Borgarráð - Fundur nr. 4986

Borgarráð

BORGARRÁÐ

Ár 2007, fimmtudaginn 14. júní, var haldinn 4986. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:45. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björn Ingi Hrafnsson, Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Margrét K. Sverrisdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.


Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 22. maí. R07010006

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 22. maí. R07010017

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 13. júní. R07010025
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 8. júní. R07010029

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R07060008

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 6. s.m., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi á útivistarsvæði í Gufunesi. R04060032
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytt deiliskipulag á lóð Háskólans í Reykjavík við Hlíðarfót. R05090073
Samþykkt.

Dagur B. Eggertsson óskar bókað:

Líkt og áður vek ég athygli á því í borgarráði, þegar málefni tengd HR eru annars vegar, að ég er kennari við skólann og hef sem slíkur jafnframt tekist á hendur úttekt á sóknarfærum Háskólans í Reykjavík sem alþjóðlegs háskóla með nýjum rektor. Legg ég það sem fyrr í mat ráðsins hvort þetta valdi vanhæfi við umfjöllun um mál tengd HR. Skipulagsráð taldi að ofangreint ylli ekki vanhæfi, sbr. 3. lið fundargerðar skipulagsráðs 30. maí sl.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 6. s.m. um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi á lóðinni Leirur á Kjalarnesi. R07060055
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 6. s.m., um deiliskipulag Njálsgötureitar 1, reitur 1.190.0. R07020162
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 6. s.m. um breytingu á deiliskipulagi athafnasvæðis Halla, austan Vesturlandsvegar. R06080076
Frestað.

11. Lögð fram dagskrá 17. júní hátíðarhalda í Reykjavík. R07060059

12. Rætt um kaup á húsnæði að Njálsgötu 74 fyrir heimilislausa og gerð grein fyrir stöðu málsins. R07040022

13. Upplýst er að Höfuðborgarstofu hafi verið veitt sérstök viðurkenning frá samtökunum European Cities Marketing fyrir starfsemi sína að ferðamálum, markaðssetningu o.fl., sbr. tölvupóst frá sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, dags. í dag. R07060074

Borgarráð óskar starfsmönnum Höfuðborgarstofu til hamingju með þá þýðingarmiklu viðurkenningu sem stofan hefur fengið frá Evrópusamtökum um markaðssetningu borga (European Cities Marketing) fyrir framúrskarandi árangur við markaðssetningu Reykjavíkur sem ferðamannaborgar.

14. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 12. þ.m. um viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar á tímabilinu 23. mars til 3. apríl sl. R07060056

15. Lagður fram dómur Héraðsdóms í máli nr. E-4752/2005, Margrét Linda Helgadóttir gegn Kristjáni Þór Jónssyni og Reykjavíkurborg. R05060136

16. Lagt fram svar borgarstjóra frá 12. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um viðræður borgarstjóra við einkaaðila um löggæslu í borginni, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs 7. s.m. R07060037

- Kl. 10.30 víkur Jórunn Frímannsdóttir af fundi

17. Lagt fram bréf lögfræðings borgarstjórnar frá 11. þ.m. um tillögu að breytingum á samþykkt fyrir hverfisráð. R07050002
Vísað til borgarstjórnar.

18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 8. þ.m. varðandi skilagrein vinnuhóps um spilakassa og spilasali ásamt tillögum. R07040111
Frestað.

19. Lögð fram umsögn stjórnkerfisnefndar um tillögu borgarstjóra að breytingum á stjórnkerfi og skipuriti Reykjavíkurborgar, dags. 12. þ.m. Jafnframt lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn Dags B. Eggertssonar í stjórnkerfisnefnd 12. s.m. vegna stjórnkerfisbreytinga R07060017
Vísað til borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir kyngreindum upplýsingum um hversu margar konur annars vegar og karlar hins vegar munu gegna nýjum stöðum í skipuriti Reykjavíkurborgar. Einnig er óskað eftir samanburði við fyrra skipurit.

20. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. í dag, þar sem lagt er til að Kristbjörg Stephensen verði ráðin í stöðu borgarlögmanns.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07060075
Frestað.

21. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 7. þ.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 6. s.m. um samning leikskólasviðs Reykjavíkurborgar og Hjallastefnunnar ehf. um rekstur leikskólans Laufásborgar. R07060064

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

Borgarráð samþykkir að setja inn í samning þann sem liggur fyrir við Hjallastefnuna ehf. ákvæði þess efnis að foreldrar barna á Laufásborg, hér eftir sem hingað til, greiði ekki hærra gjald en gjaldskrá leikskóla Reykjavíkur segir til um. Sama gildi í samningum við aðra einkarekna leikskóla þegar þeir koma til endurskoðunar.

Breytingartillagan felld með 4 atkv. gegn 3.
Samningurinn samþykktur með 4 atkv. gegn 3.

Margrét K. Sverrisdóttur óskar bókað:

Það er ástæða til að fagna því að kominn sé á samningur við Hjallastefnuna ehf. um rekstur Laufásborgar. Með vaxandi áherslu á sjálfstæði einstakra skóla er mjög áhugavert að gera tilraun með rekstur Hjallastefnunnar sem er metnaðarfull skólastefna sem stýrt er af framsæknum rekstraraðilum sem hafa kosið að starfa utan hins hefðbundna leikskólakerfis. Hins vegar er gerð alvarleg athugasemd við að foreldrar, sem kjósa að setja börn sín á Laufásborg skuli þurfa að greiða allt að 15#PR hærri skólagjöld í stað þess að greiða sömu upphæð og í almennum leikskólum. Sjálfstæðir leikskólar sem starfa á grundvelli viðurkenndrar skólastefnu og samkvæmt markmiðum aðalnámskrár skulu hafa jafnan rétt og aðrir leikskólar og eiga því að njóta jafnræðis í fjárframlögum. Hins vegar á þeim ekki að vera heimilt að innheimta hærri skólagjöld en aðrir leikskólar. Það skapar mismun á námsframboði eftir efnahag foreldra og er hér með eindregið varað við að borgaryfirvöld styðji þróun í þá veru.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óska Reykvíkingum til hamingju með að hafa fengið Hjallaleikskóla til borgarinnar. Laufásborg hefur árum saman starfað með hugmyndafræði Hjallastefnunnar að leiðarljósi með góðum árangri. Með ákvörðun leikskólaráðs um að gera Laufásborg að sjálfstætt reknum skóla hefur verið stigið lokaskref að því markmiði að Laufásborg verði Hjallaskóli að öllu leyti. Með því er búið að tryggja í sessi hugmyndafræðina samhliða rekstrarformi til að auka sjálfstæði skólans til aukinnar þróunar og nýbreytni.
Það vekur sannarlega furðu að fulltrúar minnihlutans skuli greiða atkvæði gegn þessu mikla framfaramáli, sem mun tryggja aukið val fyrir börn og foreldra í Reykjavík um þessa mikilvægu þjónustu.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Faglegt starf og rekstur leikskólans Laufásborgar hefur verið til mikillar fyrirmyndar og óumdeilt að foreldrar, starfsfólk og stjórnendur leikskólans eru ánægðir með þá faglegu stefnu, Hjallastefnuna, sem þar hefur verið höfð að leiðarljósi um nokkurra ára skeið á vegum Reykjavíkurborgar. Laufásborg er einn af vinsælustu leikskólum borgarinnar og er staðsettur í rótgrónu, fullbyggðu hverfi. Það er áhugavert nýsköpunarverkefni að Hjallastefnan ehf. reki leikskólann í tvö ár sem faglegt tilraunaverkefni, enda hefur það notið stuðnings starfsfólks og foreldra. Stuðningur Samfylkingar og Vinstri grænna byggir á óbreyttum rekstrarforsendum í þennan afmarkaða tíma og að staðið verði fyllilega við þau fyrirheit sem starfsfólki hafa verið gefin um óbreytt kjör og réttarstöðu, sem og fyrirheit sem foreldrum hafa verið gefin um óbreytt leikskólagjöld. Hvort tveggja hafa forsvarsmenn Hjallastefnunnar fullvissað starfsfólk og foreldra um.
Í þeim samningi sem nú liggur fyrir er heimilað að Hjallastefnan rukki allt að 15#PR hærra gjald á Laufásborg en á öðrum leikskólum Reykjavíkurborgar. Það telja fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna ekki boðlegt. Aðgengi að leikskóla á að okkar mati ekki að vera háð efnahag. Í það minnsta er ekki eðlilegt að borgaryfirvöld stuðli að því að fjölga slíkum plássum eins og hér er lagt til. Þó börn sem nú eru skráð í leikskólann muni búa við óbreytt gjöld er fyrirsjáanlegt að börn, jafnvel á sama aldri, verði látin greiða mishátt gjald fyrir sömu þjónustu í leikskólanum næstu árin eftir því hvort leikskóladvöl þeirra hófst fyrir eða eftir upphaf tilraunaverkefnisins. Það telja fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óviðunandi og stangast á við jafnræðisreglu. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í borgarráði greiða því atkvæði gegn samningi við Hjallastefnu um yfirtöku á rekstri leikskólans Laufásborgar.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Samningurinn við Hjallastefnu ehf. á rekstri Laufásborgar er algjörlega sambærilegur við aðra samninga við sjálfstætt starfandi leikskóla í borginni. Í samningnum er leitast við að tryggja sem best jafnrétti barna til leikskólanáms og að fjármagn sé það sama óháð vali á leikskóla. Þau börn sem eru nú í Laufásborg munu áfram greiða leikskólagjöld í samræmi við gjaldskrá borgarinnar en Hjallastefnan getur sett fram 15#PR hærri gjaldskrá fyrir ný börn sem óska eftir plássi í Laufásborg. Fyrir umræddu ákvæði eru eðlilegar og faglegar ástæður, sem ráðast af ólíkri stöðu einkarekinna og borgarrekinna leikskóla. Góð grein hefur verið gerð fyrir þessu af embættismönnum borgarinnar á fundinum, auk þess sem fulltrúar fyrrverandi meirihluta þekkja þær ástæður vel sem höfundar flestra umræddra samninga.

22. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 12. þ.m. um að gefinn verði út lóðarsamningur um heildarlóðina Suðurgötu 121 og Eggertsgötu 2-34. R07060057
Samþykkt.

23. Lagt fram bréf lögfræðings framkvæmdasviðs frá 13. s.m., þar sem lagt er til að Helgi Gíslason verði lóðarhafi lóðar nr. 8 við Iðunnarbrunn í stað fyrri lóðarhafa, með öllum sömu skilmálum og giltu gagnvart fyrri lóðarhafa. R06040011
Samþykkt.

24. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 7. þ.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 6. s.m., þar sem óskað er eftir aukastofnfé til kaupa á lausri stofu sem nýta má í Grafarholti. R07060015
Vísað til framkvæmdaráðs.

25. Kynntar eru hugmyndir að framtíðarútfærslu gatnamóta Kringlumýrarbrautar-Miklubrautar og nálægra gatnamóta. R04090026

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Fyrir ári síðan lagði Samfylkingin fram tillögu í borgarráði um að samráð hæfist um hugsanlegar breytingar á gatnamótum Miklubrautar-Kringlumýrarbrautar, með þátttöku íbúa, hagsmunaaðila og Vegagerðarinnar. Þar var byggt á þeirri reynslu sem fékkst af samráði um Sundabraut en verklagið við það leiddi það áratuga þrætuepli í farsælan farveg á fáeinum mánuðum. Tillögunni var vísað til umhverfisráðs og rötuðu fyrirheit um slíkt samráð inn í starfsáætlun ráðsins fyrir yfirstandandi ár. Enn hefur þó ekki verið hafist handa um samráð um þetta mikilvæga úrlausnarefni, sem er undarlegt þar sem stór orð hafa verið höfð uppi um málshraða í þessu efni. Slíkt samráð og nauðsynleg upplýsingaöflun hlýtur að verða teljast snar þáttur í þeirri endurskoðun á umferðar- og samgöngumálum sem samstaða virðist vera að nást um innan borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Eins og fram hefur komið á fundinum er undirbúningur vegna mislægra gatnamóta mjög langt kominn. Mikið samráð hefur verið viðhaft við íbúa, ríkið og aðra hagsmunaaðila og því samráði verður að sjálfsögðu framhaldið.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar afstöðu flokksins til mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar-Miklabrautar. Það er skoðun Vinstri grænna í borgarráði að brýnasta úrlausnarefni í umferðarmálum svæðisins sé að leggja Miklubraut í stokk frá Stakkahlíð í austri að Snorrabraut í vestri. Þannig er nauðsynlegt að bæta umhverfi íbúa í Hlíðahverfi og tryggja góðar aðstæður gangandi og hjólandi umferðar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Það er fráleitt að líta þannig á að stutt ræða á opnum íbúafundi jafngildi því að markvisst samráð hafi farið fram um hugsanlegar breytingar á þessum gatnamótum. Íbúar og hagsmunaaðilar þurfa að fá aðgang að öllum gögnum, setja fram sín sjónarmið og hugmyndir auk þess sem aðrir útfærslumöguleikar og leiðir þurfa að fá sambærilega umfjöllun. Minna en fjórðungur af fjárþörf í það umdeilda risaverkefni sem hér hefur verið kynnt er á ósamþykktri samgönguáætlun síðustu ríkisstjórnar til 2018 þannig að engin stoð er fyrir stóryrtum yfirlýsingum um að verkefnið sé komið á framkvæmdastig.

26. Lagt fram bréf formanns og stjórnarformanns Skíðasambands Íslands frá 11. þ.m., þar sem óskað er eftir lóð í hlíðum Úlfarsfells til byggingar á yfirbyggðu skíðasvæði og tengdri starfsemi. R07060062
Vísað til skipulagsráðs og íþrótta- og tómstundaráðs.

27. Svohljóðandi tillögu vísað til borgarstjórnar:

Borgarstjórn samþykkir að fella niður borgarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk. skv. heimild í 3. mgr. 5. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001, með síðari breytingum. Í sumarleyfi borgarstjórnar fer borgarráð með sömu heimildir og borgarstjórn hefur ella.
Umboð þetta nær til þess tíma er tvær vikur eru til næsta reglulega fundar í borgarstjórn, eða til 21. ágúst nk., sbr. þó 5. mgr. 51. gr. samþykktarinnar. R04060046

28. Kynnt drög Línuhönnunar um tillögu að matsáætlun v. Sundabrautar 1. áfanga, dags. í júní 2007. R04100023

29. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á stjórnskipulagi borgarinnar undanfarna mánuði er óskað svara við því hvers vegna staða sviðsstýru umhverfissviðs hefur enn ekki verið auglýst til umsóknar. Eru frekari skipulagsbreytingar fyrirhugaðar, m.a. á umhverfissviði, eða er ætlunin að láta sama starfsmann gegna starfi sviðsstjóra og skrifstofustjóra sviðsins til lengri tíma? R07060017

30. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Umhverfisstofnun hefur veitt VST tímabundna undanþágu til að gera tilraunir til að drepa sílamáv með eiturútbuðri á varpstöðvum, m.a. í borgarlandinu. Fram hefur komið að Fuglaverndarfélagið og íbúar í námunda við Korpuhólma telja þessa ákvörðun orka tvímælis og hafa kært hana til umhverfisráðuneytis.
Af þessu til efni er spurt hvort og þá hvenær umhverfisráð hafi samþykkt málið, þar sem ekki er útilokað að svefnlyfin sem nota á hafi áhrif á aðra fuglastofna og umhverfið kringum varpið. Þá er spurt hvort og þá hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að takmarka umferð fólks í Korpuhólma. R06010043


Fundi slitið kl. 13:35


Björn Ingi Hrafnsson
Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Kjartan Magnússon