Borgarráð - Fundur nr. 4979

Borgarráð

BORGARRÁÐ

Ár 2007, fimmtudaginn 10. maí, var haldinn 4979. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:30. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon og Sigrún Elsa Smáradóttir. Jafnframt sat fundinn Guðrún Ásmundsdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 2. maí. R07010014

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 30. apríl. R07010017

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 9. maí. R07010025
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 2. maí. R07010026

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R07040100

6. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisleyfi, dags. í dag, alls 4 mál. R07010077

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 2. s.m., um tillögu að nýju deiliskipulagi reits 1.244.1 og 1.244.3, Einholt/Þverholt. R05120015
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 2. s.m., um aukaúthlutun styrkja úr Húsverndarsjóði Reykjavíkur. R07030152
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 2. s.m., um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Fitja á Kjalarnesi. R07020160

Borgarráð samþykkir auglýsta tillögu með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og þeim skilyrðum sem fram koma í umsögn skrifstofustjóra framkvæmdasviðs.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt 2. s.m., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi lóðar Klébergsskóla á Kjalarnesi. R07050018
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 2. s.m., um breytingu á skilmálum fyrir Úlfarsárdal, hverfi 4. R06100328
Samþykkt.

12. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 28. f.m. ásamt tillögu að almennum úthlutunarreglum íbúðahúsalóða í Reykjavík. R07040132
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það er sérstakt fagnaðarefni að nú liggi fyrir uppbyggingar- og úthlutunaráætlun til næstu ára fyrir Reykjavík. Sú áætlun gerir ráð fyrir verulega auknu framboði lóða og íbúða í Reykjavík, auk þess sem hún tryggir að íbúar geta nú fylgst nákvæmlega með uppbyggingu í borginni, skipulagi nýrra hverfa og úthlutun lóða. Að minnsta kosti 1000 nýjar lóðir verða til úthlutunar í nýjum hverfum, auk þess sem ætla má að minnst 500 nýjar íbúðir verði í boði í miðborginni og nágrenni hennar. Sanngjarnar úthlutunarreglur og fast lóðaverð tryggja að allir eiga þess raunverulegan kost að byggja og búa í Reykjavík, enda sýna þau gögn sem lögð hafa verið fram á þessum fundi að það lóðaverð sem nú er í boði í borginni er með því allra lægsta sem þekkist í nágrannasveitarfélögum okkar og miklu mun lægra en það lóðaverð sem hefur verið í Reykjavík á undanförnum árum. Þau nýju íbúðasvæði sem Reykjavík býður til uppbyggingar eru að auki fyrsta flokks, þannig að ljóst má vera að samkeppnisstaða borgarinnar er afar sterk og tryggir vonandi að Reykjavík verði fyrsti kostur sem flestra og íbúum höfuðborgarinnar fjölgi.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Þegar í upphafi kjörtímabilsins voru lóðir undir 450 íbúðir í Úlfarsárdal tilbúnar til úthlutunar. Því var frestað og lóðunum fækkað til að auka hlutfall sérbýlishúsa. Að sama skapi hefur dregið úr yfirlýsingum meirihlutaflokkanna um ótakmarkað lóðaframboð. Enginn minnist nú á málefnasamning meirihlutans sem boðaði gríðarlegt framboð lóða fyrir árslok 2006. Framsóknarflokkurinn lofaði raunar 600 sérbýlishúsalóðum til úthlutunar í desember 2006. Engri einustu lóð hefur hins vegar verið úthlutað fyrr en nú. Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús.
Sjálfstæðisflokkurinn laðaði til sín kjósendur í borgarstjórnarkosningunum með því að lofa ódýrum lóðum fyrir alla. Fyrir tveimur árum var haft eftir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni núverandi borgarstjóra að stefna Sjálfstæðisflokksins væri sú að úthluta lóðum á gatnagerðagjöldum. Nú hefur hins vegar verið kynnt fast verð á lóðum sem jafngilda fjórföldum gatnagerðargjöldum: 4,5 milljónir fyrir hverja íbúð í fjölbýli, 7,5 milljónir fyrir íbúð í parhúsi eða raðhúsi og 11 milljónir fyrir einbýlishúsalóð. Það er ekki nema von að vonsviknir kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu undrandi og reiðir. Það stendur ekkert eftir af stærsta kosningamáli Sjálfstæðisflokksins nema svik. Samfylkingin gagnrýnir þessa aðferðafræði meirihlutans. Markaðsverð er ekki látið ráða verði lóða heldur fast verð. Aðferðafræðin felur ekki í sér möguleika á mismunandi verðlagningu eftir staðsetningu, stærð eða öðrum mismunandi gæðum lóða. Aukist lóðaframboð í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur getur fast verð jafnframt haldið lóðaverði uppi. Þá er vert að vekja athygli á því að þar sem ljóst er að verktakar einir fá úthlutað fjölbýlishúsalóðum, selja íbúðir á markaðsverði en ekki kostnaðarverði, skilar undirverð í verðlagningu þess byggingaréttar sér aðeins til þeirra en ekki til fjölskyldna í borginni. Því vekur sérstaka furðu að fjölbýlishúsalóðir skuli ekki boðnar út.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Vinstri græn leggja áherslu á að lóðaverði í Reykjavík verði haldið í lágmarki. Þess vegna kynnti VG þá stefnu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar að bjóða ætti lóðir á föstu verði og styður því þá megin stefnu. Um leið teljum við nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir lóðabrask með skýrum og afdráttarlausum reglum svo tryggt verði að ávinningur af lækkuðu lóðaverði komi íbúðabyggjendum/-kaupendum sannarlega til góða. Þá er óhjákvæmilegt að fyrir liggi greinargerð um tekjur borgarinnar af lóðaúthlutuninni og hvernig þeim tekjum er varið til uppbyggingar hverfisins. Að mati VG er mikilvægt að mismuna ekki íbúum borgarinnar með því að kostnaður við uppbyggingu skóla, leikskóla, íþróttamannvirkja o.s.frv. lendi sérstaklega á íbúum eins hverfis umfram aðra.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Málflutningur Samfylkingarinnar í þessu mikilvæga hagsmunamáli hefur verið með hreinum ólíkindum. Samfylkingin hafði á sínum tíma forystu fyrir því að í Reykjavík var ónógt framboð lóða á alltof háu uppboðsverði, sem leiddi til þess að fáir áttu þess kost að byggja í Reykjavík og fjölgun íbúa í Reykjavík var mun minni en í nágrannasveitarfélögunum. Í síðasta lóðauppboði R-listans sáluga undir forystu Samfylkingarinnar var meðaltalsverð fyrir lóð undir einbýli 16 mkr. en hæstu verð voru yfir 20 mkr. Lóðaverð fyrir meðalstóra íbúð í fjölbýli var um 8 mkr. Það fasta lóðaverð sem nú hefur verið kynnt í Reykjavík, 11 mkr. fyrir lóð undir einbýli og 4,5 mkr. fyrir íbúð í fjölbýli, gerir þannig ráð fyrir mjög verulegri lækkun, enda við það miðað að verðið endurspegli raunkostnað við uppbyggingu nýrra íbúðahverfa.
Á þetta markmið, þ.e. nægt framboð lóða og sanngjarnt lóðaverð, hafa borgarfulltrúar beggja flokka og borgarstjóri lagt áherslu á allt þetta kjörtímabil og fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Nú hefur því markmiði verið náð, enda sýna tölur sem lagðar hafa verið fram á fundinum með afdráttarlausum hætti, að lóðaverð í Reykjavík er með því allra lægsta sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu og borgin því loks orðin samkeppnishæf við önnur sveitarfélög bæði hvað varðar lóðaframboð og verð. Sú fullyrðing fulltrúa Samfylkingarinnar að borgarstjóri hafi lýst því yfir að stefnan væri sú #GLað úthluta lóðum á gatnagerðargjöldum#GL á sér þannig enga stoð, enda hvergi að finna slík ummæli. Borgarstjóri hefur alltaf lagt áherslu á að lóðaverð endurspegli raunkostnað Reykjavíkur vegna uppbyggingar nýrra íbúðahverfa, lóðaverð væri ákveðið fyrirfram, framboð lóða verði stóraukið, ekki síst undir sérbýli og að hin illræmdu lóðauppboð R-listans væru afnumin. Bókun Samfylkingarinnar verður því varla skýrð með öðrum hætti en sem heldur ómálefnaleg tilraun til að breiða yfir eigin fortíð og getuleysi í skipulags- og lóðamálum í Reykjavík.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna óska bókað:

Vegna bókunar meirihlutans er rétt að taka fram að síðasta lóðauppboð var ákveðið með atkvæðum Samfylkingar og Framsóknarflokks en Vinstri græn stóðu ekki að þeirri aðferð.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Ef eitthvað er ómálefnalegt í umræðunni um lóðaúthlutun Reykjavíkurborgar þá er það málflutningurinn í bókun meirihlutans.

13. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 28. f.m. um úthlutun lóða í Úlfarsárdal með nánar tilgreindum skilmálum. R07020072
Vísað til borgarstjórnar.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 9. þ.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um lóðaverð, sbr. 11. lið í fundargerð borgarráðs 3. þ.m.
Jafnframt lagt fram, ódagsett, bréf skipulags- og byggingarsviðs varðandi málið. R07020072

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra menntasviðs frá 18. f.m., tillaga að nýju skipuriti menntasviðs Reykjavíkurborgar.
Samþykkt. R06080006

16. Lögð fram að nýju fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar frá 26. f.m. um áfangaheimili fyrir heimilislausa við Njálsgötu, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. f.m.
Borgarstjóri gerði grein fyrir fyrirhuguðum kynningarfundi með íbúum. R07040022

17. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 4. þ.m., sbr. bókun velferðarráðs 25. f.m., um átak í málefnum geðfatlaðra. R06100189

Borgarráð fagnar vilja félagsmálaráðuneytisins að fela Reykjavíkurborg að framkvæma stórátak í uppbyggingu búsetu og þjónustu fyrir geðfatlað fólk sem snertir u.þ.b. 80 einstaklinga í Reykjavík. Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja til að vinna þetta verkefni af metnaði, framsýni og í samvinnu við notendur þjónustunnar.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 3. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 25. f.m., um móttöku flóttafólks í Reykjavík. R05060040

19. Lagt fram bréf lögfræðings skrifstofu borgarstjórnar frá 9. þ.m., þar sem lagðar eru til nánar tilgreindar breytingar á kjörskrá. R06090090

20. Lögð fram að nýju drög frá 2. þ.m. að samningi milli hjúkrunarheimilisins Eirar og Reykjavíkurborgar um samstarf, samvinnu og verkaskiptingu vegna framkvæmda og rekstrar öryggisíbúða og þjónustu- og menningarmiðstöðvar í Spönginni í Grafarvogi.
Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga formanns borgarráðs:

Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi samning við Eir hjúkrunarheimili ses., um úthlutun byggingarréttar fyrir öryggisíbúðir í Spönginni og samstarf, samvinnu og verkaskiptingu vegna framkvæmda og rekstrar öryggisíbúða og þjónustu- og menningarmiðstöðvar í Spönginni í Grafarvogi.
Formanni borgarráðs og skrifstofustjóra stjórnsýslu- og starfsmannasviðs falið að undirrita samninginn f.h. Reykjavíkurborgar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R04030045
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Samfylkingin fagnar fyrirhugaðri uppbyggingu öryggisíbúða í Spöng og ekki síður að Reykjavíkurborg ætli að byggja þjónustu- og menningarmiðstöð sem hefur verið í undirbúningi vel á annað ár. Búið er að taka af allan vafa og misskilning varðandi fyrirhugaða uppbyggingu þar sem miðstöðin verður sett í útboð og borgin sjálf mun framkvæma og reka miðstöðina, fyrir það þakkar Samfylkingin.

21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar frá 7. þ.m. yfir styrkumsóknir er borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R07010031
Samþykkt að styrkja Samtök um barna- og unglingaleikhús - ASSITEJ Ísland - um kr. 100.000.
Umsókn Golfklúbbs Bakkakots vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

22. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfissviðs frá 24. f.m., sbr. samþykkt umhverfisráðs 23. s.m., tillaga að launum nemenda Vinnuskólans sumarið 2007. Janframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu frá. 8. þ.m. um tillöguna. R04040041
Samþykkt.

23. Lagt fram bréf lögfræðings Orkuveitu Reykjavíkur frá 2. þ.m. um greinargerð, vegna endurnýjunar á eldri lögnum, frá framkvæmdastjóra veitna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, send til fróðleiks. R07050013
Vísað til framkvæmdaráðs.

24. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Háskóla Reykjavíkur frá 4. þ.m. um að kom upp litlu sýningarsvæði í sumar með teikningum og myndum af nýbyggingu skólans upp af Nauthólsvík. R03030023
Samþykkt.

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag, um sölu á fasteignum að Grandagarði 2 til Inn Fjárfestingar ehf.:

Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að samningi við Inn Fjárfestingu ehf. um sölu Reykjavíkurborgar á fasteignum Reykjavíkurborgar að Grandagarði 2 til Inn Fjárfestingar ehf.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07030093
Samþykkt.

26. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2006. R07010080
Vísað til borgarstjórnar.

27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags.í dag:

Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi tilboð Þinghús ehf. um sölu á hlut borgarinnar í Máttarstólpum ehf.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07050060
Samþykkt.

28. Lagðir fram undirskriftarlistar, þar sem skorað er á borgaryfirvöld að beita sér fyrir að Café Rosenberg fái að halda áfram mikilvægu hlutverki í íslensku tónlistarlífi. R07040086

29. Lagt fram bréf formanns Korpúlfa frá 2. maí um húsnæðismál fyrir félagið. R05040071
Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálaráðs.

30. Lögð fram viljayfirlýsing menntamálaráðherra, borgarstjórans í Reykjavík og rektors Listaháskóla Íslands, dags. 7. þ.m., þar sem kveðið er á um sérstök framlög til skólans vegna húsnæðismála og að Reykjavíkurborg mun leggja Listaháskóla Íslands til lóð í Vatnsmýri. R07050025
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð átelur vinnubrögð meirihluta borgarstjórnar við úthlutun lóðar til Listaháskóla Íslands í Vatnsmýri. Allar borgir með sjálfsvirðingu búa bæði vel að Listaháskóla og Náttúrufræðisafni. Hér er þessum stofnunum hins vegar stefnt hvorri gegn annarri með því að úthluta LHÍ lóð sem þegar er bundin Náttúrufræðisafni í skipulagi. Þetta er gert án nokkurrar umræðu í skipulagsráði eða borgarráði og ber vott um gerræðisleg vinnubrögð.
Vinstri græn leggja og hafa alltaf lagt áherslu á að vel sé búið að Listaháskóla Íslands. Yfirvöld menntamála hafa hins vegar um langt skeið dregið lappirnar í málum skólans enda þótt borgaryfirvöld hafi verið öll af vilja gerð að finna skólanum viðeigandi stað. Yfirlýsingar stjórnenda LHÍ gefa til kynna að skólinn vilji fremur vera í miðborginni og þá væri stjórnvöldum í lófa lagið að bjóða fram svonefndan stjórnarráðsreit, þar sem skólinn er nú þegar með hluta af sinni starfsemi. Það er lítilmannlegt að tefla þessum mikilvægu menningarstofnunum, Listaháskólanum og Náttúrufræðistofnun, saman í kapphlaupi um sömu lóð og efna þannig til ófriðar. Borgaryfirvöld eiga að biðja Náttúrufræðistofnun afsökunar á framferði sínu, gefa henni jafnframt skýlausa yfirlýsingu um að lóðamál hennar verði leyst á farsælan hátt á sama svæði og setja málið að öðru leyti í rétt og lögformlegt skipulagsferli. Þá telja Vinstri græn að það sé óviðeigandi að Listaháskólanum sé nánast selt sjálfdæmi um að selja þessa mikilvægu lóð á viðkvæmum stað.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Um langan tíma hefur legið fyrir þörf Listaháskólans vegna húsnæðismála og framtíðarstaðsetningu skólans. Borgaryfirvöld og menntamálaráðuneytið hafa sameiginlega leitað lausna fyrir skólann, en án árangurs. Það er því mikið ánægjuefni að loks hafi fundist lausn sem allir aðilar eru ánægðir með. Sú niðurstaða getur orðið grunnur að enn öflugra og metnaðarfyllra menningarlífi í borginni. Viðbrögð Vinstri grænna vekja furðu, enda liggur hvorki fyrir formleg lóðaúthlutun né lóðarfyrirheit um þessa lóð. Að auki er minnt á að Náttúrufræðistofnun heyrir undir menntamálaráðuneytið sem er aðili að því samkomulagi sem hér liggur fyrir. Borgaryfirvöld lýsa sig hins vegar að sjálfsögðu reiðubúinn að finna framtíðarstaðsetningu fyrir Náttúrufræðistofnun, verði eftir því óskað.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Bókun meirihlutans gefur til kynna að borgaryfirvöld hafi séð að sér og viðurkenni nú að þau hafi hlaupið á sig með því að ráðstafa lóð sem staðfest skipulag gerir ráð fyrir að sé undir Náttúrufræðihús. Gagnrýni VG á vinnubrögð meirihlutans hefur greinilega haft áhrif.

Fundi slitið kl. 12:45

Björn Ingi Hrafnsson
Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Kjartan Magnússon Sigrún Elsa Smáradóttir