Borgarráð - Fundur nr. 5014

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar, var haldinn 5014. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.45. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritun önnuðust Ólafur Kr. Hjörleifsson og Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 29. janúar. R08010012

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 4. febrúar. R08010017

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 6. febrúar. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R08010223

5. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi Grófartorgs vegna staðsetningar Zimsenhússins á lóð nr. 2A við Vesturgötu. R07040083
Samþykkt.

6. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarstjóra verði falið að taka upp formlegar viðræður við iðnaðarráðuneytið og samtök hönnuða um að Hönnunarmiðstöð Íslands verði fundinn staður í Zimsen-húsinu við Grófartorg. Óformlegar viðræður um þessa nýtingu hússins voru hafnar í tíð fyrri meirihluta og gáfu góðar vonir um að þetta gæti orðið. R07040083
Frestað.

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 40-46 við Stóragerði. R07100188
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 9 við Boðagranda.
Samþykkt. R08020003

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi athafnasvæðis Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði. R08020014
Samþykkt.

10. Lagt fram erindi Gests Ólafssonar frá 8. f.m. varðandi tillögu um friðun hússins að Garðastræti 15, Unuhúss. Jafnframt lögð fram umsögn skipulagsstjóra frá 23. s.m., þar sem lagt er til að erindið verði sent til meðferðar húsafriðunarnefndar ríkisins.
Umsögn skipulagsstjóra samþykkt. R08010074

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 5. þ.m. þar sem lagt er til að Starengi ehf. verði úthlutað byggingarrétti fyrir 6-7 litlar leiguíbúðir á lóð nr. 3 við Brekkuhús, með nánar tilgreindum skilmálum. R06020089
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 4. þ.m. varðandi niðurfellingu gjalds vegna skila á lóðum við Reynisvatnsás. R08020016
Samþykkt.

13. Lögð fram að nýju tillaga fyrrverandi borgarstjóra um skipan sjö manna stýrihóps um heildarskipulag Vatnsmýrar ásamt greinargerð, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. f.m. R08010121
Samþykkt. Tilnefningu í stýrihópinn er frestað.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks fagna því að fyrirliggjandi tillaga um að ráðist verði í heildarskipulag Vatnsmýrar sem lögð var fram í tíð fyrri meirihluta hafi nú verið samþykkt óbreytt og einróma. Þar með er eytt óvissu um afdrif hinnar alþjóðlegu hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar sem kynnt verður í næstu viku. Nú er ljóst að unnið verður að heildarskipulagi á grundvelli niðurstaðna samkeppninnar. Þetta er fagnaðarefni en vekur um leið spurningar um hvaða merkingu málefnasamningur nýs meirihluta hafi.
Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Afstaða nýs meirihluta í borgarstjórn í málefnum flugvallarins er alveg skýr. Ekki verður tekin ákvörðun um flutning Reykjavíkurflugvallar á kjörtímabilinu. Um það ríkir full sátt innan meirihlutans, enda standa rannsóknir yfir á nýju flugvallarstæði, a.m.k. næstu 2-3 árin, og á meðan verður flugvöllur ekki sýndur annars staðar í skipulagi. Á tímabilinu verður að sjálfsögðu unnið á jaðarsvæðum flugvallarins, svo sem við Háskólann í Reykjavík og einnig verða niðurstöður hugmyndasamkeppni um skipulag í Vatnsmýrinni kynntar. Þetta er í fullu samræmi við samþykkta tillögu um Vatnsmýrina.

14. Lagt fram að nýju erindi stjórnar Kirkjubyggingarsjóðs Reykjavíkur frá 13. desember sl. varðandi endurmat á framlögum í sjóðinn. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 14. f.m. R07120084
Samþykkt að hækka framlag í Kirkjubyggingarsjóð á árinu 2008 um 1 mkr. Færist af styrkjalið borgarráðs.

15. Lagt fram bréf mannréttindastjóra frá 4. þ.m. þar sem lagt er til að árlegt framlag Reykjavíkurborgar til Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, skv. samningi frá 8. nóvember sl., hækki um 291 þkr. R07060091
Samþykkt.
- Kl. 10.02 tekur Gunnar Eydal við fundarritun og Ólafur Kr. Hjörleifsson víkur af fundi.
16. Lögð fram umsögn mannauðsstjóra og skrifstofustjóra borgarstjóra frá 4. þ.m., þar sem lagt er til að Ólafur Kr. Hjörleifsson verði ráðinn í stöðu skrifstofustjóra borgarstjórnar. R08010081
Borgarráð samþykkir að ráða Ólaf Kr. Hjörleifsson í stöðuna.
- Kl. 10.06 tekur Ólafur Kr. Hjörleifsson við fundarritun af Gunnari Eydal.
17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. þ.m.:
Borgarráð samþykkir 65 mkr. aukafjárveitingu á árinu 2008 til viðbótar þeim 180 mkr. sem samþykktar hafa verið í fjárhagsáætlun vegna aðgerða í starfsmannamálum. Markmiðið er að mæta undirmönnun og álagi á starfsstöðum Reykjavíkurborgar. Mannauðsskrifstofu verði falið að útfæra nánar ráðstöfun ofangreindra fjármuna í samráði við sviðsstjóra fagsviða og skrifstofa. Aukafjárveitingin fari af kostnaðarlið 09205, ófyrirséð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08020015
Samþykkt.

18. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um Laugaveg 4 og 6, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. f.m. R07080072

19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks um starfsemi hverfisráða, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. f.m. R08010226

20. Lögð fram umsögn aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 31. f.m. um frumvarp til laga um samgönguáætlun. R08010128
Borgarráð samþykkir umsögnina. Þá hafnar borgarráð því alfarið að ríkið sé einhliða að flytja einstaka þjóðvegi frá ríki til borgar nema nægir tekjustofnar fylgi. Borgarráð skorar á samgönguráðherra að sjá til þess að slík vinnubrögð séu ekki viðhöfð.

21. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 6. þ.m., við fyrirspurn Akraneskaupstaðar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur frá 19. f.m. R07010146
Samþykkt.

22. Framkvæmdastjóri eignasjóðs kynnir stöðu á frágangi samninga vegna fasteignarinnar að Fríkirkjuvegi 11. R04030143

23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. f.m., yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði vegna styrkjaúthlutunar ársins 2008 með tillögum að afgreiðslu.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. R08010102

24. Lögð fram lokaskýrsla stýrihóps borgarráðs um málefni Reykjavík Energy Invest og Orkuveitu Reykjavíkur, dags. í febrúar 2008, ásamt bréfi formanns stýrihópsins, dags. í dag. R07100293
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar því að samstaða hafi náðst um niðurstöðu stýrihóps vegna málefna Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Energy Invest. Borgarráð tekur undir með stýrihópnum að slík sátt um þetta mál er mjög mikilvæg, þrátt fyrir að fulltrúar ólíkra stjórnmálaflokka hafi augljóslega ólíkar áherslur um einstaka efnisþætti. Borgarráð lýsir stuðningi við skýrslu stýrihópsins og þær tillögur sem þar koma fram og hafa það einkum að markmiði að treysta enn frekar stjórnsýslu á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur, tryggja góð vinnubrögð og betri aðkomu kjörinna fulltrúa, fyrir hönd eigenda fyrirtækisins, að stórum ákvörðunum. Borgarráð þakkar fulltrúum í stýrihópnum, starfsmanni hans og öðrum sem komu að þessu umfangsmikla starfi, vel unnin störf og væntir góðrar samstöðu um aðgerðir sem boðaðar eru í skýrslu hópsins.

Fundi slitið kl. 13:00

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir