Borgarráð - Fundur nr. 4993

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2007, fimmtudaginn 30. ágúst, var haldinn 4993. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björn Ingi Hrafnsson, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Margrét K. Sverrisdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 21. ágúst. R07010017

2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R07080007

3. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 15. s.m., um breytingu á aðalskipulagi vegna nýs íbúasvæðis vestan Reynisvatnsáss, Grafarholti. R07020085
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-lista óska bókað:

Í fyrirliggjandi aðalskipulagstillögu fyrir Reynisvatnsás er um fjórðungur svæðisins innan græna trefilsins (2,5ha). Fulltrúar Vinstri grænna og F-lista leggjast gegn tillögunni á þeim forsendum að óásættanlegt er að gengið sé á trefilinn með þeim hætti sem lagt er til. Tillagan gerir ráð fyrir raski á skógi og nágrenni Úlfarsárinnar sem getur ekki samrýmst hugmyndum um græna borg og sjálfbæra þróun. Jafnframt gæti hér verið um varhugavert fordæmi að ræða gagnvart síðari tíma skipulagsákvörðunum borgarinnar og nágrannasveitarfélaganna að því er varðar græna trefilinn.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Vegna bókunar fulltrúa Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa F-lista benda fulltrúar meirihlutans á eftirfarandi skýringar í umsögn skipulagsstjóra: Í greinargerð með aðalskipulagi er eftirfarandi tekið fram: #GLSvæðið teygir sig hins vegar lítillega inná Græna trefilinn eins og hann er skilgreindur í gildandi aðalskipulagi. Vegna þessa gerir tillagan ráð fyrir lítilsháttar tilfærslu á mörkum Græna trefilsins til austurs upp í Reynisvatnsásinn. Til að skerða ekki land innan Græna trefilsins eru mörk hans færð til norðurs í Úlfarsárdalnum. Á hluta svæðisins eru lágar trjáplöntur sem stefnt er að því að flytja og rækta upp á öðrum svæðum í borgarlandinu.#GL Með þessu er undirstrikað að skerðing á skógræktar- og útivistarsvæði í Reynisvatnsásnum verði bætt með mótvægisaðgerðum, annars vegar með tryggingu á samsvarandi stækkun Græna trefilsins á öðru svæði og hinsvegar með ræktun skógar á öðrum svæðum í borgarlandinu eða í nágrenni fyrirhugaðrar íbúðarbyggðar. Athugasemdum við deiliskipulagstillögu er vísað til afgreiðslu hennar en bent er á að í greinargerð með deiliskipulaginu segir að taka #GLberi sérstakt tillit til trjágróðurs á svæðinu og flytja hann eftir föngum#GL.

4. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um deiliskipulag Stekkjarbrekkna, Hallsvegur suður. R07060106
Samþykkt.

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 29. ágúst. Jafnframt lagt fram bréf forstöðumanns húsafriðunarnefndar ríkisins frá 28. þ.m. varðandi niðurrif húsanna við Laugaveg nr. 4 og 6, ásamt minnisblaði borgarlögmanns frá 29. s.m.

Þá er lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa F-lista:

Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að leita leiða til þess að borgin festi kaup á húsunum við Laugaveg 4-6 í því skyni að varðveita þau í því sem næst upprunalegri mynd.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07010025

Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa F-lista felld með 4 atkvæðum gegn 2.
37. liður afgreiðslufundargerðar byggingarfulltrúa frá 28. þ.m., sbr. 3. lið fundargerðar skipulagsráðs frá 29. s.m, varðandi heimild til niðurrifs húsanna að Laugavegi 4 og 6 og nýbyggingar á lóðunum, samþykktur með 4 atkvæðum gegn 2.
B-hluti fundargerðar skipulagsráðs frá 29. þ.m. samþykktur að öðru leyti samhljóða.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-lista óska bókað:

Borgaryfirvöldum ber öðrum fremur að standa vörð um menningarsögu borgarinnar. Það er því með ólíkindum að þau skuli ekki forða tveimur af elstu húsum borgarinnar frá tortímingu. Menningarsaga Reykjavíkur er vörðuð húsum á borð við Laugaveg 4 og 6 og væru þau færð í upprunalegt horf myndu þau varðveita gömlu götumyndina og efla ímynd neðri hluta Laugavegarins sem hluta af gamla miðbænum. Við hörmum þá niðurstöðu meirihluta borgarrráðs að heimila niðurrif húsanna. Það er ennþá meiri ástæða til að þyrma þessum húsum nú þegar endurbygging Austurstrætis 22 er í uppnámi. Þjóðminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir, segir í Morgunblaðinu í dag að “niðurrif í elstu hlutum borgarinnar eigi auðvitað ekki að eiga sér stað”. Örfá hús eru eftir frá 19. öld og nú er mál að linni. Brýnt er að leitað verði allra ráða til að gömul götumynd Austurstrætis og Laugavegar fái að halda sér.

Björk Vilhelmsdóttir óskar bókað:

Í skipulagsráði lögðu fulltrúar Samfylkingarinar til að farið yrði að fullu eftir ábendingum rýnihóps við endanlega útfærslu húsanna við Laugaveg 4-6. Þar sem ekki var á það fallist sit ég hjá við afgreiðslu málsins. Ég vil einnig minna á að borgarstjórn samþykkti að vísa tillögum Samfylkingarinnar um heildarendurskoðun húsverndaráætlana inn í starfshóp um endurskoðun aðalskipulags. Æskilegt væri að þeirri vinnu væri flýtt sem kostur er nú þegar liggur fyrir að mikil uppbygging mun eiga sér stað við Laugaveginn og víðar í miðborginni næstu misseri.

Oddný Sturludóttir óskar bókað:

Átak hefur verið gert í deiliskipulagningu margra reita við Laugaveg undanfarin misseri til að efla verslun og þjónustu við þessa aðalverslunargötu borgarinnar. Ég er hrifin af flestum þeim hugmyndum sem ég tel að verði lyftistöng fyrir Laugaveginn, enda gera þær flestar ráð fyrir því að götumynd haldist og nýjar byggingar rísi á baklóðum eða hliðargötum. Það á ekki við um reitinn á Laugavegi 4-6. Margar góðar hugmyndir hafa komið fram um endurbætur á þeim húsum s.s. að gera þau upp í upprunalegri mynd, lyfta þeim upp um hæð og reisa nýbyggingu aftan við þau til að gera þau að fýsilegri kosti fyrir verslunareigendur. Góðar hugmyndir hafa einnig komið fram hjá rýnihópi um útlit bygginga í Miðborg Reykjavíkur sem mér finnst ekki nægilega mikið tillit hafa verið tekið til. Ég vann tillögur um endurskoðun húsverndaráætlanna Reykjavíkurborgar fyrir borgarstjórn í júní sl., sem samþykkt var að vísa inn í starfshóp um endurskoðun aðalskipulags. Við þá vinnu sannfærðist ég enn frekar um nauðsyn þess að borgaryfirvöld stígi varlega til jarðar og endurskoði hug sinn til gamalla húsa og byggingararfleifðar borgarinnar. Oft var þörf en nú er nauðsyn á að skerpa skilning okkar á samhengi milli fortíðar og nútíðar, þar sem varðveisla á byggingararfinum og efling byggingarlistar í samtímanum haldist í hendur. Í ljósi þessa styð ég famkomna tillögu Vinstri grænna og F-lista í meginariðum.

Borgarráðfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Ný afstaða Vinstri Grænna og Samfylkinginar í borgarráði hlýtur að vekja upp spurningar um trúverðugleika þessara flokka. Báðir flokkar höfðu forystu um að samþykkja deiliskipulag sem gerði ráð fyrir niðurrifi húsanna á Laugavegi 4-6 á síðasta kjörtímabili. Jafnframt var í deiliskipulaginu gert ráð fyrir því stórhýsi, sem æ síðan hefur verið í hönnun hjá arkitektastofum hér í bænum. Eftir borgarstjórnarkosningarnar létu Vinstri grænir fljótlega af stuðningi sínum við málið, en Samfylkingin hefur fram til þessa staðið með eigin máli. Tylliástæða sú sem Samfylkingin notar nú til að hætta stuðningi sínum, varðar einn glugga á gafli hússins. Það verður að teljast lítilmótleg ástæða, hjá flokki sem forystu hafði um niðurrif gamalla húsa, og skipulag þess háhýsis sem nú mun rísa. Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks áréttar áhuga sinn á því að varðveita merk hús í borginni. Meirihlutinn hefur til dæmis friðað Alliance húsið, sem fyrri meirihluti hafði áætlað að rífa, svo dæmi sé tekið.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-lista óska bókað:

Viðhorf almennings til húsafriðunar hafa gerbreyst á skömmum tíma. Æ fleiri telja það skammsýni að fórna elstu húsum Reykjavíkur fyrir steinsteypt háhýsi. Undir þá skoðun taka fulltrúar Vinstri gænna og F-lista í borgarráði heilshugar.

6. Lagður fram að nýju ársreikningur Faxaflóahafna fyrir árið 2006 ásamt endurskoðunarskýrslu Grant Thornton endurskoðunar ehf. frá 21. mars sl. og minnisblaði forstöðumanns innri endurskoðunar frá 9. júlí sl. R07010080

7. Lagður fram að nýju ársreikningur Strætó bs. fyrir árið 2006 ásamt skýrslu Endurskoðunar og reikningsskila hf., dags. í febrúar sl., og minnisblaði forstöðumanns innri endurskoðunar frá 9. júlí sl. R07010080

8. Kynnt er að komið verður upp listaverki úr Ásmundarsafni á nýju Reykjavíkurtorgi í Reykjanesbæ. R07080093

9. Lagt fram að nýju bréf skipulagsstjóra frá 11. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 2 við Bíldshöfða. R06060209
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 29. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á deiliskipulagi athafnasvæðis í Hólmsheiði við Suðurlandsveg. R07080076
Samþykkt.

11. Lagt fram svar borgarstjóra frá 27. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um niðurlagningu framkvæmdasviðs, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst sl. R07080073

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 29. þ.m.:

Lagt er til við borgarráð að stofnaður verði eignasjóður sem fari með rekstur, kaup og sölu eigna borgarinnar, svo sem lönd, lóðir og aðrar fasteignir, samgöngumannvirki og lausafé, sem fellur undir A-hluta í rekstri Reykjavíkurborgar, sem og tillögugerð varðandi úthlutun lóða. Borgarstjórn kjósi fimm manna stjórn eignasjóðs sem heyri undir borgarráð með sama hætti og fagráð borgarinnar. Almennur rekstur allra sviða heyri hins vegar áfram undir aðalsjóð.
Jafnframt er lagt til að framkvæmdasvið og framkvæmdaráð verði lagt niður og einnig skipulagssjóður og stjórn skipulagssjóðs.
Umhverfisráð verði umhverfis- og samgönguráð og umhverfissvið verði umhverfis- og samgöngusvið.
Nýr eignasjóður geri leigusamninga/þjónustusamninga við umhverfis- og samgöngusvið vegna samgöngumannvirkja og opinna svæða líkt og önnur fagsvið gera um fasteignir. Bílastæðasjóður, sem er B-hluta fyrirtæki, verði á forræði umhverfis- og samgöngusviðs. Verkefni skipulagssjóðs verði í nýjum eignasjóði.
Breytingar þessar taki gildi 1. janúar 2008.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07080078
Vísað til umsagnar stjórnkerfisnefndar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar óska bókað:

Fulltrúar Samfylkingar í borgarráði taka ekki efnislega afstöðu til fyrirliggjandi tillagna enda þær fyrst nú kynntar í borgarráði. Jákvætt er að málið fái umfjöllun í stjórnkerfisnefnd eins og samþykktir borgarinnar gera ráð fyrir. Hins vegar eru vinnubrögð borgarstjóra í þessu máli ámæliverð. Kom hann fram í fjölmiðlum með yfirlýsingar um að leggja niður framkvæmdasvið borgarinnar áður en starfsfólk og fulltrúar í viðkomandi fagnefndum fengu að heyra af þessum tillögum. Með þessu var borgarstjóri að skapa óþarfa óvissu fyrir þann fjölda starfsmanna sem hjá sviðinu starfar.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-lista óska bókað:

Þar sem engin gögn um skipulagsbreytingar er varða framkvæmdasvið, umhverfissvið og stofnun eignasjóðs lágu fyrir þessum fundi telja fulltrúar Vinstri grænna og F-lista í borgarráði ekki rétt að taka efnislega afstöðu til fyrirliggjandi tillagna að svo komnu máli. Því áskilja Vinstri græn og F-listinn sér rétt til að skoða tillögurnar ítarlega og óska eftir frekari gögnum og úttektum eftir því sem þörf krefur. Lögð er áhersla á vandaða málsmeðferð og umræðu í þeim nefndum og ráðum sem málið varðar. Það veldur ákveðnum áhyggjum að meirihlutinn skuli hafa kosið að vinna tillögurnar jafn langt og raun ber vitni án samráðs við bæði fulltrúa minnihlutans og starfsfólk sviðsins. Staðfesting borgarstjóra á meginhugmyndum breytinganna í fjölmiðlum, áður en starfsfólk eða fulltrúar fagráða höfðu fengið kynningu á inntaki þeirra, er til marks um ámælisverð vinnubrögð. Vinnubrögð sem eru afar óheppileg fyrir alla hlutaðeigandi og þá fyrst og fremst starfsfólk framkvæmdasviðs. Það er einörð afstaða Vinstri grænna og F-lista að afdrifaríkar breytingar af þessu tagi verði að vinna í sem mestri sátt. Bæði faglega og pólitískt. Slíkt krefst meira samráðs en viðhaft hefur verið fram til þessa.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Tillagan gengur út á að stofnað verði nýtt svið hjá Reykjavíkurborg sem ber nafnið umhverfis- og samgöngusvið. umhverfisráð verði umhverfis- og samgönguráð og umhverfissvið verði umhverfis- og samgöngusvið. Jafnframt lagði borgarstjóri til að stofnaður yrði eignasjóður sem fer með rekstur, kaup og sölu eigna borgarinnar, svo sem lönd, lóðir og aðrar fasteignir, samgöngumannvirki og lausabúnað, sem fellur undir A-hluta í rekstri Reykjavíkurborgar, sem og tillögugerð varðandi úthlutun lóða. Eignasjóður tekur við verkefnum framkvæmdasviðs og framkvæmdaráð verður lagt niður, einnig skipulagssjóður og stjórn skipulagssjóðs. Stjórn eignasjóðs mun heyra undir borgarráð. Með þessum breytingum fæst tækifæri til að efla vægi umhverfisins við rekstur borgarlandsins og mótun samgöngumannvirkja, þar sem undirbúningur stofnframkvæmda, þar með talin forhönnun (mat valkosta, umhverfismat, samráð við íbúa og hagsmunaaðila) vegna umferðarmannvirkja og opinna svæða verður á forræði umhverfis- og samgöngusviðs í samráði við eignasjóð og skipulags- og byggingarsvið. Fyrirhugaðar breytingar munu ekki leiða til uppsagna starfsfólks, en almennt er gert ráð fyrir að starfsmenn færist með þeim meginverkefnum sem þeir hafa með höndum til nýs eignasjóðs eða eftir atvikum til umhverfis- og samgöngusviðs. Tilfærslur starfsmanna í starfi munu ekki raska áunnum réttindum þeirra.

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra umhverfissviðs frá 21. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um átakið frítt í strætó, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst. R07030007

14. Lagt fram svar borgarstjóra frá 27. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um framtíð og hagsmuni sjávarútvegs í Reykjavík, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst. R07060040

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra umhverfissviðs frá 21. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um aukna notkun strætó í tengslum við verkefnið frítt í strætó, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. ágúst. R07030007

16. Lagt fram bréf borgarstjóra til forstjóra ÁTVR frá 9. þ.m. varðandi áfengisútsölu ÁTVR í Austurstræti, ásamt bréfi forstjóra ÁTVR frá 16. s.m., sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst sl. R05080160

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúar Samfylkingarinnar þakka fyrir framlagt bréf borgarstjórans í Reykjavík til ÁTVR þar sem hann fer fram á að vínbúðin í Austurstræti hætti að selja bjór í stykkjatali og kælt áfengi. Í bréfinu koma fram áhyggjur borgarstjórans þess efnis “að bjór sé seldur í stykkjatali og að jafnvel sé boðið upp á kældan bjór og annað áfengi í stykkjatali”. Í svari ÁTVR kemur fram að hætt hafi verið sölu á kældum drykkjum en ekki hafi verið hætt að selja bjór í stykkjatali. Þá lýsir ÁTVR sig reiðubúna að flytja vínbúðina um set í miðborginni og óskar aðstoðar borgaryfirvalda við leit að nýju húsnæði. Því er spurt:
Hyggst borgarstjóri aðstoða ÁTVR við leit að nýjum stað undir vínbúð?
Mun borgarstjóri beita sér frekar fyrir því að bjór verði ekki seldur í stykkjatali?

Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi svar:

1. Ef formlegt erindi berst frá ÁTVR til borgaryfirvalda um aðstoð til að finna nýja staðsetningu sölubúðar ÁTVR í miðbæ Reykjavíkur verður að sjálfsögðu orðið við því.
2. Nei

17. Svofelld leiðrétting er gerð á fundargerð borgarráðs frá 23. þ.m., við bætist 29. liður svohljóðandi: Samþykkt að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir taki sæti varamanns í stjórn Sorpu bs. í stað Óskars Bergssonar. R06060073

18. Lagt fram bréf Sifjar Sigfúsdóttur frá 19. þ.m. þar sem hún óskar eftir lausn frá setu í velferðarráði. R06060052
Samþykkt að Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir taki sæti Sifjar í ráðinu.

19. Samþykkt að Guðjón Ólafur Jónsson hrl. verði kjörinn í barnaverndarnefnd og verði jafnframt formaður nefndarinnar í stað Kolbrúnar Ólafsdóttur, sem óskað hefur lausnar vegna búferlaflutninga til útlanda. R06060054

20. Lögð fram fundargerð stjórnar samstarfssjóðs Nuuk-Reykjavík-Þórshöfn frá 21. þ.m. R07010108

- Kl. 11.55 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi og Jórunn Frímannsdóttir tekur þar sæti.

21. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 30. f.m. varðandi samkomulag við Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf. um tímabundin afnot af u.þ.b. 3.000 ferm. landspildu norðan við Grjótháls, gegnt Grjóthálsi 1-3. R06050126
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.

22. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 21. þ.m. þar sem lagt er til að eftirtöldum aðilum verði úthlutað byggingarrétti á lóðum við Hádegismóa, með nánar tilgreindum skilmálum: R07010145
Hádegismóar 1: Bakarameistarinn ehf.
Hádegismóar 3: Límtré Vírnet ehf.
Hádegismóar 9: Léttkaup ehf.
Samþykkt.

23. Lagt fram tölvubréf Guðjóns Ýmis Lárussonar, dags. 27. þ.m., varðandi umferðaröryggismál í Grafarvogi. R04080060
Vísað til framkvæmdaráðs með ósk um tillögur að úrbótum.

24. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa F-lista:

Árið 2002 var ákveðið að innleiða svokölluð smartkort (S-kort) og var unnið að því verkefni alveg fram á þetta ár. Ætlunin var að kortin myndu nýtast í strætisvögnum, sundlaugum og fleiri stöðum, s.s. skíðasvæðum, og einnig til kaupa á skólamáltíðum. Ljóst er að þetta þróunarverkefni hefur verið bæði tímafrekt og dýrt. Í febrúar árið 2006 var áætlað að heildarkostnaður næmi 130 milljónum króna, en komið hefur fram í fjölmiðlum að sú upphæð kunni að vera margfalt hærri. Því er spurt:
1) Hve miklu fé hefur verið varið til verkefnisins, í gegnum ÍTR, Strætó bs. og aðrar borgarstofnanir/fyrirtæki sem að málinu hafa komið?
2) Hver er staða verkefnisins nú? R07080104

25. Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi tillögu, dags. í dag:

Lagt er til að starfsheiti sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar verði breytt í framkvæmdastjóra ÍTR, eða til fyrra horfs. Breytingin er til samræmis við starfsheiti margra af æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar sem hefur verið breytt á undanförnum mánuðum úr heiti sviðsstjóra, t.d. fræðslustjóra, skipulagsstjóra og borgarlögmanns og er ekki síst ætlað að auka gegnsæi í þjónustunni gagnvart borgarbúum. R07080111

Samþykkt.

26. Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi tillögu, dags. í dag:

Borgarráð samþykkti á fundi 22. febrúar 2007 tillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um að stofna verkefnistjórn sem láti kortleggja það starf sem unnið er í Reykjavík, bæði innan og utan borgarkerfisins í málefnum innflytjenda. Árangur og framkvæmd þess starfs sem unnið er verði metin, unnin þarfagreining og ítarleg heildarstefnumótun fyrir Reykjavíkurborg ásamt aðgerðaráætlun út kjörtímabilið. Verkefnisstjórnin mun ljúka vinnu sinni eigi síðar en í árslok 2007. Lagt er til að borgarráð samþykki að 2.5 milljónum króna verði ráðstafað til verkefnis af liðnum ófyrirséð. R07080110

Samþykkt.

27. Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að efna til samráðs við forsvarsmenn leigubifreiðastöðva og félög leigubifreiðastjóra um bætt fyrirkomulag bifreiðaaksturs í Miðborginni um helgar. Skoðað verði hvernig hægt sé að bæta aðstöðu og fyrirkomulag við biðstöðvar á helstu annatímum um helgar. Jafnframt verði farið yfir framtíðarfyrirkomulag leigubifreiðaaksturs í tengslum við byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss við höfnina og aðrar stórframkvæmdir, sem standa fyrir dyrum í Miðborginni. R05080160

Samþykkt.

28. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Undanfarið hefur átt sér stað mikil umræða í samfélaginu um stöðu mála í Miðborg Reykjavíkur. Borgaryfirvöld þurfa að axla ábyrgð og leita allra leiða til að gera góða borg betri. Ekki má einblína á einstaka þætti heldur þarf að byggja á heildarsýn og upplýstri umræðu. Einn þeirra þátta sem ekki verður undan vikist að skoða er opnunartími veitingahúsa í Miðborginni um helgar og þá hvort ástæða sé til að breyta honum með einhverjum hætti. Til að varpa ljósi á þá spurningu óskar borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna eftir því að borgarráð fái upplýsingar um opnunartímareglur í höfuðborgum Norðurlandanna og einnig í nokkrum borgum í Evrópu af svipaðri stærðargráðu og Reykjavík er eftir því sem kostur er. R05080160

29. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í tillögum starfshóps borgarstjóra um starfsmannamál sem lagðar voru fram á síðasta fundi borgarráðs var m.a. rætt um álagsgreiðslur til sumra starfsmanna borgarinnar sem búa við álag vegna manneklu. Lagt er til að miðað sé við 20#PR manneklu sem varir í mánuð samfleytt til að um greiðslu geti verið að ræða. Af því tilefni er spurt með hvaða hætti umrætt hlutfall er fundið í þeim tilvikum þegar ekki liggja fyrir í kjarasamningi viðmiðanir um ásættanlegan fjölda starfsmanna. Sem dæmi má nefna að ekki hafa verið skilgreindar reglur um eðlilegan fjölda barna á hvern skólaliða. R05080094

30. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Ljóst er að kennarar í grunnskólum borgarinnar hafa lagt mikið af mörkum til að skólastarf á þessu hausti gæti hafist án vandkvæða. Til að það mætti verða hafa þeir með ýmsum hætti komið til móts við skólastjórnendur og menntasvið borgarinnar. Þar sem grunnskólakennara er ekki getið í tillögum starfshóps borgarstjóra um starfsmannamál er spurt hvernig borgaryfirvöld hyggist launa kennurum þetta tiltekna og mikilvæga framlag þeirra til skólastarfsins. Í aðdraganda nýrra kjarasamninga við kennara er mikilvægara en ella að borgin sýni með framgöngu sinni hversu mikils hún metur skólastarfið og það góða fagfólk sem að því stendur. R05080094

31. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í vikunni kom fram að viðræður milli borgaryfirvalda og eigenda hússins við Austurstræti 22 hafi siglt í strand vegna þess að ekki náðist saman um verð. Í kvöldfréttum útvarps í gær kom þó fram að borgarstjóri hygðist enn kaupa viðkomandi eignir fyrir hönd borgarinnar eða að #GLáhugasamir aðilar komi, eftir atvikum inn í þessa mynd og byggi þetta í samstarfi við borgina#GL. Í ljósi þess leggja fulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi spurningar:
Hvaða skref hyggst borgarstjóri stíga næst til að hreyfa við málinu?
Hvenær telur borgarstjóri að skipulagsvinnu í kjölfari hugmyndasamkeppni um svæðið verði lokið?
Hvenær telur borgarstjóri að uppbygging á reitnum geti hafist?
Hver er áætlaður heildarkostnaður borgarinnar vegna:
1) hreinsunar svæðisins,
2) uppkaupa hinna brunnu húsa,
3) uppbyggingar svæðisins,
4) skipulagsbreytinga og bóta til eigenda vegna þess að byggingaréttur sem þeir nú eiga samkvæmt Kvosar-skipulaginu svonefnda frá 1987 verði felldur niður við endurskipulag reitsins? R07040086

32. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúar Félags áhugafólks og aðstandenda alzheimerssjúkra, FAAS, hafa enn á ný ritað borgaryfirvöldum bréf til að ítreka ósk sína þess efnis að Reykjavíkurborg útvegi húsnæði fyrir dagþjálfun alzheimerssjúkra. Frá sl. vori hefur verið leitað að húsnæði og snemma í sumar fannst húsnæði sem að mati FAAS og Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar hentar sérstaklega vel og er talið afar hagkvæmur kostur. Enn hefur ekki verið gengið frá kaupum á sama tíma og tugir Reykvíkinga og aðstandenda þeirra þjást af alzheimersjúkdómum og fá ekki þjónustu við hæfi. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið samþykkti í mars sl. daggjöld fyrir 30 ný dagvistarrými fyrir heilabilaða í Reykjavík. Í svari við fyrirspurn Samfylkingarinnar fyrr á árinu sagði borgarstjóri: “Borgarstjóri hefur á fundum með forsvarsmönnum FAAS lýst því yfir að hann sé reiðubúinn til þess að veita félaginu liðsinni á útvegun húsnæðis fyrir heimilið. Þegar skýr afstaða ráðuneytisins liggur fyrir mun Reykjavíkurborg ekki láta sitt eftir liggja.” Nú liggur fyrir afstaða ráðuneytisins, heppilegt og hagkvæmt húsnæði er fundið. Ítrekuð viljayfirlýsing FAAS sem stíluð var á formann borgarráðs er vísað til styrkjaafgreiðslu næsta árs á Velferðarsviði sem ekki hefur úr fjármunum að spila til að kaupa húsnæði. Því er spurt: Á hverju strandar málið? R06090097

33. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Eftir samþykkt borgarráðs í sl. viku um álagsgreiðslur til þeirra vinnustaða sem eiga við manneklu að stríða sendi fulltrúi Samfylkingarinnar eftirfarandi fyrirspurn til mannauðsstjóra en hefur ekki fengið svör. Samþykktin var um 30 þúsund króna álagsgreiðslu þar sem starfsmönnum hefur fækkað um 20#PR lengur en í einn mánuð og óbreyttu þjónustustigi sé haldið. Til frekari skýringa er óskað upplýsinga á eftirfarandi þáttum í útfærslu samþykktarinnar.
1. Við hvaða starfseiningar er miðað þegar talað er um 20#PR fækkun? - á leikskóla eða leikskóladeild, í hverjum grunnskóla eða skólastigi?
2. Hve margir grunnskólar, leikskólar, frístundaheimili eða nánar tilgreindar starfseiningar þessara stofnana munu geta nýtt sér þessar álagsgreiðslur?
3. Stenst það ákvæði laga um leikskóla er varðar hámarksfjölda barna á starfsmann að halda uppi óskertri þjónustu þó starfsmönnum fækki um 20#PR?
4. Er um eingreiðslur að ræða, eða greiðslur þar til viðvarandi lausn fæst á þessu ástandi?
5. Samþykktin hljóðaði upp á fækkun starfsmanna um 20#PR. Á það sama við þar sem verið er að nýráða á hverju vori eins og á frístundaheimilunum og ekki næst að manna allar stöður ? R05080094

34. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Nú er orðið ljóst að borgarbúar hafa tapað a.m.k. 20 milljónum á samningi borgarstjóra við Háspennu ehf. sem fékk auk umtalsverða fjármuna eftirsótta byggingalóð í vesturbæ Reykjavíkur í stað spilasalar í Mjódd. Lóðin var metin á um 30 milljónir en seldist 5 mánuðum síðar á 50 milljónir. Þegar málið var kynnt borgarráði átöldu borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri – grænna harðlega þennan hluta samningsins enda var um geðþóttaákvörðun borgarstjóra að ræða. Hlutverk borgarstjóra er að gæta hagsmuna borgarbúa en það virðist hann ekki hafa gert í þetta sinn, frekar en þegar Landsvirkjun var seld. Hvernig hyggst borgarstjóri bregðast við þessu? R06120103


Fundi slitið kl. 12.25

Björn Ingi Hrafnsson

Björk Vilhelmsdóttir Jórunn Frímannsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir Þorleifur Gunnlaugsson