Borgarráð - Fundur nr. 5007

Borgarráð

B O R R G A R R Á Ð

Ár 2007, fimmtudaginn 29. nóvember, var haldinn 5007. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:35. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Svandís Svavarsdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 22. nóvember. R07010017

2. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 28. þ.m. R07010025
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

3. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 7. nóvember. R07010026

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R07100339

5. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. þ.m., sbr. samþykkt. skipulagsráðs 21. s.m., varðandi óverulega breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. R06100241
Samþykkt.

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 24. s.m., um breytingu á deiliskipulagi á útivistarsvæði í Gufunesi.

Lögð fram svohljóðandi viðaukatillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:

Við hönnun bygginga skal tekið mið af niðurstöðum rannsókna á hugsanlegu gasútstreymi frá urðunarsvæði þannig að þær safni ekki gasi í kjöllurum eða lokuðum rýmum. Sérstaklega skal hugað að því að uppsöfnun gass geti ekki orðið í grunnum, sökklum eða kjöllurum.

Samþykkt ásamt viðaukatillögu. R04060032

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 21. s.m., varðandi auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi á lóð nr. 1 við Norðurbrún. R07110147
Samþykkt.

- Kl. 9.40 taka Hanna Birna Kristjánsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 21. þ.m., um breytt deiliskipulag vegna miðlunargeyma Orkuveitu Reykjavíkur á Reynisvatnsheiði. R07070058
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 16. þ.m. um beitingu dagsekta vegna afgreiðsluhúss Flugskóla Helga Jónssonar á Reykjavíkurflugvelli. R07110106
Samþykkt.

10. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 21. þ.m. um lóðarumsókn Bílasölunnar Plansins ehf. frá 21. september. R07060071

- Kl. 9.45 tekur Gísli Marteinn Baldursson sæti á fundinum.

11. Lagðar fram tillögur skrifstofustjóra borgarstjórnar að umsögnum um rekstrarleyfi níu veitingastaða, sbr. yfirlit, dags. í dag. R07110001
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Miðgarðs frá 20. þ.m. ásamt lokaskýrslu tilraunaverkefnis um aukna samfellu í skóla- og frístundastarfi í Grafarvogi. R06110084

13. Lagður fram dómur Hæstaréttar frá 22. þ.m. í máli nr. 127/2007, Kolbrún S. Hjaltadóttir gegn Reykjavíkurborg, vegna ráðningarsamnings. R06080154

14. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 15. þ.m., um frumvarp til umferðarlaga, forgangsakreinar strætisvagna. R07110074
Borgarráð samþykkir umsögnina.

15. Lögð fram umsögn slökkviliðsstjóra frá 28. þ.m. um frumvarp til laga um samræmda neyðarsvörun.
Borgarráð samþykkir umsögnina. R07110098

16. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 21. þ.m. um nýtt lyfsöluleyfi í Holtagörðum. R07100353
Borgarráð samþykkir umsögnina.

17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra velferðarsviðs, sbr. samþykkt velferðarráðs 24. þ.m., varðandi nýtt samkomulag um hlutverk og rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. R07110148
Samþykkt.

18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Borgarráð samþykkir að settur verði upp í fundarsal borgarstjórnar tónmöskvi til þess að auðvelda heyrnarskertum að hlýða á umræður í borgarstjórn. Kostnaður vegna uppsetningar og viðhalds verði greiddur af rekstri Ráðhússins.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07010044
Samþykkt.

19. Lagt fram bréf bæjarritara Kópavogs frá 20. þ.m. um að bæjarstjóri og sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogs hafi verið skipaðir til viðræðna við Reykjavíkurborg varðandi uppbyggingu sundlaugar í Fossvogsdal. R04100232
Samþykkt að tilnefna, auk borgarstjóra, skipulagsstjóra og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs í viðræðunefndina.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Lagt er til að allt að 100 milljónum króna verði varið til hverfistengdra verkefna árlega næstu þrjú ár. Í þessu skyni verði stofnaður 300 milljóna króna sjóður, forvarna- og framfarasjóður Reykjavíkurborgar. Sjóðurinn veiti styrki til verkefna sem unnin eru á hverfagrunni og stuðla að auknum árangri í forvarnarstarfi, uppbyggingu félagsauðs, bættri umgengni, auknu öryggi og markvissara samstarfi Reykjavíkurborgar og frjálsra félagasamtaka í hverfunum undir samhæfingu og stjórn þjónustumiðstöðva. Reglur sjóðsins verði útfærðar og byggðar á forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar. Hverfaráð auglýsi eftir hugmyndum að verkefnum eða hafi frumkvæði að þeim í samvinnu við þjónustumiðstöðvar sem bera ábyrgð á samhæfingu forvarnarstarfs í hverfum samkvæmt forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar. Verkefnatillögur hverfisráða verða metnar af ráðgjafahópi með sérþekkingu á forvörnum og félagsauði. Að fengnu mati ráðgjafahópsins geri borgarstjóri tillögur til borgarráðs um styrki úr sjóðnum. Úthlutun verður tvisvar á ári, í apríl og nóvember. Einstök verkefni geta varað frá 3 mánuðum til þriggja ára og verða árangursmetin a.m.k árlega. R07110150

Samþykkt.

21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Lagt er til að borgarráð samþykki fyrir sitt leyti meðfylgjandi drög að kaupsamningi Rauðsvíkur ehf. og skipulagssjóðs um eftirtaldar fasteignir á Barónsreit og á Landsbankareit: Skúlagötu 26, 28 og 30, Hverfisgötu 88c og Laugavegi 67 og byggingarrétt á lóðunum að Vitastíg 5 og Hverfisgötu 85, 87, 89 og 91. Jafnframt staðfesti borgarráð fyrir sitt leyti yfirlýsingu aðila um skipulag á svæðinu o.fl. R06090063

Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Lagt er til að borgarráð samþykki fyrir sitt leyti meðfylgjandi drög að makaskiptasamningi milli Vatns og lands ehf. og Skipulagssjóðs um fasteignir Reykjavíkurborgar á staðgreinireit 1.172.1 sem eru Hverfisgata 58A, ein íbúð og byggingarréttur á lóðunum að Hverfisgötu 60 og 60A og Laugavegi 43B í skiptum fyrir fasteignir Vatns og lands á staðgreinireit 1.152.5 sem eru Lindargata 44 og Vatnsstígur 10A og 12. Jafnframt staðfesti borgarráð fyrir sitt leyti yfirlýsingu aðila um að unnið verði að breytingum á lóðamörkum á staðgreinireit 1.152.5 o.fl.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06090063
Samþykkt.

23. Lagt fram bréf sviðsstjóra lántöku- og áhættustýringarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur frá 20. þ.m., þar sem óskað er eftir samþykki borgarstjórnar til að ganga til samninga við Eurohypo AG, Frankfurt, og Swedish Export Credit Corp., Stokkhólmi. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 28. þ.m. um erindið.
Vísað til borgarstjórnar. R06110197

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Lagt er til að borgarráð heimili fjármálastjóra að gera gjaldeyris- og vaxtaskiptasamning að upphæð allt að 2.000.000.000 til að ná fram lægri fjármagnskostnaði vegna eldra verðtryggðs láns frá árinu 1996 (RVK96 1A) upphaflega að fjárhæð 1.600.000.000.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07110151
Samþykkt.

25. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 28. þ.m. ásamt reglum um gerð fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódagsettar. R07060016
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Bogarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Þessar reglur voru settar fram af starfshópi í september sl. Þær lýsa því verklagi sem fylgt var við undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2008 sl. hálft ár. Líkt og borgarstjóri boðaði við framlagningu fjárhagsáætlunar í borgarstjórn verða þær færðar aftur til nútímans á fyrri hluta komandi árs.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Þær reglur sem nú hafa verið samþykktar í borgarráði varðandi framkvæmd fjárhagsáætlana og ábyrgð fagráða borgarinnar miða að því að takmarka svigrúm og völd ráða og sviðsstjóra borgarinnar og þau færð inn á borð borgarstjóra. Alvarlegast er að með nýjum reglum er verið afturkalla fjárhagslegt sjálfstæði stofnana, þar á meðal grunnskóla borgarinnar. Þeirri grundvallarreglu að ábyrgð og völd skuli fara saman er nú ýtt til hliðar. Þetta er óheillavænleg stefna sem dregur úr þeim hvata sem felst í sjálfstæði og að skynsamlegum rekstri geti fylgt umbun en að rekstri sem ekki hefur gengið sem skyldi fylgi ábyrgð.

Bogarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Tekið er undir þá gagnrýni sem fram kemur á fyrirliggjandi reglur sem unnar voru í tíð fyrrverandi borgarstjóra. Hún er í góðu samræmi við málflutning og áherslur nýs meirihluta. Vonast er eftir góðri samvinnu við nýjan minnihluta við endurskoðun á þeim í upphafi næsta árs í samræmi við efnisatriði gagnrýninnar.

26. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. f.m., sbr. samþykkt ráðsins s.d., um gjaldskrá sundstaða, frístundaheimila og sumarnámskeiða. R07060016
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

27. Borgarráð samþykkir að vísa svohljóðandi breytingatillögum borgarfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og F-lista við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2008 til borgarstjórnar.

Íþrótta- og tómstundasvið:
FFSV-1. Niðurgreiðsla á gjaldi frístundaheimila í einkareknum skólum
Lagt er til að fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs hækki um 10.000 þkr. vegna niðurgreiðslna á gjaldi í frístundaheimilum í einkareknum skólum, sbr. samþykkt borgarráðs dags. 1. nóv. um að niðurgreiða vistun 6-8 ára skólabarna á frístundaheimilum einkarekinna grunnskóla í borginni með sambærilegum hætti og gert er í frístundaheimilum íþrótta- og tómstundasviðs í grunnskólum Reykjavíkurborgar.

FFSV-2. Gjaldskrá frístundaheimila
Lagt er til að fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs hækki um 23.000 þkr. og framkvæma ekki áætlaða hækkun á gjaldskrá frístundaheimila umfram forsendur fjárhagsáætlunar. Tekjuáætlun frístundaheimila lækkar sem nemur ofangreindri fjárhæð.

FFSV-3. Verðlagsáhrif á húsaleigukostnað
Lagt er til að fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs hækki um 12.000 þkr. vegna verðlagsáhrifa á húsaleigu í samningum (Egilshöll, íþrótta- og sýningarhöllin) sem bundnir eru vísitölu neysluverðs og eru umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpi að fjárhagsáætlun 2008.

FFSV-4. Fasteignaskattar félaga
Lagt er til að fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs hækki um 15.000 þkr. vegna áhrifa breytinga á fasteignamati á fasteignaskatta félaga.

Leikskólasvið:
FFSV-5. Lækkun gjaldskrár vegna fæðiskostnaðar
Lagt er til að fjárhagsáætlun leikskólasviðs hækki um 91.400 þkr. í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 15. nóv. sl. þar sem ákveðið var að draga til baka fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá vegna fæðiskostnaðar leikskólabarna. Hækkun gjaldskrár verði aðeins 2,5#PR í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar. Tekjuáætlun lækkar sem nemur ofangreindri fjárhæð.

FFSV-6. Grænaborg og Steinahlíð
Lagt er til að fjárhagsáætlun leikskólasviðs hækki um 3.081 þkr. vegna endurskoðunar á samningi Reykjavíkurborgar við Barnavinafélagið Sumargjöf um leigu á húsnæði fyrir leikskólana Grænuborg og Steinahlíð.

Menningar- og ferðamálasvið:
FFSV-7. Sjóminjasafn
Lagt er til að fjárhagsáætlun menningar- og ferðamálasviðs hækki um 7.000 þkr. vegna hækkunar á rekstrarstyrk til Sjóminjasafns, sbr. samþykkt borgarráðs dags. 16. nóv. sl.

Menntasvið:
FFSV-8. Sérkennsla
Lagt er til að fjárhagsáætlun menntasviðs hækki um 90.000 þkr. til ráðstöfunar í sérkennslu. Um er að ræða áhrif ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að eyða biðlistum Barna- og unglingageðdeildar og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins barna með ADHD, geðraskanir og fatlanir í grunnskólum Reykjavíkur.

FFSV-9. Nýbúakennsla
Lagt er til að fjárhagsáætlun menntasviðs hækki um 10.000 þkr. til ráðstöfunar í aukna nýbúakennslu.

FFSV-10. Framlag Jöfnunarsjóðs
Lagt er til að fjárhagsáætlun menntasviðs lækki um 100.000 þkr. vegna áætlunar um aukin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Umhverfis- og samgöngusvið
FFSV-11. Kirkjugarðar Reykjavíkur
Lagt er til að fjárhagsáætlun umhverfis- og samgöngusviðs lækki um 45.000 þkr. vegna leiðréttingar á fjárhagsáætlun, en áætlað er að hlutur Reykjavíkurborgar í framkvæmdum verði 10 mkr. í stað 55 mkr. árið 2008.

Velferðarsvið
FFSV-12. Hverfisráð
Lagt er til að fjárhagsáætlun velferðarsviðs hækki um 38.814 þkr. Annars vegar vegna fjölgunar fulltrúa í hverfisráðum úr 3 í 7 sem nemur 13.814 þkr. og hins vegar um 25.000 þkr. vegna viðburða og styrkveitinga. Gert er ráð fyrir að hvert hverfisráð fái að lágmarki 500 þkr. en íbúafjöldi ráði skiptingu að öðru leyti.
Lagt er til að liðurinn “Styrkir borgarráðs” undir sameiginlegum kostnaði verði lækkaður um 25.000 þkr. á móti ofangreindri aukningu fjárheimilda til hverfisráða.

Sameiginlegur kostnaður:

FFSV-13. Mötuneyti
Lagt er til að fjárhagsáætlun hækki um 3.000 þkr. til mötuneytis Ráðhúss, vegna vanáætlunar. Þar af færist af skrifstofu borgarstjórnar 500 þkr.

FFSV-14. Mannréttindaskrifstofa
Lagt er til að fjárhagsáætlun hækki um 85.000 þkr. til rekstrar mannréttindaskrifstofu Reykavíkurborgar og mannréttindanefndar, sjá nánar hjálagða útfærslu. Á móti verði fjárhagsáætlun skrifstofu borgarstjórnar lækkuð sem nemur 29.446 þkr.

FFSV-15. Samstarfsnefnd um löggæslumálefni
Lagt er til að fjárhagsáætlun lækki um 900 þkr. vegna niðurlagningar á samstarfsnefnd um löggæslumálefni á höfuðborgarsvæðinu.

FFSV-16. Forvarna- og framfarasjóður
Lagt er til að fjárhagsáætlun hækki um 100.000 þkr. sem lagðar verði í sérstakan forvarna- og framfarasjóð. Sjóðurinn veiti hverfistengda styrki til næstu þriggja ára, um eitt hundrað milljónir á hverju ári, til verkefna sem unnin eru á hverfagrunni og stuðla að auknum árangri í forvarnarstarfi, uppbyggingu félagsauðs og markvissara samstarfi Reykjavíkurborgar og frjálsra félagasamtaka í hverfunum. Reglur sjóðsins verði útfærðar og byggðar á forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar.

FFSV-17. Ófyrirséð
Lagt er til að liðurinn ófyrirséð verði lækkaður um 187.449 þús. til að mæta auknum fjárveitingum skv. tillögum FFSV-1 til FFSV-15.

FFSV-18. Lækkun á handbæru fé Aðalsjóðs
Lagt er til að tillaga FFSV-16 verði fjármögnuð með lækkun á handbæru fé Aðalsjóðs um 100.000 þkr.

Tilfærslur:

FFSV-19. Myndlistarskólinn í Reykjavík - menntasvið
Lagt er til að gerð verði tilfærsla í fjárhagsáætlun menntasviðs þannig að fært verði á Myndlistaskólann í Reykjavík 15.204 þkr. og styrkir til fræðslumála og þróunarsjóður verði lækkaður sem því nemur.

FFSV-20. Tilfærslur - menntasvið
Lagt er til að gerðar verði tilfærslur í fjárhagsáætlun menntasviðs á milli einstakra grunnskóla vegna leiðréttinga og endurútreiknings við fullvinnslu fjárhagsáætlunar. Nettó áhrif á liðinn “Grunnskólar” er 661 þkr. hækkun en sambærileg lækkun á liðinn “Miðlæg þjónusta og safnliðir”.

FFSV-21. Tilfærsla á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar - velferðarsvið
Lagt er til að gerð verði tilfærsla í fjárhagsáætlun velferðarsviðs þannig að færðar verði 10.000 þkr. til undirbúnings að tilfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar, en á móti komi 5.000 þkr. lækkun á liðnum ófyrirséð útgjöld og 5.000 þkr. lækkun á liðnum sameiginlegur kostnaður þjónustumiðstöðva.

FFSV-22. Sameining á liðum í fjárhagsáætlun - velferðarsvið
Lagt er til að liðirnir “Aðalskrifstofa” og “Nefndir og ráð” verði sameinaðir í einn lið, sem fær nafnið “Aðalskrifstofa, nefndir og ráð”.
Lagt er til að liðirnir “Búsetuúrræði” og “Framlög og styrkir” verði sameinaðir í einn lið, sem fær nafnið “Búsetuúrræði, framlög og styrkir”.
Lagt er til að liðurinn “Ýmsir bundnir liðir” fái nafnið “Önnur framlög”.

Eignasjóður – tilfærslur
FFSV-23. Aðgengi fatlaðra
Lagt er til að gerð verði tilfærsla í fjárhagsáætlun eignasjóðs þannig að fjárheimild til ferlimála fatlaðra verði aukin um 10.000 þkr. vegna aðgengismála fatlaðra, á móti verði fjárheimild til viðhalds fasteigna lækkuð sem nemur sömu fjárhæð. R07060016

28. Bókun borgarráðs:

Borgarráð gerir alvarlega athugasemd við að hafa ekki fengið til umsagnar frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Sveitarfélög gegna, eins og Alþingi ætti að vera kunnugt um, stóru hlutverki þegar kemur að því að jafna stöðu kvenna og karla. Sem dæmi má nefna reka sveitarfélög leik- og grunnskóla, eru umsvifamikil þegar kemur að framboði æskulýðs- og tómstundastarfs, annast félagsþjónustu við íbúa sveitarfélagsins o.s.frv. Jafnframt eru sveitarfélög almennt með stærri atvinnurekendum í sínum byggðarlögum. Þá er minnt á að jafnréttisnefndir sveitarfélaganna eru eitt af helstu verkfærum frumvarpsins. Er það sérkennilegt að Reykjavíkurborg, sem hefur verið í fararbroddi á sviði jafnréttismála og náð marktækum árangri í að jafna laun karla og kvenna á vinnustöðum borgarinnar, skuli ekki gefið færi á að gefa umsögn um frumvarpið og miðla þannig af þeirri reynslu sem áunnist hefur í jafnréttisstarfi borgarinnar. R06030024

29. Lagt fram bréf borgarstjóra til borgarstjórnarinnar í Nuuk á Grænlandi frá 26. þ.m., þar sem vottuð er samúð vegna andláts Agnethe Davidsens borgarstjóra Nuuk. R07110143

30. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 28. þ.m. yfir umsækjendur um starf sviðsstjóra umhverfis- og samgöngusviðs. R07080078

31. Lagt fram bréf Ólafs F. Magnússonar frá 26. þ.m., þar sem hann tilkynnir að hann muni hefja störf á ný sem borgarfulltrúi frá og með 1. desember. R07020068

Fundi slitið kl. 11:00

Björn Ingi Hrafnsson
Björk Vilhelmsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Sigrún Elsa Smáradóttir Svandís Svavarsdóttir