Borgarráð - Fundur nr. 4951

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2006, fimmtudaginn 21. september, var haldinn 4951. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:10. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björn Ingi Hrafnsson, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 15. ágúst. R06010017

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 13. september. R06010015

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 14. september. R06010035

4. Lögð fram fundargerð mannréttindanefndar frá 6. september. R06060190

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 20. september. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

6. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 5. september. R06010022

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R06090004

8. Lagður fram dómur Héraðsdóms í máli E-6217/2005, Hannes Freyr Guðmundsson gegn Reykjavíkurborg. R05100097

9. Lagt fram minnisblað verkefnisstjórnar vegna olíubirgðarstöðvar í Örfirisey frá 15. þ.m. varðandi verklag, tímaáætlun og fjárhagsramma verkefnisins. R06080061
Samþykkt.
Borgarráð fagnar því að málið sé komið á þennan rekspöl og verkefnisstjórninni er þakkað fyrir að vinna hratt og vel í samræmi við tillögu starfshóps frá í maí sl.

10. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 20 þ.m. ásamt upplýsingum frá lögreglu og slökkviliði vegna umferðaróhapps í Ártúnsbrekku 19. þ.m.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Atburðurinn við Miklubraut undirstrikar mikilvægi þess að Sundabraut komist til framkvæmdar án tafar og að Öskjuhlíðargöng verði forgangsverkefni frekar en mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut-Miklubraut. Með Sundabraut og Öskjuhlíðagöngum fengi umferðarflæðið á höfuðborgarsvæðinu þrjá meginása frá austri til vesturs í stað þess að Miklubraut einni sé ætlað það hlutverk. Með þessari forgangsröðun myndi umferðarflæðið um höfuðborgarsvæðið dreifast betur og akandi höfuðborgarbúum yrði ekki öllum beint inn á einn og sama punktinn með tilheyrandi vandamálum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Þær tafir sem urðu á umferð í borginni þriðjudaginn 19. sept. sl. vegna óhapps í Ártúnsbrekkunni, sýna fyrst og fremst að gatnakerfið í borginni er víða ofmett. Ártúnsbrekkan ber að hámarki 80 þúsund bíla á sólarhring, en umferð þar er nú um 85 þúsund bílar á sólarhring. Það þarf því ekki stór óhöpp til að allt fari úr skorðum. Þessi ofmettun á Miklubrautinni stafar af því að lítið sem ekkert hefur verið aðhafst í samgöngumálum borgarinnar undanfarin ár. Nýr meirihluti tók við málefnum Sundabrautar nánast á byrjunarreit, skýrslur um mislæg gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut höfðu safnað ryki og lega og gerð Hlíðarfótar/Öskjuhlíðargangna hefur ekki verið ákveðin. Nýr meirihluti mun vinna hratt og örugglega að þessum verkefnum og bæta þannig ástandið á götum borgarinnar, enda ekki vanþörf á eftir áratug orða án aðgerða.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað að hann taki undir bókun fulltrúa Samfylkingarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Nýr meirihluti kýs að skauta býsna létt yfir stífni ríkisvaldsins í að veita fjárframlögum til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Undirbúningur að leiðarvali Sundabrautar var langt komin á síðasta kjörtímabili og hefur verið forgangsmál borgarinnar í meira en áratug en er ekki á frumstigi líkt og ranglega er haldið fram. Öskjuhlíðargöng eru í frumhönnun. Staðreyndin er hins vegar sú að samgönguyfirvöld hafa hingað til ekki fengist til að veita nauðsynlegum fjárframlögum til Sundabrautar í útfærslu sem borgarstjórn og íbúar geta lifað með. Til að tryggja úrbætur í þessu efni mun því reyna verulega á borgarstjórn á næstu mánuðum og misserum við að ákvarða bestu forgangsröð stórframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður að knýja á um að það leiðarval á Sundabraut sem leitt getur til sáttar um þá framkvæmd, jarðgangaleið. R06090117

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra velferðarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 13. s.m., um breytingar á reglum um styrkveitingar velferðarráðs. R06090084
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs, frá 20. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á breyttu deiliskipulagi Frakkastígsreits, sem afmarkast af Laugavegi, Vatnsstíg, Hverfisgötu og Frakkastíg. R06060036
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað að hann vísi til bókunar fulltrúa VG í skipulagsráði. Eins vísa fulltrúar Samylkingar og Sjálfstæðisflokks í bókun fulltrúa sinna í skipulagsráði.

13. Lögð fram ályktun Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum frá fundi 9. þ.m. varðandi málefni Reykjanesfólkvangs. R05110033

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Ég get tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í ályktuninni. Jafnframt legg ég áherslu á að borgarráð skipi fulltrúa bæði meiri og minnihluta til að vinna áfram að þessu máli.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Borgarráð samþykkir að fela menningar- og ferðamálasviði að kanna mögulega nýtingu Reykjavíkurborgar á Aðalstræti 10 með það fyrir augum að gera hönnun og handverki skil í þessu elsta húsi borgarinnar. Jafnframt er sviðinu falið að gera úttekt á aðkomu Reykjavíkurborgar að hönnunarmálum og meta hagsmuni Reykjavíkurborgar af því að efla starfsvettvang og kynningu fyrir hönnun í Reykjavík. Borgarráð veitir 1.5 mkr. til verkefnisins sem skal nýta til að greiða laun verkefnisstjóra og annan kostnað sem fellur til vegna verkefnisins.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06090101
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. Jafnframt að vísa erindinu til menningar- og ferðamálaráðs.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Það vekur furðu að borgarráð leggi lykkju á leið sína við að taka fram fyrir hendur menningar- og ferðamálaráðs við afgreiðslu á fyrirliggjandi tillögu. Ekki eru nema fáeinar vikur frá því að sérstakt bréf barst frá ráðinu þar sem vandað var um fyrir meirihluta borgarráðs í því efni. Farið er með þetta mál eins og um einhvers konar feluleik sé að ræða. Lang eðlilegast hefði verið að vísa málinu til umfjöllunar menningar- og ferðamálaráðs þar sem eðlilegt er að verkefnið verði tekið til umfjöllunar og reynt að leysa úr því á eins markvissan og ódýran hátt og hægt er, t.d. innan sviðsins eða með stofnun starfshóps. Samfylkingin mun fylgja því eftir að svo verði.

15. Lagður fram samningur Reykjavíkurborgar, Hr. Örlygs ehf. og Icelandair um samstarf um tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. R06090089
Samþykkt.

16. Lagt fram minnisblað verkefnisstjóra viðburða menningar- og ferðamálasviðs, ódags., varðandi myrkvun Reykjavíkur í tengslum við alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík. Jafnframt lögð fram kynningaráætlun Reykjavík International Film Festival um viðburðinn. R05080114
Samþykkt.

17. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Borgarráð samþykkir að hefja nú þegar undirbúning að því að Reykjavíkurborg dragi sig út úr byggðasamlaginu Strætó og endurreisi Strætisvagna Reykjavíkur. Jafnframt verði unnin áætlun um að stórefla almenningssamgöngur í Reykjavík með aukinni ferðatíðni og auknum forgangi Strætó í umferðinni.

Greinargerð fylgir tillögunni. R02030079
Frestað.

18. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra:

Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að nú þegar verði hafnar viðræður um þátttöku ríkisins í kostnaði við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Viðræðum verði lokið fyrir 1. október 2006.

Greinargerð fylgir tillögunni. R02030079

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:

Tillagan hljóði svo:
Borgarráð beinir því til stjórnar Strætó bs. að teknar verði upp viðræður milli byggðasamlagsins og ríkisins um þátttöku ríkisins í kostnaði við almenningssamgöngur. Óskað er eftir því að borgarráð verði upplýst um niðurstöður viðræðna með reglulegu millibili.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi breytingartillögu við breytingartillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:

Síðari málsliður hljóði svo:
Óskað er eftir því að borgarráð verði upplýst um gang viðræðna............. Lögð er áhersla á að hraða viðræðunum eins og kostur er.

Breytingartillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna samþykkt.
Breytingartillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks samþykkt svo breytt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Í dag eru nákvæmlega tveir mánuðir síðan Samfylkingin, VG og Frjálslyndir lögðu til að teknar yrðu upp viðræður við ríkisstjórnina um þátttöku ríkisins í kostnaði við almenningssamgöngur. Síðan hefur umhverfisráðherra marg kallað eftir slíkum viðbrögðum meirihluta borgarstjórnar við hugmyndinni sem verður óneitanlega að teljast til nokkurra tímamóta í samskiptum ríkis og Reykjavíkurborgar. Umhverfisráðherra ítrekaði þetta í upphafi samgönguviku á dögunum með orðunum “boltinn er hjá borginni”. Verður það að teljast nokkuð neyðarlegur skortur á snerpu hjá borgarstjóra að aðhafast ekki í málinu og samþykkja fyrirliggjandi tillögu ekki fyrr en nú.

19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 20. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar varðandi akstur Strætó í Árbæjarhverfi, sbr. 16. liður fundargerðar borgarráðs frá 31. ágúst sl. R02030079

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Borgarráð beinir því til stjórnar Strætó bs. að tekinn verði upp akstur á leið S5 á álagstímum á virkum dögum, frá kl. 6.30 til 9.00 og 14.30 til 18.00, og að ekið verði einnig að Hádegismóum. R02030079

Lögð fram svohljóðandi viðaukatillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar:

Í ljósi mikillar notkunar á þjónustu strætisvagna í Ártúnsholti, Árbæjarhverfi, Selás og Norðlingaholti verði þegar hafinn undirbúningur að því að þjónusta hraðleiðar við þessi hverfi verði sambærileg við þjónustu slíkra stofnleiða við önnur stór hverfi og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Það er áfangasigur fyrir baráttu íbúa í Árbæjarhverfi að horfið verði frá þeirri fráleitu ákvörðun að leggja af hraðleiðina sem tengdi hverfið við flesta stærstu vinnustaði landsins. Það er mikilvægt að viðurkennt er að ákvörðunin um að leggja þessa leið niður studdist ekki við nokkur rök. Það eru því ákveðin vonbrigði að úrbæturnar nái aðeins til álagstíma og að hraðleið gangi ekki um helgar. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að Árbæjarhverfi njóti jafnræðis við önnur hverfi og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir að leiðin þjóni hverfinu ekki aðeins á álagstímum heldur verði þjónustan í Árbæ sambærileg við önnur hverfi borgarinnar. Ekki þarf að efa að íbúar munu fylgja þessu fast eftir og mun Samfylkingin ekki láta sitt eftir liggja í því efni, eins og ný tillaga Samfylkingarinnar í borgarráði ber merki. Tillaga um að hraðleiðin í Árbæjarhverfi verði tekin upp aftur og tíu mínútna tíðni fái að sanna sig í vetur eru nú til meðferðar umhverfisráðs.

Tillaga borgarstjóra samþykkt.
Viðaukatillögu Samfylkingar frestað.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Rétt er að minna á að þegar nýr meirihluti tók við í Reykjavík var ljóst að fjárhagsstaða Strætó bs. var löngu komin á hættustig. Þessum upplýsingum hafði fyrri meirihluti kosið að halda utan við umræðuna, en það er einmitt þessi slæma fjárhagsstaða sem veldur því að stjórn Strætó bs. hefur neyðst til að endurskoða þjónustu sína. Fjölgun farþega eftir að nýr meirihluti tók við er fagnaðarefni, auk þess sem Reykvíkingar hljóta að fagna tillögu borgarstjóra um að koma til móts við óskir íbúa í Árbæ, með akstri á leið S5 á nýjan leik.

21. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Þær ánægjulegu fréttir hafa nú borist frá Strætó bs. að farþegum hafi fjölgað um 20#PR í júlí og ágúst samanborið við sömu mánuði í fyrra. Farþegar í júlí voru alls 559.315 en voru 470.160 í júlí 2005. Í ágúst var fjöldi farþega 755.325 en var 625.589 í sama mánuði á síðasta ári. Þetta er mikill viðsnúningur frá fyrsta ársþriðjungi þegar farþegum fækkaði um 1,9#PR frá fyrsta ársþriðjungi 2005. Alls fjölgaði farþegum þessa tvo mánuði um 220.000.
Þess er skemmst að minnast að skorið var niður í þjónustu Strætó um 360 milljónir króna á ársgrundvelli um miðjan júlí sl. og uppgefin ástæða var “fyrst og fremst fækkun farþega” eins og sagði í fréttatilkynningu stjórnar. Þótt reyndar hafi komið í ljós að stór hluti af þessari fjárþörf var vegna þess að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur að Hafnarfirði undanskyldum höfðu staðið gegn því að endurskoða fjárhagsáætlun Strætó bs. í ljósi breytts leiðakerfis og kjarasamninga en aðeins að litlu leyti vegna fækkunar farþega, er engu síður brýnt að borgarstjóri afli eftirfarandi upplýsinga:
1. Hverjar telur borgarstjóri ástæður þessarar gríðarlegu aukningar farþega Strætó í júlí og ágúst?
2. Hafði stjórn Strætó ekki nýjustu upplýsingar um þróun farþegafjölda þegar hún kynnti niðurskurð í leiðarkerfi Strætó?
3. Hver verða áhrif farþegaaukningarinnar á fjárhag Strætó ef aukning farþega heldur áfram á sama hraða og í júlí og ágúst? R02030079

22. Borgarráð samþykkir að Jórunn Ósk Frímannsdóttir taki sæti í stjórn Fjölsmiðjunnar í stað Bjarkar Vilhelmsdóttur. R05120023

23. Borgarráð samþykkir að tilnefna Þórólf Jónsson í búfjáreftirlitsnefnd til loka kjörtímabilsins. R03070005

24. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 19. þ.m., þar sem lagðar eru til breytingar á samþykkt um skiptingu Reykjavíkurborgar í hverfi. R06090092
Samþykkt.

25. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 19. þ.m., þar sem lögð er til breyting á 2. mgr. 1.gr. samþykktar fyrir hverfisráð. R06090092
Vísað til borgarstjórnar.

26. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 7. þ.m. þar sem óskað er samþykkis til að ganga frá fjölmynta veltilánalínu. R06090051
Vísað til borgarstjórnar.

27. Lagt fram svar borgarstjóra frá 20. þ.m. við fyrirspurn borgaráðsfulltrúa Samfylkingar um frístundakort, sbr. 27. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. september sl. R06090075

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar óska bókað:

Hér er um afar áhugavert mál að ræða þar sem mjög miklu skiptir hvernig að útfærslu og framkvæmd verði staðið. Í ljósi stóryrtra yfirlýsinga í aðdraganda kosninga og í fjölmiðlum að undanförnu vekur furðu hve hugmyndin um frístundakort er enn óljós. Í ljósi þess að kortið á að ná til “íþrótta, listnáms og viðurkenndrar tómstundastarfsemi” verður að gera kröfu til þess að fundað verði með listaskólum og öðrum sem veita tómstundaþjónustu og þeir aðilar heimsóttir á þessu mótunarstigi, ekki síður en fulltrúar íþróttafélaga. Þess er óskað að borgarráði verði gerð grein fyrir hugmyndum um útfærslu kortsins um leið og þær fæðast þannig að tryggt verði að stuðningurinn verði ekki skattskyldur og að félagsleg markmið frístundakortsins náist til fulls.

28. Lagt fram svar borgarstjóra frá 19. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna varðandi aðstoð við heimilislausar konur, sbr. 25. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. september sl. R06090072

29. Lagt fram svar borgarstjóra frá 19. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um nektardansstaði í borginni, sbr. 24. liður fundargerðar borgarráðs 14. september sl. R06090071

30. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 20. þ.m., þar sem lagt er til að af hálfu Reykjavíkurborgar verði Birgir Björn Sigurjónsson, Ingunn Gísladóttir og Kjartan Magnússon tilnefnd í launanefnd sveitarfélaga. Til vara eru tilnefnd Gunnar Eydal, Ragnhildur E. Bjarnadóttir og Jórunn Frímannsdóttir. R06090109
Samþykkt.

31. Lagt fram bréf safnstjóra Ljósmyndasafns Reykjavíkurborgar frá 19. þ.m. um kaup á ljósmyndum frá Moskvu vegna leiðtogafundarins í Höfða fyrir 20 árum, kaupverð 250.000. R06020093
Samþykkt.

32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Borgarráð samþykkir að nýta heimild þá sem felst í samþykkt Launanefndar sveitarfélaga, dags. 17. september 2006, til að framlengja nú þeirri tímabundnu breytingu á kjörum leikskólakennara sem samþykkt var af borgarráði 2. febrúar 2006 um einn mánuð, þ.e. til og með 31. október 2006.

Greinargerð fylgir tillögunni. R04100131
Samþykkt.

- Kl. 12.55 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir tekur þar sæti.

33. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 19. þ.m., þar sem lagt er til að Stella Víðisdóttir, viðskiptafræðingur, verði ráðin í starf sviðsstjóra velferðarsviðs. R06080005

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri gænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn og tillögu:

Það er skýr ábyrgð opinbers stjórnvalds þ.m.t. Reykjavíkurborgar að þegar ráðið er í stöður þá sé ekki aðeins hæfur umsækjandi ráðinn heldur hinn hæfasti. Fagsviðum Reykjavíkurborgar er ætlað að stýra hverju sínum málaflokki af fagmennsku og þar liggur hin faglega ábyrgð og stefnumótun sviðsins til lengri tíma. Fagleg forysta liggur hjá sviðsstjóra svo og að vinna með ráðinu að stefnumörkun og þróun þjónustunnar. Sterkur hópur umsækjenda vekur sérstaka athygli þar sem handhafar doktorsgráðu á því fagsviði sem um er að ræða skuli ekki vera taldir hæfastir til starfs sviðsstjóra velferðarsviðs. Í ljósi þess sem að ofan greinir og án þess að á nokkurn sé hallað vilja borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óska eftir sundurliðuðum samanburði á þeim 5 umsækjendum sem voru metnir hæfastir hvað varðar menntun, þekkingu, reynslu og hæfni til að gegna faglegri forystu velferðarsviðs. Lagt er til að afgreiðslu málsins verði frestað þar til þessi gögn liggja fyrir.

Tillaga um frestun málsins felld með 4 atkv. gegn 3.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum að ráða Stellu Víðisdóttur til starfsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Það vekur furðu að ekki er fallist á að lagður sé fram faglegur og málefnalegur rökstuðningur fyrir ráðningu þegar eftir því er óskað. Það á sér heldur ekki fordæmi að ekki sé fallist á ósk um frestun vegna þess að gögn skortir. Nýjum sviðsstjóra er enginn greiði gerður með þessari óvönduðu málsmeðferð því þetta vekur ugg um að verið sé að hverfa aftur til gamalla tíma í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það er alrangt að við þessa ráðningu skorti gögn eða að málsmeðferð sé með einhverjum hætti óvönduð, eins og borgarráðsfulltrúar minnihlutans kjósa að kalla það. Þau gögn sem liggja fyrir eru algjörlega sambærileg við það sem vanalega liggur fyrir við ráðningar í borgarráði, auk þess sem niðurstaða þeirra sem fóru yfir umsóknir er afar afdráttarlaus. Samhljóða er þar mælt með Stellu K. Víðisdóttur, enda er það mikill fengur fyrir Reykjavíkurborg að fá svo hæfan og reynslumikinn einstakling til starfa.

35. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 19. þ.m., þar sem lagt er til að Birgir Hlynur Sigurðsson, skipulagsfræðingur, verði ráðinn í starf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs. R06090096
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Við styðjum ráðningu Birgis H. Sigurðssonar í starf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs. Engu að síður veldur það vonbrigðum að aðeins ein umsókn hafi borist um þetta þýðingarmikla og áhugaverða starf. Getur verið að áherslur nýs meirihluta í skipulagsmálum haldi fagfólki almennt frá því að sækja um starfið?

36. Lagt fram bréf forstöðumanns innri endurskoðunar frá 4. þ.m., þar sem hann óskar lausnar frá starfi. R06090094
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Á þessum fundi hefur það gerst að fjórði sviðsstjórinn, á stuttum tíma, hefur sagt upp störfum. Þetta vekur athygli og upp vakna spurningar um starfsskilyrði æðstu embættismanna af hálfu borgarstjóra og núverandi meirihluta. Enn einu sinni tekst ekki að halda í gott fagfólk sem sinnti störfum sínum af fagmennsku og með hagsmuni borgarinnar í huga. Af þeim 12 sviðsstjórum Reykjavíkurborgar sem hafa unnið ötullega á undanförnum árum að faglegri stjórnsýslu hafa nú 4 sagt upp störfum og 1 er í tímabundnu leyfi.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Á valdatíma R-listans ákváðu fjölmargir af æðstu embættismönnum borgarinnar að láta af störfum. M.a. ákvað fjármálastjóri borgarinnar að láta af sínu starfi skömmu fyrir síðustu kosningar. Auk þess ákváð borgarlögmaður að hætta í ágúst 2003. Nýr borgarlögmaður var ráðinn og ákvað að hætta eftir 3-4 mánuði í starfi. Nýr borgarverkfræðingur var ráðinn um mitt ár 2003, en ákvað að hætta rúmu ári síðar eða haustið 2004. Að auki gegndu þrír einstakl
ingar starfi borgarstjóra, sem er æðsti embættismaður borgarinnar, á síðasta kjörtímabili. Fleiri slík dæmi mætti nefna, en það hlýtur að teljast sérkennilegt að fyrrverandi meirihluti skuli nú telja það að æðstu embættismenn láti af störfum veki upp spurningar um starfsskilyrði þeirra og störf borgaryfirvalda.

37. Lagður fram ársreikningur skíðasvæðis höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2005. Jafnframt lagt fram minnisblað forstöðumanns innri endurskoðunar frá 18. þ.m. varðandi reikninginn. R06010224
Minnisblaði forstöðumanns innri endurskoðunar vísað til íþrótta- og tómstundaráðs og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

38. Lagt er til að Benedikt Geirsson verði aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði í stað Mörtu Guðjónsdóttur. Jafnframt er lagt til að Marta Guðjónsdóttir verði varamaður í íþrótta- og tómstundaráði í stað Benedikts Geirssonar. R06060047
Vísað til borgarstjórnar.

39. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í ljósi frétta af slysi við Háaleitisbraut er óskað eftir því að borgarráði verði gerð grein fyrir umferðaröryggi við götuna, hvaða leiðir eru til úrbóta og að lögð verði fram aðgerðaráætlun í því efni. R05030049

Fundi slitið kl. 14:00

Björn Ingi Hrafnsson

Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir