Borgarráð - Fundur nr. 4959

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2006, fimmtudaginn 16. nóvember, var haldinn 4959. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 08:45. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir og Svandís Svavarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 8. nóvember. R06010015

2. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 15. nóvember. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R06100327

4. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d. varðandi breytingar á aðalskipulagi við Sléttuveg. R04100098
Samþykkt.

5. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á breyttu deiliskipulagi að Suðurlandsbraut 14. R05020151
Samþykkt.

6. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi að Ármúla 12. R06060035
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 6. þ.m., þar sem lagt er til að hlutfall endurgreiðslu borgarsjóðs og hlutaðeigandi stofnana á lífeyrisútgjöldum lífeyrissjóðsins á árinu 2007 skuli vera óbreytt eða 64#PR, sbr. 23. gr. 1. mgr. samþykktar sjóðsins. R03090120
Samþykkt.

8. Lögð fram tillaga Vinstri grænna frá 7. þ.m. um aðgerðir til að jafna hlut kynjanna við íþróttaiðkun, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar s.d.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06110062
Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs og mannréttindanefndar.

9. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra vátryggingar- og fjármálaþjónustu Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) frá 13. þ.m. varðandi uppsetningu skautasvells á Ingólfstorgi. R06110019
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf mannréttindaráðgjafa frá 6. þ.m., sbr. samþykkt mannréttindanefndar 1. s.m. á tillögu um táknmynd á götuljós. R06110033

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óska bókað:

Það veldur vonbrigðum að fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skuli vilja fresta um óákveðinn tíma því að vera tilbúinn að brydda upp á nýjungum í umferðarljósamenningu borgarinnar til að vekja athygli á jafnrétti kynjanna. Tillagan hefur vakið mikla athygli á meðal almennings og vakið upp skemmtilega umræðu um táknmyndir sem víða leynast í samfélaginu. Einnig myndi græn kona í umferðarljósi vekja mikla athygli ferðamanna í Reykjavík og breiða enn frekar út hróður Reykjavíkurborgar sem jafnréttisborgar.

11. Lagt fram minnisblað byggingarfulltrúa vegna samkomulags um verkaskiptingu við byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss, dags. 13. þ.m. R06020037
Samþykkt.

12. Lagt fram svar borgarstjóra frá 15. þ.m. við fyrirspurn Samfylkingar um hjúkrunarheimilið Eir, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs 9. nóvember sl. R04030045

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Við fyrstu sýn kemur fram í svari meirihlutans að þeir séu á hröðu undanhaldi frá því sem þeir skrifuðu undir í viljalýsingu við Eir, enda voru þeir komnir langt umfram heimildir og samþykktir Reykjavíkurborgar. Það er von okkar að þeir blaðamenn sem vöktu athygli á málinu muni kafa ofan í þessi svör. Þá áskilja fulltrúar Samfylkingarinnar sér rétt til að taka málið upp á næstu fundum borgarráðs.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það er mikill misskilningur að “verið sé á hröðu undanhaldi”. Á hinn bóginn sýnir svarið við fyrirspurn borgaráðsfulltrúa Samfylkingar að málatilbúnaður þeirra í þessu máli er byggður á algjörri vanþekkingu. Það hefur að sjálfsögðu alltaf legið fyrir í þessu máli að öllum reglum um innkaupamál verður fylgt.

13. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness dags. 14. þ.m., ásamt áfangaskýrslu um stöðu verkefnisins. R06110084
Frestað.

14. Lagður fram að nýju liður nr. 17 í fundargerð borgarráðs frá 19. október sl. um málefni Alþjóðahússins ehf. R06100100

Borgarráðsfulltúrar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað:

Hvatt er til þess að því verði fylgt eftir að það fé sem fer til tveggja þjónustumiðstöðva í þágu innflytjenda af fyrra framlagi til Alþjóðahúss nýtist þeim sem skyldi. Líklegt má telja að málaflokkurinn taki meira til sín á næstu árum ef Reykjavíkurborg á áfram að halda forystu á þessu sviði. Af þeim sökum þarf að tryggja eftir megni markvissa nýtingu fjármuna.

15. Lögð fram framkvæmdaáætlun Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um málefni innflytjenda í Reykjavík dags. 14. þ.m. Jafnframt lögð fram tillaga Ólafs F. Magnússonar í 9 liðum ásamt greinargerð um málefnið.
Framkvæmdaáætluninni og tillögunni vísað til umsagnar mannréttindanefndar. R06110097

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Borgarráð samþykkir meðfylgjandi skipurit fyrir menntasvið og leikskólasvið. Leikskólasvið taki til starfa 1. janúar 2007 og öðlast þá ný skipurit gildi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06080006
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafa ítrekað óskað eftir tölum um kostnað vegna skiptingar menntaráðs. Nú liggur fyrir að skiptingin hleypur á a.m.k. 25 milljónum eða a.m.k. 100 milljónum yfir kjörtímabilið. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lýsa enn og aftur yfir andstöðu sinni við skiptingu menntasviðs sem gerir að engu þau hagkvæmnissjónarmið sem sameining sviðanna hafði á sínum tíma í för með sér og taka undir með fagfólki sem alla tíð hafa lagst þungt gegn skiptingunni.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það er vafalaust rétt hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum að hægt er að skera niður í skólamálum í borginni. Nýr meirihluti í borgarstjórn ákvað hinsvegar að styrkja faglegt starf í grunn- og leikskólum borgarinnar með því að hafa tvö ráð og fagsvið um þessi tvö skólastig. Það var frá upphafi vitað að þessi efling faglegs starfs myndi kosta borgina nokkurt fé, en með mikilli samvinnu sviðana og ósérhlífni þess góða starfsfólks sem starfar á sviðunum, lítur út fyrir að kostnaður verði um 25 milljónir á ári. Þeim peningum er vel varið.

17. Rætt um fjárhagsáætlun. R06080092

- Kl. 9.35 víkur Björn Ingi Hrafnsson af fundi og Óskar Bergsson tekur sæti á fundinum.

18. Lögð fram tillaga borgarstjóra frá 14. þ.m., þar sem lagt er til að Hallur Símonarson verði ráðinn í starf forstöðumanns Innri endurskoðunar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R06100237
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Fundi slitið kl. 10:05

Hanna Birna Kristjánsdóttir

Björk Vilhelmsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Júlíus Vífill Ingvarsson Oddný Sturludóttir
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir