Borgarráð - Fundur nr. 4971

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, var haldinn 4971. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:35. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Margrét K. Sverrisdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 26. janúar. R07010010

2. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Hlíða frá 14. nóvember, 5. desember og 8. og 29. janúar. R07010012

3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Miðborgar frá 14. nóvember, 5. og 13. desember og 14. febrúar. R06010016

4. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 21. febrúar. R07010025
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R07010208

6. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisleyfi, dags. í dag, alls 2 mál. R07010077

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 14. s.m., um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi í Sogamýri, Suðurlandsbraut 56-72. R07020113
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 14. s.m., um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi á lóð nr. 1-3 við Brúarvog. R07020114
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 14. s.m., um breytt deiliskipulag á svæði Víkings að Traðarlandi 1. R06020023
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf sviðsstýru umhverfissviðs frá 19. þ.m., þar sem hún óskar lausnar frá störfum frá og með 1. apríl nk. R07020123
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Sviðsstýru umhverfissviðs Ellý K. Guðmundsdóttur eru þökkuð góð störf í þágu borgarinnar og borgarbúa undanfarin ár. Henni er óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Við hörmum að enn einn sviðsstjóri borgarinnar skuli kjósa að hætta störfum hjá Reykjavíkurborg og fara annað. Með brotthvarfi sviðsstjóra umhverfissviðs hafa sex sviðsstjórar hætt störfum á átta mánuðum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknaflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er fagnaðarefni að stjórnendur hjá Reykjavíkurborg skuli vera eftirsóttir starfskraftar. Hluti ástæðunnar er vonandi að ?eiri hafa fengið tækifæri til að þroskast og vaxa af störfum sínum hjá borginni, enda treyst fyrir mikilvægum verkefnum sem hafa þróast hratt á undanförnum árum. Það er beinlínis stefna borgarinnar að starfsfólk hennar geti nýtt hæfileika sína til fullnustu og þroskast áfram. Ef það leiðir til þess að starfsfólki eru boðin önnur störf sem hæfa menntun þeirra og reynslu, hljóta borgaryfirvöld að samgleðjast. Reykjavíkurborg mun hér eftir sem hingað til, laða til sín hæft starfsfólk, einsog sannast hefur á því afburðarfólki sem ráðið hefur verið til starfa síðustu misseri.
Ellý Katrín Guðmundsdóttir hefur með elju og alúð stýrt stórum og mikilvægum málaflokkum fyrir borgina og gert það með miklum sóma. Hún hefur stýrt breytingaferli hjá borginni í umhverfismálum, og á stóran þátt í því að hafa gert þeim málaflokki hátt undir höfði í umræðunni og innan borgarkerfisins. Borgarráð þakkar henni vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

11. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 14. þ.m. um beitingu dagsekta til að knýja fram verklok utanhúss vegna byggingarleyfisframkvæmda á lóð nr. 9 við Vesturhús. R03060003
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Sorpu bs. frá 12. þ.m., sbr. samþykkt SSH í október sl. um breytingu á stofnsamningi Sorpu bs. R06100315
Samþykkt.

13. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 17. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 10. s.m. um reglur um styrkúthlutanir úr forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar. R07010164
Samþykkt.

14. Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg efni til samstarfs við Djíbútí, höfuðborg samnefnds ríkis í Afríku með það að markmiði að miðla þekkingu og reynslu í uppbyggingarverkefnum á sviði stjórnkerfis, framkvæmda og þjónustu.
Lagt er til að skrifstofu borgarstjóra verði falið að útfæra samstarfið og leita eftir samstarfi, m.a. við utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun. Tekin verði afstaða til verkefna á grundvelli kostnaðarmats en ráð fyrir því gert að framlag Reykjavíkurborgar verði í formi sérfræðiþekkingar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07020129
Samþykkt.

15. Lagt fram svar borgarstjóra frá 19. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar varðandi vetnisverkefni og önnur verkefni um hreina orku á vegum Reykjavíkurborgar, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. febrúar sl. R04060016

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Borgarráð samþykkir að láta kortleggja það starf sem unnið er í Reykjavík, bæði innan og utan borgarkerfisins í málefnum innflytjenda. Árangur og framkvæmd þess starfs sem unnið er verði metinn, unnin þarfagreining og ítarleg heildarstefnumótun fyrir Reykjavíkurborg ásamt aðgerðaáætlun út kjörtímabilið. Fulltrúar í verkefnisstjórn: Í verkefnastjórninni eigi sæti tveir fulltrúar borgarráðs, auk formanns mannréttindanefndar sem verði formaður verkefnisstjórnarinnar. Mannréttindaráðgjafi starfi jafnframt með verkefnisstjórninni, auk þess sem gert er ráð fyrir að hún geti óskað eftir sérfræðiaðstoð frá öðrum sviðum borgarinnar eftir því sem þurfa þykir. Verkefnastjórninni ber að kalla til aðila til að starfa með stjórninni t.d. frá sviðum borgarinnar auk annarra sem mikilvægt er að komi að vinnunni. Verkefnastjórnin, sem heyri undir skrifstofu borgarstjóra, ljúki vinnu sinni eigi síðar en í árslok 2007.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07020139
Samþykkt.
Tilnefningu í verkefnisstjórn frestað.
Jafnframt samþykkt að vísa tillögu Vinstri grænna, sbr. 26. liður fundargerðar borgarráðs frá 15. febrúar sl., til verkefnisstjórnarinnar.

17. Lagt er til við borgarstjórn að Áslaug Friðriksdóttir verði kosin varamaður á landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga í stað Helgu Jónsdóttur sem misst hefur kjörgengi vegna brottflutnings. R05020106
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 19. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 14. s.m., um breytingar á tekju- og eignarmörkum vegna félagslegra leiguíbúða. R03010083
Samþykkt.

19. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 29. f.m. um erindi Snorra B. Arnarsonar frá 17. s.m. um gerð lóðarleigusamnings um lóð nr. 6 í Lambhagalandi. R06080019
Samþykkt.

20. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 16. þ.m., þar sem lagt er til að Símanum hf. verði úthlutað byggingarrétti, fyrir tækjahús og fjarskiptabúnað, á lóð nr. 49 við Friggjarbrunn með nánari skilmálum. R06040011
Samþykkt.

21. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 16. þ.m., sbr. samþykkt framkvæmdaráðs 12. s.m. varðandi sölu á Þórðarhöfða 10. R07020133
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og F-lista óska bókað:
Við teljum ekki eðlilegt að selja lóðina að Þórðarhöfða 10 fyrr en endanlegt skipulag liggur fyrir.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Rétt er að taka fram að upphæð tilboðsins er breytilegt eftir því nýtingarhlutfalli sem endanlega verður á lóðinni. Hagsmunir borgarinnar eru því að fullu tryggðir þótt endanlegt skipulag liggi ekki fyrir.

22. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 16. þ.m. ásamt drögum að afsali fyrir Aðalstræti 10. R05010198
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

23. Lagt fram bréf Minjaverndar frá 12. þ.m. ásamt drögum að leigusamningi milli Reykjavíkurborgar og Minjaverndar hf. um hluta húseignarinnar Aðalstræti 10. R05010198
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

24. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs frá 12. þ.m. ásamt skýrslu Ásrúnar Kristjánsdóttur um hönnunarmál í Reykjavík og nýtingu hússins að Aðalstræti 10. R05010198

25. Lögð fram umsögn lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs um frumvarp til vegalaga. R07020053
Samþykkt í meginatriðum.

26. Borgarráð samþykkir að tilnefna skrifstofustjóra borgarstjórnar í stjórn fiskimannasjóðs Kjalarnesþings. R07020138

27. Borgarráð samþykkir að kjósa Birnu Jónsdóttur fulltrúa í hverfisráð Grafarholts og Úlfarsárdals í stað Steinars Björnssonar, sem látið hefur af störfum vegna brottflutnings. R06060158

28. Borgarráð samþykkir að kjósa Einar Örn Ævarsson fulltrúa í velferðarráð í stað Steinars Björnssonar, sem látið hefur af störfum vegna brottflutnings. R06060052

29. Rætt um framkvæmdir í Heiðmörk vegna vatnslagnar á vegum Kópavogskaupstaðar. R07020100

30. Lögð fram tillaga að samgönguáætlun 2007-2018. Jafnframt lögð fram skýrsla; tillögur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um forgangsröðun vegaframkvæmda, dags. í febrúar 2007. R06030005

Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu, sbr. tillögur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um forgangsröðun vegaframkvæmda:

Tillaga að vegaáætlun 2007-2018 - samantekt
Vegir í grunnneti Kostnaður millj. kr. Fjármagn millj. kr. 2007-2010 millj. kr. 2011-2014
millj.kr. 2015-2018 millj.kr. Alls
Verkefni á höfuðborgarsv. 78.000 28.686 8.736 9.950 10.000
-- símafé* 9.320 9.320
Verkefni á landsbyggð 67.000 35.504 12.574 11.430 11.500
-- símafé 5.680 5.680
Áður framkv./afborganir -80
Jarðgangaáætlun 40.000 37.792 11.392 13.200 13.200
Landsvegir í grunnneti 14.000 2.110 240 670 1.200
Samtals 206.000 125.807 50.047 37.480 38.200

Framkvæmdakostnaður utan 10.225 11.200 11.360 32.785
grunnnets, tengivegir, þjóðgarðar, reiðvegir, o.fl.
Nánast ekkert á höfuðborgarsv.

´´Sérstök fjáröflun´´** 9.500 23.800 12.000 45.300

Framkvæmdir alls 69.772 48.680 49.560 168.012
*Þar af Sundabraut 8.000 millj.kr.
**Þar af Sundabraut 12.000 millj. kr. 2011-2014

Hlutur höfuðborgarsv. með Sundabr. 18.056 21.950 10.000 50.006
Hlutur höfuðborgasv. #PR 25,9#PR 45,1#PR 20,2#PR 29,8#PR

Tillögur sveitarfélaga á höfuðb.sv. (án Sundabr.) 21.400 17.000 16.400 54.800

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögur:
Borgarráð Reykjavíkur samþykkir að leggja til eftirfarandi breytingar og athugasemdir á samgönguáætlun sem nú er til umfjöllunar á Alþingi:

1. Fjárveiting í mislæg gatnamót við Miklubraut og Kringlumýrarbraut (3.350 mkr.) falli út.
2. Fjárveiting í liðinn “Hljóðvist, gangandi, hjólandi, almenningssamgöngur” verði 1.800 millj. kr. Með því verði ráðist í stóraukinn forgang strætisvagna í umferðinni, s.s. á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, Lækjargötu og Hverfisgötu. Jafnframt verði komið upp rafrænu upplýsingakerfi á biðstöðvum. Þá verði unnið að auknu umferðaröryggi í hverfum, einkum í kringum grunnskóla og leikskóla. Auk þess verði aðstæður gangandi og hjólandi bættar og m.a. unnin áætlun um reiðhjólabrautir í hverfum.
3. Fjárveiting í liðinn “Langahlíð-Stakkahlíð” verði hækkuð um 2.000 mkr.
4. Mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar verði tekin út, og fjárhæðin, 630 mkr. flutt á “ófyrirséð”.
5. Lögð verði áhersla á að Öskjuhlíðargöng verði sett í forgang vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu.
6. Fjárveitingu vegna Mýrargötu verði flýtt og tryggt að hún haldist í hendur við uppbyggingu Mýrargötu-/Slippasvæðis á fyrsta tímabili samgönguáætlunar.
7. Vakin verði athygli á að skv. aðalskipulagi Reykjavíkur er ekki gert ráð fyrir Reykjavíkurflugvelli í núverandi mynd nema til ársins 2016 en samgönguáætlun gerir enga fyrirvara hvað þetta snertir.

Borgarráðfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samgönguáætlun samgönguráðherra lítur algerlega fram hjá óskum og forgangsröðun sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, einsog hún birtist í skýrslu sem verið hefur til umfjöllunar í ráðum borgarinnar að undanförnu.

Því er spurt:
1. Hefur forgangsröðun sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ekki verið komið á framfæri við samgönguráðuneytið?
2. Hefur borgarstjóri komið áherslum Reykjavíkurborgar í samgöngumálum á framfæri við samgönguráðherra?
3. Hefur verið lögð áhersla á örugga fjármögnun Sundabrautar í einum áfanga alla leið í samskiptum við samgönguráðuneytið?
4. Hefur verið lögð áhersla á Mýrargötustokk í samskiptum við samgönguráðuneytið?
5. Hefur verið lögð áhersla á Miklubraut í stokk í samskiptum við samgönguráðuneytið?
6. Hefur verið lögð áhersla á Öskjuhlíðargöng í samskiptum við samgönguráðuneytið?
7. Hefur samgönguráðuneytinu og Vegagerðinni verið kynnt samþykkt borgarráðs um að hafna mislægum gatnamótum í Elliðaárdal?
8. Hefur verið lögð áhersla á almenningssamgöngur og stuðning við stofnstíga í samskiptum við samgönguráðuneytið?

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Meginatriði samgönguáætlunar sem snerta Reykjavík virðast vera eftirfarandi:
Enn er óviðunandi óvissa um fjármögnun Sundabrautar “í einum áfanga alla leið” þrátt fyrir að samgönguráðherra hafi ítrekað boðað að tekið verði af skarið um hvernig verði staðið að einkaframkvæmdahluta þessarar lykil-framkvæmdar.
Uppbygging hafnarsvæða við Mýrargötu og Örfirisey er í uppnámi því Mýrargötustokk er hvergi að finna á fjögurra ára áætlun.
Öskjuhlíðargöng sem ásamt Sundabraut er brýnasta stórframkvæmd á höfuðborgarsvæðinu er ekki á dagskrá fyrr en eftir 2018.
Mislæg gatnamót í Elliðaárdal, á móts við Bústaðaveg, er hins vegar á fjögurra ára áætlun þótt mánuðir séu liðnir frá því borgarráð hafnaði þeirri lausn alfarið.
Miklabraut í stokk, sem sett var í fyrsta forgang, að hálfu sveitarfélaganna er hvergi að finna, allt til ársins 2018.
Mislæg gatnamót á Miklubraut-Kringlumýrarbraut eru að “hálfu” á dagskrá áranna 2009-2010, afgangurinn bíður 2011-2014 og tengdar framkvæmdir sem eru nauðsynlegar til að þessi framkvæmd nái markmiðum sínum er hvergi að finna.
Enginn stuðningur er boðaður við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Enginn stuðningur er boðaður við stofnstíga til hjólreiða eða göngu sem fullgilds samgöngumáta.

- kl. 12.25 vék Margrét K. Sverrisdóttir af fundi

Gengið var til atkvæðagreiðslu um tillögur Vinstri grænna:
Tillögu 1 vísað frá með 4 atkv. gegn 1.
Tillögu 2 vísað frá með 4 atkv. gegn 1.
Tillögu 3 vísað frá með 4 atkv. gegn 1.
Tillögu 4 vísað frá með 4 atkv. gegn 1.
Tillögu 5 vísað frá með 4 atkv. gegn 1.
Tillögu 6 vísað frá með 4 atkv. gegn 1.
Tillögu 7 vísað frá með 4. atkv. gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarstjóri og bæjarstjórarnir á höfuðborgarsvæðinu hafa komið sér saman um tillögur um aukið fjármagn til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Þær tillögur eru vel ígrundaðar og byggja á mikilli vinnu.
Ófært er að samþykkja eða fella einstakar tilögur Vinstri grænna sem ýmist ganga lengra eða skemur en hinar sameiginlegu tillögur. Því er þeim vísað frá án efnislegrar afstöðu.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Furðu vekur að meirihluti borgarstjórnar skuli vísa frá öllum tillögum fulltrúa Vinstri grænna sem flestar voru kynntar á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag, enda þótt meirihlutinn sé efnislega sammála sumum þeirra. Fulltrúi Vinstri grænna styður að sjálfsögðu þær tillögur sem meirihlutinn lagði fram jafnvel þótt þær komi frá fulltrúum meirihlutans, enda ræður það ekki afstöðu Vinstri grænna hverjir flytja tillögu heldur efni málsins. Sérstaklega er athyglisvert að meirihlutinn vill ekki gera athugasemd við að Reykjavíkurflugvöllur er festur í sessi lengur en aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir og virðast því Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa snúið við blaðinu í flugvallarmálinu frá síðustu kosningum.

Borgarráð samþykkir tillögu borgarstjóra um forgangsröðun vegaframkvæmda:

Bókun borgarráðs:
Borgarráð tekur undir kröfur borgarstjóra og bæjarstjóranna á höfuðborgarsvæðinu, sem kynntar hafa verið á fundinum. Sérstaklega er fagnað tillögum um að flýta framkvæmdum við Öskjuhlíðargöng, flýta og setja aukið fjármagn í stokkalausnir á Miklubraut og að taka frá fé í hljóðvistarmál, almenningssamgöngur og göngu- og hjólreiðastíga. Heildarframlög til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu hafa um árabil verið of lág og brýnt er að bætt verði úr því strax.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar geta tekið undir að fjárveitingum sé flýtt til Öskjuhlíðargangna og að fjárveitingar til stokkalausna verði auknar fljótlega. Þetta er í samræmi við tillögur Samfylkingarinnar í samgöngumálum. Við gerum athugasemdir við að fjárveitingar séu inni í mislæg gatnamót í Elliðaárdal, sem gera ráð fyrir flutningi Elliðaánna, enda hefur borgarráð einróma hafnað þessari lausn. Einnig gagnrýnum við fjárveitingar í gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar sem gera ráð fyrir hálfum gatnamótum á kjörtímabilinu og ekkert tillit er tekið til nærliggjandi gatnamóta, í vestri og austri.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það er rangt sem kemur fram í bókun Samfylkingarinnar að það fé sem tekið er frá til að leysa umferðavanda á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, eigi að fara í #GLmislæg gatnamót í Elliðaárdal#GL og að til standi að #GLflytja Elliðaárnar#GL. Öllum slíkum tillögum var einróma hafnað í borgarráði. Eftir sem áður er nauðsynlegt að leysa umferðarvanda á þessum gatnamótum, t.d. með því að banna vinstribeygjur og beina umferð annað.
Þá er það einnig athyglivert að Samfylkingunni virðist heldur ekki vera kunnugt um að tillögur sem samþykktar voru á fundinum, gera ráð fyrir því að fjármagn til stokks undir Lönguhlíð verði sett á 1. tímabil og fjármagn til þeirra aukið.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Eftir stendur að eina tillagan sem kynnt hefur verið um mislæg gatnamót í Elliðaárdal gerir ráð fyrir flutningi Elliðaánna. Þó að tillögunni hafi verið hafnað í borgarráði samþykkti meirihluti framkvæmdaráðs að ráðast í þessa framkvæmd og þetta er eina lausnin sem borgaryfirvöld hafa séð við mislæg gatnamót við Elliðaárdal.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Ekki stendur til að leggja gatnamót af þeim toga sem Samfylkingin virðist föst í, á þessum gatnamótum.

31. Margét K. Sverrisdóttir leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð Reykjavíkur samþykkir að gera sérstakt átak til að draga enn frekar úr notkun nagladekkja í borginni. M.a. verði kannað hvort unnt sé að leggja sérstakt aukagjald á nagladekk til að draga úr notkun þeirra. Átakinu verði lokið fyrir 1. nóvember 2007.
Fólk með skráð lögheimili og ökutæki á landsbyggðinni yrði undanþegið slíku gjaldi. R06080114
Vísað til umhverfisráðs.

32. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á þeim rúma áratug sem Reykjavíkurlistinn stýrði málum í Reykjavík fjölgaði félagslegum leiguíbúðum frá því að vera 688 árið 1994 í 1518 árið 2006 fyrir utan þjónustuíbúðir. Á sama tíma var unnið markvisst að því að gera úthlutanir faglegar þar sem sameiginlegt úthlutunarteymi raðar umsækjendum í forgangsröð eftir félagslegum aðstæðum. Í síðustu viku sagði aðstoðarmaður borgarstjóra í fjölmiðlum: “Í sumar var ég persónulega í því að taka inn fólk í félagslega húsnæðiskerfið.”
Því vilja fulltrúar Samfylkingarinnar spyrja:
1. Hversu marga hefur aðstoðarmaður borgarstjóra tekið inn í félagslega húsnæðiskerfið?
2. Er verið að hverfa frá þeim vinnubrögðum að forgangsraða umsækjendum eftir aðstæðum og úthluta pólitískt í félagslegar leiguíbúðir í eigu borgarinnar?

Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi svar:
1. Aðstoðarmaður borgarstjóra hefur ekki úthlutað neinum félagslegum leiguíbúðum í félagslega húsnæðiskerfi borgarinnar. Það er hlutverk sérstaks úthlutunarhóps á vegum velferðarsviðs. Hins vegar hafa fjölmörg mál komið inn á borð hans þar sem einstaklingar og fjölskyldur í djúpri neyð hafa leitað upplýsinga og leiðbeininga varðandi umsóknir um leiguhúsnæði. Aðstoð af þessu tagi hefur verið veitt fúslega af hálfu skrifstofu borgarstjóra enda um verulega uppsafnaða þörf á aðstoð og upplýsingum að ræða.
2. Nei. R07020152

Fundi slitið kl. 12.45

Björn Ingi Hrafnsson
Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Steinunn Valdís Óskarsdóttir