Borgarráð - Fundur nr. 4946

Borgarráð

BORGARRÁÐ

Ár 2006, fimmtudaginn 10. ágúst, var haldinn 4946. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11.10. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björn Ingi Hrafnsson, Árni Þór Sigurðsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Kjartan Magnússon. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 1. ágúst. R06010008
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 26. júlí. R06010009

3. Lögð fram fundargerð menntaráðs frá 4. ágúst. R06010003

4. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 9. ágúst. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Skipulagssjóðs frá 3. júlí. R06010022

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 24. júlí. R06010024

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R06080016

8. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisveitingaleyfi, dags. í dag, alls 9 mál. R06010117

9. Lagt fram yfirlit skrifstofustjóra gatna- og eignaumsýslu frá 15. f.m. yfir færanlegar kennslustofur í Reykjavík, ásamt bréfi skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 25. s.m. R06080011

10. Lagt fram að nýju bréf byggingarnefndar Hlíðarendasvæðisins frá 14. júní sl. varðandi framkvæmdir á Hlíðarenda og fjárframlög vegna þeirra, sbr. samþykkt framkvæmdasviðs 26. s.m. Jafnframt lögð fram umsögn sviðsstjóra fjármálasviðs frá 24. f.m. Þá er lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 9. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð staðfesti þann hluta samþykktar framkvæmdaráðs, sem snýr að breyttu fyrirkomulagi fjárveitinga byggingarnefndar Hlíðarendasvæðisins og framkvæmdasviðs að fjárhæð 200 mkr. R05060067
Tillaga sviðsstjóra framkvæmdasviðs samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 2. þ.m. þar sem lagt er til að Skeljungi hf. verði úthlutað lóðinni nr. 3 við Bústaðaveg fyrir sjálfsafgreiðslubensínstöð, með nánar tilgreindum skilmálum. R06080022
Frestað.

12. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 1. þ.m. um stofnun lögbýlisins Stekks á Lambhagalandi 6. R06080019
Samþykkt.

13. Lagt fram yfirlit framkvæmdasviðs frá 3. þ.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um stöðu framkvæmda við skólalóðir í sumar, sbr. 7. liður fundargerðar borgarráðs frá 27. f.m. R06070104

14. Lagt fram svar borgarstjóra frá 3. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um undirbúning gervigrasvallar í Úlfarsárdal, sbr. 8. liður fundargerðar borgarráðs frá 27. f.m. R04090061

15. Samþykkt að tilnefna Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur sem varamann í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands til loka kjörtímabilsins. R02030136

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga stjórnkerfisnefndar frá 8. þ.m. um stofnun leikskólaráðs og leikskólasviðs, sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjóra, dags. s.d.:

Stjórnkerfisnefnd leggur til við borgarráð að þann 15. september 2006 taki til starfa nýtt leikskólaráð, er fari með forræði og ábyrgð málefna barna á leikskólaaldri í Reykjavík og þjónustu við foreldra þeirra. Málefni leikskólans og daggæslu í heimahúsum færist frá menntaráði til hins nýja leikskólaráðs, en leikskólaráð og menntaráð starfi náið saman að málefnum barna í Reykjavík.
Jafnframt er lagt til að komið verði á fót nýju fagsviði hjá Reykjavíkurborg, leikskólasviði, sem fari með framkvæmd þeirra verkefna, sem undir hið nýja leikskólaráð heyra. Borgarstjóra verði falið að undirbúa stofnun hins nýja sviðs. Þeir starfsmenn sem starfa í þágu leikskólans á menntasviði í dag flytjist yfir á hið nýja svið, sem taki til starfa sem fyrst. Fram að þeim tíma fari menntasvið og sviðsstjóri þess með framkvæmd þessara verkefna skv. samþykkt fyrir leikskólaráð.
Meðfylgjandi eru tillögur að nýrri samþykkt fyrir leikskólaráð og breyttri samþykkt fyrir menntaráð, sem og breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Jafnframt lögð fram drög að nýrri samþykkt fyrir leikskólaráð og breyttri samþykkt fyrir menntaráð, dags. 8. þ.m., sem og tillaga að breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, dags. 4. s.m. Þá er lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra um málið, dags. 8. þ.m. R06080006

Árni Þór Sigurðsson óskar bókað:

Ég óska eftir að áður en fyrsta umræða um málið fer fram, liggi fyrir:
a. Skrifleg greinargerð meirihluta borgarstjórnar um faglegar forsendur og ávinning af breytingunum.
b. Yfirliti yfir þá fagaðila sem málið hefur verið unnið í samráði við, sbr. bókun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í menntaráði þ. 4. ágúst sl.
c. Skriflegar umsagnir félaga leikskólakennara, leikskólastjóra, grunnskólakennara og grunnskólastjóra.
d. Skrifleg lýsing sviðsstjóra menntasviðs á því hvernig skipta eigi sviðinu upp.
e. Skrifleg svör við fyrirspurnum fulltrúa SAMFOKS sem lagðar voru fram í menntaráði þann 4. ágúst sl.
f. Umsögn fjármálasviðs og stjórnsýslu- og starfsmannasviðs um breytingarnar.
g. Skýringar formanns stjórnkerfisnefndar á því hvað átt er við með yfirlýsingu í fjölmiðlum í gær um að „á öllum stigum málsins hafi fullt tillit verið tekið til þess sem minnihlutinn fór fram á nema það væru tillögur eingöngu til að tefja málið.”

Árni Þór Sigurðsson óskar jafnframt bókað:

Í umsögn menntaráðs koma engin haldbær fagleg eða pólitísk rök fram sem réttlæta eða styðja ákvörðun meirihlutans um að kljúfa leikskólamál frá öðrum menntamálum í borginni. Ákvörðunin er ekki studd neinum athugunum eða könnunum á reynslunni af núverandi fyrirkomulagi né viðhorfsathugunum meðal fagfólks. Engin fagleg umræða fór fram um umsögn meirihluta menntaráðs á fundi ráðsins 4. ágúst sl., enda var tillaga meirihlutans að umsögn ekki kynnt ráðinu fyrr en í lok fundar og hafði enginn ráðsmaður tök á að kynna sér hana áður. Enda þótt sviðsstjóri menntasviðs hafi komið á fund stjórnkerfisnefndar þann 1. ágúst kom ekkert fram í þeim umræðum sem skaut stoðum undir tillögur og ásetning meirihlutans, þvert á móti kom fram að sviðsstjórinn hafði ekki hugmynd um að til stæði að kljúfa menntasviðið í tvennt fyrr en þann sama dag. Vinnubrögð meirihlutans hafa til þessa verið honum til vansa. Enn er þó ekki of seint fyrir hann að sjá að sér og er hvatt til að efnt verði til opinnar og lýðræðislegrar umræðu við starfsfólk og stjórnendur leik- og grunnskóla um málið áður en lengra er haldið.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Faglegar ástæður búa að baki þeirri ákvörðun að stofna skuli sérstakt ráð um leikskólamál borgarinnar. Í einu stóru menntaráði fá leikskólamálin ekki þá athygli og umfjöllun sem meirihlutinn telur nauðsynlega. Fyrir liggja stór og mikilvæg verkefni á vettvangi leikskólanna og til að hrinda þeim í framkvæmd þarf sterkari áherslu á leikskólastigið og meiri eftirfylgni, en eitt stórt menntaráð getur veitt.
Aðeins um 20 prósent þeirra mála sem tekin voru fyrir í núverandi menntaráði, fjölluðu beint um leikskólann. Það segir sig sjálft að í nýju leikskólaráði og á nýju leikskólasviði sem eingöngu fjallar um málefni barna á leikskólaaldri, gefst tækifæri til að fjalla um fleiri mál og vinna harðar og hraðar að þeim en áður. Á sama hátt fær grunnskólastigið meiri athygli í menntaráðinu en áður. Þannig verður ábyrgð og verkaskipting málaflokkanna skýrari en áður.
Meirihlutinn í borgarstjórn lýsti því yfir í byrjun júní að fyrirhugað væri að stofna nýtt leikskólaráð. Síðan þá hefur mikil og góð fagleg umræða farið fram um þá breytingu. Fulltrúar meirihlutans hafa hitt fjölda hagsmunaaðila á fundum, fengið góðar ábendingar og skipst á skoðunum. Menntaráð sagðist í umsögn sinni fagna breytingunum og vonast til þess að þær myndu ganga hratt og örugglega fyrir sig, enda engum greiði gerður með því að halda málinu í óvissu lengi. Á öllum stigum þessa máls, hafa lýðræðisleg og fagleg vinnubrögð verið höfð í heiðri og hvergi hafa reglur verið brotnar eða sveigðar til. Enda mikið í húfi fyrir fjölskyldurnar í borginni að breytingarnar takist vel og hægt verði að hefja störf í nýju leikskólaráði og á nýju leikskólasviði sem allra fyrst.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

F-listinn lýsir eindreginni andstöðu við tillögu um stofnun leikskólaráðs, sem felur í sér að leikskólamál verði klofin frá öðrum mennntamálum í borginni. Engin fagleg rök liggja til grundvallar þessari ákvörðun, heldur augljósar pólitískar ástæður.

Árni Þór Sigurðsson óskar bókað:

Undanfarin ár hefur leikskólinn þróast í að vera fyrsta skólastigið. Sameining leik- og grunnskólamála í eitt ráð var liður í þeirri þróun, hið sama má segja um sameiningu stéttarfélaga grunn- og leikskólakennara. Ekki liggja fyrir neinar athuganir eða kannanir sem rökstyðja fullyrðingu um að bæði leik- og grunnskólinn hafi liðið fyrir sameiningu málaflokkanna í eitt menntaráð.

Tillaga stjórnkerfisnefndar um stofnun leikskólaráðs og leikskólasviðs samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum að vísa nýjum samþykktum fyrir leikskólaráð og menntaráð, ásamt tillögu að breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, til síðari umræðu, Árni Þór Sigurðsson sat hjá.

Fundi slitið kl. 12:45

Björn Ingi Hrafnsson

Árni Þór Sigurðsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon