Borgarráð - Fundur nr. 4958

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2006, laugardaginn 11. nóvember, var haldinn 4958. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.10. Viðstaddir voru auk borgarstjóra, Björn Ingi Hrafnsson, Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir og Svandís Svavarsdóttir. Jafnframt sat Ólafur F. Magnússon fundinn.

Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Rætt um fjárhagsáætlun.

Lagt fram bréf borgarstjóra frá 7. þ.m. um breytingu á fjárhagsrömmum næsta árs. Jafnframt lagt fram bréf borgarstjóra frá 8. þ.m. um breytingu á fjárhagsramma vegna ÍTR. Þá er lagt fram bréf borgarstjóra, dags. í dag, um breytingar á fjárhagsrömmum fyrir árið 2007 vegna kostnaðaáhrifa úrskurðar kjaranefndar.

Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Lagðar fram, ódags., tillögur fjármálasviðs um breytingar á leikreglum með fjárhagsáætlun.

Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 10. þ.m. varðandi undirbúning að gerð fjárhagsáætlunar.

2. Lagður fram að nýju samningur um kaup íslenska ríkisins á eignarhluta Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun, dags. 1. þ.m., ásamt fyrirspurnum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, sbr. 29. og 22. lið fundargerða borgarráðs frá 2. og 9. nóvember sl. Jafnframt lögð fram svör borgarstjóra við fyrirspurnum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, dags. 10. þ.m., bréf forstöðumanns Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 6. s.m. og verðmat Landsvirkjunar, dags. 18. september sl.

Lagt fram verðmat ParX á Landsvirkjun með tilteknum breyttum forsendum, dags. 9. nóvember 2005.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

F-listinn lýsir sem fyrr yfir eindreginni andstöðu við söluna á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun og átelur vinnubrögð meirihlutans í borgarstjórn í málinu. F-listinn varar við því að salan á hlut borgarinnar í Landsvirkjun sé aðeins fyrsta skrefið í einkavæðingu orkufyrirtækja í eigu almennings. Jafnframt krefst F-listinn þess að ábyrgðum Reykvíkinga vegna lántaka Landsvirkjunar verði þegar í stað aflétt.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna tekur undir tillögu Samfylkingar þess efnis að samningar um sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun verði teknir upp. Þeir stjórnunarhættir sem endurspeglast í samningunum eru í hæsta máta ámælisverðir, en það er sú aðferð að skauta framhjá lýðræðislegum ferlum í ákvarðanatökunni, kalla ekki eftir reynslu og sjónarmiðum minnihlutans eða viðhafa opna umræðu í ljósi þeirra ríku hagsmuna sem í húfi eru. Áréttaðar eru þær skoðanir Vinstri grænna að sala í því pólitíska umhverfi sem nú ríkir er ekki í þágu almannahagsmuna þar sem fyrirvarar um einkavæðingu halda ekki. Ríkisstjórn Íslands hefur um árbil gengið erinda markaðssjónarmiða fremur en samfélagsins alls og er full ástæða til að ætla að slík sjónarmið verði ofaná varðandi þróun orkugeirans. Vinstri græn munu áfram standa vörð um hagsmuni almennings í þessu máli sem öðrum hvort sem er á vettvangi sveitarfélaga eða ríkis.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar:

Borgarráð samþykkir að taka aftur upp samninga á sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar felld með 4 atkv. gegn 3.

Samningur um sölu á eignarhluta Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun samþykktur með 4 atkv. gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Eftir ítarlegar umræður í borgarráði er niðurstaðan um fyrirliggjandi samning um sölu Landsvirkjunar augljós: illa hefur verið haldið á hagsmunum Reykjavíkurborgar og borgarbúa í viðræðum við ríkið um sölu Landsvirkjunar. Verðið sem fæst fyrir fyrirtækið er fjarri því að vera ásættanlegt, greiðsluformið er vont og fyrirvarar um einkavæðingu halda ekki. Þau svör og gögn sem hafa verið lögð fyrir borgarráð staðfesta þetta. Augljóst er að samninga um sölu Landsvirkjunar þarf að taka upp. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar ítreka þá afstöðu að Reykjavíkurborg geti ekki til framtíðar verið eigandi að meginhluta helstu orkufyrirtækja landsins. Þess vegna var sala Landsvirkjunar sett í formlegt ferli á síðasta kjörtímabili. Þær viðræður strönduðu sl. vetur af tveimur ástæðum: annars vegar vegna óábyrgra yfirlýsinga um einkavæðingu fyrirtækisins og hins vegar vegna þess að ríki og Reykjavíkurborg náðu ekki saman um verð. Fyrirliggjandi samningur byggir á verði og forsendum sem allir borgarfulltrúar voru sammála um að væru fjarri lagi í janúar sl. Það segir meira en mörg orð að verðmat, dagsett í september, hafi ekki verið kynnt borgarráði fyrr en borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar kröfðust þess.

Borgarstjóri hefur ekki gert sannfærandi grein fyrir því hvers vegna ekki var staðið á rökstuddum athugasemdum Reykjavíkurborgar við fyrirliggjandi verðmat. Fjórir meginþættir rökstyðja þá skoðun Samfylkingarinnar að verðmatið sé of lágt:

a) í spám um raforkuverð til framtíðar er miðað við samninga við Alcoa, sem voru nokkurs konar nauðasamningar, í stað nýjustu samninga um raforku til stóriðju (Alcan) sem voru mun hærri

b) miðað er við áhættu í áliðnaði í stað áhættu í raforkuiðnaði en Landsbanki Íslands gerði athugasemdir við að þessa aðferð fyrir rúmu ári síðan

c) miðað er við óhagstætt smæðarálag sem svo er kallað, 1,0#PR í stað 0,5#PR sem íslensku bankarnir nota við verðmat á stærri fyrirtækjum

d) framtíðarmöguleikar Landsvirkjunar, þekking á virkjunum og orkunýtingu, núverandi og væntanleg virkjunar- og rannsóknarleyfi og aðrar duldar eignir, svo sem hagur af því að sameina Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða er yfir höfuð metið til verðs

Þessar forsendur hreyfa milljarðatugi til hækkunar á verðmati Landsvirkjunar og það þarfnast sérstakra skýringa að borgarstjóri hafi tekið pólitíska ákvörðun um að gefa þær eftir. Þá er lýst vonbrigðum með að greiðslur til borgarinnar eru að stærstum hluta í formi skuldabréfa til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Galli þessarar ráðstöfunar er sá að bréfin bera breytilega en ekki fasta vexti og verða illseljanleg og þannig orðið lífeyrissjóðnum erfið í skauti til að tryggja hámarksávöxtun á hverjum tíma, eins og sagði í bókun Samfylkingarinnar við kynningu samningsins. Þetta hefur nú verið staðfest í umbeðinni umsögn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þar segir jafnframt að álitamál sé hvort lífeyrissjóðnum sé yfirleitt heimilt að taka við bréfunum í núverandi mynd og að hlutverk stjórnar sjóðsins við “að ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu hafa verið stórlega skert.” Samandregið þá leiðir álit lífeyrissjóðsins til þeirrar niðurstöðu að:

“Ef ná mætti samningum við ríkið um að einhver hluti skuldabréfanna, t.d. einn þriðji, fái fasta vexti myndi það breyta verulega þeim annmörkum sem að framan er getið. Þess er því óskað að reynt verði til þrautar að ná fram þeirri breytingu.“ Þessi niðurstaða lífeyrissjóðsins er hin sama og hjá borgarráðsfulltrúum Samfylkingarinnar. Fleiri atriðum þarf þó að ná fram við samningagerðina. Fyrirvarinn um endurskoðun söluverðs til Reykjavíkurborgar við sölu ríkisins á Landsvirkjun (einkavæðingu) er sýndar fyrirvari. Hann er aðeins til fimm ára og virðist nánast aðeins gilda ef Landsvirkjun er greidd út í hönd. Þrátt fyrir fyrirvarann virðist meginhluti kaupverðsins til Reykjavíkurborgar engu að síður vera á formi skuldabréfa sem greidd eru á 28 árum, jafnvel þótt ríkið fá fyrirtækið greitt út í hönd 2. janúar nk. Niðurstaðan er augljós: Illa hefur verið haldið á hagsmunum Reykjavíkurborgar og borgarbúa í viðræðum við ríkið um sölu Landsvirkjunar. Verðið sem fæst fyrir fyrirtækið er fjarri því að vera ásættanlegt, greiðsluformið er vont og fyrirvarar um einkavæðingu halda ekki. Augljóst er að samninga um sölu Landsvirkjunar þarf að taka upp.

Fundi slitið kl. 15.00

Björn Ingi Hrafnsson

Dagur B. Eggertsson Hanna Birna Kristjánsdóttir

Jórunn Frímannsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson

Oddný Sturludóttir Svandís Svavarsdóttir