Borgarráð
Leiðrétt
B O R G A R R Á Ð
Ár 2008, fimmtudaginn 24. janúar, var haldinn 5012. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 16.18. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. í dag, þar sem tilkynnt er um kosningu borgarráðs á fundi borgarstjórnar fyrr í dag. R08010161
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson kosinn formaður borgarráðs með 4 samhljóða atkvæðum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir kosin varaformaður borgarráðs með 4 samhljóða atkvæðum.
2. Lagt fram bréf Gests Jónssonar hrl., f.h. Kaupangs eignarhaldsfélags ehf., frá 20. þ.m. varðandi húsin að Laugavegi 4 og 6. Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:
Í samræmi við stefnmörkun nýs meirihluta um að standa vörð um 19. aldar götumynd Laugavegar, samþykkir borgarráð að borgarstjóri gangi til viðræðna við eigendur Laugavegar 4 og 6 með það að markmiði að borgin kaupi húsin og geri þau upp. Markmið endurbyggingarinnar verður að viðhalda götumyndinni, en stækka jafnframt það rými sem nýtist í verslun eða aðra þjónustu. Endurbyggingin verði í góðri samvinnu við borgarminjavörð, húsafriðunarnefnd og Minjavernd. Borgarráð leggur áherslu á að viðræðunum ljúki fyrir nk. mánudag, þannig að húsin verði ekki fjarlægð þegar skyndifriðun lýkur.
Tillagan samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum. R07080072
- Kl. 16.58 víkur borgarstjóri af fundi.
Þá er lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. í dag, að umsögn til Húsafriðunarnefndar ríkisins varðandi friðun húsanna, sbr. erindi nefndarinnar frá 9. þ.m.
Umsögnin samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.
Loks er lagt fram til kynningar bréf borgarstjóra til menntamálaráðherra vegna málsins, dags. í dag.
Óskar Bergsson óskar bókað:
Ég óttast að með þessari samþykkt sé borgarráð að setja í uppnám allt deiliskipulag Laugavegar og stjórnsýsla Reykjavíkurborgar verði fyrir álitshnekki. Ég tel að deiliskipulagið útiloki ekki þann möguleika að útlit húsanna taki mið af götumyndinni og því hefði verði heppilegra að halda sig við samþykkt deiliskipulag sem unnið hefur verið samkvæmt öllum lögformlegum leiðum.
Svandís Svavarsdóttir óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði tekur undir framkomna tillögu um kaup borgarinnar á Laugavegi 4 og 6 enda er hún í fullu samræmi og samhljóða tillögu sem undirrituð flutti í borgarráði í ágúst 2006. Um er að ræða verðmæti sem felast í sögu, samhengi, götumynd og umhverfisgæðum sem verða aldrei metin til fjár. Almenn umræða er augljóslega að snúast á sveif með slíkum sjónarmiðum en því ber að fagna.
Dagur B. Eggertsson óskar bókað:
Samþykktin á þessu formi er ófullnægjandi enda hvergi getið um fjármagnsskuldbindingar eða hvaða mörk er eðlilegt að setja í þeim efnum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Við áréttum að þessi samþykkt felur ekki í sér fordæmi fyrir önnur hús á svæðinu og leggjum áherslu á heildarskoðun gamalla húsa í miðborginni, sérstaklega við Laugaveg.
3. Lagt fram erindi Björns Inga Hrafnsson, dags. í dag, þar sem hann beinir því til borgarráðs að það samþykki að fela íþrótta- og tómstundaráði og menningar- og ferðamálaráði að gangast fyrir því að reistur verði minnisvarði í nágrenni Laugardalshallar til minningar um skákeinvígi aldarinnar sem þar fór fram og í minningu skákmeistarans Bobby Fischers sem er nýlátinn. R08010153
Samþykkt og vísað til meðferðar íþrótta- og tómstundaráðs, menningar- og ferðamálaráðs og skipulagsráðs.
4. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 22. þ.m. um frumvarp til laga um framhaldsskóla. R07120079
Samþykkt.
5. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 22. þ.m. um frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Samþykkt. R07120080
6. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 22. þ.m. um frumvarp til laga um leikskóla.
Samþykkt. R07120081
7. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 22. þ.m. um frumvarp til laga um grunnskóla.
Samþykkt. R07120082
8. Lagður fram listi borgarstjórnarflokks Framsóknarflokks um áheyrnarfulltrúa í fagráðum Reykjavíkurborgar, dags. í dag. R05080100
Jafnframt tilkynnir Svandís Svavarsdóttir að Hermann Valsson verði áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í menningar- og ferðamálaráði.
9. Dagur B. Eggertsson kynnir efni samnings varðandi framtíð Kolaportsins, sem gerður hefur verið og lagður verður fyrir borgarráð til afgreiðslu síðar. R05110013
10. Í tilefni 100 ára afmælis kvenna í Borgarstjórn Reykjavíkur heiðrar borgarráð sérstaklega allar þær konur sem hafa komið að stjórn borgarinnar fyrr og síðar og áréttar mikilvægi jafnrar aðkomu kynjanna að stjórn borgarinnar. R07100361
Fundi slitið kl. 17.50
Vilhjálmur Þ. Vihjálmsson
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir