Borgarráð - Fundur nr. 4983

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2007, miðvikudaginn 16. maí, var haldinn 4983. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:05. Viðstaddir voru Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon og Oddný Sturludóttir. Jafnframt sat fundinn Margrét K. Sverrisdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 15. maí. R07010025
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 8. maí. R07010010

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 7. maí. R07010012

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 26. apríl. R07010013

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 8. maí. R07010017

6. Lögð fram fundargerð mannréttindanefndar frá 2. maí. R07010020

7. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 3. maí. R06120055

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R07040100

9. Lagður fram samningur Reykjavíkurborgar og Og fjarskipta ehf., dags. 9. þ.m., um símaþjónustu fyrir Reykjavíkurborg, ásamt bréfi sviðsstjóra þjónustu- og rekstrarsviðs frá 11. s.m. R07030015

10. Lagt fram bréf stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 9. þ.m., þar sem óskað er eftir tilnefningu tveggja fulltrúa í samvinnunefnd um endurskoðun svæðisskipulags á höfuðborgarsvæðinu. R06100241
Samþykkt að tilnefna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Dag B. Eggertsson í samvinnunefndina.

11. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Sorpu bs. frá 10. þ.m., sbr. samþykkt stjórnarfundar Sorpu bs. s.d., þar sem sótt er um 20 ha lóð undir framtíðarvinnslusvæði fyrirtækisins. R07050065
Vísað til umhverfisráðs og skipulagsráðs.

12. Lagt fram bréf Regínu Ásvaldsdóttur, sviðsstjóra þjónustu- og rekstrarsviðs, dags 14. þ.m., þar sem hún óskar lausnar frá störfum frá 30. júní nk. að telja. R07050066
Samþykkt.

Bókun borgarráðs:

Borgarráð þakkar Regínu Ásvaldsdóttur ákaflega vel unnin störf í þágu Reykjavíkurborgar. Regína hefur verið í forsvari fyrir ýmis framfaramál á vettvangi borgarinnar og munu hennar spor sjást um langa framtíð. Regína lætur af störfum að eigin frumkvæði og í fullri sátt. Henni er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

13. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á þessum fundi liggur fyrir að Regína Ásvaldsdóttir biðst lausnar sem sviðstjóri þjónustu- og rekstrarsviðs. Jafnframt því sem uppsögnin er hörmuð eru Regínu þökkuð afar mikilsverð störf í þágu borgarinnar og óskað gæfu á nýjum vettvangi. Við blasir að Regína er ekki fyrsta konan í æðstu stjórnunarstöðu sem biðst lausnar frá því að nýr meirihluti tók við og er að því tilefni lögð fram svofelld fyrirspurn:
Hversu margir karlar í stöðu sviðstjóra hafa sagt starfi sínu lausu frá 15. júní 2006?
Hversu margar konur í stöðu sviðstjóra hafa sagt starfi sínu lausu frá 15. júní 2006?
Hvers kyns eru þeir nýju sviðstjórar sem ráðnir hafa verið til starfa í stað þeirra sem sögðu starfi sínu lausu?
Óskað er sambærilegra upplýsinga um næstráðendur á sviðum borgarinnar frá sama tíma að telja, þ.e. kyngreint og jafnframt upplýsinga um nýráðningar. Þar er átt við millistjórnendur á sviðum borgarinnar og skrifstofum borgarstjóra og borgarstjórnar. R07050081

14. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 9. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Norðlingaskóla við Árvað. R07050071
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 9. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um deiliskipulag Klapparstígsreits 1.182.0. R06100291
Samþykkt.

16. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 9. s.m., um auglýsingu á deiliskipulagi Iðnskólareits 1.19. R06100289
Samþykkt.

17. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 11. þ.m., í máli nr. E-6942/2005, Yrja Kristinsdóttir gegn Reykjavíkurborg og skíðadeild KR. R05010088

18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra gatna- og eignaumsýslu framkvæmdasviðs frá 15. þ.m., þar sem óskað er eftir 30 mkr. aukafjárveitingu til að mæta aukinni þörf á hreinsun Miðborgarinnar. R07020163
Samþykkt.
Færist af liðnum ófyrirséð.

19. Lagður fram samningur Reykjavíkurborgar annars vegar og Björgunarsveitanna Ársæls og Kjalar, Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og Hjálparsveitar skáta hins vegar, dags. 14. þ.m., um fjárstuðning við björgunarsveitirnar. R07050072
Borgarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

- Kl. 11.30 víkur Árni Þór Sigurðsson af fundi.

20. Lögð fram viljayfirlýsing um samstarf Reykjavíkurborgar og Ungmennafélagsins Fjölnis, dags. 8. þ.m., um uppbyggingu íþróttamannvirkja og íþrótta- og félagsstarf í Grafarvogi. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 9. s.m. R05120123
Samþykkt.

21. Lögð fram drög að nýjum þjónustusamningi Reykjavíkurborgar og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, ódags., ásamt bréfi sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 14. þ.m. R04120075

22. Lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 11. þ.m. þar sem lögð er til 40 mkr. aukafjárveiting vegna sumarvinnu skólafólks. R04020002
Samþykkt.
Færist af liðnum ófyrirséð.

23. Lögð fram drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Háskólans í Reykjavík, ódags., um leigu á tímum í íþróttamannvirkjum Reykjavíkurborgar í Laugardal o.fl. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 14. þ.m. R07050070
Samþykkt.

24. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í sumarbyrjun er oft áberandi mikið rusl á víðavangi, í trjábeðum og á götum borgarinnar enda trén ekki fulllaufguð og starfsfólk Vinnuskólans ekki mætt til starfa í því skyni að fegra borgarlandið. Í því ljósi vilja borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar spyrja:
Hvernig verður hreinsun borgarinnar háttað á næstu vikum?
Mun átakið ,,Tökum upp hanskann fyrir Reykjavík” halda göngu sinni áfram?
Hvaða hverfi önnur en miðbærinn fá sérstaka athygli borgaryfirvalda? R04050154


Fundi slitið kl. 11:55

Björn Ingi Hrafnsson

Björk Vilhelmsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir