Borgarráð - Fundur nr. 5005

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2007, föstudaginn 16. nóvember, var haldinn 5005. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Margrét K. Sverrisdóttir, Oddný Sturludóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf Grant Thornton endurskoðunar ehf. frá 15. þ.m. varðandi aðildarbreytingu á ráðningarsamningi um ytri endurskoðun fyrir Reykjavíkurborg. R07110088

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Borgarráð samþykkir að veita Sjóminjasafninu Víkinni við Grandagarð 7 milljón króna rekstrarstyrk fyrir árið 2008. R07100299

Samþykkt.

3. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra um umboð honum til handa vegna eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. nóvember.

- Kl. 11.00 var gert fundarhlé.
- Kl. 11.15 var fundi framhaldið og Björk Vilhelmsdóttir tekur sæti á fundinum og Oddný Sturludóttir víkur af fundi. Jafnframt víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir tekur þar sæti.

Borgarráð samþykkir að veita borgarstjóra umboð til að staðfesta ákvarðanir stjórnar Orkuveitunnar frá 2. nóvember.
Þá er borgarstjóra falið að beita sér fyrir viðræðum ríkis, sveitarfélaga og meðeigenda í Hitaveitu Suðurnesja um framtíð fyrirtækisins í því skyni að tryggja að auðlindir og almenningsveitur verði í eigu almennings.

Borgarráð samþykkir með 4 atkvæðum að leitað verði sátta í dómsmáli Orkuveitu Reykjavíkur og Svandísar Svavarsdóttur með vísan til ofangreinds því þar með hafi málsaðilar ekki hagsmuni af niðurstöðu slíks máls. R07100293

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Umboð borgarstjóra vegna eigendafundar er fyrst og fremst heimild til að formgera tillögu stýrihóps um að ógilda samruna REI og GGE, sem borgarráð staðfesti 1. nóvember sl. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja það, en kjósa að sitja hjá varðandi þann lið í tillögunni að leitað ,,verði sátta í dómsmáli Orkuveitu Reykjavíkur og Svandísar Svavarsdóttur”. Það er óeðlilegt að Svandís Svavarsdóttir sem er í raun bæði sækjandi og verjandi í umræddu dómsmáli leiti sjálf sátta í því dómsmáli. Heillavænlegra væri að gefa dómsstólum tækifæri til að kveða upp sinn dóm um það hvort eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur 3. október sl. hafi verið lögmætur eða ólögmætur, en borgarráð og Svandís Svavarsdóttir grípi ekki fram fyrir hendur dómstóla hvað þetta varðar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og F-lista óska bókað:

Því er fagnað, að sem fyrr er samstaða um að staðfesta fyrri ákvarðanir borgarráðs og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur í þessu mikilvæga máli. Svandís Svavarsdóttir vék sæti á fundi borgarráðs við afgreiðslu málsins. Að öðru leyti tala tillögurnar sínu máli.

4. Rætt um fjárhagsáætlun. R07060016

5. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra lántöku- og áhættustýringarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur frá 5. þ.m. um heimild til lántöku. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 14. þ.m. um erindið. R06110197
Samþykkt.

Fundi slitið kl. 11:35

Björn Ingi Hrafnsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Margrét K. Sverrisdóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson
Björk Vilhelmsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir