Borgarráð - Fundur nr. 4956

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2006, fimmtudaginn 2. nóvember, var haldinn 4956. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:10. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 10. október. R06010017

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 30. október. R06010013

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 24. október. R06010016

4. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 1. nóvember. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 23. október. R06010024

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R06100327

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á breyttu deiliskipulagi á reit 1.140.4, Landsímareit. R06100354
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 1. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits. R06020069
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 25. f.m., ásamt umsögn skipulagsráðs s.d., um erindi Sigurðar Áss Grétarssonar og Kristjáns S. Kristjánssonar, dags. 19. sept. sl., varðandi kaup og staðsetningu Zimsenhúss, áður Hafnarstræti 21. R06090189
Borgarráð samþykkir niðurstöðu skipulagsráðs.

10. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 25. f.m., sbr. umsögn skipulagsráðs s.d., varðandi erindi formanns og framkvæmdastjóra UMFÍ frá 20. sept. sl. um byggingu á lóð nr. 13 við Tryggvagötu fyrir höfuðstöðvar hreyfingarinnar. R03050171
Borgarráð samþykkir umsögnina.

11. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Félagsbústaða hf. frá 24. f.m., þar sem sótt er um úthlutun lóða fyrir fjölbýlishús við Vallarás og Spöngina til fjölgunar leiguíbúða. R05100146
Borgarráð vísar til samþykktar ráðsins frá 2. febrúar sl. og felur skipulagssviði að vinna að gerð deiliskipulags á reitnum.

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 20. f.m., þar sem lagt er til að borgarráð gefi Akóges í Reykjavík fyrirheit um úthlutun lóðar í Sogamýri, næst austan við Suðurlandsbraut 66. R05120090
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 30. f.m., þar sem lagt er til að Trúfélagi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi verði gefið fyrirheit um úthlutun lóðar fyrir kirkjubyggingu á lóð á Nýlendureit, þ.e. á milli Nýlendugötu og Mýrargötu. R05110158
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 30. f.m., um að Ásatrúarfélaginu verði gefið fyriheit um úthlutun lóðar fyrir hof, með eða án safnaðarheimilis, á lóð í Leynimýri. R04120113
Samþykkt. Jafnframt felur borgarráð skipulagssviði að gera tillögur að staðsetningu lóðarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráð afgreiddi í dag fyrirheit um lóðir til Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og Ásatrúarfélagsins. Ekki liggur fyrir tillaga að lóðaúthlutun til Félags múslíma á Íslandi. Því spyrja fulltrúar Samfylkingarinnar hvar er sú vinna sem hafin var á síðasta kjörtímabili að útvega Félagi íslenskra múslima lóð undir mosku?

15. Rætt um undirbúning að byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss. R06020037

16. Lagt fram bréf forstjóra fyrirtækisins Verktakar Magni, dags. 27. f.m., þar sem óskað er eftir tímabundunum afnotum af landi Reykjavíkurborgar á Álfsnesi. R06100360
Vísað til umhverfisráðs.

17. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna: R02030079

Borgarráð samþykkir að stofna 5 manna þverpólitískan starfshóp sem fari yfir fjárhagslega og stjórnunarlega úttekt á Strætó bs. og skoði þau sóknarfæri og möguleika sem úttektin felur í sér. Starfshópurinn skili áliti sínu innan mánaðar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Umhverfisráð fer með stefnumótun í málefnum almenningssamgangna. Í kjölfar skýrslu um fjárhagslega og stjórnsýslulega úttekt á Strætó bs. mun umhverfisráð skoða þau sóknarfæri og þá möguleika sem felast í úttektinni. Engin þörf er þessvegna á að flækja málin með því að skipa starfshóp til að sinna því verki sem umhverfisráð hefur þegar með höndum samkvæmt samþykktum.
Tillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna er því vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar telja eftir sem áður að sérstakur þverpólitískur hópur sem færi ofaní sóknarfæri þau sem fram koma í úttekt á Strætó bs. þjónaði hagsmunum borgarbúa best. Ljóst er að þekking og reynsla í málaflokkunum liggur víða í meirihluta og minnihluta og jafnvel utan umhverfisráðs. Við blasir að á ársfundi Strætó bs. sem framundan er þarf Reykjavíkurborg að koma vel nestuð til leiks og gæta hagsmuna umhverfis og borgabúa í hvívetna. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í umhverfisráði munu leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu.

18. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Umtalsverð hagræðing hefur náðst við breytingu á aksturssamningum á umhverfissviði. Borgarráð samþykkir að beina þeirri hvatningu til annarra sviða borgarinnar að þau hefji samsvarandi aðgerðir umhverfinu til hagsbóta og fjárhag borgarinnar til góða. R06100280

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Í drögum að starfsáætlun umhverfissviðs segir í kaflanum um samgöngumál: „Skoða skal hvernig megi auka vistvænar samgöngur hjá Reykjavíkurborg þannig að hún verði til fyrirmyndar öðrum stofnunum og fyrirtækjum. Athugun skal skilað á árinu 2007. Í ljósi þess að umhverfisráð samþykkti starfsáætlunina einróma, er óþarfi að samþykkja efnislega samhljóða tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, og er henni því vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

19. Lagt fram bréf sviðsstjóra menntasviðs frá 17. f.m., sbr. samþykkt menntaráðs 16. s.m., um að útibú frá Ingunnarskóla verði sjálfstæður grunnskóli og beri heitið Sæmundarskóli. Jafnframt lögð fram greinargerð sviðsstjóra menntasviðs frá 1. þ.m. um málið. R06100257
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

20. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 2. þ.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um ráðningu sviðsstjóra leikskólasviðs án auglýsingar, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. október sl. R06090023

21. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 31. f.m. varðandi fyrirspurn borgarfulltrúa Vinstri grænna um kynbundinn launamun, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs 26. október sl. R06100349

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna þakkar framlagt svar við fyrirspurn sem lögð var fram á borgarráðsfundi 26. október. Spurningin var tvíþætt, annars vegar er spurt um vilja til að bera saman laun kynjanna en hins vegar að leiðrétta tafarlaust hinn kynbundna launamun. Framlagt svar tekur aðeins til fyrri hluta spurningarinnar, þar sem rætt er um væntanlegar niðurstöður könnunar í sumarlok 2007. Hins vegar kemur í svarinu ekkert fram um vilja til tafarlausra aðgerða né aðgerða í kjölfar umræddrar könnunar. Jafnrétti kynjanna verður aðeins náð með aðgerðum með því að hugsa stórt, horfa langt og byrja strax.

22. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs frá 31. f.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um tónlistarhátíðina Iceland Airwaves, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs 26. október sl. R06090089

23. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 18. f.m., sbr. samþykkt borgarstjórnar 17. s.m. um að vísa tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna um túlkun á táknmál til borgarráðs. R03100013
Vísað til mannréttindanefndar.

24. Lagðar fram umsagnir stjórnkerfisnefndar og barnaverndarnefndar, dags. 30. og 31. f.m., um erindi sviðsstjóra velferðarsviðs frá 13. s.m., varðandi tillögu um stjórnskipulag barnaverndarmála. R05040080
Samþykkt með 4 atkv. gegn 2.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Fulltrúar Samfylkingarinnar vilja að ávallt sé tekið mið af þörfum barna og fjölskyldna þegar framtíð barnaverndarstarfs í Reykjavík er skipulagt. Það er okkar trú að það sé best gert í nærumhverfi barnanna og fjölskyldna þeirra. Á þjónustumiðstöðvum vinna náið saman þeir sem tengjast börnum og fjölskyldum í þeirra daglega lífi þar með talið í leik- og grunnskólum. Þar er höfð að leiðarljósi heildstæð nálgun og lausnarmiðuð meðferð. Með flutningi barnaverndarmála á þjónustumiðstöðvarnar, eins og unnið hefur verið að, næst samfella í stuðningi við börn og eftirmeðferð og langtímastuðningur verður árangursríkari þegar hvert mál er unnið af starfsmönnum sem þaulkunnugt er um aðstæður barnsins, fjölskyldu og umhverfis þess. Reynslan hefur sýnt að langflestir einstaklingar sem Barnavernd Reykjavíkur hefur afskipti af, þurfa á margháttuðum stuðningi þjónustumiðstöðvanna að halda í einhvern tíma. Því fer vel að barnaverndarmálum sé komið fyrir sem næst fólkinu, á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Með því að slá verkefnaflutningum á frest um tvö ár er ekki dregið úr óöryggi starfsmanna varðandi starfsumhverfi sitt, þvert á móti. Barnaverndarnefnd tekur undir þessar áhyggjur í umsögn sinni.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

Allt frá því á árinu 2002 hefur fyrirkomulag barnaverndarmála í Reykjavíkurborg verið í endurskoðun og breytingar verið í þá veru að auka aðkomu þjónustumiðstöðva að slíkum málum í anda valddreifingar og aukinnar grenndarþjónustu. Nú er enn einu sinni komið róti á þennan viðkvæma málaflokk með viðsnúningi sem þó er samkvæmt tillögunni til bráðabirgða. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögu meirihlutans er mikilvægt að gott samstarf sé milli Barnaverndar Reykjavíkur og þjónustumiðstöðva borgarinnar til að áhrif grenndarvinnu í hverfum borgarinnar styðji sem best við barnaverndarstarf og vinnslu barnaverndarmála. Tillögur sem snúa við þeirri þróun sem verið hefur síðastliðinn áratug í þjónustu borgarinnar verða að vera vandlega undirbúnar og rökstuddar. Aukin áhersla borgarinnar á grenndarþjónustu býður upp á fjölmörg sóknarfæri sem þarf að skoða betur en fram kemur í núverandi tillögu meirihluta. Hætt er við að börnum sem búa við óviðunandi aðstæður og einnig þeim sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu sé gerður ógreiði með hringlandahætti af þessu tagi. Sé það einlægur ásetningur meirihlutans að Barnavernd Reykjavíkur starfi áfram með óbreyttu sniði er mikilvægt að það starfsfólk sem vinnur að málefnum barnaverndar fái starfsfrið og umboð til að gera áætlanir til lengri tíma en tveggja ára. Í ljósi stutts aðdraganda að framlagðri tillögu í velferðarráði og vegna takmarkaðs undirbúnings þá munu Vinstri grænir sitja hjá við afgreiðslu málsins en áskilja sér rétt til að leggja fram síðar tillögur er lúta að umbótum og fyrirkomulagi í barnavernd í Reykjavík.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Með tillögunni er fyrst og fremst verið að efla barnaverndarstarf í Reykjavík þar sem miðlæg barnavernd fær að halda styrk sínum og sérhæfingu en jafnframt viljum við efla tengingu barnaverndar við þjónustumiðstöðvar og stuðla að forvörnum og öryggi í nærsamfélagi barna.

25. Lögð fram yfirlýsing borgarstjóra frá 13. f.m. um að ákveðið hafi verið að koma á fót Friðarstofnun Reykjavíkur og að Rudolf Schuster, fyrrverandi forseti Slóvakíu, muni vinna að undirbúningi stofnunarinnar í samvinnu við skrifstofu borgarstjóra. R06100239

26. Rætt um ástand gatnakerfis borgarinnar. R06100356

- Kl. 14.00 vék Hanna Birna Kristjánsdóttir af fundi.

27. Lagt fram að nýju bréf forstjóra BYKO hf. frá 10. f.m. varðandi lóðarúthlutun. Jafnframt lagt fram afrit af bréfi lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs frá 31. f.m. til forstjóra BYKO, varðandi málið. R06100226

28. Rætt um fjárhagsáætlun. R06080092

29. Lagður fram undirritaður samningur um kaup íslenska ríkisins á eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun, dags. 1. þ.m. R05020109

- Kl. 14.20 tók Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.

Frestað.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

F-listinn í borgarstjórn lýsir eindreginni andstöðu við þá ákvörðun að selja hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun og átelur harðlega þau vinnubrögð að það skuli gert án þess að fyrir liggi samþykki Borgarstjórnar Reykjavíkur. Með því er verið að sniðganga borgarbúa og kjörna fulltrúa þeirra. F-listinn krefst þess að öllum ábyrgðum Reykvíkinga á lántökum Landsvirkjunar verði þegar í stað aflétt. Jafnframt varar F-listinn við því að salan á Landsvirkjun gæti orðið fyrsta skrefið að einkavæðingu fyrirtækisins, þar sem dýrmætar eignir almennings eru seldar einkaaðilum á vildarkjörum. Ef Landsvirkjun verður seld einkaaðilum blasir sú hætta við að sama gerist með Orkuveitu Reykjavíkur og að einkaaðilar fái forræði yfir orkufyrirtækjum og orkulindum sem nú eru í almannaeign.

- Kl. 15.00 vék Ólafur F. Magnússon af fundi.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fagna fyrirliggjandi samningi vegna sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Samningurinn er hagstæður fyrir Reykjavíkurborg og Reykvíkinga, auk þess sem hann er í góðu samræmi við löngu yfirlýstan vilja bæði núverandi og fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluta. Þannig samþykkti borgarráð þann 27. apríl 2004 að Reykjavíkurborg eigi „að losa sig út úr eignarhaldi og ábyrgðum á raforkuframleiðslu Landsvirkjunar og felur borgarstjóra að óska eftir viðræðum við iðnaðarráðherra um það langtímamarkmið og vinna að því að koma því ferli af stað.” Í framhaldi af því undirrituðu iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, bæjarstjórinn á Akureyri og borgarstjórinn í Reykjavík, 17. febrúar 2005, viljayfirlýsingu um að ríkið leysi til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Þáverandi borgarstjóra í Reykjavík, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, var síðar veitt umboð til að fylgja eftir þeirri viljayfirlýsingu. Niðurstaða þeirra viðræðna skilaði hins vegar ekki niðurstöðu enda ljóst að borgarfulltrúar Vinstri grænna í R-listanum voru mótfallnir því að selja hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun, sama hvaða verð fengist. Auk þess gat Reykjavíkurborg ekki unað við þau samningsdrög sem þá lágu fyrir. Þannig var málið statt þegar nýr meirihluti tók við stjórn borgarinnar. Í samræmi við eindreginn vilja borgarráðs og borgarstjórnar var haldið áfram að leita leiða til að losa um eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun. Nú hefur það tekist og því fagna borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna mótmælir harðlega fyrirhugaðri sölu á hlut borgarbúa í Landsvirkjun. Með undirskrift borgarstjóra í gær er stigið skrefi nær þeim markmiðum stjórnvalda, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, að einkavæða Landsvirkjun. Sameiginlegt eignarhald ríkis og tveggja sveitarfélaga í Landsvirkjun hefur einmitt tryggt að þessi mikilvæga starfsemi væri í höndum samfélagsins. Nú skal hins vegar haldið inn á braut einkavæðingar, í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna sem er að mola niður samfélagsþjónustuna og koma henni í síauknu mæli í hendur einkaaðilum. Salan á hlut borgarinnar og Akureyrar í Landsvirkjun er liður í þessari yfirlýstu einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins sem samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn, borgarstjórn og bæjarstjórn Akureyrar gangast nú undir. Vinstri grænir mótmæla einnig dæmafáu offari meirihlutaflokkanna í borgarstjórn sem hafa farið á bak við borgarráð og borgarstjórn í málinu. Í júlí sl. hét borgarstjóri því í borgarráði að gera ráðinu grein fyrir framvindu málsins en hefur síðan ekki vikið að því einu orði fyrr en nú kemur fullbúinn samningur þar sem búið er að afsala Reykvíkingum dýrmætri sameign án þess að um það hafi verið fjallað af kjörnum fulltrúum og sjónarmið reifuð. Hér gerir meirihlutinn sig sekan um yfirgang og ólýðræðisleg vinnubrögð sem því miður eru ekki einsdæmi á stuttum valdatíma nýrrar borgarstjórnar. Með þessum gjörningi er vegið að hagsmunum Reykvíkinga, bæði í bráð og lengd og ákvörðun um sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun við þessar aðstæður leiðir til þess að raforkureikningar borgarbúa og landsmanna allra mun hækka stórlega í kjölfarið. Fulltrúar Vinstri grænna leggjast hér eftir sem hingað til gegn þeim einkavæðingarleiðangri sem staðið hefur yfir undir stjórn Sjálfstæðisflokks á annan áratug með stuðningi flokka sem setja hagsmuni valds og áhrifa í öndvegi.

- Kl. 15.10 vék borgarstjóri af fundi.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar ítreka þá afstöðu að Reykjavíkurborg geti ekki til framtíðar verið eigandi að meginhluta helstu orkufyrirtækja landsins. Þess vegna var sala Landsvirkjunar sett í formlegt ferli á síðasta kjörtímabili. Þær viðræður strönduðu sl. vetur af tveimur ástæðum: Annars vegar vegna óábyrgra yfirlýsinga um einkavæðingu fyrirtækisins og hins vegar vegna þess að ríki og Reykjavíkurborg náðu ekki saman um verð. Það vekur furðu að borgarstjóri hafi undirritað samning sem byggir á verðmati sem allir fulltrúar í borgarstjórn voru sammála um að væri allt of lágt fyrir aðeins 9 mánuðum. Breytingar á verði frá umfjöllun borgarráðs í janúar sl. ná ekki einu sinni að mæta þeirri 7#PR verðbólgu sem reiknast frá janúar til október 2006. Kröfur borgarinnar um hærra verðmat voru studdar gildum rökum. Þær fólu í sér að söluverðmæti fyrirtækisins væri nær 90 milljörðum en 60 milljörðum. Þarna munar 50#PR frá fyrirliggjandi samningi eða nærri 15 milljörðum fyrir borgarsjóð. Engin rök hafa verið færð fyrir því hvers vegna fallið var frá þessum kröfum. Þá er lýst vonbrigðum með að greiðslur til borgarinnar eru að stærstum hluta í formi skuldabréfa til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Galli þessarar ráðstöfunar er sá að bréfin bera breytilega en ekki fasta vexti og geta því verið verri til sölu og þannig orðið lífeyrissjóðunum erfið í skauti til að tryggja hámarksávöxtun á hverjum tíma. Nauðsynlegt er að fá úr þessu skorið með áliti lífeyrissjóðsins. Fyrirvarinn um endurskoðun söluverðs til Reykjavíkurborgar við sölu Landsvirkjunar er jafnframt sýndarfyrirvari. Hann er aðeins til fimm ára og virðist nánast aðeins gilda ef Landsvirkjun er greidd út í hönd. Þrátt fyrir fyrirvarann virðist meginhluti kaupverðsins til Reykjavíkurborgar engu að síður vera á formi skuldabréfa sem greidd eru á 28 árum, jafnvel þótt ríkið fá fyrirtækið greitt út í hönd 2. janúar nk. Niðurstaðan er augljós: Illa hefur verið haldið á hagsmunum Reykjavíkurborgar og borgarbúa í viðræðum við ríkið um sölu Landsvirkjunar. Verðið sem fæst fyrir fyrirtækið er fjarri því að vera ásættanlegt, greiðsluformið er vont og fyrirvarar um einkavæðingu halda ekki.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurnir:

I. Alger samstaða var um það í borgarráði á sl. kjörtímabili að það verðmat sem þá væri til umræðu væri óásættanlegt. Fyrirliggjandi samningur felur í sér enn lægra verð ef tekið er mið af verðlagsbreytingum 7#PR frá janúar til október 2006.
Spurt er:
1. Hvers vegna var fallið frá kröfu um að miðað yrði við síðasta þekkta verð til stóriðju í samningum um verð á Landsvirkjun? Hvað hefði það munað miklu í verði á núverandi verðlagi?
2. Hvers vegna var fallið frá kröfu um svokallað smæðarálag sem allir íslenskir bankar beita við verðmat á stærri fyrirtækjum? Hvað hefði það munað miklu í verði á núverandi verðlagi?
3. Hvers vegna var fallið frá kröfu um að miða áhættumat í verðmatinu við áhættu raforkuiðnaðar en ekki áliðnaðar?
Ljóst er ef tekið væri mið af smæðarálagi og síðasta þekkta verð í stóriðjusamningum hefði verðmat Landsvirkjunar verið 65 milljarðar króna á verðlagi í árslok 2005.
Ef miðað er við áhættu raforkuiðnaðar en ekki áliðnaðar og síðasta þekkta verð til stóriðju reiknaðist verðmatið 81,2 milljarðar króna á verðlagi í árslok 2005.
Sé tekið mið af öllu þrennu: Smæðarálagi, áhættu raforkuiðnaðar og síðasta þekkta verði til stóriðju reiknaðist verðmat Landsvirkjunar 91,2 milljarðar í árslok 2005 eða 50#PR hærra verð en nú hefur verið samið um milli Reykjavíkurborgar og ríkisins.
4. Hvernig eru framtíðarmöguleikar Landsvirkjunar, þekking á virkjunum og orkunýtingu, núverandi og væntanleg virkjunar- og rannsóknarleyfi og aðrar duldar eignir verðmetnar og af hverju var fallið frá því að gera kröfur um að þessi verðmæti væru metin?
Fulltrúar ríkisins stóðu gegn því að duldar eignir yrðu metnar til verðs þótt það sé hefðbundið vinnulag, t.d. í aðdraganda einkavæðingar á vegum ríkisins. Duldar eignir myndu bætast við ofangreint verðmat.

II. Athygli vekur að greiðsla til Reykjavíkurborgar verði á formi skuldabréfs með breytilegum vöxtum en ekki föstum vöxtum, einsog lögð hefur verið þung áhersla á af hálfu lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þetta getur gert að verkum að bréfin verði illseljanleg án verulegra affalla og getur án efa haft áhrif á fjárstýringu sjóðsins ef viðunandi sala tekst ekki. Óskað er eftir formlegri umsögn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar um þessi atriði.

III. Athygli vekur að fyrirvari um leiðréttingu á verði og greiðsluformi vegna hugsanlegrar sölu Landsvirkjunar gildir aðeins í um 5 ár. Hvergi virðist kveðið á um að ef ríkissjóður fái félagið greitt út í hönd verði breyting á greiðslufyrirkomulagi til Reykjavíkurborgar. Þannig að hætt er við því að Reykjavíkurborg sitji uppi með illseljanlegt skuldabréf til 28 ára á meðan ríkið fái miklu hærri upphæð greidda út í hönd.
Spurt er:
1. Af hverju var fyrirvarinn ekki lengri?
2. Getur ríkissjóður hafið undirbúning að sölu Landsvirkjunar á næstu fimm árum þrátt fyrir fyrirvarann?
3. Verða greiðslur til Reykjavíkurborgar í formi skuldabréfs til 28 ára þótt ríkissjóður fái fyrirtækið greitt út í hönd 1. janúar 2012, eða fyrr eða síðar, sbr. verklagið við sölu Landssímans?

IV. Við söluna vakna spurningar um meðferð söluhagnaðar borgarinnar. Aðeins er lögð fram greinargerð um að líklegt sé að söluhagnaðurinn verði ekki skattlagður en ekki hefur tekist að finna neina tryggingu fyrir þessu í formlegum samningstexta.
Spurt er:
1. Hvaða tryggingar hafa verið gefnar varðandi skattalega meðferð söluhagnaðar borgarinnar?
2. Myndu þeir þrír milljarðar sem borgin fær í reiðufé duga til að greiða skatta vegna sölunnar verði niðurstaðan sú að greiða þurfi skatt af söluhagnaðinum?

Fundi slitið kl. 15:30

Björn Ingi Hrafnsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Svandís Svavarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir