Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2006, fimmtudaginn 5. október, var haldinn 4952. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:10. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 12. september. R06010017
2. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Árbæjar frá 5. og 16. september. R06010009
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 26. september. R06010012
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 30. ágúst. R06010013
5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 28. september. R06010014
6. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Úlfarsfells frá 7., 19. og 26. september. R06070017
7. Lagðar fram fundargerðir mannréttindanefndar frá 20. og 29. september. R06060190
8. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs 4. október. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
9. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 21. september. R06010022
10. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 22. september. R06010026
11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R06090184
12. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisleyfi, dags. í dag, alls 6 mál. R06010117
13. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 21. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 20. s.m., varðandi frávísun tillögu um viðræður um byggingu námsmannaíbúða. R06080158
14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 27. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi viðræður um kaup á Árbæjarbletti 62 vegna breytinga á deiliskipulagi Árbæjar og Seláss.
Samþykkt. R06040061
15. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 27. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 27. s.m. varðandi breytingu á aðalskipulagi austursvæðis Vatnsmýrarinnar. R06040065
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 27. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis vegna lóðar fyrir hreinsistöð fráveitu. R06090313
Samþykkt.
17. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 20. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um hönnunarleyfi vegna Laufásvegar 68 og Selvogsgrunns 13. R06090111
Samþykkt.
18. Á fundi borgarstjórnar 19. f.m. var samþykkt tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um fjölskyldustefnu fyrir Reykjavík.
Samþykkt að skipa Björn Inga Hrafnsson, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, Björk Vilhelmsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur í stýrihóp sem vinni að mótun fjölskyldustefnu. R06090081
19. Lagt fram bréf Sigurðar Áss Grétarssonar og Kristjáns S. Kristjánssonar, frá 19. f.m., þar sem óskað er eftir að fá Ziemsen húsið, er áður stóð við Hafnarstræti 21, keypt. Jafnframt er óskað eftir að fá úthlutað lóð undir húsið. R06090189
Vísað til skipulagsráðs hvað varðar hugsanlega staðsetningu hússins.
20. Lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 4. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um umferðaröryggi við Háaleitisbraut, sbr. 39. liður fundargerðar borgarráðs 21. september sl. R05030049
21. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 3. þ.m. ásamt svari framkvæmdastjóra Strætó bs. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um farþegaaukningu hjá Strætó, sbr. 21. liður fundargerðar borgarráðs 21. september sl. R02030079
22. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Strætó bs. frá 4. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Strætó bs. 28. f.m., um að hefja á ný akstur á leið S5 þ.m.t. í Hádegismóa.
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra óska bókað:
Það er með ólíkindum að stjórn Strætó bs. setji Reykjavíkurborg þau skilyrði að akstur hraðleiðarinnar S5 á álagstímum úr Árbænum sé háð því að Reykjavíkurborg ein standi straum af kostnaðinum. Nágrannasveitarfélögin geta ekki sent reikninginn til Reykjavíkur vegna þjónustu innan borgarmarkanna á sama tíma og þau taka til baka það fé sem sparast þegar þjónustan er skert í Reykjavík. Samstarfssveitarfélög Reykjavíkur fengu flest aukna þjónustu við leiðakerfisbreytinguna án þess að framlög þeirra væru aukin hlutfallslega. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Frjálslyndra benda á að það er löngu tímabært að endurskoða heildstætt kostnaðarskiptingu sveitarfélaganna sem standa að Strætó bs., en sú vinna hefur verið dregin á langinn enda vitað að Reykjavík muni koma vel út úr þeirri endurskoðun. Engu að síður fögnum við því að akstur á leið S5 hefjist nú á nýjan leik, enda var ákvörðunin um að hætta akstrinum vanhugsuð.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálsra og óháðra kemur fram mikill misskilningur. Fyrrverandi meirihluti skyldi málefni og fjármál Strætó bs. eftir í algerri óreiðu og þegar ný stjórn tók við þurfti hún að grípa í taumana. Meirihluti borgarstjórnar hefur nú ákveðið að hefja aftur akstur á leið S5 á annatíma á virkum dögum. Frekar en að tefja málið von úr viti, eins og áður tíðkaðist, tekur Reykjavík að sér að greiða fyrir þá þjónustu þar til ný kostnaðarskipting liggur fyrir. Stutt er í að úttekt á fjármálum fyrirtækisins ljúki og kostnaðarskipting endurskoðuð. R02030079
23. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálaráðs frá 26. f.m., þar sem óskað er eftir tilnefningu fulltrúa í dómnefnd bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar 2007. R05050052
Borgarráð samþykkir að tilnefna Kolbrúnu Bergþórsdóttur í dómnefndina og er hún jafnframt formaður.
24. Lagt fram bréf borgarskjalavarðar frá 2. þ.m., þar sem óskað er staðfestingar borgarráðs á leigusamningi um skrifstofu og geymsluhúsnæði að Vatnagörðum 28 milli XCO ehf. og framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 27. september 2006. Jafnframt lagður fram framleigusamningur framkvæmdasviðs og Borgarskjalasafns um fasteignina. Samþykkt. R06090320
25. Lagt fram bréf sviðsstjóra menntasviðs frá 28. f.m. og skrifstofustjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 27. s.m., sbr. samþykkt menntaráðs 4. s.m. og íþrótta- og tómstundaráðs 22. s.m., um nýja samþykkt um rekstur frístundaheimila. R05020008
Frestað.
26. Lagt fram bréf Íþróttafélags Reykjavíkur frá 21. f.m., þar sem formlega er óskað eftir viðræðum við borgaryfirvöld um framtíðarskipulag ÍR-svæðisins í Mjódd. R06100065
Vísað til formanna skipulagsráðs, framkvæmdaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs.
27. Lagt fram bréf forstöðumanns Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar frá 21. ágúst sl., þar sem óskað er eftir fjárstuðningi. R05040121
Samþykktur fjárstuðningur kr. 3.5 milljónir.
28. Lagður fram samningur velferðarsviðs og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, dags. 28. f.m., um rekstur Konukots, ásamt bréfi sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 29. s.m. R06100012
Samþykkt.
29. Lagt fram bréf formanns og framkvæmdastjóra UMFÍ frá 20. f.m., þar sem sótt er um lóð nr. 13 við Tryggvagötu fyrir höfuðstöðvar hreyfingarinnar. R03050171
Vísað til umsagnar skipulagsráðs og framkvæmdasviðs.
30. Lagt fram minnisblað forstöðumanns innri endurskoðunar frá 1. þ.m. um innra eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar. Jafnframt lagt fram bréf sama aðila frá 2. s.m. um breytingar á starfsreglum um innri endurskoðun. R06100028
Afgreiðslu tillagna frestað.
31. Lagt fram minnisblað forstöðumanns innri endurskoðunar frá 2. þ.m. um fyrirkomulag launaafgreiðslu og innra eftirlits. R06100032
32. Lagt fram bréf forstöðumanns innri endurskoðunar frá 3. þ.m. um öryggi upplýsingakerfa. R06100034
33. Rætt um fjárhagsáætlun fyrir innri endurskoðun. R06080092
34. Lagt fram yfirlit yfir dagskrá dagana 9.-15. október í tilefni af að 20 ár eru liðin frá leiðtogafundi Reagan og Gorbachev. R06020093
35. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmdasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs frá 2. þ.m., þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að viðhafa forval vegna fyrirhugaðrar byggingar yfirbyggðar kennslu- og æfingaaðstöðu og aðstöðu til heilsubótar við Vesturbæjarlaug. R04100016
Samþykkt.
36. Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa frá 30. f.m., þar sem hún óskar lausnar frá störfum frá og með 15. nóvember nk. R06100106
Samþykkt. Skipulagsfulltrúa eru þökkuð störf í þágu Reykjavíkurborgar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Á þessum fundi er enn ein uppsögn embættismanns lögð fram.
Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lætur sem ekkert sé og núverandi borgarstjóri víkur sér undan að ræða málið og honum finnst það ekkert tiltökumál þó tæplega 40#PR af æðstu embættismönnum borgarinnar hafi sagt upp störfum á síðustu 12 vikum. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af festu og fagmennsku í stjórnkerfinu ef uppsagnir halda áfram með sama hætti og verið hefur á síðustu þremur mánuðum.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Reykjavíkurborg hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki og hefur átt því láni að fagna að þegar hæft og gott fólk hefur horfið til annarra starfa, hefur jafn hæft og gott fólk komið í þeirra stað. Það er eðlilegur gangur stórra og spennandi fyrirtækja. Meirihluti borgarráðs óskar því starfsfólki velfarnaðar sem snúið hefur sér að öðru og fagnar því starfsfólki sem ráðið hefur verið í staðinn. Það eru engin tilefni til að hafa áhyggjur af stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, sem undir pólitískri forystu nýs meirihluta verður skilvirkara en áður og mun skila þeim árangri sem kjörnir fulltrúar stefna að. Málflutningur Samfylkingarinnar í þessu máli er til þess fallinn að grafa undan trausti borgarbúa á stjórnkerfi borgarinnar, þegar engar efnislegar ástæður gefa tilefni til þess. Það eru auk þess hrein ósannindi að borgarstjóri hafi vikið sér undan að ræða málið.
37. Lagt fram bréf Dags B. Eggertssonar frá 2. þ.m., þar sem óskað er eftir að borgarstjórn samþykki að Stefán Benediktsson taki sæti varamanns í velferðarráði í stað Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur. R06060052
Vísað til borgarstjórnar.
38. Lögð fram tillaga borgarstjóra frá 3. þ.m. um að Ragnhildur Erla Bjarnadóttir verði ráðinn sviðstjóri leikskólasviðs.
Greinargerð fylgir tillögunni. R06100105
Samþykkt. Borgarráð fagnar því að njóta starfskrafta Ragnhildar til starfa sviðsstjóra.
39. Lögð fram yfirlýsing borgarstjóra frá 3. þ.m. varðandi uppbyggingu þjónustumiðstöðva og þjónustuíbúða, þar sem m.a. kemur fram sú ákvörðun, að hvorki borgarstjóri né undirmenn hans komi að samningsgerð og afgreiðslu hugsanlegra samninga við Eir og Hrafnistu og muni formaður borgarráðs ganga frá tillögu.
Lögð fram svohljóðandi tillaga formanns borgarráðs:
Borgarráð samþykkir að hafist verði handa um uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara á tveimur stöðum í borginni. Við Spöng í Grafarvogi og Sléttuveg í Fossvogi. Byggðar verði um 1.100 fermetra félags- og þjónustumiðstöðvar á hvorum stað ásamt 160 - 200 þjónustuíbúðum sem deilist niður á þessa tvo staði eftir því sem skipulag leyfir. Gengið verði frá viljayfirlýsingu við Eir um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar og þjónustuíbúða í Spöng ásamt rekstri. Gengið verði frá viljayfirlýsingu með sama hætti við Hrafnistu um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar og þjónustuíbúða við Sléttuveg ásamt rekstri.
Greinargerð fylgir tillögunni. R06060131
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
Björk Vilhelmsdóttir sat hjá vegna málsmeðferðar en ekki efnismeðferðar.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna fagnar viljayfirlýsingu um uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara í Spöng og við Sléttuveg. Eir og Hrafnista eru báðir ákjósanlegir aðilar úr hópi þeirra sem lýstu áhuga til að standa að uppbyggingu og rekstri á þessum stöðum. Um leið er minnt á mikilvægi þess að mæta þörfum Félags eldri borgara og Samtaka aldraðra fyrir uppbyggingu í þágu þeirra samtaka. Efnisleg afstaða til samninga við ofangreinda aðila verður tekin þegar þeir liggja fyrir.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar lýsa yfir ánægju með fyrirhugaða uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara í Spöng og við Sléttuveg. Að sama skapi undrumst við þá aðferðafræði sem notuð hefur verið við val á samstarfsaðilum. Auglýst var eftir samstarfsaðilum varðandi uppbyggingu búsetuúrræða en nú felur borgarráð tveimur aðilum, af þeim 15 sem sóttu um, Eir og Hrafnistu bæði uppbyggingu og rekstur þessara úrræða. Teljum við að það hefði verið eðlilegra að bjóða út þessa uppbyggingu og rekstur og velja síðan samstarfsaðila út frá gæðum, stefnu og verði sem boðið hefði verið upp á. Engin fordæmi eru um að fela sjálfseignarstofnunum rekstur þjónustu- og félagsmiðstöðva og heimaþjónustu, hvað þá án undangengis útboðs. Þá er ekki óeðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvort það hafi áhrif á val stýrihópsins að borgarstjóri er stjórnarformaður Eirar sem er annar samstarfsaðilinn sem borgarráð nú velur, þó svo hann nú segi sig eftir á frá framtíðar samningsgerð.
- Kl. 13.35 vék Ólafur F. Magnússon af fundi.
40. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar-júní 2006, dags. í sept.#EFK06, ásamt greinargerð fjármálasviðs um rekstur og framkvæmdir borgarsjóðs janúar-júní 2006, dags. 4. þ.m. Þá eru lagðar fram tillögur sviðsstjóra fjármálasviðs um breytingar á fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 101.3 millj. Jafnframt lagðar fram tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun vegna miðlægra kjarasamninga. R06060182
Tillögurnar samþykktar með 5 samhljóða atkvæðum.
41. Lögð fram úttekt KPMG á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar 30. júní 2006, dags. í október s.á. R06060102
- Kl. 14.45 vék borgarstjóri af fundi.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Úttekt KPMG á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar 30. júní 2006 er áfellisdómur yfir fjármálastjórn síðasta meirihluta. Tölurnar og staðreyndirnar sem settar eru fram í úttektinni tala sínu máli, um þær þarf ekki að deila. Eytt hefur verið um efni fram árum saman, skuldum safnað og þar með gengið á eignir og skattfé borgarbúa. Telja sérfræðingar KPMG brýnt að farið sé yfir fjármálastjórn Reykjavíkurborgar í heild sinni og leitað leiða sem ætla má að leiði til betri rekstrarárangurs.
Í niðurstöðum KPMG kemur meðal annars fram að á tímabilinu frá árinu 2002 til júníloka 2006 hafa rekstrartekjur Aðalsjóðs Reykjavíkurborgar aldrei dugað fyrir almennum rekstrargjöldum. Telja sérfræðingar KPMG brýnt að unnið verði að því að koma rekstri Aðalsjóðs í jafnvægi. Heildarskuldir A hluta (Aðalsjóðs, Eignasjóðs og Skipulagssjóðs) hafa hækkað um 11,8 milljarða kr. frá árinu 2002 til júníloka 2006. Á sama tíma hafa heildareignir A hlutans lækkað um 1,6 milljarða kr. Eigið fé hefur því rýrnað um 13,4 milljarða og má rekja lækkun eigin fjár til uppsafnaðs rekstrarhalla A hluta frá ársbyrjun 2002. Segja sérfræðingar KPMG nauðsynlegt að leita leiða til að snúa þessari þróun við.
Frá árinu 2002 til júníloka 2006 hafa fjárfestingar A og B hluta að stórum hluta verið fjármagnaðar með skuldaaukningu, þar sem veltufé frá rekstri hefur verið mun lægra en fjárfestingar. Peningaleg staða A og B hluta hefur versnað um 87,4 milljarða frá árinu 1994 á verðlagi í júní 2006 og er neikvæð um 114,7 milljarða kr. í lok júní 2006.
Samkvæmt greiningu KPMG á framvindu fjárhagsáætlana fyrir árin 2004, 2005 og 2006 hafa rekstrarmarkmið um afkomu sem sett eru í þriggja ára áætlunum ekki náð fram að ganga. Rekstrargjöld hafa verið hækkuð mun meira milli áætlana en rekstrartekjur. Í þriggja ára áætlun 2007-2009, síðustu áætlun fyrrverandi meirihluta, er gert ráð fyrir tiltekinni hagræðingu í rekstri sem ekki er skilgreind niður á einstök svið og rekstrareiningar. Segja sérfræðingar KPMG að sé tekið mið af framvindu áætlana fyrir síðustu ár hafi áform um hagræðingu ekki náð fram að ganga. Er því brýnt að farið sé yfir fjármálastjórn borgarinnar í heild sinni og leitað leiða sem ætla má að leiði til betri rekstrarárangurs.
Ljóst er að Reykjavíkurborg verður að snúa þessari þróun við, breyta verður neikvæðri rekstrarniðurstöðu í jákvæða til langs tíma og bæta áætlanagerð. Mikilvægt er fyrir nýjan meirihluta að innleiða ábyrga fjármálastjórn og laga reksturinn. Við blasir ákveðinn fortíðarvandi sem takast verður á við og það verður gert.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Úttekt KPMG var lögð fram á fundinum og fulltrúar minnihlutans hafa ekkert tækifæri haft til að kynna sér efni hennar að neinu marki. Fulltrúi Vinstri grænna áskilur sér allan rétt til að bóka um málið á síðari stigum þegar tækifæri hefur gefist til að skoða málið af kostgæfni.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggja fram ítarlega bókun vegna úttektar KPMG á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Úttektin var lögð fyrst fram á fundinum og fulltrúum minnihlutans var ekki mögulegt að kynna sér efni úttektarinnar fyrr en á fundinum. Við áskiljum okkur því rétt til að taka málið fyrir á næstu fundum borgarráðs, ræða þetta ítarlega og bóka frekar efnislega enda virðist vera full ástæða til þess.
42. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Þann 21. september var lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um nektardansstaði í miðborg Reykjavíkur. Í svarinu segir meðal annars: „Umræddir veitingastaðir hafa ekki leyfi til að starfa sem næturklúbbur (nektardansstaðir) í skilningi laga um veitinga- og gististaði. /.../ Samkvæmt þessu á lögreglan að halda uppi lögum og reglu á veitingastöðum eins og annars staðar á almannafæri í samræmi við hlutverk sitt”. Með tilvísun í umrætt svar er lagt til að hafnar verði viðræður milli Reykjavíkurborgar og lögreglunnar um næstu skref til að uppfylla stefnu borgarinnar að því er varðar borgarbrag og þá starfsemi sem fram fer á veitingastöðum í borginni. R06090071
Frestað.
43. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samkvæmt upplýsingum á vef Orkuveitu Reykjavíkur hófst raforkuframleiðsla í Hellisheiðarvirkjun þann 1. október sl. Umsagnarfrestur um starfsleyfi fyrir virkjunina var hins vegar auglýstur til 16. október. Óskað er upplýsinga um það á hvaða forsendum Orkuveitan gangsetti virkjunina ef starfsleyfi hafði ekki verið gefið út og umsagnarfrestur almennings var ekki liðinn. R05020006
44. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Að undanförnu hefur komið fram í fjölmiðlum að umtalsverð aukning hafi orðið í umferð æfinga- og kennsluflugs, þ.m.t. snertilendinga, og umferð stórra flugvéla um Reykjavíkurflugvöll. Af því tilefni er þess óskað að Flugmálastjórn láti borgarráði í té sundurgreindar upplýsingar um flugumferð um Reykjavíkurflugvöll frá og með árinu 2000 þar sem m.a. komi fram:
1. heildarfjöldi hreyfinga (hversu stór hluti er snertilendingar) skipt eftir:
a. tegund flugs, þ.e.
i. sjúkra- og neyðarflug
ii. þjónustuflug hvers konar
iii. áætlunarflug innanlands
iv. áætlunarflug millilanda
v. einkaflug innanlands
vi. einkaflug millilanda
vii. æfinga- og kennsluflug
b. flugbrautum
c. tíma sólarhrings
d. stærð flugvéla (hreyfilsstærð og þyngd)
2. heildarfjöldi farþega í áætlunarflugi annars vegar og í öðru flugi hins vegar.
3. hvaða reglur gilda um umferð og takmörkun á umferð um Reykjavíkurflugvöll, m.a. að því er lýtur að þyngd flugvéla, hreyfilsstærð, brautarnotkun, tíma sólarhrings, snertilendingum og hvort breytingar hafi verið gerðar á slíkum reglum á tímabilinu.
4. upplýsingar um leyfi sem gefin hafa verið á tímabilinu fyrir flugsýningum yfir þéttbýli við Reykjavík.
5. yfirlit yfir starfsemi og rekstraraðila á Reykjavíkurflugvelli, þ.m.t. fjölda starfsmanna. R06090252
45. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í ljósi þess hversu margir embættismenn hafa hætt á síðustu vikum og þess óöryggis sem ríkir hjá mörgum embættismönnum borgarinnar vilja fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði leggja fram eftirfarandi fyrirspurn.
1. Hvenær á að auglýsa stöðu borgarritara?
2. Hvernig verður ráðningarferlinu háttað? R06100160
Fundi slitið kl. 15:45
Björn Ingi Hrafnsson
Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Kjartan Magnússon Steinunn Valdís Óskarsdóttir