Borgarráð - Fundur nr. 5013

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 31. janúar, var haldinn 5013. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.43. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 15. janúar. R08010006

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 11. janúar. R08010007

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 10. janúar. R08010008

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 11. janúar. R08010010

5. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Kjalarness frá 8. og 22. janúar. R08010013

6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 16. janúar. R08010015

7. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 8. og 22. janúar. R08010017

8. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 30. janúar. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

9. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 16. maí, 28. september, 19. október, 16. nóvember og 18. janúar. R08010026

10. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 21. janúar. R08010027

11. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 11. og 25. janúar. R08010028

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 17 mál. R08010043

13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á tillögu að textabreytingu á skilmálum deiliskipulags Sogavegar.
Samþykkt. R08010123

14. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar nr. 27 við Klettagarða. R04040113
Samþykkt.

- Kl. 9.47 tekur Gísli Marteinn Baldursson sæti á fundinum.

15. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi Holtavegar vegna uppsetningar auglýsingaskilta að Holtavegi 10. R06120106
Samþykkt.

16. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar og Rauðhóls ehf. um lok samnings um skipulag og uppbyggingu í Norðlingaholti, dags. 14. þ.m., ásamt bréfi framkvæmdastjóra skipulagssjóðs, dags. 25. s.m. R06010121
Borgarráð staðfestir samkomulagið fyrir sitt leyti.

17. Borgarráð samþykkir að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Egill Örn Jóhannesson, Ásta Þorleifsdóttir, Oddný Sturludóttir, Margrét Sverrisdóttir og Sóley Tómasdóttir taki sæti í starfshópi um mótun aðgerðaráætlunar í málefnum barna, sbr. samþykkt borgarstjórnar 15. þ.m. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir verði formaður starfshópsins. R08010104

18. Lögð fram viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og fjármálaráðuneytisins frá 23. þ.m. varðandi fyrirhugaðar breytingar á Tollhúsinu í Reykjavík og framtíðarstaðsetningu Kolaportsins þar. R07060105
Borgarráð staðfestir viljayfirlýsinguna fyrir sitt leyti.

Bókun borgarráðs:

Starfsemi Kolaportsins er mikilvæg fyrir miðborgina og ómissandi fyrir mannlíf Reykjavíkur. Því er fagnað að framtíðarstaðsetning Kolaportsins er tryggð næstu tíu árin. Er öllum sem komu að þessari farsælu lausn þakkað fyrir þeirra framlag.

19. Lögð fram rekstraráætlun Sorpu bs. fyrir árin 2009-2011, ásamt bréfi framkvæmdastjóra frá 22. þ.m. R08010186

20. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra frá 22. þ.m. þar sem óskað er staðfestingar á gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. samþykktri á fundi stjórnar slökkviliðsins 18. s.m.
Samþykkt. R08010147

21. Lögð fram tillaga um fyrirheit lóðaúthlutana til Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Félagsstofnunar stúdenta, Félags eldri borgara og Samtaka aldraðra, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 24. þ.m. R08010196
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2 að vísa tillögunni til skipulagsráðs og stjórnar eignasjóðs.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Það veldur vonbrigðum að nýr meirihluti skuli kjósa að leggja stein í götu brýnna verkefna í þágu aldraðra og stúdenta með því að vísa fullunninni tillögu um lóðaúthlutanir til baka til skipulagsráðs. Það er jafnframt áhyggjuefni að meirihlutann skorti metnað til þess að aldraðir og stúdentar gjaldi ekki fyrir yfirstandandi óstöðugleika við stjórn borgarinnar.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Nýr meirihluti mun vinna hratt og örugglega að uppbyggingu íbúða fyrir aldraða og stúdenta. Nauðsynlegt er að nýtt skipulagsráð og ný stjórn eignasjóðs fari yfir málið áður en það er afgreitt úr borgarráði.

22. Lagt fram erindi stjórnar Fisfélags Reykjavíkur frá 6. desember sl. þar sem óskað er eftir styrk til uppbyggingar á aðstöðu félagsins á nýjum stað á Hólmsheiði. Jafnframt lögð fram umsögn framkvæmdastjóra ÍTR og sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 24. þ.m., þar sem lagt er til að gerður verði samningur við félagið um stuðning vegna flutningsins að fjárhæð 27 mkr., sem greiðist á árunum 2008 og 2009. R06050136
Umsögn framkvæmdastjóra ÍTR og sviðsstjóra framkvæmdasviðs samþykkt.

23. Lögð fram umsögn framkvæmdastjóra ÍTR og sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 16. þ.m. um erindi fyrrverandi framkvæmdastjóra ÍSÍ frá 13. september sl. varðandi nýja staðsetningu styttu af Gísla Halldórssyni í Laugardal. Jafnframt lögð fram umsögn menningar- og ferðamálaráðs frá 21. nóvember sl. R07090074
Umsögn framkvæmdastjóra ÍTR og sviðsstjóra framkvæmdasviðs samþykkt.

24. Lagt er til að Hildur Sólveig Pétursdóttir taki sæti í barnaverndarnefnd í stað Kristínar Edwald, sem beðist hefur lausnar, og gegni þar jafnframt formennsku. Þá er einnig lagt til að Kolbrún Baldursdóttir taki sæti Vilhjálms Andra Kjartanssonar í nefndinni.
Vísað til borgarstjórnar. R08010178

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Mistök á mistök ofan hafa einkennt vinnubrögð nýs meirihluta við skipan fulltrúa í barnaverndarnefnd. Fyrst var skipaður formaður að henni forspurðri og síðan kom í ljós að um einsleitan hóp var að ræða sem ekki uppfyllti 11. gr. barnaverndarlaga um skipan nefndarinnar. Þar segir að barnaverndarnefnd skuli að jafnaði skipuð bæði konum og körlum og leitast beri við að kjósa lögfræðing og enn fremur fólk með sérþekkingu á málefnum barna. Það er von minnihlutans í borgarráði að það virðingarleysi sem borgarbúar hafa þurft að horfa upp á síðustu viku muni ekki verða til skaða í því mikilvæga starfi sem unnið er að hálfu Barnaverndar Reykjavíkur.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Kosning fulltrúa meirihlutans í barnaverndarnefnd byggðist á misskilningi sem nú hefur verið leiðréttur. Ljóst er að þessi misskilningur hefur ekki neikvæð áhrif á störf nefndarinnar og mun hún hér eftir sem hingað til hafa fagmennsku að leiðarljósi í störfum sínum. Barnaverndarmál eru viðkvæm og umhugsunarefni að þau skuli tekin upp með þessum neikvæða hætti í borgarráði.

25. Borgarráð samþykkir að Benedikt Geirsson taki sæti í stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins í stað Hermanns Valssonar, og að Smári Ríkharðsson verði varamaður hans í stað Sóleyjar Tómasdóttur. R07100318

26. Borgarráð samþykkir að Jórunn Frímannsdóttir taki sæti í launanefnd sveitarfélaga í stað Margrétar Sverrisdóttur. Jafnframt samþykkt að Margrét taki sæti Jórunnar sem varamaður í nefndinni. R06090109

27. Borgarráð samþykkir að eftirtaldir fulltrúar skipi stýrihóp um búsetuúrræði fyrir eldri borgara: Jórunn Frímannsdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir og Óskar Bergsson. Jórunn Frímannsdóttir verði formaður stýrihópsins. R06060131

28. Borgarráð samþykkir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson taki sæti í stjórn samstarfssjóðs Nuuk, Reykjavíkur og Þórshafnar, í stað Björns Inga Hrafnssonar. R06060167

29. Borgarráð samþykkir að eftirtaldir fulltrúar skipi stjórnkerfisnefnd: Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Björk Vilhelmsdóttir og Svandís Svavarsdóttir. Gísli Marteinn Baldursson verði formaður stjórnkerfisnefndar. R06060134

30. Borgarráð samþykkir að Jórunn Frímannsdóttir taki sæti Bjarkar Vilhelmsdóttur í stjórn samtakanna European Cities Against Drugs, sem og í innlendri verkefnisstjórn forvarnarverkefnisins Youth in Europe, þar sem Björk hefur gegnt formennsku. R07010166

31. Borgarráð samþykkir að eftirtaldir fulltrúar taki sæti í samráðshópi um lagningu Sundabrautar, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. þ.m.: Gísli Marteinn Baldursson, Jórunn Frímannsdóttir, Ásta Þorleifsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Gísli Marteinn Baldursson verði formaður samráðshópsins. R04100023

32. Lagður fram samningur Kaupangs eignarhaldsfélags ehf. og eignasjóðs Reykjavíkurborgar um kaup Reykjavíkurborgar á fasteignunum Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A, dags. 25. þ.m. Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. s.m.:

Í samræmi við samþykkt borgarráðs 24. janúar sl. er lagt til að borgarráð staðfesti meðfylgjandi kaupsamning, dags. 25. þ.m., um fasteignirnar Laugaveg 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A. Enn fremur verði eignarsjóði og skipulags- og byggingarsviði falið sameiginlega að láta vinna tillögur að teikningum af útliti húsanna við Laugaveg og uppbyggingu baklóðanna.

Þá er að beiðni borgarráðsfulltrúa Samfylkingar lagður fram fyrri samningur Reykjavíkurborgar og Kaupangs eignarhaldsfélags ehf. um brottflutning húsanna að Laugavegi 4 og 6, ódags., ásamt skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. um málið, dags. í janúar 2008. R07080072

- Kl. 10.47 víkur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi og Jórunn Frímannsdóttir tekur þar sæti.

Tillaga borgarstjóra samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Ekki hafa fengist viðhlítandi svör um það með hvaða hætti samningamenn borgarinnar voru nestaðir að samningaborðinu andspænis eiganda lóðarinnar og leikur vafi á um að fjárhagslegir hagsmunir borgarbúa hafi verið að fullu tryggðir. Af þeim sökum situr fulltrúi Vinstri grænna hjá við afgreiðsluna. Hins vegar ber að fagna því að sjónarmið húsverndar njóta nú meiri skilnings meðal sjálfstæðismanna en áður og því sérstaklega að Laugavegur 4 og 6 muni standa. Áréttað er að ábyrgðin er mikil gagnvart sögu og samhengi miðborgarinnar og krefst yfirvegunar í hverju skrefi, góðrar stjórnsýslu og vandaðra vinnubragða.

Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar óskar bókað:

Ljóst er að kaup nýs meirihluta á fasteignum að Laugarvegi 4 og 6 stefnir uppbyggingaráformum við Laugarveg og í Miðborg í óefni. Keypt hafa verið hús fyrir 580 milljónir króna - ofurverð sem skapar nýtt markaðsverð í sambærilegum og svipuðum málum. Ljóst er að þessi ákvörðun þýðir að Reykjavíkurborg ætli að reiða fram allt að milljarð króna til uppkaupa og endurbyggingar reitsins þar sem kostnaður við enduruppbyggingu hefur verið metinn á 389 milljónir króna. Þetta er fáránleg nýting á almannafé. Fórnarkostnaður Reykjavíkurborgar verður aldrei undir hálfum milljarði króna og getur hæglega orðið mun hærri. Hefði friðun húsanna orðið að veruleika eins og gerst hefði þremur dögum eftir hin makalausu uppkaup hefði götumyndin haldið sér, skipulagsmál í miðborginni hefðu ekki verið í uppnámi, borgarsjóður hefði ekki tapað mörg hundruð milljónum og hættulegt fordæmi hefði ekki verið skapað sem skaða mun allar frekari áætlanir um húsvernd. Rökin um að borgin hljóti að þurfa að grípa inn í með uppkaupum þegar friðun húsa er í réttum farvegi halda engan veginn og hljóta að vekja margar spurningar nú þegar tillaga um friðun 10 húsa við Laugaveg er í farvatninu. Þessi málsmeðferð og þetta verð stefnir friðunartillögum og húsverndaráformum í Miðborg og Kvos í voða.

Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

1. Var kannað hvaða þýðingu það hefði að þau hús sem nú hafa verið keypt á 580 milljónir króna voru færð borginni að gjöf fyrir fáeinum vikum síðan og töldust samkvæmt því þegar eign borgarinnar?
2. Hver ákvað og óskaði eftir því að embættismenn Reykjavíkurborgar gengju til samninga á kaupverðinu 580 milljónir sem hlýtur að teljast býsna rúm túlkun á fyrri bókun borgarráðs?
3. Hver ákvað að samningamenn Reykjavíkurborgar fengju ekki fyrirliggjandi verðmat Minjaverndar og VST sem var mörg hundruð milljónum krónum lægra?
4. Hvað má ætla að þessi samningur leiði af sér mikla hækkun á bótum þegar önnur hús verða friðuð eða byggingaréttur felldur niður í næstu áföngum í friðunaráformum við Laugaveg eða Kvos?
5. Hver ákvað að húsin að Laugarvegi 4 og 6 verði ekki byggð í upprunalegri mynd, heldur stækkuð?
6. Á að grípa inn í friðun þeirra 10 húsa sem eru í farvatninu með uppkaupum, með sömu rökum og notuð voru í dæmi Laugavegs 4 og 6?
7. Ætlar nýr meirihluti að kaupa Sirkus?

Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í Kastljósi RUV í gær kom fram hjá formanni skipulagsráðs, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að deiliskipulag við Laugaveg sé komið til ára sinna og því sé eðlilegt að endurskoða það. Þessi ummæli borgarfulltrúans staðfesta þær áhyggjur mínar að kaupin á húsunum við Laugaveg 4 og 6 hafi sett allt deiliskipulag Laugavegarins í uppnám, en áður hafði borgarfulltrúinn fullyrt að svo væri ekki. Þessi vinnubrögð og inngrip Sjálfstæðisflokksins og borgarstjóra eru áfall fyrir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar á sviði skipulagsmála þar sem fagmennska ræður ríkjum og festa skiptir máli.
Að gefnu tilefni eru lagðar fram eftirfarandi spurningar:
1. Hver var heildarkostnaður við gerð deiliskipulags alls Laugavegar, hvað tók sú vinna langan tíma og hvenær lauk henni?
2. Hverjir voru húsverndarráðgjafar borgarinnar við gerð deiliskipulagsins?
3. Hver var afstaða Húsafriðunarnefndar ríkisins á þeim tillögum sem þar voru samþykktar?
4. Hver var heildarkostnaður við gerð Þróunaráætlunar Miðborgar, hvað tók sú vinna langan tíma og hvenær lauk henni?
Óskað er eftir að kostnaðartölur verði uppreiknaðar til verðlags dagsins í dag.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Nýr meirihluti í Reykjavík er stoltur af því að hafa keypt húsin að Laugavegi 4 og 6 og þannig staðið vörð um 19. aldar götumynd þessa mikilvæga staðar. Með því heldur Reykjavík skipulagsvaldinu yfir reitnum, og hyggst endurnýja húsin í fullri sátt innan borgarstjórnar og utan og hafa samstarf um það við Minjavernd, Húsafriðunarnefnd og aðra fagaðila. Þannig verður mögulegt að byggja upp á þessum einstaka stað, tryggja lifandi starfsemi og halda jafnframt þeirri götumynd sem einkennir þennan hluta Laugavegarins. Samfylkingin, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn stóðu að því að gera það deiliskipulag sem heimilaði niðurrif húsanna og uppbyggingu stórhýsis sem hefði varpað skugga á Laugaveginn og rekið fleyg í 19. aldar götumynd svæðisins. Vinstri græn hafa nú breytt um afstöðu og studdu kaupin á Laugavegi 4 og 6 á síðasta fundi borgarráðs, þótt þeir sitji nú hjá. Það vekur athygli að afstaða minnihlutans er þríklofin í málinu, eins og sést á þremur mismunandi bókunum og fyrirspurnum.
Það verð sem nýr meirihluti greiðir fyrir Laugaveg 4 og 6 er vissulega hátt, en það er eindregin skoðun borgarfulltrúa hans að þeim peningum sé vel varið og að glæsileg uppbygging á þessum stað samkvæmt sögulegum stíl Laugavegarins verði þeirri götu lyftistöng og að borgarbúar muni njóta góðs af þessari ákvörðun um langa framtíð.

33. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 15. október sl., þar sem lagt er til að Starengi ehf. verði úthlutað byggingarrétti fyrir 6-7 litlar leiguíbúðir á lóð nr. 3 við Brekkuhús, með nánar tilgreindum skilmálum. R06020089
Frestað.

34. Lagt fram bréf formanns Knattspyrnsambands Íslands og formanns KSÍ ehf. frá 29. þ.m. þar sem óskað er eftir að lóðarleigusamningur um lóð nr. 15 við Reykjaveg verði gerður við KSÍ ehf. í stað Knattspyrnusambands Íslands. R08010209
Samþykkt.

35. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 22. þ.m. varðandi meginreglur um meðferð viðskiptakrafna og afskriftir þeirra. R08010138
Samþykkt.

36. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 29. þ.m. þar sem lögð eru til viðbótarframlög til fagsviða vegna endurskoðunar á verðlagsforsendum fjárhagsáætlunar yfirstandandi árs, samtals að fjárhæð 373.751 þkr. R08010198
Samþykkt.

37. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 28. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að framlengja gildistíma reglna um niðurfellingu fasteignaskatta af friðuðum húsum til ársloka 2008. Jafnframt felur borgarráð skipulagsráði að ljúka tillögu um framtíðarfyrirkomulag fasteignaskatta vegna friðaðra húsa að höfðu samráði við Árbæjarsafn og menningar- og ferðamálaráð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06010089
Samþykkt.

38. Lagt fram bréf fjármálastjóra, framkvæmdastjóra eignasjóðs og sviðsstjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 29. þ.m. um að fjárhagsár nýs eignasjóðs og umhverfis- og samgöngusviðs miðist við 1. janúar 2008. R07080078
Samþykkt.

39. Svandís Svavarsdóttir gerir borgarráði grein fyrir stöðu á vinnu stýrihóps borgarráðs um stefnumótun Orkuveitu Reykjavíkur. R07100293

40. Lögð fram auglýsing um skrár Reykjavíkurborgar yfir þau störf, sem undanþegin eru verkfallsrétti, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. R07110146
Borgarráð staðfestir auglýsinguna.

41. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi fyrispurn: R08010226

Fyrri meirihluti efldi hverfaráð til muna, jók fjárframlög til hverfistengdra styrkja, stofnaði forvarna- og framfarasjóð fyrir hverfin og fyrir liggur umfangsmikil áætlun um samráð um hverfistengd verkefni sem ráðast átti í á næstu vikum undir kjörorðinu, einn, tveir og Reykjavík. Athygli vakti að nýr meiri hluti frestaði kosningu í hverfisráð á sínum fyrsta borgarstjórnarfundi.
Því er spurt:
1. Verður dregið úr áherslu á sterk hverfi og starfsemi hverfaráða?
2. Verður dregið úr styrkjafé hverfaráða?
3. Verður fulltrúum í hverfisráðum fækkað?
4. Verður forvarna- og framfarasjóður hverfanna lagður niður?
5. Verður haldið áfram með samráðsverkefnið, einn tveir og Reykjavík?

42. Lagt er til að Egill Örn Jóhannesson taki sæti Ástu Þorleifsdóttur í heilbrigðisnefnd og gegni þar jafnframt formennsku. Jafnframt er lagt til að Kjartan Valgarðsson taki sæti varamanns í nefndinni í stað Dofra Hermannssonar. R08010176
Vísað til borgarstjórnar.

43. Lagt er til að Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir taki sæti Egils Arnar Jóhannessonar í leikskólaráði. R08010173
Vísað til borgarstjórnar.

44. Lagt er til að Ásta Þorleifsdóttir taki sæti Egils Arnar Jóhannessonar í menntaráði. R08010170
Vísað til borgarstjórnar.

45. Í 21. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 24. þ.m. misritaðist nafn varamanns í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Nafn viðkomandi er Sigurður Örn Hilmarsson, en ekki Sigurður Örn Helgason. R08010182

Fundi slitið kl. 12.50

Kjartan Magnússon
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Jórunn Frímannsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir