No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2006, fimmtudaginn 24. ágúst, var haldinn 4948. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:05. Viðstaddir voru Björn Ingi Hrafnsson, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Úlfarsfells frá 15. ágúst. R06070017
2. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 23. ágúst. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R06080016
4. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 16. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi athafnasvæðis Halla, austan Vesturlandsvegar. R06080076
Samþykkt.
- Kl. 11.10 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.
5. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 12. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi deiliskipulag reits sem afmarkast af Hringbraut, Víðimel og Meistaravöllum. R06040112
Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir fyrirliggjandi skipulag, með þeirri breytingu að bílskúrar verði teknir af svæðinu. Að auki er lögð áhersla á að hugað verði að göngutengingu yfir Hringbraut á þessu svæði.
Tillaga borgarstjóra samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég vísa til fyrri bókunar, þar sem lýst er andstöðu við fyrirliggjandi tillögu.
Árni Þór Sigurðsson óskar bókað:
Ég sit hjá við afgreiðslu málsins enda tel ég skipulag reitsins ekki gott og ekki í samræmi við skipulag við Hringbraut að öðru leyti. Þá liggja fyrir mótmæli íbúa við að taka þetta græna svæði undir byggð.
6. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d.,varðandi auglýsingu á tillögum að breytingum á aðalskipulagi og svæðisskipulagi vegna Höfðatorgsreits. R06080107
Samþykkt.
7. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 22. þ.m. varðandi úthlutun fjárhagsramma til fagráða fyrir árið 2007. R06080092
Frestað.
8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Staða sviðsstjóra stjórnsýslu- og starfsmannasviðs verður innan tíðar auglýst laus til umsóknar.
Lagt er til við borgarráð að starfsheitinu verði breytt þannig að tekið verði upp að nýju starfsheitið borgarritari.
Greinargerð fylgir tillögunni. R06080077
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Felur þessi breyting í sér breytingar á starfssviði viðkomandi sviðsstjóra? Má borgarráð eiga von á fleiri tillögum frá borgarstjóra þar sem lagt er til að horfið sé til fortíðar og gömul embættisheiti tekin upp?
Bent er á að markmið stjórnkerfisbreytinga í október 2004 var að einfalda kerfið, gera það aðgengilegt borgarbúum, stofnaðar voru þjónustumiðstöðvar, búið var til eitt símaver sem annast miðlæga símsvörun í einu og sama númerinu og m.a. voru starfsheiti einfölduð og þau samræmd. Í takt við nútímalega stjórnsýslu voru tekin upp starfsheitin sviðsstjórar varðandi öll 9 sviðin sem stofnuð voru.
9. Lögð fram að nýju tillaga Árna Þórs Sigurðssonar um endurskilgreiningu á starfi og hlutverki frístundaleiðbeinenda og skólaliða, sbr. 32. liður fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst. R06080067
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarstjóri skipaði, með sérstöku erindisbréfi dags. 28. júní sl., starfshóp um samþættingu grunnskóla, leikskóla, frístundaheimila, frístundamiðstöðva og þjónustumiðstöðva. Í hópnum eiga sæti sviðsstjórar menntasviðs, íþrótta- og tómstundasviðs og þjónustu- og rekstrarsviðs.
Eitt af hlutverkum hópsins er að skoða samstarfsmöguleika menntasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs varðandi starfsmannamál frístundaheimila. Lagt er til að borgarráð samþykki að vísa tillögu Árna Þórs Sigurðssonar til þessa starfshóps með það að markmiði að þau atriði sem fram koma í tillögunni verði tekin til sérstakrar skoðunar samhliða öðrum verkefnum hópsins.
Tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks samþykkt.
10. Lagður fram ársreikningur Íþrótta- og sýningarhallarinnar í Laugardal hf. fyrir árið 2005, ásamt minnisblaði innri endurskoðanda, dags. 10. þ.m. R06010224
11. Lögð fram tillaga starfshóps framkvæmdaráðs, skipulagsráðs og umhverfisráðs að umsögn um matsáætlun vegna annars áfanga Sundabrautar, dags. 20. þ.m. R04100023
Samþykkt.
Árni Þór Sigurðsson óskar bókað:
Óhjákvæmilegt er að annar áfangi Sundabrautar með fimm mislægum gatnamótum mun hafa neikvæð áhrif á umhverfi, náttúrusvæði, landslagsásýnd og hljóðvist á útivistar- og íbúðarsvæðum allt umhverfis Leiruvog. Spurningin er aðeins hversu mikil þau áhrif verða. Ég tel að ekki sé í drögum að matsáætlun né umsögn hópsins lögð nægileg áhersla á það hversu verðmætt áhrifasvæði þessa kafla Sundabrautarinnar er í náttúrulegu tilliti. Ég geri því þrjá fyrirvara við umsögn hópsins um drögin sem ég er samþykkur að öðru leyti.
1. Göng frá Gufnesi í Gunnunes. Ég tel rétt að gera nú þegar á frumstigi ráð fyrir þeim möguleika að leggja Sundabraut 2 í göngum allt frá Gufunesi undir Eiðsvík, um Geldinganes og undir Leiruvog í Gunnunes. Ávinningurinn yrði m.a.:
- Betri hljóðvist. Hávaði af umferð um brautina myndi ekki valda truflun í fyrirhuguðu íbúðarhverfi í Geldingnesi, né í Borga- og Staðahverfum.
- Minni sjón- og hljóðmengun. Áfram yrði hægt að njóta útivistar á golfvellinum, á göngustígnum og við einu óspilltu fjörur borgarlandsins án sjón- og hljóðmengunar.
- Óbreytt útsýni. Landslagsásýnd út yfir Sundin og eyjar á Kollafirði yrði ekki rofin af uppfyllingum eða brúm.
- Fallaskipti tryggð. Engin breyting yrði á sjávarföllum í Leiruvogi en leirurnar, ásamt Blikastaðakró og Úlfarsárósum eru á náttúruminjaskrá og Varmárósar friðlýstir.
- Viðkvæmu dýralífi hlíft. Botndýralíf sem er undirstaða ríkulegs fuglalífs á leirunum yrði óskert, og selir og laxar ættu áfram óhindraða leið inn og út úr Leiruvogi.
2. Fleiri kostir en mislæg gatnamót. Full ástæða er til að skoða fleiri valkosti en mislæg gatnamót í því umhverfi sem hér um ræðir. Aðrar lausnir eru ódýrari og geta verið umhverfisvænni auk þess sem þær draga úr umferðarhraða.
3. Formlegt samráð við íbúasamtök og hverfisráð. Vegna náttúruverndargildis svæðisins og mikilvægi þess fyrir útivist íbúa í aðliggjandi byggðum er brýnt að taka nú þegar upp formlegt samráð við íbúasamtök og hverfaráð Grafarvogs og Kjalarness um þetta verkefni.
- Kl. 12.00 víkur Steinunn Valdís Óskarsdóttir af fundi.
12. Lagður fram ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur sf. fyrir árið 2005, ásamt minnisblaði innri endurskoðanda, dags. 10. þ.m. R06010224
13. Lagt fram afrit af bréfi borgarfulltrúa Vinstri grænna frá 22. þ.m. til stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur sf. varðandi tjáningarfrelsi starfsmanna Orkuveitunnar. R06080117
14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 21. þ.m. varðandi gerð lóðarleigusamnings um lóð nr. 36 við Lambasel. R05030013
Samþykkt.
15. Borgarráð samþykkir að skipa Gísla Martein Baldursson, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Dag B. Eggertsson og Árna Þór Sigurðsson í starfshóp sem fjalli um framtíðarnotkun og skipulag byggðar í Örfirisey, sbr. 25. liður fundargerðar borgarrráðs frá 17. ágúst. R06080061
16. Lögð fram greinargerð formanns og framkvæmdastjóra verkefnisstjórnar um framkvæmd Menningarnætur í Reykjavík 2006, dags. í dag. R06010073
Borgarráð þakkar verkefnisstjórn Menningarnætur, verkefnisstjóra, starfsfólki Reykjavíkurborgar, lögreglunni og öllum þátttakendum, sem lögðu sitt að mörkum til glæsilegrar dagskrár, fyrir vel unnin störf við undirbúning og framkvæmd Menningarnætur 2006, sem tókst einstaklega vel.
Björk Vilhelmsdóttir óskar bókað:
Reykjavíkurborg og Reykvíkingar geta verið hæstánægðir með Menningarnótt í ár eins og fyrri ár. Stórgóðir óperutónleikar á Miklatúni á Menningarnótt sýndu enn frekar þá miklu möguleika sem felast í að gera sumartónleika á Miklatúni að föstum lið í borgarlífinu. Til þess þarf að skapa aðstæður eins og fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði hafa lagt til.
17. Lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um atvinnulóðir, dags. 22. þ.m., sbr. 11. liður fundargerðar borgarráðs frá 17. ágúst. R06080029
18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. þ.m.:
Laugardaginn 19. ágúst sl. lauk Jón Eggert Guðmundsson frækilegri strandgöngu sinni í kringum landið til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands.
Í tilefni þessa merka framtaks samþykkir borgarráð tillögu borgarstjóra um 200.000 króna styrk til starfsemi félagsins. Borgarráð óskar Krabbameinsfélaginu heilla í framtíðarstörfum sínum. R06080093
Samþykkt.
19. Lagt fram afrit af bréfi borgarstjóra til formanns Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, dags. í dag, varðandi aðilaskipti að rekstri Alþjóðahússins ehf. R02110072
20. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um stofnun samráðshóps um hugsanlegar breytingar á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, sbr. 29. liður fundargerðar borgarráðs frá 15. júní. R04090026
Vísað til umhverfisráðs.
21. Lagður fram kjarasamningur Læknafélags Íslands og Reykjavíkurborgar, dags. 29. júní 2006. R06060201
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.
22. Lagt fram afrit af bréfi borgarstjóra til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 21. þ.m. þar sem óskað er eftir viðræðum um framkvæmd uppbyggingar í þágu aldraðra í Sogamýri. R03110033
23. Kynnt fegrunarátak á Kjalarnesi laugardaginn 26. þ.m. R06080097
24. Lagt fram yfirlit borgarstjóra frá 23. þ.m. yfir umsóknir sem borist hafa um stöðu sviðsstjóra velferðarsviðs. R06080005
Fundi slitið kl. 13:25
Björn Ingi Hrafnsson
Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon