Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2007, fimmtudaginn 16. ágúst, var haldinn 4991. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:45. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon og Svandís Svavarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Margrét Sverrisdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lagðar fram fundargerðir skipulagsráðs frá 8. og 15. ágúst. R07010025
Lið 23. í afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 14. ágúst, vísað til byggingarfulltrúa að nýju. B-hluti fundargerðarinnar að öðru leyti samþykktur
2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R07080007
3. Lagt fram bréf aðstoðarskipulagsstjóra frá 1. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu svæðisskipulagi í Vatnsendakrika vegna vatnsverndar. R06100241
Samþykkt.
4. Lagt fram bréf aðstoðarskipulagsstjóra frá 1. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um deiliskipulag að Sætúni á Kjalarnesi.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Vakin er athygli á því að ítrekað er verið að samþykkja íbúðahús í nágrenni kjúklingabúa á Kjalarnesi innan þeirra marka sem heilbrigðisreglugerð bannar slíkar vistarverur vegna heilbrigðis- og mengunarsjónarmiða. Umhverfisráðuneytið hefur veitt undanþágur í þessum tilvikum með vísan til þess að kjúklingabúin séu á förum og vísar til væntanlegs skipulags sem muni kveða á um þetta. Engin flutningsáform eru þó skjalfest og enginn hefur vilja staðfesta það af hálfu meirihluta borgarstjórnar að í næsta aðalskipulagi verði starfsemi kjúklingabúa útilokuð á viðkomandi svæðum á Kjalarnesi.
Það mál sem hér er til afgreiðslu er jafnframt sérstakt að því leyti að verið er að skipta viðkomandi jörð í fleiri lóðir. Það er í andstöðu við stefnu Kjalarneshóps skipulagsráðs sem leiddur er af Gísla Marteini Baldurssyni borgarfulltrúa. Ljóst er að afgreiðsla þessa máls nýtur ekki óskoraðs stuðnings meirihlutans þar sem Gísli Marteinn gekk til liðs við minnihlutann og sat hjá við afgreiðslu málsins í skipulagsráði. R07050116
- Kl. 10.50 tekur Gísli Marteinn Baldursson sæti á fundinum.
5. Lagt fram bréf aðstoðarskipulagsstjóra frá 1. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna breyttrar landnotkunar í austurhluta Spangarinnar. R06070105
Samþykkt.
6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 9. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 8. s.m., varðandi breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 42 við Stórhöfða. R07080014
Samþykkt.
7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 9. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 8. s.m., um afmörkun lóðar fyrir spennistöð OR við götu að Fjárborgum í Almannadal. R03070036
Samþykkt.
8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 9. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 8. s.m., varðandi breytingu á aðalskipulagi vegna fjölgunar íbúða á Hlíðarenda, Valssvæðinu. R04090120
Samþykkt.
9. Lögð fram tilkynning um að Margrét Sverrisdóttir taki sæti áheyrnarfulltrúa í skipulagsráði, til vara verður Ásta Þorleifsdóttir. Jafnframt tekur Ásta Þorleifsdóttir sæti áheyrnarfulltrúa í menntaráði, til vara verður áfram Kjartan Eggertsson. R06060050
10. Lagt fram svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um aðgang Fréttablaðsins að gögnum um sölu Landsvirkjunar, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. f.m. R05020109
11. Lagt fram bréf sviðsstjóra umhverfissviðs frá 13. f.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um garðaþjónustu fyrir eldri borgara, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. júlí sl. R07020066
12. Lagt fram svar borgarstjóra frá 15. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar um samdrátt aflaheimilda í sjávarútvegi á starfssvæði Faxaflóahafna, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. júní sl.
Margrét Sverrisdóttir óskar bókað:
Vegna flutnings starfsemi HB Granda upp á Akranes leggur F-listinn áherslu á að hafnsækin starfsemi verði áfram á því svæði sem losnar við brotthvarf fyrirtækisins til að tryggja að sjávarútvegi verði ekki ýtt frá höfninni. Þar með verði sérstaða borgarinnar varðandi fiskveiðar í hávegum höfð.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fyrir tveimur mánuðum lagði Samfylkingin fram fyrirspurn um framtíð og hagsmuni sjávarútvegs í Reykjavík í borgarráði. Tilefnið var tvíþætt, boðaður niðurskurður á aflaheimildum og yfirlýsingar formanns borgarráðs og stjórnar Faxaflóahafna um að þegar veiðar aukist aftur væri rétt að auknar veiðiheimildir kæmu ekki í hlut Reykjavíkur heldur fyrirtækja á landsbyggðinni. Tvo mánuði tók að fá svar við fyrirspurninni en af einhverjum ástæðum höfðu fjórar síðustu spurningar hennar fallið úr fundargerð, þar með talin lykilspurningin: Hvernig telur borgarstjóri að best verði haldið á hagsmunum sjávarútvegs á starfsvæði Faxaflóahafna gagnvart niðurskurði aflaheimilda og endurúthlutun þeirra til framtíðar?
Þessar spurningar eru brýnar, ekki síst þegar svo virðist sem borgaryfirvöld hafi í engu sinnt hagsmunum sjávarútvegs á þeim tíma sem liðinn er þrátt fyrir ábendingar í borgarráði og boðaður brottflutningur HB-Granda virðist því hafa komið í opna skjöldu.
Spurningarnar Samfylkingarinnar eru því ítrekaðar:
Samráð um afstöðu til endurúthlutunar aflaheimilda.
Sú stefna sem formaður stjórnar Faxaflóahafna og borgarráðs boðar hefur ekki verið rædd í stjórn Faxaflóahafna eða borgarráði.
1. Hefur verið haft samráð við fulltrúa meirihlutans í stjórn Faxaflóahafna um ofangreinda stefnu?
2. Eru yfirlýsingar stjórnarformanns Faxaflóahafna og formanns borgarráðs um endurúthlutun aflaheimilda stefna borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík?
Löndun til fiskvinnslu á starfsvæði Faxaflóahafna.
Leiðarhöfundur Fréttablaðsins 6. júní sl. bendir á að ekki þurfi lagabreytingar til að boðuð stefna Faxaflóahafna nái fram að ganga. Aðeins þurfi að taka ákvörun um að dregið verði úr eða banna að landa afla á starfsvæði Faxaflóahafna í stjórn fyrirtækisins til að tryggja aukna fiskvinnslu í öðrum sjávarbyggðum.
1. Verður slík tillaga lögð fyrir stjórn Faxaflóahafna?
2. Hvernig telur borgarstjóri að best verði haldið á hagsmunum sjávarútvegs á starfsvæði Faxaflóahafna gagnvart niðurskurði aflaheimilda og endurúthlutun þeirra til framtíðar?
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Öllum spurningum í fundargerð hefur verið svarað. Sjálfsagt er að svara þeim spurningum sem féllu út úr fundargerð. R07060040
13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 9. þ.m., þar sem lagt er til að Kristínu Bj. Konráðsdóttur, Sigfúsi Ólafssyni, Steinunni Haraldsdóttur og Gunnari R. Ólafssyni verði úthlutað byggingarrétti fyrir parhús að Urðarbrunni 124-126 með nánar tilgreindum skilmálum. R07020072
Samþykkt.
14. Vísað er til liðar 10 í fundargerð borgarráðs frá 2. þ.m., úthlutun atvinnulóða í Lambhagalandi.
Borgarráð samþykkir að í stað þess fyrirvara sem þar greinir komi:
...... enda verði tekið fram í skilmálum að ef samþykktar verða stærri byggingar á lóðunum en sem nemur viðmiðunarstærð gatnagerðargjalds á hverri lóð, greiði byggingarleyfishafar, auk viðbótargatnagerðargjalds, uppreiknað kaupverð byggingarréttar sem nemur viðbótinni. R07070121
15. Rætt um löggæslumálefni í Reykjavík. R07070045
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Samfylkingin ítrekar tillögu um endurmat á þörf fyrir miðborgarvakt lögreglu sem lögð var fram í borgarráði fyrir ári síðan. Dregið var úr fjölda lögreglumanna á slíkum vöktum fyrir fáeinum árum þar sem skemmtanahald var talið friðsamlegra en áður í kjölfar breytilegs opnunartíma veitingahúsa. Það hefur lengi verið stefna Samfylkingarinnar að endurskoða þetta og auka sýnilega löggæslu. Samfylkingin telur að Reykjavík hafi alla burði til að setja markið á að vera öruggasta borg Evrópu. Liður í því er að auka og efla sýnilega löggæslu, ekki síst í miðborginni.
- Kl. 11.10 vék Margrét Sverrisdóttir af fundi.
16. Kynnt dagskrá Menningarnætur 2007. R07010041
17. Lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 26. f.m. um nýja þjónustusamninga við íþrótta- og æskulýðsfélög, þar sem teknar hafa verið til greina ábendingar varðandi samninga frá fulltrúum í íþrótta- og tómstundaráði, forstöðumanni innri endurskoðunar, lögmönnum borgarinnar og einstaka íþróttafélögum.
Samþykkt. R07030056
18. Lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 23. f.m. vegna viðauka við hluthafasamning um Íþrótta- og sýningarhöllina hf. R04010075
Samþykkt.
19. Lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 23. f.m. vegna samnings milli Reykjavíkurborgar og Golfklúbbs Reykjavíkur um stækkun golfvallarins við Korpúlfsstaði og aðrar framkvæmdir í Grafarholti og við Korpúlfsstaði. R05010085
Frestað.
20. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði.
Borgarráð samþykkir eftirfarandi styrkveitingar: R07010031
Hrönn Kristinsdóttir, vegna gerðar myndar um Breiðavíkurmálið, kr. 300 þús., Karlakórinn gamlir fóstbræður kr. 150 þús., Kattavinafélag Íslands kr. 500 þús., Samtök áhugafólks um spilafíkn kr. 500 þús. Erindi Sjúkra- og líknarsjóðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins vísað til stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
21. Kynnt umhverfisátakið Græn skref í Reykjavíkurborg. R07040048
- Kl. 12.10 vék Hanna Birna Kristjánsdóttir af fundi.
22. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem er vegna manneklu í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum borgarinnar hefur Samfylkingin átt viðræður við skólafólk, foreldra og forystu stéttarfélaga leikskólakennara, grunnskólakennara, Eflingar og Starfsmannafélags Reykjavíkur. Á samráðsfundi með forystu stéttarfélaganna komu fram þungar áhyggjur af stöðunni en um leið sú staðreynd að nákvæmar upplýsingar um hana lægju ekki fyrir. Í kjölfarið óskuðu fulltrúar Samfylkingarinnar eftir því að mannekla yrði sett á dagskrá leikskólaráðs, menntaráðs og ÍTR. Á fundi leikskólaráðs í gær kom fram að engin yfirsýn hefur enn fengist yfir skort á starfsfólki né hversu mörg börn og fjölskyldur bíða eftir plássum á leikskólum og frístundaheimilum þótt vandinn hafi verið fyrirséður frá því í vor. Þó var samþykkt í leikskólaráði að álagsgreiðslur til leikskólakennara væru teknar upp á þeim leikskólum sem skilað hafa rekstrarafgangi.
Því er óskað eftir svörum við eftirfarandi:
1. Að borgarráð fái ítarlegt yfirlit um stöðu þessara mála, m.a. hversu mörg börn og fjölskyldur bíði eftir því að komast inn á leikskóla og frísundaheimili skipt eftir hverfum, hversu gömul elstu börnin í þessum hópi eru og hvenær líklegt er að úr rætist.
2. Er mannekla vandamál á einhverjum þeirra leikskóla sem ekki eiga rekstrarafgang? Fær starfsfólk á þeim leikskólum álagsgreiðslur?
3. Eiga aðrir starfsmenn leikskóla en leikskólakennarar von á álagsgreiðslum?
4. Verður gripið til sambærilegra aðgerða til að bæta kjör kennara og starfsfólks grunnskóla og frístundaheimila? R05080094
23. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samfylkingin hefur ítrekað lýst áhyggjum af því að ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til að mæta aukinni notkun strætó í tengslum við tilrauna-verkefnið frítt í strætó. Ný skoðanakönnun sem Félagsstofnun stúdenta gerði meðal nemenda við Háskóla Íslands bendir til þess að allt að 43#PR stúdenta sé tilbúinn að nýta sér þetta (en 9#PR sögðust ætla að fara með strætó án fríkortanna). Þetta bendir til þess að þúsundir námsmanna muni nýta sér þetta tilboð.
Þess vegna er spurt:
1. Hvað er búist við að notkun á strætó aukist mikið í tengslum við verkefnið?
2. Hvaða áætlanir hafa verið gerðar til að mæta aukinni notkun?
3. Hvað þarf að bæta við mörgum aukavögnum á álagstímum og eru slíkir vagnar til?
4. Verða aukavagnar látnir keyra hver á eftir öðrum eða hefur verið skoðað að taka upp tíu mínútna tíðni ef átakinu verður vel tekið?
5. Hvað myndi taka langan tíma að bregðast við ef áhyggjur Samfylkingarinnar ganga eftir? R07030007
24. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Átakinu Frítt í strætó er fagnað en jafnframt er spurt um eftirfarandi til að skýra framkvæmdina betur. Fulltrúar meirihlutans hafa við ýmis tækifæri talað um að til stæði að gefa námsmönnum frítt í strætó frá og með komandi hausti. Því er spurt:
1. Með hvaða hætti verður komið til móts við þá námsmenn sem búsettir eru utan Reykjavíkur en stunda nám í framhalds- og háskólum í borginni?
2. Hvernig verður aðkomu grunnskólanema að verkefninu háttað? R07030007
Fundi slitið kl. 12:45
Björn Ingi Hrafnsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Svandís Svavarsdóttir