Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2006, fimmtudaginn 7. desember, var haldinn 4962. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:10. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 28. nóvember. R06010012
2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 22. nóvember. R06010018
3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 6. desember. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
4. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 27. nóvember. R06010024
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R06110203
6. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 29. s.m., um breytingu á deiliskipulagi reits 1.138, Bykoreits, sem afmarkast af Hringbraut, Ánanausti, Sólvallagötu og Framnesvegi. R06120012
Frestað.
7. Lögð fram svohljóðandi samþykkt borgarráðs frá 19. október:
Borgarráð samþykkir að hrinda af stað átaki til þess að Reykjavík verði áhugaverður kostur fyrir erlend kvikmyndafyrirtæki. Verkefnisstjórn, skipuð fulltrúum Reykjavíkurborgar, innlendra kvikmyndafyrirtækja, Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, verði falið að gera tillögur í þeim efnum og framkvæmdaáætlun sem lögð verði fyrir í borgarráði ekki síðar en 1. júlí 2007. Kostnaður við verkefnisstjórnina, upp á 1,5 mkr. greiðist úr borgarsjóði.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram að nýju svohljóðandi viðaukatillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði leggur til að auk þeirra fulltrúa sem skipaðir voru í starfshóp á vegum ráðsins til að gera Reykjavík að áhugaverðari kosti fyrir erlend kvikmyndafyrirtæki þann 19. október sl. verði skipaður fulltrúi úr hinum nýstofnuðu Samtökum kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, WIFT á Íslandi.
Greinargerð fylgir tillögunni. R06100246
Borgarráð samþykkti viðaukatillöguna.
8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfissviðs frá 28. f.m., sbr. samþykkt umhverfisráðs 27. s.m., um gjaldskrá fyrir sorphirðu. R06110201
Samþykkt.
9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfissviðs frá 28. f.m., sbr. samþykkt umhverfisráðs 27. s.m., um gjaldskrá fyrir mengunar- og heilbrigðiseftirlit. R06110200
Samþykkt.
10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 5. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg leggi þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna lið með því að lýsa yfir vilja til þess að efna til samstarfs við borgina Blantyre í Malaví og gerist þar með þátttakandi í verkefninu Cities for cities; Achieving the Millennium Development Goals through Local Action sem er hluti af verkefni Sameinuðu þjóðanna og Columbía háskóla, African Millennium Cities Initiative. Verkefninu er ætlað að þróa leiðir til þess að nýta þekkingu og reynslu nútímalegra borga í heiminum í uppbyggingarverkefnum á sviði stjórnkerfis, framkvæmda og þjónustu í sjö meðalstórum borgum í Afríku. Þær eru auk Blantyre í Malaví (íb. 700.000), Kisumu í Kenýa, Kumasi í Ghana, Akure í Nígeríu, Bamako-Segou í Malí og Louga í Senegal. Horft er til þess að Íslendingar hafa mikla reynslu af þróunarstarfi í Malaví og ríka þekkingu á aðstæðum í landinu í gegnum starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Því er gerð tillaga um samstarf milli Reykjavíkur og Blantyre. Hér er ekki lagt til að áætlað verði fjármagn til samstarfsins af hálfu Reykjavíkurborgar, heldur tekin afstaða til kostnaðar á grundvelli þeirra verkefna sem helst kynnu að koma til skoðunar sem samstarfsverkefni borganna tveggja. Gert er ráð fyrir að framlag Reykjavíkurborgar gæti einkum verið fólgið í sérfræðiaðstoð en leitað verði til annarra aðila um samstarf og fjármögnun sérgreindra kostnaðarþátta.
Lagt er til að skrifstofu borgarstjóra verði falin ábyrgð á málinu. R06110096
Samþykkt.
11. Lagt fram bréf borgarbókara frá 15. f.m., þar sem hún óskar lausnar úr starfi.
Borgarráð samþykkir lausnarbeiðnina. R06110185
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Á þeim tæpu 6 mánuðum sem liðnir eru, síðan nýr meiri hluti tók við, hafa 4 af 12 sviðsstjórum sagt upp starfinu. Nú hefur borgarbókari sagt upp starfi sínu og bætist í hóp jafnréttisráðgjafa og skipulagsfulltrúa sem auk sviðsstjóranna fjögurra hafa hætt í tíð núverandi meirihluta. Samfylkingin ítrekar þá afstöðu sína að það er ástæða til að hafa áhyggjur af fagmennsku og festu í stjórnsýslu borgarinnar.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vísar til föðurhúsanna tali um skort á festu og fagmennsku við stjórn borgarinnar. Hæft og gott starfsfólk hefur komið í stað þeirra sem horfið hafa til annarra starfa, og er það boðið velkomið. Á síðari hluta síðasta kjörtímabils hættu 6 lykilstarfsmenn, þar af 4 sviðsstjórar, án þess að vart yrði við áhyggjur þáverandi meirihluta af málinu. Í spennandi fyrirtæki eins og Reykjavíkurborg, er fullkomlega eðlilegt að hreyfing sé á starfsfólki og getur borgin verið stolt af því að laða til sín hæft fólk.
12. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmdasviðs og framkvæmdastjóra Listahátíðar frá 4. þ.m., varðandi komu Royal de Luxe til Reykjavíkur við setningu Listahátíðar í vor.
Borgarráð samþykkir erindið. R06120014
13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 1. þ.m., þar sem lagt er til að gildistími gatnagerðargjalda í miðborginni verði framlengdur til ársloka 2011, eða þar til sett verður ný samþykkt um gatnagerðargjald í Reykjavík. R06120015
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 4. þ.m., þar sem lagt er til að Birni og Guðna sf. verði úthlutað lóð nr. 15 við Hestháls, með nánar tilgreindum skilmálum. R06030169
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf sóknarnefndarformanns og sóknarprests Dómkirkjunar frá 17. f.m., þar sem sótt er um styrk, að fjárhæð 4 mkr., vegna aukins miðborgarstarfs Dómirkjunnar.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgarráð samþykkir að veita 4 mkr. styrk til starfsemi miðborgarprests Dómkirkjunnar í Reykjavík. Á árinu 2006 verði greiddar kr. 1.000.000 af liðnum ófyrirséð og kr. 3.000.000 á árinu 2007 af styrkjalið borgarráðs. Styrkurinn er veittur til þeirra verkefna sem snúa að samfélagsmálum. Í greinargerð með umsókn Dómkirkjunnar kemur fram að miðborgarprestur mun sinna margvíslegum samfélagsverkefnum, aðallega í miðborginni. Dómkirkjan skal skila skýrslu til borgarstjóra um starfsemi miðborgarprests og framvindu verkefna í þágu Reykjavíkurborgar þrisvar á því tímabili sem styrkveitingin nær yfir. R06110196
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf umhverfisráðuneytis frá 30. f.m., þar sem óskað er eftir tilnefningu fulltrúa og varafulltrúa í samvinnunefnd miðhálendis. R05010056
Samþykkt að tilnefna Snorra Hjaltason og til vara Stefán Þór Björnsson.
17. Lagt fram svar flugmálastjóra frá 26. október sl. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um flugumferð, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. október sl. R06090252
18. Lagt fram svar borgarstjóra frá 1. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar varðandi lóðarkaup í Norðlingaholti, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs 30. nóvember sl. R04010121
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Framlögð gögn staðfesta að borgarstjóri fór ekki aðeins á bak við borgarráð með því að kaupa lóð af Kjartani Gunnarssyni á svimandi háu verði heldur gekk hann með þeirri ákvörðun gegn rökstuðningi þeirra lögfræðinga sem með málið fóru, eins og fram kemur í minnisblaði frá 4. júlí sl.
Minnisblaðið sýnir að því er ranglega haldið fram í svörum borgarstjóra að lögfræðingur Ráðhússins hafi lagt til “að Reykjavíkurborg myndi una úrskurðinum og falla frá málshöfðun.” Slíka tillögu er hvergi að finna í minnisblaðinu. Þvert á móti segir:
“Með vísan til þess að úrskurður matsnefndarinnar er án fullnægjandi rökstuðnings og að svo mikill munur er á niðurstöðu matsnefndarinnar og því verði sem hefur fengist fyrir seldan byggingarrétt á lóðum væri að dómi undirritaðra fullt tilefni til þess að láta reyna á niðurstöðuna fyrir dómi.”
Ekki verður annað af minnisblaðinu ráðið en að það sé skrifað til að afla stuðnings borgarstjóra við að fara með málið fyrir dómstóla þótt “ekki væri á vísan að róa” um niðurstöðu dómstóla og þannig geti fjárhagsleg áhætta falist í því. Segir í niðurlagi minnisblaðsins frá 4. júlí:
“Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru ef niðurstaða Héraðsdóms verður ekki í samræmi við sjónarmið Reykjavíkurborgar treysta undirrituð sér ekki til að halda áfram með málið og láta reyna á niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta fyrir dómi, án samráðs við borgarstjóra.”
Borgarstjóri og meirihlutinn er með öðrum orðum alvarlega tvísaga um tildrög þess að fallið var frá því að höfða mál. Það er alrangt í svari borgarstjóra að skrifstofustjórinn hafi lagt til í minnisblaði sínu að úrskurðinum verði unað og enn fjær sanni, eins og haldið var fram í bókun meirihlutans í borgarráði fyrir viku að: “Samkvæmt eindregnum ráðleggingum borgarritara var síðan ákveðið að fallast á niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta.” Standi borgarstjóri við fyrri málflutning sinn er óskað eftir því að hann leggi fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Jafnframt er óskað eftir því að þeir lögfræðingar sem að málinu hafa komið verði kallaðir fyrir borgarráð.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar er um grófan útúrsnúning að ræða. Á síðasta fundi borgarráðs kynnti borgarritari þá eindregnu afstöðu að ekki ætti að fara með málið fyrir dómstóla og hefði ráðlagt borgarstjóra að fallist yrði á niðurstöðu matsnefndarinnar. Áður hafði fyrrv. borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir fallist á að greiða Kjartani Gunnarssyni tæpl. 118 mkr. upp í kröfuna án þess að það hefði verið kynnt borgarráði.
Á síðasta fundi borgarráðs lýsti borgarritari því yfir að hún hefði óskað samþykkis borgarstjóra um að Reykjavíkurborg myndi una úrskurði og falla frá málshöfðun og fór yfir þær röksemdir sem hún færði fram í minnisblaði sínu frá 4. júlí sl. Í þessu minnisblaði er borgarritari að færa rök fyrir því að það sé miklu öruggara fyrir hagsmuni borgarsjóðs að una niðurstöðu matsnefndarinnar. Í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar er með afar ómerkilegum hætti reynt að gefa annað til kynna. Einnig er þar um dæmalausar rangfærslur að ræða og orð og yfirlýsingar borgarritara á síðasta borgarráðsfundi gerð algjörlega ómerk.
Það er í framhaldi af reifun málsins í minnisblaði sínu sem borgarritari segir eftirfarandi í lokin: “Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru ef niðurstaða Héraðsdóms verður ekki í samræmi við sjónarmið Reykjavíkurborgar treystir undirrituð sér ekki til að halda áfram með málið og láta reyna á niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta fyrir dómi, án samráðs við borgarstjóra”.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Borgarstjóra gagnast lítt að reyna að skella skuld á fjarstadda undirmenn sína og er honum síst til sóma þegar skrifleg gögn segja aðra sögu. Farið er rangt með ummæli borgarritara og umræður frá síðasta borgarráðsfundi og væri borgarstjóra miklu nær að biðjast afsökunar á þeim mistökum sem viðurkennd hafa verið í málsmeðferðinni og gera hreint fyrir sínum dyrum í þeim atriðum sem hann er tvísaga.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Þessi bókun inniheldur algjör ósannindin og er hreint ótrúlegt að borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar skuli ástunda svo lágkúrulegan málflutning. Það er mjög alvarlegt að borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar skuli reyna að sverta mannorð embættismanns borgarinnar sér til pólitísks framdráttar.
19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 6. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um Sundabraut, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. nóvember sl. R04100023
20. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um þvottastöð Strætó bs., sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. nóvember sl. R05020085
21. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um gjaldskrárhækkanir, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. nóvember sl. R06080092
22. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um gömul embættisheiti, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. ágúst sl. R06080077
23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgarráð felur stjórnkerfisnefnd að kanna stöðu, tilgang og hlutverk hverfisráða og stöðu þjónustumiðstöðva í stjórnkerfi borgarinnar. Stjórnkerfisnefnd vinni tillögur til borgarráðs, sem hafa það að markmiði að ná fram aukinni skilvirkni við stjórn borgarinnar í þágu íbúanna. R06030153
Samþykkt.
- Kl. 13.15 víkur Ólafur F. Magnússon af fundi.
24. Lagt fram bréf sviðsstjóra menntasviðs frá 30. f.m. þar sem hún óskar lausnar úr starfi 31. þ.m. R06120036
Borgarráð samþykkir lausnarbeiðnina.
Fundi slitið kl. 14:00
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Óskar Bergsson Steinunn Valdís Óskarsdóttir