Borgarráð - Fundur nr. 4947

Borgarráð

BORGARRÁÐ

Ár 2006, fimmtudaginn 17. ágúst, var haldinn 4947. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:05. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björn Ingi Hrafnsson, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Miðborgar frá 1. og 3. ágúst. R06010016

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 10. ágúst. R06010035

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 16. ágúst. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 24. júlí. R06010022

5. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 9. ágúst. R06010002

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R06080016

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 16. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á aðalskipulagi vegna afmörkunar á sorpurðunarstað á Álfsnesi. R05090248
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf Salvarar Jónsdóttur frá 10. þ.m., þar sem hún óskar lausnar úr starfi sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá og með 1. október n.k. R06080043
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Nýjum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Borgarstjórn Reykjavíkur, hefur á þeim tæpu tveimur mánuðum sem hann hefur verið við völd, tekist að hrekja á brott fjóra af æðstu embættismönnum borgarinnar. Sviðsstjórar velferðarsviðs og stjórnsýslu- og starfsmannasviðs hafa sagt upp störfum og skrifstofustjóri borgarstjóra er í leyfi. Nú bætist við uppsögn sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs. Þeir sviðsstjórar sem hér um ræðir hafa langan starfsaldur og hafa sýnt mikinn faglegan metnað fyrir Reykjavíkurborg.
Nýjum meirihluta virðist ekki takast að halda í þetta góða fagfólk og er ástæða til að hafa áhyggjur af fagmennsku og festu í stjórnsýslu borgarinnar ef svo heldur fram sem horfir.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskað bókað:

Þessi bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar er dæmalaus, slík eru ósannindin og rangfærslurnar í þessari bókun. Bókunin einkennist af aðdróttunum og ómerkilegheitum. Þeir þrír sviðsstjórar sem nú hafa ákveðið að láta af störfum hafa gert það algjörlega á sínum forsendum og samkvæmt eigin ósk, eins og m.a. hefur komið fram hér á fundinum hjá sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs.
Sá hugur sem að baki bókun Samfylkingarinnar býr hlýtur með einhverjum hætti að lýsa starfsháttum fyrrverandi borgarstjóra og samskiptum hans við embættismenn borgarinnar.
Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vill við starfslok sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs, þakka Salvöru Jónsdóttur fyrir vel unnin störf á vegum Reykjavíkurborgar og óska henni velfarnaðar í störfum sínum í framtíðinni.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Undirrituðum þykir mjög miður að sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs hafi tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu. Um er að ræða einn af hæfustu starfsmönnum borgarinnar, sem hefur verið frábært að starfa með, jafnt í skipulagsráði sem borgarráði. Ég skil hinsvegar vel ákvörðun sviðsstjórans og virði hana. Ég óska Salvöru Jónsdóttur alls velfarnaðar í störfum hennar á öðrum vettvangi.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarfulltrúar Vinstri grænna harma að sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs, Salvör Jónsdóttir, hafi afráðið að segja starfi sínu lausu. Við viljum færa Salvöru þakkir fyrir frábærlega vel unnin störf og óskum henni velfarnaðar í framtíðinni.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Nýr meirihluti virðist enn vera að máta sig í þá stöðu að vera ekki lengur í minnihluta. Meirihlutinn verður að geta tekið gagnrýni á störf sín með málefnalegum hætti og hætta þeim ósið að væna aðra um ósannindi. Staðreyndin er sú að á þeim tveimur mánuðum frá því stjórnarskipti urðu hafa margir æðstu embættismenn borgarinnar sagt upp störfum. Vekur það spurningar um starfsskilyrði og metnað núverandi valdhafa til að halda í hæft starfsfólk. Á fundi borgarráðs í sumar hafa verið lagðar fram uppsagnir þriggja sviðsstjóra, skrifstofustjóri borgarstjóra er í námsleyfi og í hennar stað var ráðinn starfsmaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins til nokkurra ára. Jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar hefur sagt upp störfum eftir áralangt farsælt starf. Það er eðlilegt að velt sé upp spurningum um hvað valdi? Ef menn þola ekki vangaveltur og spurningar um þetta, er kannski rétt að menn séu áfram í minnihluta.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Í upphaflegri bókun Samfylkingarinnar var því haldið fram að meirihlutanum „hefði tekist að hrekja” ýmsa góða starfsmenn borgarinnar frá Ráðhúsinu. Það er einfaldlega rangt, eins og staðfest var strax eftir að bókunin hafði verið lögð fram. Sjálfsagt er að ræða mannaráðningar og skipan starfsmannamála á málefnalegan og upplýstan hátt, en dylgjur Samfylkingarinnar í upphaflegri bókun eiga ekkert skylt við slíka umræðu.

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 14. þ.m. þar sem tilkynnt er að lóð sú við Kistumel, sem úthlutað var af borgarráði til H.S. málverks ehf., sbr. 13. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. febrúar sl., hafi ranglega verið tilgreind sem nr. 7, hið rétta sé að hún sé nr. 9. R04020047

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 14. þ.m. þar sem lagt er til að eftirtöldum aðilum verði úthlutað byggingarrétti á lóðum á Esjumelum sem hér segir, með nánar tilgreindum skilmálum:

Kistumelur nr. 7, Strókur ehf.
Kistumelur nr. 10, Húsbílahöllin ehf.
Kistumelur nr. 11, Minjavernd hf.
Kistumelur nr. 13, Vilhjálmur Húnfjörð ehf.
Kistumelur nr. 16, Hringrás ehf.
Kistumelur nr. 22, Byggingafélagið Traust ehf.
Esjumelur nr. 7, Byggingafélagið Timburmenn ehf. R04020047

Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 8. þ.m. þar sem lagt er til að Patron ehf. verði úthlutað byggingarrétti á lóð nr. 91 og Endurskoðun og uppgjöri ehf. á lóð nr. 93 við Jónsgeisla, með nánar tilgreindum skilmálum. R06080029
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja til að málinu verði frestað.
Tillaga um frestun felld með 4 atkvæðum gegn 2.
Erindi skrifstofustjóra framkvæmdasviðs samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um stöðu atvinnuhúsalóða í borginni. Hvaða aðferðarfræði var beitt við úthlutun byggingarréttar við Esjumela og við Jónsgeisla? Einnig er óskað eftir nákvæmum lista yfir alla umsækjendur um atvinnulóðir, hvaða lóðir hver sækir um og einnig alla þá sem sótt hafa um ótilgreinda staðsetningu lóða. Að auki er beðið um upplýsingar um hvað líði vinnu við skipulagningu nýrra atvinnusvæða.

12. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 2. þ.m. þar sem lagt er til að Skeljungi hf. verði úthlutað lóðinni nr. 3 við Bústaðaveg fyrir sjálfsafgreiðslubensínstöð, með nánar tilgreindum skilmálum. R06080022
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 10. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 28. júní s.l., þar sem lagt er til að í þjónustuhóp aldraðra skv. 6. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999, verði skipuð til loka kjörtímabilsins þau Jórunn Frímannsdóttir, sem gegni formennsku, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Geir Guðmundsson, Þórunn Ólafsdóttir og Helgi Seljan. R05030039
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 11. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 9. s.m., varðandi breyttar reglur um akstursþjónustu fyrir eldri borgara. R05100196
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 3. þ.m. þar sem óskað er staðfestingar borgarráðs á nánar tilgreindum þjónustusamningum velferðarsviðs við ýmis félagasamtök sem gerðir hafa verið á árunum 2005-2006. R06080018
Samþykkt.

16. Kynnt er dagskrá Menningarnætur 19. ágúst n.k. R06010073

17. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík frá 16. maí sl.. varðandi hugmyndir um myrkvun í Reykjavík í tengslum við kvikmyndahátíð 28. september nk. Jafnframt lögð fram umsögn sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs frá 29. júní sl. um málið. Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að verða við erindi forsvarsmanna Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, um að myrkva Reykjavík fimmtudaginn 28. september 2006. Fyrirvari við heimildina er sá að Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík standi fyrir og kosti heildstæða fjölmiðlakynningu og auglýsingar á viðburðinum og skal tryggja með öllum tiltækum ráðum að upplýsingar berist tímanlega til allra borgarbúa.
Höfuðborgarstofu er falið að vera tengiliður við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík um viðburð þennan og skal gera borgarráði grein fyrir kynningaráætlun um viðburðinn. R05080114

Tillaga borgarstjóra samþykkt.

18. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, sbr. 12. liður fundargerðar borgarráðs 29. júní sl.:

Borgarstjóra verði falið að leita eftir samvinnu við samkeppniseftirlitið og/eða önnur yfirvöld samkeppnismála um hvernig staðið verði vörð um samkeppnissjónarmið við skipulag og úthlutanir lóða. Leitað verði erlendra fyrirmynda í þessu efni og m.a. hugað að því hvernig búa skuli að slíkum úthlutunum í skilmálum skipulags og lóðaúthlutunum eða hvort koma þurfi til breytingar á lögum. R06030131

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja til að tillögunni verði vísað frá.
Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Úthlutun lóða í Reykjavík er verkefni kjörinna borgarfulltrúa sem hafa verið kosnir af borgarbúum til að stjórna borginni. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skorast ekki undan ábyrgð sinni og þurfa ekki leiðbeiningar stofnana ríkisins, s.s. Samkeppniseftirlits, um hvernig staðið skuli að stjórn borgarinnar. Stjórnendur Reykjavíkurborgar frábiðja sér afskipti annarra af stjórn borgarinnar og munu aldrei óska eftir sérstakri lagasetningu um lóðaúthlutanir í Reykjavík eins og Samfylkingin er að leggja til. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa ákveðið að auka framboð á lóðum í Reykjavík undir atvinnustarfsemi, enda eftirspurn mjög mikil.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Það vekur undrun að tillögunni skuli vísað frá. Eðlilegt hefði verið að leita eftir samvinnu við yfirvöld samkeppnismála til að leita allra leiða til að tryggja að samkeppnissjónarmið séu höfð í heiðri, þegar lóðum er úthlutað. Það er misskilningur að verið sé að óska eftir sérstakri lagasetningu. Eingöngu samstarfi við þá aðila sem best þekkja til samkeppnismála.

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, dags. 1. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að fela Höfuðborgarstofu að kanna leiðir til samstarfs um kaup eða leigu á sviði sem koma má upp á Miklatúni yfir sumartímann til að gera sumartónleika á Miklatúni að föstum lið í borgarlífinu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06080002
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar starfshóps um Miklatún.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga stjórnkerfisnefndar frá 25. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjóra, dags. 28. s.m.:

Stjórnkerfisnefnd leggur til við borgarráð að V- og F-lista verði veittur einn sameiginlegur áheyrnarfulltrúi í hvert hverfisráð.

Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 15. þ.m. varðandi samsvarandi breytingu á samþykkt fyrir hverfisráð Reykjavíkurborgar. R06030153
Tillagan samþykkt, breytingarnar taki gildi 1. janúar 2007.

21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir styrkumsóknir er borist hafa borgarráði, dags. 2. þ.m. R06010037
Samþykkt að veita Félagi áhugafólks og aðstandenda Alzheimer-sjúklinga styrk að fjárhæð 150 þkr. til útgáfu upplýsingabæklings. Jafnframt samþykkt að veita undirbúningshópi borgaraþingsins #GLBlessuð sértu borgin mín#GL styrk að fjárhæð 47.740 kr. til greiðslu salarleigu.

22. Samþykkt að kjósa Katrínu Fjeldsted formann stjórnar Kirkjubyggingarsjóðs til loka kjörtímabilsins. R06080049

23. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-6008/2005, Rúnar Sólberg Unnsteinsson og Sjöfn Garðarsdóttir gegn Reykjavíkurborg og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. R02100073

24. Lögð fram yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Félags eldri borgara frá 19. f.m. um málefni aldraðra. Jafnframt lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarstjóra, dags. 20. f.m.:

Borgarráð fagnar samkomulagi Landssambands eldri borgara og ríkisins um víðtækar aðgerðir til að bæta aðbúnað og kjör aldraðra. Í samkomulaginu er m.a. gert ráð fyrir að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hækki um kr. 15.000 á mánuði frá 1. júlí, skerðing bóta frá Tryggingastofnun ríkisins vegna tekna maka muni minnka og vasapeningar hækki um 25#PR. Einnig fagnar borgarráð því að það fjármagn sem nú gengur til reksturs stofnana úr framkvæmdasjóði aldraðra gangi til uppbyggingar öldrunarstofnana sem og því markmiði að auka fjárveitingu til framkvæmda og reksturs átaks vegna biðlista eftir hjúkrunarrými. Er þetta í samræmi við stefnu borgaryfirvalda um að bæta búsetuskilyrði eldri borgara og auka þjónustu í þágu aldraðra með byggingu 200 öryggis- og þjónustuíbúða. Nýlega auglýsti stýrihópur um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir eldri borgara í Reykjavík eftir samstarfsaðilum hvað þetta varðar. R06010195

Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

25. Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að stofna starfshóp sem fjalli um framtíðarnotkun og skipulag byggðar á Örfirisey og tengdum landfyllingum. Hópurinn verði skipaður einum fulltrúa Faxaflóahafna, sem jafnframt verði formaður, þremur fulltrúum borgarráðs og fulltrúum olíufélaganna á svæðinu. Er hópnum m.a. ætlað að kanna möguleika á flutningi olíubirgðastöðva úr Örfirisey, skipulag nýrra landfyllinga út í nálægar eyjar og samþættingu íbúðabyggðar við atvinnusvæði. Starfshópurinn leggi álit sitt fyrir borgarráð eigi síðar en 1. maí n.k. R06080061

Samþykkt.
Tilnefningu í starfshópinn frestað.

26. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 15. þ.m. um skipan þriggja vinnuhópa til endurskoðunar á launaeftirliti, launaáætlunargerð og launaákvörðunum hjá Reykjavíkurborg. R06080053

27. Lagt fram svar borgarstjóra frá 16. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um frestun framkvæmda, sbr. 17. liður fundargerðar borgarráðs frá 27. júlí sl. R06020037

28. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:

SPES samtökin standa að byggingu barnaþorps í lýðveldinu Togo fyrir foreldralaus börn. Er hér um að ræða mikið og fórnfúst sjálfboðaliðastarf að frumkvæði Íslendinga. Lagt er til að Reykjavíkurborg leggi þessu mikilvæga starfi lið með 700.000 króna fjárframlagi. R06030174

Samþykkt.

29. Lögð fram drög að vinarbæjarsamkomulag Vilnius og Reykjavíkur, ódags. R06060177
Samþykkt.

- Kl. 13.20 víkur borgarstjóri af fundi.

30. Lagður fram kaupsamningur Þinghúss ehf. og Reykjavíkurborgar, dags. 25. f.m., um kaup borgarinnar á leikskólanum Vinagerði, Langagerði 1. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 27 s.m. varðandi málið. R06070150
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum, Björk Vilhelmsdóttir situr hjá við afgreiðsluna.

31. Lagðar fram að nýju tillögur að nýrri samþykkt fyrir leikskólaráð og breyttri samþykkt fyrir menntaráð, dags. 8. þ.m., sem og tillaga að breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, dags. 4. s.m.; síðari umræða. Jafnframt lagður fram undirskriftalisti starfsmanna leikskóla, þar sem stofnun nýs leikskólaráðs og leikskólasviðs er mótmælt. R06080006

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði fordæma vinnubrögð og þær fyrirætlanir meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að kljúfa menntaráð. Tekið er undir þau rök gegn skiptingunni sem fram koma í ályktun frá Reykjavíkurdeild Félags leikskólakennara (FL), Kennarafélagi Reykjavíkur (KFR) og nú síðast ályktun frá opnum fundi í Ráðhúsinu 15. ágúst sl. Við styðjum ítrekaða andstöðu og efasemdir fagstétta og foreldrasamtaka í borginni við að kljúfa menntaráð borgarinnar. Enn er lagt til að áformum um að skipta menntaráði í tvennt verði frestað um a.m.k. eitt og hálft til tvö ár. Að þeim tíma liðnum fari fram mat menntaráðs á reynslunni af þeirri nýju skipan, sem þegar hefur lofað góðu og ótímabært er að hafna að svo stöddu.
Á opnum fundi sem leikskólastjórar boðuðu til 15. ágúst sl. til að fá fram fagleg rök og svör við eðlilegum spurningum kom ekkert fram af hálfu meirihlutans. Engu var hægt að svara um hvernig til stæði að efla leikskólastigið, engu var svarað um kostnað og komið var með þeim hætti fram við fagfólk, sem fundinn sat, að undrun sætti. Það er ekki góð byrjun fyrir nýjan meirihluta að ástunda slík vinnubrögð.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Frjálslynda flokksins óska bókað:

Í umfjöllun nýs meirihluta hafa enn engin haldbær fagleg eða pólitísk rök komið fram sem réttlæta eða styðja þá ákvörðun meirihlutans að kljúfa leikskólamál frá öðrum menntamálum í borginni. Ákvörðunin er úr takti við alla skólaþróun undanfarinna ára, menntun kennara, þróun fagumhverfisins og hefur auk þess enn ekki verið studd neinum athugunum eða könnunum á reynslunni af núverandi fyrirkomulagi né viðhorfsathugunum meðal fagfólks.
Að öllu skoðuðu virðist liggja fyrir að einu gildir fyrir nýjan meirihluta hvað fagfólk og hagsmunaaðilar hafa fram að færa. Það vekur ugg ef framgangur þessa máls gefa borgarbúum fyrirheit um vinnubrögð meirihlutans í öðrum málaflokkum.
Borgarráði hafa nú borist yfir 700 undirskriftir starfsfólks leikskólanna, þar sem ákvörðuninni er mótmælt. Vinstri grænir og Frjálslyndir taka undir þessi mótmæli. Í ljósi þeirra er nú enn skorað á meirihlutann að gefa eðlilegan tíma til umræðunnar, láta gera úttekt á reynslunni af bæði menntaráði og menntasviði og taka ákvarðanir byggðar á slíkri úttekt í sátt við fagumhverfið og hagsmunaaðila eins og mögulega er unnt. Slík vinnubrögð væru í takt við nútímalegt lýðræði sem meirihlutanum væri hollt að kynna sér og jafnvel tileinka sér eftir því sem kjörtímabilinu vindur fram.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Lögð verður mikil áhersla á að vinna að undirbúningi leikskólasviðs í nánu samstarfi við starfsfólk menntasviðs. Í því starfi verður jafnframt lögð áhersla á náið samráð sviðanna og þar sem því verður við komið geti einstaka rekstrarþættir verið sameiginlegir. Þannig verði tryggt að samstarf sviðanna verði mikið og aukin samfella náist í skólastarf barna og unglinga sem meirihlutinn leggur þunga áherslu á.
Það er von meirihlutans að það góða fólk sem starfar að menntamálum barna og unglinga í borginni taki heilshugar þátt í því mikilvæga starfi sem framundan er.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Frjálslynda flokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra leggja til að afgreiðslu á tillögu þess efnis að skipta menntaráði í tvennt, menntaráð og leikskólaráð, verði frestað þar til meirihlutinn hefur svarað þeim fyrirspurnum er liggja fyrir í málinu.

Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 að vísa tillögu um frestun málsins frá.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við fyrirhugað nýtt leikskólasvið. Hvernig verður starfsmannamálum háttað, hve stór verður hin nýja skrifstofa og hvernig verður öðrum starfsmannamálum háttað?

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Öllum spurningum hefur verið svarað á vettvangi menntaráðs, stjórnkerfisnefndar og borgarráðs og vísar meirihlutinn til ítrekaðra umræðna og bókana á þeim vettvangi. Svör við spurningum um kostnað og fleiri mikilvæg atriði berast um leið og þau liggja fyrir.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Frjálslynda flokksins óska bókað:

Það er einstakt að svo stórar ákvarðanir séu teknar án þess að fyrir liggi fagleg rök eða svör við þeim spurningum sem bæði minnihlutinn og fagfólk hefur sett fram. Vænst er að svörin liggi fyrir sem allra fyrst.

Tillögur að nýjum samþykktum fyrir leikskólaráð og menntaráð og breytingum á samþykkt fyrir stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, samþykktar með 4 atkvæðum gegn 3.

32. Árni Þór Sigurðsson leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að settur verði á stofn starfshópur sem endurskilgreini starf og hlutverk frístundaleiðbeinenda og skólaliða í grunnskólum og frístundaheimilum með það að markmiði að samræma störf þeirra, sem bæði lúta að því að efla félagsþroska barna og samskiptahæfni þeirra. Starfshópurinn hefji þegar störf og skili tillögum til borgarráðs fyrir 1. nóvember n.k.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06080067
Frestað.

Fundi slitið kl. 14:35

Björn Ingi Hrafnsson

Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Kjartan Magnússon Steinunn Valdís Óskarsdóttir