Borgarráð - Fundur nr. 4973

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, var haldinn 4973. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09.40. Viðstaddir voru: Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sif Sigfúsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Margrét Sverrisdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir framtalsnefndar frá 16. janúar og 13. febrúar. R07010006

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 27. janúar. R07010007

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 26. febrúar. R07010012

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 8. febrúar. R07010016

5. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 22. febrúar og 2. mars. R07010017

6. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 7. mars. R07010025
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 26. febrúar. R07010028

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 2. febrúar. R07010029

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R07020155

10. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisleyfi, dags. í dag, alls 5 mál. R07010077

11. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 21. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi svæðis Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð. R05090073
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 23. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. janúar sl., um tillögu að breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins varðandi nýjan byggðareit austan Grafarholts. Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum. R07020085

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 7. þ.m., sbr samþykkt skipulagsráðs s.d. um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi reits 1.190.2 Njálsgötureits, sem afmarkast af Frakkastíg, Bergþórugötu, Vitastíg og Njálsgötu. R07020162
Samþykkt.

14. Lagt fram að nýju bréf borgarstjóra frá 27. f.m. varðandi leigu á skrifstofuhúsnæði að Borgartúni 10-12 fyrir framkvæmdasvið, skipulags- og byggingarsvið, umhverfissvið o.fl., sem og sölu á fasteignunum að Borgartúni 1, Borgartúni 3, Skúlatúni 2 og Hverfisgötu 14-14a. Jafnframt lögð fram að nýju greinargerð sviðsstjóra framkvæmdasviðs, dags. 26. f.m., og drög að leigusamningi og kaupsamningi við Höfðatorg ehf., ódags.
Borgarráð samþykkir samninginn með 4 samhljóða atkvæðum. R07020171

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og F-lista óska bókað:

Við teljum að eðlilegra hefði verið að leita tilboða í langtímaleigusamning vegna húsnæðis sviðanna þriggja. Jafnframt hefði þurft að bera saman kosti við leigu annars vegar og hins vegar að borgin ætti húsnæðið sjálf. Vinnubrögðin við undirbúning málsins vekja tortryggni.

15. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um byggingu Borgarhúss, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. mars sl. R07020171

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Það svar sem hér liggur fyrir er alger útúrsnúningur á staðreyndum málsins. Því er t.d. ekki svarað með beinum hætti hver tók þá ákvörðun að ræða beint við Eykt, en draga má þá ályktun að það hafi verið borgarstjóri. Málið kom aldrei til kynningar í borgarráði og í október á sl. ári spurðu fulltrúar Samfylkingar í framkvæmdaráði um málið, en fátt varð um svör. Þá höfðu fulltrúar Samfylkingarinnar haft af því spurnir að byrjað væri að ræða við Eykt án þess að málið hefði verið kynnt borgarráði. Af fyrri meirihluta var unnið í málinu fyrir opnum tjöldum og borgarráði haldið upplýstu allan tímann. Sú ákvörðun á þeim tíma að fara í viðræður um byggingu Borgarhúss við Lækjargötu, byggði á því mati að með því sýndu borgaryfirvöld gott fordæmi með styrkingu miðborgarinnar og flutningi stofnana þangað. Ef nýr meirihluti er ekki sammála því að borgaryfirvöld eigi að ganga á undan með góðu fordæmi og styrkja miðborgina, hefði átt að kynna þá ákvörðun. Ef Lækjargata 12, var ekki talin henta hefði verið eðlilegt að bjóða verkið út. Hér er samið beint um 4 milljarða á 25 árum og eignir borgarinnar seldar án þess að kannað sé hvað markaðurinn er tilbúinn til að greiða. Athygli er vakin á því að þær eignir sem seldar eru standa á lóðum þar sem skipulag gerir ráð fyrir meira byggingamagni. Engin tilraun er gerð til að meta þann byggingarrétt til hækkunar á verði. Meðan unnið er að málum með þessum hætti og kjörnir fulltrúar leyndir upplýsingum er ekki hægt að ætlast til þess að samstaða náist. Vinnubrögðin í þessu máli staðfesta enn og aftur óvönduð vinnubrögð þar sem samið er við einn aðila án útboðs. Með því eru hagsmunir borgarbúa ekki hafðir að leiðarljósi.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Vegna bókunar fulltrúa Samfylkingar vísa fulltrúar meirihluta í svör sem lögð eru fram á fundinum, en þar segir m.a.:
Eins og fram hefur komið heimilaði borgarráð á sínum tíma sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs og borgarverkfræðingi að taka upp viðræður við Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. um byggingu húss á horni Lækjargötu og Vonarstrætis undir starfsemi viðkomandi embætta. Það var gert í framhaldi af viðræðum við Fasteign ehf. og Eykt hf. sem þá var með í undirbúningi byggingu við Borgartún austan við Skúlatún 2 (núverandi Höfðatorg). Á þeim tíma kom aldrei fram tillaga í borgarráði um að fara í opið leiguútboð vegna þarfa viðkomandi embætta um leiguhúsnæði. Sú ákvörðun að fara í viðræður við þessa aðila byggði á auglýsingu eftir áhugasömum aðilum. Á þessari aðferð og þeirri sem nú er viðhöfð er enginn grundvallarmunur. Starfsfólk framkvæmdasviðs í samráði við sviðsstjóra umhverfissviðs og skipulagssviðs hafa kannað markaðinn, auk þess sem fjöldi aðila hefur haft samband og boðið fram húsnæði. Fram kemur í greinargerð sviðsstjóra framkvæmdasviðs að þegar fyrir lá að tveir valkostir væru taldir hagkvæmastir var farið í verðkönnun og tveir aðilar látnir keppa. Það er því gengið lengra nú í verðsamkeppni en gert var 2004. Það skýtur því skökku við að þeir kjörnu fulltrúar sem stóðu þannig að málum eins og hér er lýst að ofan, lýsi nú nánast sambærilegum vinnubrögðum sem forkastanlegum.
Þegar um er að ræða leigusamninga er ekki gert ráð fyrir útboði í útboðsreglum Reykjavíkurborgar.
Í þessu tilfelli var ekki talið skynsamlegt að fara útboðsleiðina. Erfitt er að vega og meta og bera saman tilboð þegar um slík leigukaup er að ræða. Enn flóknara verður að bera saman verð margra aðila þegar jafnframt er verið að selja eignir á saman tíma. Vegna langs aðdraganda málsins liggja fyrir upplýsingar um markaðinn og þá möguleika sem fyrir hendi eru. Núverandi meirihluti styður við uppbyggingu í miðborginni með margvíslegum hætti. Fyrirhugað hús sem R-listinn var í viðræðum við Fasteign ehf. um var miklu stærra en samþykkt skipulag gerði ráð fyrir. Í hagsmunaðilakynningu komu fram mikil mótmæli við fyrirhugaða uppbyggingu á reitnum. Þær fyrirætlanir sem uppi voru um að knýja fram byggingu miklu stærra húss en skipulag gerði ráð fyrir í óþökk nágranna með óleystum umferðar- og bílastæðamálum eru ekki taldar af núverandi meirihluta styðja við uppbyggingu í miðborginni. Þar fyrir utan er staðsetning við Höfðatorg einnig talin styðja við miðborgina okkar.

16. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar frá 5. þ.m. yfir styrkumsóknir sem borist hafa til borgarráðs, alls 3 mál. R07010031
Borgarráð samþykkir styrk til MS félagsins að fjárhæð 1.800 þúsund krónur.

Formaður borgarráðs lagði fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að borgarráð samþykki að Kvennréttindafélagi Íslands verði veittur styrkur að upphæð 1 (einni) milljón króna á ári til þriggja ára til þess að styrkja starfsemi félagsins og skrifstofu. Kvennréttindafélag Íslands er 100 ára á þessu ári og á alþjóða baráttudegi kvenna er vel við hæfi að borgarráð leggi réttindabaráttu kvenna lið með þessum hætti. R07030039

Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 5. þ.m., þar sem lagt er til að Grafarholtssókn verði úthlutað byggingarrétti fyrir kirkju á lóð nr. 8 við Kirkjustétt með nánar tilgreindum skilmálum. R04020001
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 3. þ.m., sbr. afgreiðslu velferðarráðs 28. f.m., varðandi á styrkbeiðni Sjálfsbjargar landsambands fatlaðra til íbúðabreytinga.
Borgarráð samþykkir niðurstöðu velferðarráðs. R07010227

19. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 28. f.m., varðandi úthlutun styrkja til velferðarmála. R07010228

20. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., um lækkun á gjaldskrá vegna veitinga í mötuneytum. R06080092
Samþykkt.

21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 28. f.m.: R07020167

Borgarráð samþykkir að framlengja gildistíma reglna um niðurfellingu fasteignagjalda af friðuðum húsum til ársloka 2007. Að þeim tíma liðnum verði hætt að beita heimild 7. gr. laga um húsafriðun nr. 104/2001 til niðurfellingar fasteignagjalda af friðuðum húsum, en eigendum friðaðra húsa þess í stað bent á möguleika á að sækja um styrki til Húsverndarsjóðs Reykjavíkur.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og F-lista:

Borgarráð samþykkir að framlengja gildistíma reglna um niðurfellingu fasteignagjalda af friðuðum húsum til ársloka 2007. Jafnframt felur borgarráð skipulagsráði að gera tillögu um framtíðarfyrirkomulag fasteignagjalda vegna friðaðra húsa að höfðu samráði við Árbæjarsafn og menningar- og ferðamálaráð.

Borgarráð samþykkir breytingartillöguna.

22. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 5. þ.m. um að lækkun virðisaukaskatts skili sér til viðskiptavina Reykjavíkurborgar.
Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra menntasviðs frá 6. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 5. s.m. um lækkun matarverðs í grunnskólum m.v. 1. mars. R07030022

23. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um framkvæmdir í Heiðmörk, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. mars sl. R07020100

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Vinstri grænir hafa lagt til í borgarráði að kannað verði hvort unnt sé að rifta samningi milli borgarinnar og Kópavogs vegna framkvæmda í Heiðmörk, sem ráðist var í án tilskilinna leyfa frá borginni og skemmda sem þar hafa verið unnar á gróðri. Fyrir liggur að Skógræktarfélag Reykjavíkur og fleiri aðilar hafa kært Kópavogsbæ fyrir brot á skógræktarlögum og ekki sér fyrir endann á þeirri málshöfðun. Það orkar því vægast sagt tvímælis að gefa út framkvæmdaleyfi við þessar aðstæður enda óvíst að það fáist staðist komi til frekari kærumála.
Þar sem framkvæmdaleyfi hefur nú verið gefið út er tillaga Vinstri grænna frá síðasta fundi dregin til baka.

24. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, sbr. 31. liður fundargerðar borgarráðs frá 15. febrúar:

Lagt er til að fyrirliggjandi þarfagreining fyrir menningarmiðstöð í Spöng verði kynnt í menningar- og ferðamálaráði, framkvæmdaráði og hverfisráði Grafarvogs. R04030045

Samþykkt.

25. Rætt um og kynnt uppbygging fyrir aldraða í Spöng. R04030045

26. Lögð fram skýrsla Capacent ráðgjafar, dags. í janúar 2007, um rekstur og stjórnun skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. R06070031

27. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 7. þ.m., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um menningarmiðstöð í Grafarvogi, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. febrúar sl. Jafnframt lögð fram viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Eirar hjúkrunarheimilis, um byggingu og rekstur þjónustu- og menningarmiðstöðvar og þjónustu- og öryggisíbúða í Reykjavík, dags. 18. október sl. R04030045

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Á næstu dögum ræðst hvort verkefnið er framkvæmanlegt. Þegar niðurstaða þessarar undirbúningsvinnu og viðræðna liggur fyrir verður óskað heimildar til að fara í formlegar viðræður við alla aðila um þátttöku í verkefninu. Samhliða því verður farið yfir fýsilegt form í rekstri, hugsanlega útboðsskyldu og annað sem liggja þarf fyrir áður en samið verður.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og F-lista óska bókað:

Á síðasta kjörtímabili hófst vinna við undirbúning menningarmiðstöðvar í Spöng og eru allir sammála um nauðsyn slíkrar uppbyggingar. Lykilatriði er þó að rétt sé að málum staðið, vinnubrögð séu gagnsæ og leitað hagstæðustu tilboða með útboðum. Enda er opinberum aðilum skylt að bjóða út svona framkvæmd. Í stað þess að standa rétt að málum er farið á bak við borgarráð og farið í beinar viðræður og vinnu með Eir um uppbyggingu menningarmiðstöðvar. Bygging menningarmiðstöðvar er klárlega útboðsskyld og af svari borgarstjóra má ráða að menn virðast á fullri ferð við að leita leiða til að semja beint við Eir og fara ekki í útboð. Borgarráð samþykkti byggingu, rekstur og uppbyggingu fyrir aldraða 5. október 2006. Þar var samþykkt að hefjast handa um uppbyggingu við Sléttuveg og í Spöng í samstarfi við Eir og Hrafnistu.
Þann 18. október undirritaði formaður borgarráðs viljayfirlýsingu um uppbyggingu sem fól í sér samstarf við Eir um byggingu menningarmiðstöðvar í Spöng. Ekkert stóð um menningarmiðstöð í samþykkt borgarráðs og því gengur viljayfirlýsingin lengra en samþykkt borgarráðs. Formaður borgarráðs undirritaði yfirlýsinguna því borgarstjóri taldist vanhæfur í málinu vegna formennsku í stjórn Eirar.
Viljayfirlýsing sem formaður borgarráðs undirritaði þann 18. október sl. fyrir hönd Reykjavíkur var án fyrirvara um samþykki borgarráðs, þrátt fyrir að í yfirlýsingunni komi fram skuldbindingar af hálfu borgarinnar og hefur ekki verið borin undir borgarráð, sem skv. sveitarstjórnarlögum er fjölskipað stjórnvald og fer ásamt borgarstjóra með framkvæmdastjórn borgarinnar. Fyrirvari um að framkvæmd viljayfirlýsingarinnar sé háð samþykki borgarráðs er marklaus og stenst ekki góða stjórnsýslu. Viljayfirlýsingin hefur ekki hlotið staðfestingu borgarráðs og heldur ekki hlotið staðfestingu stjórnar Eirar. Á þeim fimm mánuðum sem liðnir eru hefur verið unnið með Eir að hönnun og teikningum að menningarmiðstöð, þrátt fyrir að engin heimild hafi verið veitt til þess. Vinnubrögð í þessu máli standast enga skoðun og enn eina ferðina er farin sú leið að semja beint við einn aðila án útboðs.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarráðfulltrúar meirihlutans árétta að engir samningar hafa verið gerðir eða formlegar viðræður átt sér stað við Eir um uppbyggingu menningarmiðstöðvar í Spöng. Málið er því á undirbúningsstigi. Þetta kemur skýrt fram í svari borgarstjóra við fyrirspurninni. Bygging menningarmiðstöðvar tengist allri uppbyggingu fyrir aldraða í Spöng og því bæði nauðsynlegt og eðlilegt að geta hennar í viljayfirlýsingunni sem undirrituð var við Eir og er með öllum eðlilegum fyrirvörum. Í svari borgarstjóra kemur einnig fram eftirfarandi: „Eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar kom í ljós að ekki var samræmi milli efni samþykktar borgarráðs og viljayfirlýsingarinnar. Þar sem samþykkt borgarráðs fól í sér heimild til undirritunar viljayfirlýsingar um uppbyggingu í Spönginni var það álit lögfræðinga að viljayfirlýsingin sem slík stæði enda væri í henni fyrirvari um að framkvæmd hennar væri háð samþykki borgarráðs og stjórnar Eirar. Alltaf lá því fyrir að samningar, ef vinnan með Eir leiddi til slíkrar niðurstöðu, yrðu lagðir fyrir borgarráð til staðfestingar”.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Í fyrstu málsgrein viljayfirlýsingar sem formaður borgarráðs skrifaði undir við Eir stendur skýrum stöfum „að Eir taki að sér að byggja menningarmiðstöð”. Viðræður hafa staðið yfir í 5 mánuði og arkitekt Eirar hefur m.a. komið á fundi í skipulagsráði og kynnt menningarmiðstöð á vegum borgar og Eirar. Að halda því fram að engar viðræður og engir samningar séu í gangi eru einfaldlega ósannindi.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Bókun Samfylkingarinnar er hreinn útúrsnúningur, enda kemur það orðrétt fram í fyrstu málsgrein viljayfirlýsingarinnar að ,,Reykjavíkurborg og Eir, hjúkrunarheimili, lýsa yfir vilja sínum til að efla og byggja upp þjónustu fyrir aldraða í Reykjavík.” Hvorki hefur verið gengið til formlegra viðræðna né samninga á grundvelli þessarar viljayfirlýsingar. Þetta hefur verið upplýst ítrekað í borgarráði og er miður að fulltrúar minnihlutans skuli kjósa að rangtúlka þetta mál í stað þess að ræða það málefnalega.

28. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. f.m., sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. mars sl.:

Borgarstjóri leggur til við borgarráð að veittur verði 700.000 króna styrkur úr borgarráði til heimildamyndagerðar um Steinunni Þórarinsdóttur myndhöggvara.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06100288
Samþykkt.

29. Lagt fram bréf sviðsstjóra menntasviðs frá 7. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 5. s.m. um aukna styrki til einkareknu grunnskólanna. R07030027
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og F-lista óska bókað:

Með hækkun framlaga til einkarekinna grunnskóla þyrfti menntaráð að skilgreina betur faglegar kröfur sem borgin gerir til þeirra, varðandi eftirlitsskyldu, fjárhagslega ábyrgð, og faglega ábyrgð er varðar ákvæði aðalnámskrár, sérkennslu og markmið sem borgin setur sér um skóla án aðgreiningar.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Líkt og fulltrúar meirihlutans í menntaráði, leggja borgarráðsfulltrúar meirihlutans áherslu á „að hið aukna framlag nýtist til þess að jafna aðstöðu nemenda í Reykjavík og jafnframt til þess að efla faglegt skólastarf einkarekinna grunnskóla. Skólarnir taki tillit til hins aukna framlags við ákvörðun skólagjalda og miði við að lækka þau sem næst 10#PR á þeim tíma sem tillagan tekur til eða eftir því sem aðstæður leyfa”.

30. Rætt um aðgerðir gegn svifryki, sbr. samþykkt umhverfisráðs frá 6. þ.m. R07030005

31. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Í framhaldi af fjölsóttum fundi á vegum íbúasamtaka 3. hverfis um mengunar- og umferðarmál í hverfinu, samþykkir borgarráð að skipa samráðshóp, með fulltrúum stjórnmálaflokkanna í borgarstjórn, íbúasamtakanna og hverfisráðs, til að leita viðunandi lausna á þeim vanda sem mikil og vaxandi umferð í gegnum hverfið skapar, bæði hvað varðar loft- og hávaðamengun og umferðaröryggi. Markmið með starfi hópsins verði að skapa víðtæka sátt um raunhæfar aðgerðir til að draga úr svifryks- og hávaðamengun í hverfinu, draga úr umferðarmagni og umferðarhraða og bæta þannig búsetuskilyrði í hverfinu. Með hópnum starfi embættismenn og sérfræðingar af umhverfis-, framkvæmda- og skipulagssviðum. R07030005

Vísað til meðferðar umhverfisráðs.

32. Borgarráð samþykkir að fela ÍTR, í samstarfi við umhverfisráð og skipulagsráð, að taka við verkefni stýrihóps um þróun og uppbyggingu í Laugardal enda þarf að gæta að sérstöðu Laugardalsins sem græns útivistarsvæðis og tryggja að öll þróun og skipulag falli vel að umhverfinu. Jafnframt verði haft samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila á svæðinu, m.a. með samráði við íbúasamtök Laugardals. Jafnframt verði ÍTR falið að gera nýjan þjónustusamning um Fjölskyldugarðinn. R04100203

33. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúar FAAS, Félags áhugafólks og aðstandenda alzheimerssjúkra hafa ritað borgaryfirvöldum bréf og átt fundi með borgarstjóra og formanni velferðarráðs og óskað eftir atbeina þeirra um útvegum húsnæðis fyrir dagþjálfun alzheimerssjúkra. Nýlega lýsti heilbrigðisráðherra því yfir að úthluta ætti 30 nýjum slíkum plássum á þessu ári. Því er spurt hvaða vinna sé í gangi til að leita eftir húsnæði fyrir dagþjálfun alzheimerssjúkra í Reykjavík. R06090097

34. Lagt fram bréf Menu ehf. móttekið 8. þ.m. um áfengisveitingaleyfi fyrir veitingastaðinn #GLSiggi Hall á Óðinsvéum#GL.
Samþykkt að veita bráðabirgðaleyfi til áfengisveitinga til 1. júlí nk. R05030121

Fundi slitið kl. 13:05

Björn Ingi Hrafnsson

Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Sif Sigfúsdóttir Steinunn Valdís Óskarsdóttir