Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2006, fimmtudaginn 12. október, var haldinn 4953. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Kjartan Magnússon. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 9. september. R06010016
2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 7. september. R06010018
3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs 11. október. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 28. september. R06010026
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R06090184
6. Lagt fram bréf Helga Baldurssonar, móttekið 16. ágúst sl., varðandi kæru vegna lengds opnunartíma veitingastaðarins Angelo, Laugavegi 22A. Jafnframt lögð fram umsögn lögfræðings borgarstjórnar, dags. 9. þ.m., ásamt umsögnum skipulags- og byggingarsviðs frá 6. s.m. og lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs frá 4. september sl. R06030034
Borgarráð samþykkti umsögn lögfræðings borgarstjórnar.
7. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 11. þ.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um Hellisheiðarvirkjun, sbr. 43. liður fundargerðar borgarráðs 5. október sl. R05020006
8. Lögð fram skýrsla innri endurskoðunar, dags. í október 2006, um stjórnsýsluúttekt á fyrirkomulagi stuðnings Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði fagna skýrslu innri endurskoðunar á tónlistarfræðslu í borginni, en eftir þessari úttekt var leitað á síðasta kjörtímabili.
Tekið er undir margt sem þar kemur fram, svo sem að í Reykjavík sé ,,mikið og blómlegt tónlistarlíf sem má að miklu leyti rekja til þess öfluga starfs sem tónlistarskólar hafa sinnt undanfarna áratugi með fjárstuðningi frá Reykjavíkurborg”.
Af einstökum liðum tekur Samfylkingin sérstaklega undir þessar ábendingar:
- Að brýnt sé að ljúka endurskoðun laga um tónlistarfræðslu og ljúka þrætu um hlutdeild ríkisins í framhaldsmenntun í tónlist.
- Að greina þurfi betur milli formlegs tónlistarnáms og tómstundanáms og/eða fullorðinsfræðslu.
- Að skilgreina þurfi betur hlutverk skólahljómsveita.
- Að fylgja þurfi eftir því að skólarnir standi við upplýsingaskyldu sína gagnvart Reykjavíkurborg.
- Að styrkja þurfi eftirlit með skólum bæði er snýr að faglegum og fjárhagslegum þáttum.
Því er fagnað að í skýrslunni kemur fram að almenn ánægja er með gerð þjónustusamninga sem Reykjavíkurborg hafði frumkvæði að og að samskipti borgarinnar og skólanna hafi tekið framförum með tilkomu sérstaks fulltrúa á menntasviði sem sinnir þessum málum.
Lagt er til að skýrslan verði send menntaráði til umfjöllunar. R06060039
9. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Þann 21. september var lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um nektardansstaði í miðborg Reykjavíkur. Í svarinu segir meðal annars: „Umræddir veitingastaðir hafa ekki leyfi til að starfa sem næturklúbbur (nektardansstaðir) í skilningi laga um veitinga- og gististaði. /.../ Samkvæmt þessu á lögreglan að halda uppi lögum og reglu á veitingastöðum eins og annars staðar á almannafæri í samræmi við hlutverk sitt”. Með tilvísun í umrætt svar er lagt til að hafnar verði viðræður milli Reykjavíkurborgar og lögreglunnar um næstu skref til að uppfylla stefnu borgarinnar að því er varðar borgarbrag og þá starfsemi sem fram fer á veitingastöðum í borginni.
Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Á fundi borgarráðs 5. október sl. lagði borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna fram tillögu um að hafnar yrðu viðræður milli Reykjavíkurborgar og lögreglunnar (sbr. liður 42 í fundargerð borgarráðs).
Það samstarf, sem tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna fjallar um, er þegar hafið í starfshópi um bætta verkferla vegna veitinga-, starfs- og vínveitingaleyfa, í því augnamiði að tryggja framgang mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, sem starfar á vegum mannréttindanefndar. Tillagan er því óþörf og er lagt til að henni verði vísað frá. R06090071
Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkv. gegn 3.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Óskað er eftir kynningu á því samstarfi sem þegar er hafið, sbr. rökstuðning í frávísunartillögu meirihlutans, á næsta fundi borgarráðs, þann 19. október.
10. Formaður borgarráðs leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fela framkvæmdasviði að undirbúa auglýsingu húseignarinnar að Fríkirkjuvegi 11 til sölu. Jafnframt að finna hentugra húsnæði fyrir starfsemi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Við val á kaupanda verður auk tilboðsverða tekið tillit til framtíðarnotkunar og sögu hússins. Borgarráð fái auglýsingu með endanlegum skilmálum til samþykktar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi breytingartillögu: Tillagan hljóði svo:
Borgarráð samþykkir að fela framkvæmdasviði að finna hentugra húsnæði fyrir starfsemi ÍTR. Jafnframt samþykkir borgarráð að fela borgarstjóra að vinna tillögur um framtíðarnýtingu hússins að Fríkirkjuvegi 11 sem sómir húsinu og staðsetningu þess í miðju grænu og opnu svæði í miðborg Reykjavíkur. Lögð verði áhersla á að húsið verði áfram nýtt í þágu almennings í borginni. R04030143
Breytingartillagan felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Tillaga formanns borgarráðs samþykkt með 4 atkv. gegn 2.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Húseignin að Fríkirkjuvegi 11 er ein hin fegursta í borginni. Hún er staðsett í Hallargarðinum, í miðju útivistarsvæði borgarbúa við Tjörnina. Það er afar mikilvægt að sú starfsemi sem fer fram í húsinu þjóni almenningi og falli vel að nábýlinu við grænt og opið svæði borgarbúa en húsið sé ekki falboðið auðmannastéttinni í landinu. Vel kemur til álita að flytja starfsemi íþrótta- og tómstundaráðs í húsnæði sem hentar betur starfsemi þess, en Fríkirkjuvegurinn á að vera áfram í eigu borgarinnar, sem á að sjá sóma sinn í því að þar fari fram starfsemi í almannaþágu.
Björk Vilhelmsdóttir óskar bókað:
Það er fráleit málsmeðferð að undirbúa auglýsingu á húseigninni að Fríkirkjuvegi 11 áður en borgarráð fær að fjalla um mögulega framtíðarnotkun hússins og skipulagsskilmála er tryggja borgarbúum aðgang að almenningsgarðinum kring um húsið.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég lýsi andstöðu við áform um sölu húseignarinnar að Fríkirkjuvegi 11. Húseignin með sína merku sögu verðskuldar að vera áfram í eigu almennings.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Húseignin að Fríkirkjuvegi 11 er ein hin fegursta í borginni og liggur að Reykjavíkurtjörn. Þar hafa um árabil verið höfuðstöðvar ÍTR, en af og til hafa komið upp umræður um að finna þeirri starfsemi hentugra húsnæði, því gamla einbýlishúsið er ekki sérhannað fyrir fjölmennan vinnustað með nútímakröfur um aðgengi, t.d. fyrir fatlaða. Því er lagt til að auglýst verði eftir tilboðum í húsið og framkvæmdasviði og ÍTR falið að leita eftir hentugu húsnæði fyrir starfsemi ÍTR til famtíðar.
11. Lögð fram tillaga borgarstjóra frá 3. þ.m. um breytingu á fjárhagsramma fyrir árið 2007.
Samþykkt. R06080092
- Kl. 10.30 vék borgarstjóri af fundi.
12. Rætt um fjárhagsáætlun 2007.
13. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Vegna upplýsinga sem fram hafa komið um að börnum, sem voru mjög framarlega á biðlista ÍTR, hafi verið ýtt til hliðar vegna fötlunar sinnar er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum frá borgarstjóra:
1. Hvernig samræmist þessi framkvæmd mannréttindastefnu borgarinnar?
2. Hvaða reglur gilda um inntöku barna á frístundaheimilin?
3. Gilda sömu reglur fyrir alla skóla?
4. Hafa fötluð börn ekki sama rétt og önnur?
5. Er það ný krafa að allir starfsmenn frístundaheimila séu sérhæfðir, eða á það bara við um fötluð börn?
6. Síðasta ár störfuðu margir ósérhæfðir og góðir starfskraftar með fötluðum, hvers vegna er horfið frá þeirri stefnu?
7. Til hvaða aðgerða hyggst borgarstjóri grípa í framhaldi af þessum upplýsingum? R05080094
14. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að ganga eftir því að vannýttum lóðum við húsnæði ríkisútvarpsins við Efstaleiti verði skilað til Reykjavíkurborgar, þannig að þar megi skipuleggja atvinnulóðir.
Greinargerð fylgir tillögunni. R06100228
Frestað.
15. Lögð fram að nýju úttekt KPMG á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar 30. júní 2006, dags. í október s.á., sbr. 41. liður fundargerðar borgarráðs frá 5. þ.m. R06060102
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Niðurstöður úttektar KPMG á vegum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru í samræmi við þann leiðangur sem flokkarnir lögðu upp í með gamaldags og fyrirsjáanlegi pólitík sem felst í því að leitast við að gera stöðu borgarinnar eins tortryggilega og unnt er áður en ráðist verður í umfangsmikinn niðurskurð, einkavæðingu og eignasölu. Ljóst er af úttektinni að reynt er að draga sérstaklega fram það sem er neikvætt en lítið gert með hið jákvæða í rekstri borgarinnar. Lítil athygli er vakin á því að rekstrarniðurstaða fyrstu sex mánuði ársins 2006 er jákvæð um 8,6 milljarða króna og að heildareignir borgarinnar hafa aukist meira en heildarskuldir á því tímabili sem var til skoðunar. Fram kemur að eiginfjárhlutfall borgarinnar er yfir 40#PR sem telst býsna gott í öllum samanburði. Á hinn bóginn er reynt að draga fram frávik milli ársreikninga og áforma í 3ja ára áætlununum en ekki miðað við raunverulegar fjárhagsáætlanir hvers árs í samanburði við ársreikning eins og eðilegt er að gera. Þá kemur í ljós að frávikin eru sáralítil sem ber vott um trausta fjármálastjórn. Ennfremur virðist sem hluti af tekjum borgarinnar sé ekki alltaf talinn með í úttektinni en með því móti er unnt að halda því fram að tekjur dugi ekki fyrir útgjöldum.
Staða Reykjavíkurborgar við upphaf kjörtímabilsins er traust, öndvert við það sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks halda fram. Í samanburði við önnur sveitarfélög stendur borgin vel að vígi. Traust fjármálastjórn hefur gert borginni kleift að bjóða góða velferðarþjónustu og ryðja brautina hér á landi, m.a. á sviði leikskóla- og grunnskólamála og umhverfismála. Það vekur hins vegar athygli að Framsóknarflokkurinn er á harða hlaupum frá þátttöku sinni í Reykjavíkurlistanum undanfarin 12 ár. Nú hentar þeim flokki að taka undir bölmóðinn sem Sjálfstæðisflokkurin hefur haldið uppi mörg undanfarin ár og klifa á bágri stöðu borgarinnar og snýst eins og vindhani í veðurofsa. Sé þessi söngur á rökum reistur verður fróðlegt að sjá hvað verður um loforðaflaum meirihlutaflokkanna frá því fyrir kosningar, s.s. um lækkun leikskólgjalda, frístundakort, niðurfellingu strætófargjalda og stóraukningu til listaverkakaupa svo fátt eitt sé nefnt. Hér er fyrst og fremst kennt um óstjórn til að nýr meirihluti þurfi ekki að standa við gefin kosningaloforð.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Úttekt KPMG byggir á fyrirliggjandi ársreikningum sem vitna um trausta fjárhagsstöðu borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar. Hafi tilgangur meirihlutans verið sá að breiða yfir þetta við túlkun skýrslunnar er ástæða til að óska þeim til hamingju. Fréttir af blaðamannafundi borgarstjóra bera þess merki að þar hefur augljóslega verið hallað réttu máli. Einhvern tímann hefði það þótt frétt að hreinar skuldir borgarsjóðs eru nú 1,2 milljarðar og hafa lækkað um yfir 90#PR sl. áratug. Skuldaaukning er einkum til komin vegna fyrirtækja borgarinnar þar sem öruggar framtíðartekjur og gríðarleg eignamyndun kemur á móti. Uppbygging þjónustu, innviða og eigna hefur aldrei verið meiri í sögu borgarinnar.
Sérstaka athygli vekur að umfjöllun skýrslu KPMG um frávik frá fjárhagsáætlunum byggir ekki á samanburði á samþykktum fjárhagsáætlunum og ársreikningum. Þess í stað er horft til þriggja ára áætlana sem, færðar eru á föstu verðlagi, eru ekki bindandi á nokkurn hátt og teljast raunar ekki til fjárhagsáætlana.
Það að þriggja ára áætlanir skuli lagðar til grundvallar umræðu um frávik frá fjárhagsáætlunum skrifast þó ekki á reikning KPMG þar sem nýr meirihluti bað beinlínis um þessar marklausu upplýsingar. Sárlega skortir þó á að KPMG dragi fram að forsendur þessa samanburðar séu ómarktækar. Fullyrðing skýrsluhöfunda um að hagræðing hafi ekki gengið eftir á undanförnum árum styðst heldur ekki við rök. Hagræðingarkröfur sem nema hundruðum milljóna króna árlega hafa verið gerðar við undirbúning fjárhagsáætlana og hafa þær gengið eftir.
Til að meta fjármálastjórn er miklu eðlilegra að bera saman samþykktar fjárhagsáætlanir og niðurstöður í ársreikningum. Slík frávikagreining sýnir fram á að frávikin eru innan við 1#PR á undanförnum árum eins og fram hefur komið í endurskoðuðum ársreikningum. Árangur sem hlýtur að vekja athygli. Nægir að vísa til þess reginmunar sem er á fjármálastjórn Reykjavíkurborgar og ríkisins á undanförnum árum að þessu leyti, eins og fram kemur í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar á framkvæmd fjárlaga 2005:
“Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2005 er enn og aftur bent á mikilvægi þess að ráðuneyti og stofnanir ríkisins virði fjárlög. Í árslok 2005 hafði ríflega fjórðungur fjárlagaliða ráðstafað fjármunum umfram heimildir [...]. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á að mikil frávik frá fjárlögum ár eftir ár séu til marks um meira agaleysi í fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga hér á landi en tíðkast í löndum sem Ísland er gjarnan borið saman við.”
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Árásir minnihlutans á hið virta fyrirtæki KPMG eru ekki svaraverðar. Skýrsla fyrirtækisins dregur staðreyndir fram í dagsljósið og minnihlutinn verður að eiga það við sig ef hann telur þær staðreyndir ekki þola dagsbirtu. Staðreyndirnar tala sínu máli.
Úttekt KPMG á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar 30. júní 2006 er áfellisdómur yfir fjármálastjórn síðasta meirihluta. Tölurnar og staðreyndirnar sem settar eru fram í úttektinni tala sínu máli, um þær þarf ekki að deila. Eytt hefur verið um efni fram árum saman, skuldum safnað og þar með gengið á eignir og skattfé borgarbúa. Telja sérfræðingar KPMG brýnt að farið sé yfir fjármálastjórn Reykjavíkurborgar í heild sinni og leitað leiða sem ætla má að leiði til betri rekstrarárangurs.
Í niðurstöðum KPMG kemur meðal annars fram að á tímabilinu frá árinu 2002 til júníloka 2006 hafa rekstrartekjur Aðalsjóðs Reykjavíkurborgar aldrei dugað fyrir almennum rekstrargjöldum. Telja sérfræðingar KPMG brýnt að unnið verði að því að koma rekstri Aðalsjóðs í jafnvægi. Heildarskuldir A hluta (Aðalsjóðs, Eignasjóðs og Skipulagssjóðs) hafa hækkað um 11,8 milljarða kr. frá árinu 2002 til júníloka 2006. Á sama tíma hafa heildareignir A hlutans lækkað um 1,6 milljarða kr. Eigið fé hefur því rýrnað um 13,4 milljarða og má rekja lækkun eigin fjár til uppsafnaðs rekstrarhalla A hluta frá ársbyrjun 2002. Segja sérfræðingar KPMG nauðsynlegt að leita leiða til að snúa þessari þróun við.
Frá árinu 2002 til júníloka 2006 hafa fjárfestingar A og B hluta að stórum hluta verið fjármagnaðar með skuldaaukningu, þar sem veltufé frá rekstri hefur verið mun lægra en fjárfestingar. Peningaleg staða A og B hluta hefur versnað um 87,4 milljarða frá árinu 1994 á verðlagi í júní 2006 og er neikvæð um 114,7 milljarða kr. í lok júní 2006.
Samkvæmt greiningu KPMG á framvindu fjárhagsáætlana fyrir árin 2004, 2005 og 2006 hafa rekstrarmarkmið um afkomu sem sett eru í þriggja ára áætlunum ekki náð fram að ganga. Rekstrargjöld hafa verið hækkuð mun meira milli áætlana en rekstrartekjur. Í þriggja ára áætlun 2007-2009, síðustu áætlun fyrrverandi meirihluta, er gert ráð fyrir tiltekinni hagræðingu í rekstri sem ekki er skilgreind niður á einstök svið og rekstrareiningar. Segja sérfræðingar KPMG að sé tekið mið af framvindu áætlana fyrir síðustu ár hafi áform um hagræðingu ekki náð fram að ganga. Er því brýnt að farið sé yfir fjármálastjórn borgarinnar í heild sinni og leitað leiða sem ætla má að leiði til betri rekstrarárangurs.
Ljóst er að Reykjavíkurborg verður að snúa þessari þróun við, breyta verður neikvæðri rekstrarniðurstöðu í jákvæða til langs tíma og bæta áætlanagerð. Mikilvægt er fyrir nýjan meirihluta að innleiða ábyrga fjármálastjórn og laga reksturinn. Við blasir ákveðinn fortíðarvandi sem takast verður á við og það verður gert.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Því er mótmælt að ráðist sé að KPMG með rökstuddri gagnrýni á rangri túlkun meirihlutans á fyrirliggjandi gögnum. Meirihlutinn getur ekki vísað ábyrgð á villandi umræðu á grundvelli skýrslunnar á fyrirtækið. Vinna KPMG byggir á endurskoðuðum ársreikningum sem lágu fyrir í aðdraganda síðustu kosninga og er ekkert nýtt í henni nema ófullkomin umfjöllun um frávik frá fjárhagsáætlunum og tilraunir nýs meirihluta til að slá ryki í augu borgarbúa.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Ályktanir núverandi meirihluta um fjárhagstöðu Reykjavíkurborgar byggja einungis á faglegri úttekt KPMG. Ljóst er að sú staða er áfellisdómur yfir fjármálastjórn fyrri meirihluta og því þarf það ekki að koma á óvart að núverandi minnihluti grípi til örvæntingafullra varna, eins og bókanir þessar bera með sér.
Fundi slitið kl. 12:55
Björn Ingi Hrafnsson
Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon