203

Á grundvelli fyrirliggjandi umsagna samþykkir borgarráð að skipulagssvið og eignasjóður hefji viðræður og vinnu við staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar í Reykjavík. Borgarráð leggur áherslu á að samhliða þeirri vinnu verði haft samráð við og leitað álits íbúa og íbúasamtaka á svæðinu.

18. Lögð fram ársskýrsla framtalsnefndar fyrir árið 2007. R08020116

19. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar frá 25. þ.m. yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R08010032
Borgarráð samþykkir að veita Skáksambandi Íslands fjárstuðning að fjárhæð 5 mkr.

20. Lagt fram bréf stjórnarformanns og framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur frá 25. þ.m., þar sem óskað er eftir leiðréttingu á framlagi til reksturs Heiðmarkar og styrk til nýrra verkefna. R07110101
Vísað til umhverfissviðs.

21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir þriggja veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. R08020004

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Samhliða þriggja ára áætlun, þar sem áhersla er lögð á aðhald og ábyrgð í rekstri Reykjavíkur, er nauðsynlegt að skoða aðgerðir sem leitt geta til sparnaðar við yfirstjórn borgarinnar. Sérstaklega á þetta við um kostnað við nefndir og ráð borgarinnar og jafnframt að skoða aðrar leiðir sem færar geta verið til aukins aðhalds án þess að það hafi áhrif á þjónustu við borgarbúa. Stjórnkerfisnefnd er falið að vinna tillögur um slíkar aðgerðir og leggja fyrir borgarráð eigi síðar en 1. maí nk. R07010134
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri Grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Það eru vissulega fögur fyrirheit að fara af stað með góðu fordæmi um ráðdeild og sparnað í yfirstjórn borgarinnar. Það vekur hins vegar upp spurningar, hvers vegna borgarstjóri tiltekur sérstaklega rekstur við nefndir og ráð, en ekki í eigin ranni. Lýðræðisleg umræða og ákvörðunartaka í nefndum og ráðum er án efa ekki að ríða baggamuninn í rekstri borgarinnar. Skemmst er að minnast ráðleysis meirihlutans við mönnun í nefndir og því vaknar spurning hvort það sé einstök tilviljun að beita eigi sparnaðarhnífnum þar? Áherslur meirihlutans um miðstýringaráráttu kemur glögglega fram í þriggja ára áætlun og veldur áhyggjum hvort vandræðaganginn eigi að fela bak við luktar dyr.

Borgarstjóri óskar bókað:

Borgarstjóri vill ítreka mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar borgarinnar sýni ráðdeild og aðhald í fjármálum borgarinnar. Borgarstjóri hefur verið í þjónustu borgarbúa sem kjörinn fulltrúi í 18 ár, nú síðast sem borgarstjóri. Allan tímann hefur hann lagt sérstaka áherslu á aðhald og ráðdeild við ráðstöfun almannafjár í þágu kjörinna fulltrúa borgarinnar og vitna útgjöld vegna ferðakostnaðar hans, dagpeninga og annars kostnaðar um það.

23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Lagt er til að borgarráð heimili fjármálastjóra að breyta myntum í gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningi við Kaupþing frá árinu 2005. Þetta hefur ekki áhrif á heildarvirði samningsins og felur ekki í sér nýja lántöku.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08020138
Samþykkt.

24. Lagt fram að nýju frumvarp að þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál Reykjavíkurborgar árin 2009-2011.

Svohljóðandi breytingartillögum við frumvarp að þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar 2009-2011 vísað til borgarstjórnar:

FS-1. Heimaþjónusta
Lagt er til að varið verði 250 mkr. á tímabilinu til aukningar heimaþjónustu (Velferðarsvið).

FS-2. Húsaleigubætur
Lagt er til að varið verði 453 mkr. á tímabilinu vegna eflingar húsaleigubótakerfisins (sbr. yfirlýsingar ríkisstjórnar til aðila vinnumarkaðarins) en það er áætlaður hlutur Reykjavíkurborgar miðað við að ríkið greiði 60#PR af húsaleigubótum og borgin 40#PR (Velferðarsvið).

FS-3. Sérskóli
Lagt er til að varið verði á tímabilinu 500 mkr. vegna stofnkostnaðar sérskóla enda gangi eftir önnur fyrirheit um fjármögnun hans. Innri leiga verði hækkuð til samræmis eða um 157 mkr. (Menntasvið)

FS-4. Sérdeildir
Lagt er til að varið verði 200 mkr. til uppbyggingar sérdeilda og innri leiga hækki til samræmis eða um 37 mkr. (Menntasvið)

FS-5. Listasafn Reykjavíkur
Lagt er til að varið verði 60 mkr. vegna endurbóta á húsnæði Listasafns Reykjavíkurborgar og innri leiga verði endurskoðuð til samræmis eða um 5 mkr. (Menningar- og ferðamálasvið)

FS-6. Leiðrétting húsaleigu og innri leigu
Lagt er til að áætlun menningar- og ferðamálasviðs verði verði endurskoðuð um 39 mkr. á tímabilinu, vegna leiðréttinga á húsaleigu Foldasafns og innri leigu vegna stofnframkvæmda við menningartengd húsnæði. (Menningar- og ferðamálasvið)

FS-7. Samningur við SÁÁ
Lagt er til að áætlun verði endurskoðuð vegna samnings við SÁÁ um 20 mkr. vegna 2009 og 20 mkr. vegna 2010.

FS-8. Leiðrétting á rekstrarkostnaði
Lagt er til að áætlun leikskólasviðs verði endurskoðuð vegna leiðréttinga á rekstrarkostnaði nýrra deilda í eldri leikskólum, eða sem nemur 133 mkr. á tímabilinu.

FS-9. Leikskóli á HR svæði
Lagt er til að varið verði 140 mkr. til byggingar nýs leikskóla á HR svæði.

FS-10. Gatnagerðargjöld
Lagt er til að áætlun um tekjur vegna gatnagerðargjalda verði endurskoðuð og lækkuð til samræmis við áætlaða þróun tekna vegna sölu byggingaréttar, eða um 1.200 mkr. Jafnframt er lagt til að áætlaðar stofnframkvæmdir gatna verði lækkaðar um sömu fjárhæð.

FS-11. Stofnbúnaður Höfðatorgi
Lagt er til að áætlun verði endurskoðuð vegna aukinnar innri leigu á stofnbúnaði í Höfðatorgi, eða um 84 mkr. á tímabilinu. R07120010

25. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks leggja fram eftirfarandi fyrirspurn:

Á síðasta fundi umhverfis- og samgönguráðs voru fyrirhugaðar framkvæmdir á Kringlumýrarbraut og Miklubraut kynntar. Í kynningunni kom fram að hönnun er talsvert langt á veg komin og má ætla að meirihlutinn hyggi á framkvæmdir sem fyrst. Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks óska eftir upplýsingum um hvernig samráði við íbúa hverfisins verði háttað, hvort kynning sé fyrirhuguð í náinni framtíð, hvernig kynningin muni fara fram og að hvaða leyti íbúar geti haft áhrif á framkvæmd verksins eða forgangsröðun. R06040044

26. Dagur B. Eggertsson leggur fram svohljóðandi tillögu um dagskrá:

Ég óska hér með eftir því að Breiðavíkurskýrslan, könnun á starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952-1979, verði sett á dagskrá borgarráðs og að veitt verði yfirlit yfir þau atriði í henni sem snúa að barnaverndarnefnd Reykjavíkur og Reykjavíkurborg.
Breiðavíkurheimilið var á þeim tíma sem skýrslan nær til rekið af ríkinu og var á ábyrgð þess. Það vekur hins vegar athygli að ekki hafi verið gert ráð fyrir kynningu hennar í borgarráði í útsendri dagskrá því eins og fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar kann að hafa leikið vafi á því að forsendur fyrir ákvörðunum barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi stuðst við fullnægjandi lagagrundvöll a.m.k á hluta þess tímabils sem athugunin nær til. Einkum geti þetta átt við þegar börn hafi verið vistuð vegna fátæktar eða annarra heimilisaðstæðna fremur en vegna háttsemi eða hegðunar barnsins sjálfs. Þá segir einnig að vafi leiki á því að málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur á árunum 1952-66 hafi verið í samræmi við skyldur hennar.
Eðlilegt verður að telja að borgarráð kynni sér þessar niðurstöður og aðrar, s.s. fjölda Reykvíkinga í hópi þeirra sem vistaðir voru í Breiðavík, almenna lærdóma fyrir gildandi framkvæmd og eftirlit á sviði barnaverndarmála auk þess sem brýnt er að svara því hvort tilefni er til að kanna frekar ástæður eða rök til hugsanlegrar skaðabótaskyldu borgarinnar, afsökunarbeiðni borgaryfirvalda. Þá verður ekki hjá því vikist að borgarráð taki afstöðu til frekari athugana á málefnum einstaklinga sem vistaðir voru í Breiðavík eða skoðun á öðrum sambærilegum stofnunum þar sem reykvísk börn hafa verið vistuð undanfarin ár og áratugi.

Formaður borgarráðs óskar bókað:

Að sjálfsögðu verður orðið við erindinu og málið tekið á dagskrá næsta fundar borgarráðs. R07020046

27. Afgreitt 1 útsvarsmál. R06010038

Fundi slitið kl. 12:25

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir