Borgarráð - Fundur nr. 4999

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2007, föstudaginn 19. október, var haldinn 4999. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11.50. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Margrét Sverrisdóttir og Svandís Svavarsdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, sem framlögð var á fundi borgarráðs 18. þ.m., með minni háttar breytingum:

Lagt er til að borgarráð samþykki eftirtaldar aðgerðir í starfsmannamálum til að gera Reykjavíkurborg að eftirsóknarverðari vinnustað:
1. Hlunnindi starfsmanna í föstu starfi verði samræmd og þeim standi til boða heilsuræktarstyrkir á árinu 2008 að upphæð kr. 16.000 m.v. fullt starf, sundkort, bókasafnskort, aðgangskort á söfn borgarinnar og að Fjölskyldu- og húsdýragarði. Tilgangurinn er að tryggja að starfsmenn njóti jafnræðis og ekki sé gert upp á milli þeirra í þessum efnum með ómálefnalegum hætti.
2. Tilteknum fjármunum, 20 mkr. á árinu 2007 og 180 mkr. á árinu 2008, verði úthlutað til frístundaheimila, grunnskóla, leikskóla, hjúkrunarheimila og vegna heimaþjónustu og til annarra stofnana, sem glíma við undirmönnun, til að umbuna starfsmönnum sérstaklega vegna mikils álags í starfi, s.s. vegna starfsmannaveltu, þjálfunar og leiðbeininga nýrra starfsmanna, undirbúnings sem ekki næst vegna álags á venjulegum vinnutíma, sérverkefna og annars sem mikilvægt er viðkomandi stofnunum. Þessum fjármunum má einnig ráðstafa til að efla starfsanda og liðsheild.
3. Foreldri ungra barna njóti forgangs að vistun fyrir barn/börn sín á leikskólum og/eða eftir atvikum frístundaheimilum á meðan þau starfa á þessum vinnustöðum borgarinnar.
4. Borgarráð veiti samninganefnd heimild til að endurskoða ákvæði um starfsaldur í hlutaðeigandi kjarasamningum frá og með 1. nóvember 2007 þannig að starfstími hjá ríki og öðrum sveitarfélögum í sambærilegum störfum verði metinn til jafns við starfstíma hjá Reykjavíkurborg.
5. Frá 1. október 2007 verði gert ráð fyrir fjármunum til leikskóla, grunnskóla (1.-4. bekk) og hjúkrunarheimila vegna greiðslu til þeirra starfsmanna sem skylt er að matast með þjónustuþegum/nemendum og velja ekki styttri vinnutíma á móti.
Borgarráð felur mannauðsskrifstofu í samvinnu við fagsviðin að útfæra tillögur um aðgerðir til að laða að fleiri starfsmenn, þ.á m. eldri starfsmenn með betri ráðningarkjörum og lækkun vinnuskyldu, starfsmenn af erlendum uppruna með starfstengdri íslenskuþjálfun og námsmenn með tækifærum til starfsnáms meðfram vinnu í samstarfi við framhalds- og háskóla og með því að nýta betur tækifæri þeirra til að fá styrki úr starfsmenntunar- og starfsþróunarsjóðum vegna námsins.
Borgarráð leggur áherslu á að fagsviðin reyni eftir föngum að skipuleggja störf og vinnutíma starfsmanna með það í huga að gera vinnustaði borgarinnar eftirsóknarverðari. Einnig leggur borgarráð áherslu á góða stjórnunarhætti og hvetjandi starfsumhverfi sem eru forsenda fyrir árangursríku starfi.
Borgarráð felur samninganefnd Reykjavíkurborgar að undirbúa markmið Reykjavíkurborgar vegna endurskoðunar á kjarasamningum á árinu 2008 til þess að gera Reykjavíkurborg að enn eftirsóknarverðari vinnustað.
Heildarkostnaður vegna ofangreindra tillagna er áætlaður alls 789,6 mkr. vegna 2007 og 2008. Lagt er til að fjárhagsáætlun 2007 verði breytt til samræmis við ofangreindar tillögur, sbr. nánari útfærslu á kostnaði í greinargerð.

Greinargerð fylgir tillögunni.

- Kl. 12.00 víkur Margrét Sverrisdóttir af fundi. Jafnframt víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og tekur þá Dagur B. Eggertsson sæti í borgarráði.

Tillagan samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Nýr meirihluti í Borgarstjórn Reykjavíkur vill setja mannauðsmál í öndvegi með það að markmiði að gera Reykjavíkurborg að eftirsóknarverðum vinnustað. Þær aðgerðir sem hér eru boðaðar eru viðbrögð við því mikla álagi sem starfsmenn hafa búið við vegna mikillar starfsmannaveltu og undirmönnunar á mörgum af lykilþjónustustofnunum borgarinnar. En tillögurnar endurspegla einnig viðleitni til þess að taka heildstætt á mannauðsmálum borgarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja umræddar aðgerðir í starfsmannamálum, enda byggja þær að miklu leyti á þegar undirbúnum tillögum fyrrverandi meirihluta. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áskilja sér þó allan rétt til að koma með ábendingar og athugasemdir á síðari stigum málsins, enda hefur lítill tími gefist til að skoða málið. Það vekur hins vegar athygli að mörgu er ósvarað og sérstaka athygli vekur að barátta fyrrverandi minnihluta fyrir svonefndum TV-einingum til launahækkunar fyrir starfsmenn leikskóla er ekki nýtt. Ljóst má því vera að núverandi meirihluti hefur þegar látið af þeim áherslum og launabaráttu fyrir þennan hóp starfsmanna borgarinnar.

2. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 18. þ.m., sem frestað var á fundi borgarráðs s.d.:

Lagt er til að stjórnkerfisnefnd verði falið að vinna að tillögu um eflingu á stöðu mannréttindamála og mannréttindanefndar. Samráð verði haft við mannréttindafulltrúa og mannréttindanefnd við undirbúning málsins.

Samþykkt.

3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 18. þ.m., sem frestað var í borgarráð s.d.:

Lagt er til að stjórnkerfisnefnd verði falið að vinna tillögu um eflingu hverfaráða. Sérstaklega verði hugað að tengslum hverfaráða við þjónustumiðstöðvar borgarinnar og forgangsröðun framkvæmda í hverfinu, s.s. við leikvelli, sparkvelli, stíga og græn svæði.

Samþykkt.

4. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem frestað var á fundi borgarráðs 18. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að niðurgreiða vistun 6-8 ára skólabarna á frístundaheimilum einkarekinna grunnskóla í borginni með sambærilegum hætti og gert er í frístundaheimilum íþrótta- og tómstundaráðs í grunnskólum Reykjavíkurborgar. R07100296

Greinargerð fylgir tillögunni.

Frestað.

5. Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að óska eftir viðræðum við bæjaryfirvöld í Kópavogi um samstarf um byggingu nýrrar sundlaugar í Fossvogsdal sem gæti nýst íbúum Reykjavíkur og Kópavogs.
Sjá fylgiskjal.

Samþykkt.

Fundi slitið kl. 12.25

Björn Ingi Hrafnsson
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Svandís Svavarsdóttir