Borgarráð - Fundur nr. 4966

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2007, fimmtudaginn 11. janúar, var haldinn 4966. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:40. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Kjartan Magnússon. Jafnframt sat fundinn Margrét Sverrisdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 28. desember. R06010014

2. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 1. og 27. desember. R06010018

3. Lögð fram fundargerð mannréttindanefndar frá 3. janúar. R07010020

4. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 10. janúar. R07010025
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
Björn Ingi Hrafnsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.

5. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 20. desember. R06120055

6. Lögð fram fundargerð stjórnar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 1. desember. R06010023

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R06120093

8. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R07010077

9. Lagt fram bréf ritara framkvæmdaráðs frá 8. þ.m., ásamt sölugögnum, dags. 3. s.m., sbr. samþykkt ráðsins s.d., varðandi sölu fasteignar á lóð nr. 11 við Fríkirkjuveg. R04030143
Samþykkt, með þeim viðauka að farið verði með væntanleg tillboð sem trúnaðarmál, með 4 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Vinstri græn leggjast alfarið gegn sölu á Fríkirkjuvegi 11 til einkaaðila eins og áður hefur komið fram. Er í því sambandi vísað til tillögu og bókunar í borgarstjórn frá 17. október sl. Þær hugmyndir sem nú liggja fyrir um afmörkun lóðar undir húsið breytir í engu afstöðu VG til málsins, enda er gert ráð fyrir að girða húsið af í miðjum almenningsgarði. Við teljum eftir sem áður að meirihlutinn sé að vinna gegn hagsmunum almennings og í þágu stóreignamanna eins og fram kom í bókun VG í borgarráði 12. október sl.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það eru alfarið hagsmunir borgarinnar og borgarbúa sem ráða því að ákveðið er að ganga til sölu á Fríkirkjuvegi 11, enda er húseignin óhentug og kostnaðarsöm fyrir þá starfsemi sem hún hefur hýst undanfarin ár, enda þótt hún sé óumdeild borgarprýði og eitt af táknum miðborgarinnar. Afmörkun lóðarinnar tekur mið af þeim hagsmunum borgarbúa að rýra í engu tækifæri almennings til að nýta Hallargarðinn, auk þess sem sölugögn áskilja borginni rétt til að taka tillit til framtíðarnotkunar og sögu hússins við val á kaupanda. Fríkirkjuvegur 11 lýtur ströngum reglum um breytingar og skipulag endað friðað í B-flokki. Engin ástæða er því til að ætla annað en að húseignin verði áfram til prýði fyrir borgina í eigu einkaaðila eða félagasamtaka.

10. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 9. þ.m., vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um fjárstuðning til Byrgisins, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. janúar sl. R07010071

11. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4788/2005, Jón Bender og Guðrún Ragnarsdóttir gegn Njáli Hannesi Kjartanssyni og Reykjavíkurborg. R02030155

12. Rætt um löggæslumálefni í Reykjavík. Nýskipaður lögreglustjóri mætti á fundinn.
Borgarráð óskar nýjum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins velfarnaðar í störfum sínum og væntir mikils af samstarfi við hann og hans fólks. Gott samband borgaryfirvalda og lögreglu er hornsteinn að öruggri og mannvænlegri borg og jákvæð teikn eru á lofti um að slíkt samband geti skapast með áherslu á aukna og sýnilegri löggæslu í hverfum borgarinnar. R06100180

13. Lagt fram bréf Samkeppnisstofnunar frá 19. f.m. um erindi Reykjavíkurborgar þar sem þess er farið á leit að Samkeppniseftirlitið grípi til ráðstafana vegna innlagningar Laxárvirkjunar í Orkusöluna ehf. R05020109
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Með því að Landsvirkjun dró sig út úr Orkusölunni ehf. er í verki viðurkennt að fyrirætlanir að leggja Laxárvirkjun inn í Orkusöluna stangaðist á við samkeppnislög eins og fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar héldu fram í stjórn Landsvirkjunar. Meginástæða var að virkjunin var lögð inn á undirverði. Jafnframt er áleitin spurning hvort verðmæti Landsvirkjunar hafi með þessari gjörð tímabundið verið fært niður í aðdraganda sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun, með því að taka Laxárvirkjun út úr fyrirtækinu. Er óskað eftir mati borgarhagfræðings á því hversu mikið þetta er og mati lögfræðinga Ráðhúss á hvernig fyrirvarar í samningi um sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun gagnast til að leita leiðréttingar á kaupverði að þessu leyti. Auk þessara upplýsinga er óskað eftir að samningurinn um Orkusöluna ehf. verði lagður fram í borgarráði, enda til hans stofnað meðan Landsvirkjun var enn að hluta til í eigu Reykjavíkurborgar.

14. Lagt fram samkomulag félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna, dags. 15. desember 2006. R05010140
Vísað til meðferðar íþrótta- og tómstundaráðs.
Borgarráð fagnar því samkomulagi sem tekist hefur milli ríkis og sveitarfélaga um lengda viðveru fatlaðra grunnskólabarna. Samkomulagið er í þeim anda sem fulltrúi Reykjavíkurborgar í menntaráði lagði til við félagsmálaráðuneytið árið 2003, með helmingaskiptingu á kostnaði á meðan lög um fatlaða eru til endurskoðunar. Með þessu samkomulagi er lagður grunnur að því að fötluð grunnskólabörn, á aldrinum 10-16, getið notið lengdrar viðveru. Sá fyrirvari er hafður um samkomulagið að ekki er getið um hver skuli bera kostnað reynist hann meiri en þau framlög sem samningurinn gerir ráð fyrir. Lögð er áhersla á að þessi þáttur bitni ekki á þjónustu þegar fram í sækir.

15. Lagt fram bréf, dags. 8. þ.m., frá Stefáni Jóni Hafstein, borgarfulltrúa, þar sem hann óskar eftir leyfi frá störfum í borgarstjórn frá og með 1. febrúar 2007 til 1. febrúar 2009, vegna þróunarstarfa í Namibíu. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 9. þ.m. varðandi málið. R07010082
Samþykkt; vísað til borgarstjórnar.
Borgarráð óskar Stefáni Jóni Hafstein góðs gengis og velfarnaðar í störfum sínum á nýjum vettvangi.

16. Lagt fram bréf ritara menningar- og ferðamálaráðs frá 8. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins s.d., ásamt drögum að samningi milli Reykjavíkurborgar og Rekstrarfélags um Sjónlistamiðstöð á Korpúlfsstöðum. R05100170
Samþykkt.

17. Rætt um menningar- og ferðamálakynningu sem haldin verður í Brussel árið 2008. R07010102

18. Lagt fram bréf ritara framkvæmdaráðs frá 8. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins s.d., ásamt verklagsreglum vegna samskipta Orkuveitu Reykjavíkur og framkvæmdasviðs. R07010089

19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um hagræðingakröfur, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. desember sl. R06080092

20. Lögð fram umsögn aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 9. þ.m. varðandi bílastæðahús við Austurhöfn í Reykjavík, sbr. erindi Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember sl. R06110178
Samþykkt.

21. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 10. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., þar sem lagt er til að gengið verði til samninga við Samhjálp um rekstur gistiskýlisins við Þingholtsstræti. R06070092
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Áheyrnarfulltrúi F-listans leggur fram svohljóðandi bókun:
Samhjálp hefur mjög mikla reynslu af vinnu með utangarðsfólk í Reykjavík og hafa samtökin staðið með miklum sóma að því starfi, meðal annars rekstri heimila við Miklubraut. Fulltrúi F-lista vill þó leggja ríka áherslu á að allt starf á vegum borgarinnar fyrir og með fólki sem hefur orðið undir í samfélaginu sé í samráði við og undir eftirliti fagaðila.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins þar sem þeir hefðu viljað að velferðarsvið yrði áfram með rekstur Gistiskýlisins.
Þjónustan hefur batnað á undanförnu ári undir faglegri stjórn velferðarsviðs og þeir sem bera ábyrgð á þjónustu við þennan hóp hafa haft betri yfirsýn en áður. Samhjálp virðist hafa staðið sig vel í þjónustu við utangarðsfólk og því vilja fulltrúar Samfylkingarinnar taka fram að ekki er verið að lasta þau samtök á neinn hátt.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Það veldur vonbrigðum að meirihluti borgarrráðs skuli hafa haldið til streitu fyrirætlunum sínum um útboð á starfssemi gistiskýlisins að Þingholtsstræti 25. Fyrir hálfu öðru ári ákvað velferðarráð að taka rekstur gistiskýlisins úr höndum einkaaðila og setja hann í hendur velferðarsviðs sem tilraunaverkefni í 2 ár. Þetta var gert með það að markmiði að fylgjast betur með aðstæðum gestanna og tryggja þar með markvissari vinnslu á málefnum hlutaðeigandi, skapa meiri nálægð og þar með þekkingu á leiðum til úrbóta. Til vinnu voru ráðnir menn sem hafa áralanga reynslu af starfi með alkahólistum og geðsjúkum. Starfsmenn skýlisins hafa mætt skjólstæðingum á þeirra eigin forsendum og með það í huga að yfirleitt er um mjög veika einstaklinga að ræða. Því verður ekki á móti mælt að rekstur Gistiskýlisins hefur verið með miklum sóma. Um það vitna starfsmenn þjónustumiðstöðva, heilbrigðisþjónustu og lögreglu. Það var því mikið áfall fyrir gesti jafnt sem starfsmenn þegar meirihluti velferðarráðs ákvað að rjúfa feril tveggja ára verkefnis og segja starfsmönnum upp frá og með 1. nóvember sl. og bjóða reksturinn út. Vinstri græn lýsa sig algerlega andvíg fyrirhuguðum breytingum á starfsemi Gistiskýlisins að Þingholtsstræti 25. Að öðru leyti er vísað til bókunar VG í velferðarráði 10. þ.m.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er rétt að fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ákváðu að auglýsa eftir samstarfsaðila um rekstur Gistiskýlisins í lok október síðastlinn. Á þeim tíma sem reksturinn var í höndum borgarinnar gekk starfið vel. Um tilraunaverkefni var að ræða en núverandi meirihluti telur ekki ástæðu til að borgin reki sjálf starfsemi sem þessa áfram. Það er ekki rétt að ótrúlegur seinagangur hafi einkennt málið. Starfsmönnum Gistiskýlisins var sagt upp störfum þann 1. nóvember síðastliðinn með fjögurra mánaða uppsagnafresti. Sá frestur var hafður rúmur að höfðu samráði við forstöðumann Gistiskýlisins. Við hörmum það að ekki hafi verið hægt að hafa opið aðfaranótt síðastliðins sunnudags sökum veikinda. Nýr meirihluti vinnur að heilindum að velferðarmálum og að því að finna bestu og hagkvæmustu lausnina fyrir starfsemi Gistiskýlisins. Við erum ánægð með að fá Samhjálp til samstarf við okkur um þennan rekstur.

22. Kynntar umsóknir um starf sviðsstjóra menntasviðs. R07010064

23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgarráð samþykkir að skipa starfshóp til að fara yfir málefni spilasala í borginni og rekstur spilakassa, m.a. staðsetningu slíkra spilasala og hvort rétt sé að setja slíkri starfsemi sérstök skilyrði í lögreglusamþykkt Reykjavíkur. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum stjórnsýslu- og starfsmannasviðs, skipulags- og byggingarsviðs, velferðarsviðs og íþrótta- og tómstundasviðs. Háspennu ehf. og Íslandsspilum sf. verði boðið að tilnefna hvort sinn fulltrúa í starfshópinn.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07010118
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra leggja fram svohljóðandi bókun:
Vinstri græn, Samfylking og Frjálslyndir lýsa ánægju með umræðu í framhaldi af samþykkt borgarráðs til áforma um rekstur spilakassa í Mjódd. Við teljum mikilvægt að leita allra leiða til að borgin geti, t.d. með skipulagsákvörðunum, ákveðið að spilakassar séu ekki starfræktir á tilteknum stöðum í borginni en lýsa efasemdum um að borgin eigi að fallast á skaðabætur eigi starfsemin að víkja enda eru afleiðingar spilafíknar skelfilegar fyrir marga einstaklinga og fjölskyldur og ber fyrst og fremst að líta á sem velferðarmál. Jafnframt teljum við orka tvímælis hugmyndir um að koma upp einu allsherjar spilakassahverfi, t.d. í Örfirisey.

24. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í umræðum í borgarstjórn um fjárhagsáætlun fyrir árið 2007 kom fram í máli borgarstjóra að borgin hafi keypt þjónustu fyrir 830 mkr. á fyrstu 10 mánuði ársins án útboða. Jafnframt kom fram að borgarstjóri telur unnt að spara borginni 100 mkr. ef umrædd þjónustukaup væru boðin út. Því er óskað eftir sundurliðun á þessum þjónustukaupum sem sögð eru án útboða og skýringum á þeim. R06080092


Fundi slitið kl. 12.10

Björn Ingi Hrafnsson
Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon