Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2007, fimmtudaginn 8. febrúar, var haldinn 4969. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Margrét Sverrisdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 30. janúar. R07010011
2. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 7. febrúar. R07010025
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
3. Lögð fram fundargerð stjórnar samstarfsnefndar um löggæslumálefni frá 2. febrúar. R07010024
4. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 5. febrúar. R07010028
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R07010208
6. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisleyfi, dags. í dag, alls 3 mál. R07010077
7. Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa frá 29. f.m., sbr. embættisafgreiðslufund skipulagsfulltrúa 26. s.m., um kaup á lóðarskika við Skólavörðustíg 13. R06110002
Samþykkt.
8. Lagt fram svar borgarstjóra frá 7. þ.m. við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa F-listans varðandi þátttöku í kynnisferðum nefnda og ráða, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs 1. febrúar. sl. R07010165
9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 5. þ.m. um fjárveitingu til þjónustumiðstöðva vegna túlkaþjónustu:
Lagt er til að borgarráð samþykki hækkun á ramma þjónustu- og rekstrarsviðs sem nemur 1 mkr. á árinu 2007 vegna aukins kostnaðar þjónustumiðstöðva vegna túlkaþjónustu. Kostnaðaraukinn er til kominn vegna lækkunar Alþjóðahússins á afslætti til Reykjavíkurborgar með nýjum þjónustusamningi. Hækkunin verði tekin af liðnum ófyrirséð. R07020013
Samþykkt.
10. Borgarráð samþykkir að kjósa Ingunni Björk Vilhjálmsdóttur og Þórhildi Elínu Elínardóttur í skólanefnd Skóla Ísaks Jónssonar og til vara Gest Guðjónssson og Kristínu Hjálmtýsdóttur. R07010249
11. Lagt fram bréf sviðstjóra leikskólasviðs frá 31. f.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 17. s.m., um fjölgun skipulagsdaga í leikskólum. R07020018
Samþykkt.
12. Rætt um aðstöðu flugfélaga á Reykjavíkurflugvelli. R07010036
14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á deilskipulagi Höfðatorgsreits 1.220.1 og 1.220.2. R06070144
Samþykkt með 4 atkv. gegn 3.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óska bókað:
Umrædd tillaga um uppbyggingu við Höfðatorg hefur verið unnin í nánu samstarfi og samráði við hagsmunaaðila og íbúa á svæðinu. Mikið tillit hefur verið tekið til athugasemda og ábendinga, m.a. með því að byggingamagn á reitnum hefur verið minnkað um 12.300 fm., hæðir húsa lækkaðar og byggingarreitir færðir fjær núverandi íbúðabyggð. Allar þessar breytingar tryggja að skuggavarp þessarar tillögu er sambærilegt við það skuggavarp sem gildandi skipulag leiddi af sér. Skipulagstillagan er þannig afrakstur af löngu ferli sem að hafa komið skipulagsyfirvöld, hagsmunaaðilar og íbúar og telur meirihluti skipulagsráðs að hún sé mjög jákvæð fyrir þróun hverfisins og uppbyggingu á miðsvæði borgarinnar
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-listans óska bókað:
Við teljum alltof langt gengið í skipulagi á þessum reit. Breytt tillaga felur í sér aukningu á byggingamagni úr 44 þús. ferm. Í 83 þús. ferm. 19 hæða turn í norðaustur enda reitsins stingur mjög í stúf við byggðamynstur svæðisins. Að auki er reiturinn orðinn mun þéttbyggðari en við teljum skynsamlegt.
15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um deiliskipulag Héðinsreits, 1.130.1. R05070079
Samþykkt.
16. Lögð fram tillaga sviðsstjóra velferðarsviðs og aðstoðarframkvæmdastjóra Strætó bs. frá 5. þ.m., sbr. bréf borgarráðs frá 4. f.m. um framkvæmd 5. gr. reglna um ferðaþjónustu fatlaðra hvað varðar aukna þjónustu. R06110173
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Jafnframt samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum fjárveiting 11 mkr. af liðnum ófyrirséð, sbr. tillögu um kostnaðarauka.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í borgarráði mótmæla því harðlega að fallið verði frá fyrri samþykkt og ákvörðun borgarráðs um að fatlaðir geti pantað ferðir samdægurs með ferðaþjónustu fatlaðra frá og með 1. janúar 2007. Velferðarsvið og Strætó bs. fengu 13 mánuði til að undirbúa þjónustuna en nýttu ekki tímann sem skyldi. Um tæplega þriggja mánaða skeið hefur borgarráð óskað eftir skýringum og tillögum. Tillagan sem nú er samþykkt af meirihlutanum er ekki unnin í samráði við hagsmunasamtökin eins og beðið hafði verið um og er algerlega óásættanleg. Tillaga Velferðarsviðs segir að einungis fatlaðir í hjólastól fái þjónustu samdægurs, að hámarki 10 ferðir á mánuði frá og með 1. maí og að greitt verði aukalega 5oo kr. fyrir þær ferðir. Það er mat okkar að Velferðarsvið sniðgangi vilja borgarráðs sem óskaði eftir því að sviðið hæfi strax undirbúning um veitingu þjónustunnar í einhverjum mæli nú þegar. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gagnrýna að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunasamtök um málið eins og borgarráð óskaði eftir. Fulltrúum Sjálfsbjargar, Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags var kynnt sú tillaga sem hér er afgreidd og lýstu samtökin sig ósammála tilögunni. Fatlaðir eiga rétt á að fara ferða sinna þó ákvörðun um það að bregða sér af bæ hafi ekki verið tekin með dags fyrirvara.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúi F-lista óska bókað:
Það vekur furðu að borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna skuli greiða atkvæði gegn þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og mun bæta ferðaþjónustu fatlaðra með því ,,að frá og með 1. maí 2007 geti fatlaðir einstaklingar sem bundnir eru hjólastól og þeir einstaklingar sem vegna líkamlegrar fötlunar sinnar eru með öllu ófærir um að nýta sér almenna leigubíla og njóta þegar þjónustu í ferðaþjónustu fatlaðra pantað ferðir samdægurs”. Það fyrirkomulag, sem með þessari tillögu mun taka gildi 1. maí nk., verður þannig til mikilla bóta fyrir fatlaða og tryggir sannarlega bætta og aukna þjónustu við þennan hóp í samræmi við þann eindregna vilja borgarráðs að efla skuli ferðaþjónustu fatlaðra.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Þær breytingar sem samþykktar hafa verið á reglunum eru langt í frá fullnægjandi. Sú þjónusta sem hefst 1. maí nk. er til bóta, en langt frá fyrri samþykkt borgarráðs um samdægursþjónustu í ferðaþjónustu fatlaðra. Þá er einungis um þriðjungur notenda ferðaþjónustunnar sem munu geta notað sér þessa nýjung og er hópum fatlaðra því mismunað. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri – grænna munu áfram beita sér fyrir því að fyrri samþykkt borgarráðs komi að fullu til framkvæmda.
17. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 2. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 24. f.m., um öryggissíma, tilraunaverkefni í samvinnu við Öryggismiðstöð Íslands. R07020019
Samþykkt.
18. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 31. f.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 17. s.m., um úthlutun styrkja leikskólaráðs og þróunarsjóðs menntaráðs vegna leikskóla fyrir árið 2007. R07020017
19. Lagt fram bréf mannréttindaráðgjafa Reykjavíkurborgar frá 1. þ.m., sbr. samþykkt mannréttindanefndar 17. f.m., um styrki mannréttindanefndar fyrir árið 2007. R07010212
20. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar frá 29. f.m. yfir styrkumsóknir sem borist hafa til borgarráðs, alls 6 mál. R07010031
Borgarráð samþykkir að veita Karlakór Kjalarness styrk að fjárhæð kr. 200 þúsund og kór Félags eldri borgara kr. 100 þúsund.
21. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 30. f.m., um sölu byggingarréttar og gerð lóðarleigusamnings til Bauhaus AG. á lóðinni Lambhagavegur 2-4. R05110080
Samþykkt.
22. Borgarráð samþykkir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir, Oddný Sturludóttir og Sóley Tómasdóttir taki sæti í vinnuhópi sem undirbúa á viðburði til að minnast þess að 100 ár eru liðin frá að fyrstu konurnar tóku sæti í Bæjarstjórn Reykjavíkur. Hanna Birna Kristjánsdóttir verði formaður hópsins. R07010119
23. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 1. þ.m. ásamt viðauka við samkomulag Reykjavíkurborgar og Glitnis banka hf., dags. 16. mars 2006, um kaup á byggingarrétti á lóð nr. 41 við Borgartún. R05020085
Samþykkt.
24. Lagður fram 5. liður fundargerðar íþrótta- og tómstundaráð frá 26. janúar varðandi viðræður um þjóðarleikvang í sundi í Laugardalslaug o.fl. R03090010
Samþykkt.
- Kl. 12.10 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir tekur þar sæti.
25. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs, dags. í dag, um sölu á Fríkirkjuvegi 11, þar sem lagt er til að eignin verði seld hæstbjóðanda og að sviðsstjórum skipulags- og byggingarsviðs, umhverfissviðs og framkvæmdsviðs verði falið að eiga viðræður við kaupanda um hugsanlegar breytingar á lóðinni o.fl.
- Kl. 12.25 tekur Ólafur Kr. Hjörleifsson við fundarritun.
- Kl. 12.30 er gert hlé á fundi.
- Kl. 13.10 er fundi fram haldið og víkur þá Kjartan Magnússon af fundi. R04030143
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði samþykkja að taka hæsta tilboði að upphæð 600 milljónum króna, í húsið að Fríkirkjuvegi 11. Hugmyndir um notkun hússins eru metnaðarfullar og til þess fallnar að opna hluta hússins fyrir almenning. Meirihlutinn hefur einnig lagt til að taka upp viðræður við nýja eigendur um hugsanlegar breytingar á aðkomu og akstíg að húsinu. Samfylkingin leggur áherslu á að varlega verði farið í breytingar á garði eða lóð hússins sem skert geta aðkomu borgarbúa að svæðinu.
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskar bókað:
Áheyrnarfulltrúi F-lista styður heilshugar að borgarráð samþykki að fasteignin Fríkirkjuvegur 11 verði seld hæstbjóðanda. Fram kemur í greinargerð sem fylgir tilboðinu að tilboðsgjafi hyggst færa skipulag h ússins til upphaflegrar gerðar og lagfæra og endurnýja þiljur og skraut eftir þörfum. Þá verði sýning, tengd sögu hússins og fyrrum eigendum þess á jarðhæð hússins, opin almenningi. Umrætt tilboð er langtum fremra öðrum sem bárust, því það tryggir að húsinu verði sýndur sá sómi sem því ber sem einu sögufrægasta húsi miðborgarinnar. Of mörg slík hafa orðið stofnunum að bráð.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur alla tíð lagst gegn því að húseignin Fríkirkjuvegur 11 yrði seld úr eigu borgarinnar. Með því er Hallargarðurinn, grænt svæði í miðborg Reykjavíkur skertur og gengið gegn hagsmunum almennings. Meirihlutinn ljær ennfremur máls á að taka enn meira af garðinum og selja kaupanda hússins. Vinstri græn leggjast gegn þessari einkavæðingu.
Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna því metnaðarfulla tilboði sem borgarráð hefur nú samþykkt. Tilboðið mætir öllum þeim kröfum sem borgarráð setti með sölu hússins við Fríkirkjuveg 11. Ekki aðeins tryggir salan varðveislu þessa einstaka og merka húss, heldur verður saga þess og umhverfi virt, ásamt því sem húsið verður opnað almenningi með sýningu um athafnamanninn Thor Jensen, sem reisti húsið á árunum 1907 – 1908. Húsið mun þannig öðlast þann sess og þá stöðu sem því ber og Reykjavíkurborg og borgarbúar munu af því njóta góðs.
26. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. f.m. í máli nr. E-4573/2006, Kolbrún Svala Hjaltadóttir gegn Reykjavíkurborg. Jafnframt lagt fram minnisblað skrifstofustjóra lögfræðiskrifstofu frá 7. þ.m. varðandi málið. R06080154
27. Lögð fram viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 5. þ.m. um uppbyggingu stúdentaíbúða á næstu þremur árum. R07020026
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Því er fagnað að tillöguflutningi Samfylkingarinnar, um að gengið verði til viðræðna um byggingafélög námsmanna, hafi skilað áfram þótt enn sé nokkuð í land með að ganga megi frá formlegum vilyrðum um lóðir og byggingarrétt. Ekki er þó síður ástæða til að minna á stór verkefni Byggingarfélags námsmanna sem dregist hafa úr hömlu.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi F-lista óska bókað:
Viljayfirlýsingu borgarstjóra og formanns stúdentaráðs Háskóla Íslands um uppbyggingu stúdentíbúða er fagnað, enda er það í samræmi við yfirlýstan og sameiginlegan vilja borgarráðs. Eins og fram kemur í viljayfirlýsingunni eru aðilar sammála um að það sé sameiginlegt verkefni forsvarsmanna stúdenta og borgaryfirvalda að auka húsnæðisframboð fyrir stúdenta og má ætla að sá árangur geti náðst þar sem þegar hefur tekist að afmarka þrjú svæði til slíkrar framtíðaruppbyggingar.
28. Lagt fram bréf aðstoðarmanns fjármálaráðherra frá 31. f.m. varðandi lóð undir höfuðstöðvar lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að í viðræðum við lögreglu höfuðborgarsvæðisins verði rætt um fasta aðstöðu hverfislögreglumanna í öllum þjónustumiðstöðvum borgarinnar til að tryggja markvissa og sýnilega löggæslu. Slíkt fyrirkomulag hefur fyrir löngu sannað sig í Grafarvogi og Breiðholti.
Samþykkt að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingar til vinnuhóps um löggæslumálefni í Reykjavík.
Erindi aðstoðarmanns fjármálaráðherra vísað til meðferðar sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs og skrifstofustjóra framkvæmdasviðs. R07020009
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Því er fagnað að viðræður hefjist nú um byggingu höfuðstöðva fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Nýtt skipulag fyrir lögreglustöðvarreitinn við Hlemm felur í sér gríðarlega uppbyggingarmöguleika sem myndu rúma nýjar höfuðstöðvar lögreglunnar, fangelsi og raunar umtalsvert byggingarmagn að auki. Skipulagið sem var kynnt veturinn 2005-2006 sem hluti af andlitslyftingu svæðisins undir heitinu, Hlemmur plús, var vel tekið og fór athugasemdalaust í gegnum lögboðið auglýsingaferli. Það var samþykkt í skipulagsráði í júlí sl. en frestað og vísað til borgarstjóra á fundi borgarráðs 20. júlí. Það vekur þess vegna nokkra athygli að viðræðurnar nú skuli vera að frumkvæði lögreglunnar enda var borgarstjóra falið af borgarráði að taka upp viðræður við lögreglu og yfirvöld dómsmála fyrir meira en hálfu ári síðan.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarstjóri hefur í tvígang rætt þessi málefni við lögreglustjóra og auk þess mörg mikilvæg samskiptamál lögreglunnar og borgaryfirvalda. Vonandi taka borgarráðsfulltrúar gleði sína á ný í ljósi þessara upplýsinga.
29. Lagt fram minnisblað innri endurskoðunar, dags. 1. þ.m., um úttekt á Tónskóla grunnskólanna í Grafarvogi.
- Kl. 13:34 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum. R07010234
Tillaga í 2. lið niðurstaðna minnisblaðsins samþykkt.
30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 5. þ.m. um stofnun Skákakademíu Reykjavíkur:
Lagt er til að borgarráð samþykki að sett verði á laggirnar sjálfseignarstofnun, Skákakademía Reykjavíkur, sem vinni að eflingu skáklistarinnar í borginni með það að markmiði að Reykjavík verði orðin Skákhöfuðborg heimsins árið 2010. Skákakademía Reykjavíkur annist stefnumótun og framkvæmd í samráði við Skáksamband Íslands, skákfélögin í Reykjavík, grunnskóla í borginni, félagasamtök, einstaklinga og fyrirtæki. Framlag Reykjavíkurborgar til undirbúnings og stofnunar Skákakademíu Reykjavíkur verði kr. 3.000.000 en leitað verði þátttöku annarra þannig að heildarstofnfé nemi um kr. 20.000.000. Kostnaði Reykjavíkurborgar verði mætt með framlagi af #GLStyrkjum á vegum borgarráðs 09301#GL. Þá samþykkir borgarráð að verkefnisstjóri verði ráðinn til 6 mánaða til þess að undirbúa stofnun Skákakademíu Reykjavíkur ásamt starfshópi skipuðum fulltrúum menntaráðs og ÍTR, fulltrúa frá Skáksambandi Íslands og einum stórmeistara. Borgarstjóra verði falið að ráða verkefnisstjóra, skipa starfshópinn og leita eftir stofnframlögum frá samtökum og fyrirtækjum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07020021
Frestað.
31. Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að könnuð verði hagkvæmni þess að hefja snjóframleiðslu á skíðasvæðinu í Skálafelli.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07020042
Samþykkt og vísað til meðferðar íþrótta- og tómstundaráðs.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna getur fallist á að umræddri tillögu sé vísað til íþrótta- og tómstundaráðs en minnir jafnframt á tillögu Vinstri grænna í íþrótta- og tómstundaráði um skoðun á framtíðarskíðasvæði á höfuðborgarsvæðinu.
32. Lagt fram bréf F-lista frá 6. þ.m. varðandi breytingar á skipan áheyrnarfulltrúa í nefndir og ráð vegna tímabundinnar fjarveru Ólafs F. Magnússonar. R05080100
33. Borgarráð samþykkir að kjósa Jakob Hrafnsson í stjórn Reykjanesfólkvangs í stað Helenar Ólafsdóttur sem beðist hefur lausnar. R02070025
34. Áheyrnarfulltrúi F-listans leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
F-listinn óskar eftir upplýsingum um það hvort – og þá hvenær, sé fyrirhugað að gera áhættumat vegna fyrirhugaðrar byggðar á uppfyllingum við Örfirisey í ljósi landsigs og vaxandi gróðurhúsaáhrifa, en afleiðingar þeirra eru m.a taldar vera hækkuð sjávarstaða og flóðahætta.
Skriflegt svar óskast. R06090260
35. Áheyrnarfulltrúi F-listans leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. F-listinn óskar eftir að fá samrit af athugasemdum stjórnar Reykjanesfólkvangs til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðra háspennulagna um Reykjanesfólkvang, frá Hellisheiðarvirkjun til Straumsvíkur. Borgarbúar eiga mikilla hagsmuna að gæta þar sem þetta er eitt vinsælasta útivistarsvæði þeirra og fulltrúa Reykjavíkurborgar sem er jafnframt formaður stjórnar Fólkvangsins, ber að verja hagsmuni borgarbúa.
2. F-listinn óskar jafnframt eftir að fá upplýsingar um afstöðu stjórnar Reykjanesfólkvangs til fyrirhugaðra jarðvarmavirkjana innan fólkvangsins.
3. Á síðasta kjörtímabili samþykkti Reykjavíkurborg að tvöfalda fjárframlag til fólkvangsins og við afgreiðslu fjárhagsáætlunar var samþykkt tillaga Vinstri grænna um framlög til rannsókna á fólkvanginum.
Hvernig hyggst stjórn Reykjanesfólkvangs verja þessum fjárframlögum?
Skriflegt svar óskast. R06100223
Vísað til stjórnar Reykjanesfólkvangs.
36. Lögð fram drög að forgangsröðun vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu, dags. í febrúar 2007.
- Kl. 14.00 víkur Margrét Sverrisdóttir af fundi. R07020048
Vísað til frekari meðferðar skipulagsráðs, umhverfisráðs og framkvæmdaráðs.
37. Rætt um málefni vistheimilis barna að Breiðuvík. R07020046
38. Borgaráðsfulltrúi Vinnstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarfulltrúar Vinstri grænna leggja til að Borgarstjórn Reykjavíkur bregðist nú þegar við upplýsingum sem fram koma í nýrri skýrslu um loftslagsmál með því að stofna þverpólitískan starfshóp, loftslagsráð Reykjavíkurborgar, stjórnmálamanna og embættismanna í Reykjavík til að meta og endurskoða allar áætlanir borgarinnar í skipulags-, umhverfis- og samgöngumálum. Ráðið verði stofnað með það fyrir augum að unnt verði að hefjast nú þegar handa við að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík og bæta þannig umhverfi og vellíðan borgarbúa.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07020051
Frestað.
39. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í tilefni frétta af boðsferð formanns borgarráðs á vegum Kaupþings óska fulltrúar Samfylkingarinnar eftir upplýsingum og svörum frá borgarstjóra og formanni borgarráðs um hvað þeir telji eðlilegt í þessum efnum. Ennfremur óskum við eftir upplýsingum um hvort og þá hvenær borgarstjóri og formaður borgarráðs hafi þegið slíkar ferðir. R07020061
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er sjálfsagt að svara fyrirspurninni með skriflegum hætti, og er þá sjálfsagt að kanna hvernig þessum málum hefur verið háttað síðastliðin tólf ár hjá þeim sem gengt hafa embættum þessum auk forseta borgarstjórnar.
40. Lagt fram bréf Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, dags. í dag, þar sem tilkynnt er að hún taki við starfi oddvita borgarstjórnarflokks Samfylkingar í feðraorlofi Dags B. Eggertssonar. R07020062
41. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 2. október sl. varðandi heimild til gerðar ISDA mastersamninga. Jafnframt lögð fram umsögn sviðsstjóra fjármálasviðs frá 5. þ.m. um málið. R06100093
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 14:35
Björn Ingi Hrafnsson
Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir