Borgarráð - Fundur nr. 4925

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2006, fimmtudaginn 23. febrúar, var haldinn 4925. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:05. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Stefán Jón Hafstein. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 14. febrúar. R06010012

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 15. febrúar. R06010018

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 22. febrúar. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 20. febrúar. R06010024

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R06010202

6. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisveitingaleyfi, dags. í dag, alls 6 mál. R06010117

7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði. R06010037
Samþykkt að veita Karlakór Reykjavíkur styrk að fjárhæð 1 mkr. vegna ferðar til Austurríkis og Þýskalands í tilefni af 80 ára afmæli kórsins.

8. Lagt fram bréf hafnarstjóra frá 15. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Faxaflóahafna sf. 14. s.m., þar sem óskað er samþykkis á lántöku Faxaflóahafna sf. að fjárhæð einn milljarður króna vegna lífeyrisskuldbindinga fyrirtækisins. R04030057
Vísað til borgarstjórnar.

9. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra frá 17. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. s.d., þar sem óskað er eftir heimild til allt að 54 mkr. lántöku vegna framkvæmda að Skógarhlíð 14. R06020098
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 10. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 8. s.m., varðandi nánar tilgreindar breytingar á tekju- og eignamörkum í reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur, til samræmis við reglugerð nr. 873/2001. R03010083
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 15. þ.m. varðandi undanþágu frá bílastæðakröfum á lóð nr. 16-18 við Gylfaflöt, með nánar tilgreindum skilyrðum. R02050172
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt framkvæmdaráðs 13. s.m., varðandi beiðni um 15 mkr. aukafjárveitingu til gerðar hringtorgs á gatnamótum Sundlaugarvegar og Dalbrautar. Jafnframt lagt fram bréf fjárhagsáætlunarfulltrúa frá 22. þ.m., þar sem lögð er til samsvarandi breyting á fjárhagsáætlun ársins 2006. R05060139
Samþykkt.

13. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi reits 1.171.3, vegna lóða nr. 4 og 6 við Laugaveg. R02020124
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað að þeir samþykki auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ítrekuð er eindregin andstaða F-listans við fyrirhugað niðurrif 19. aldar húsanna nr. 4-6 við Laugaveg og í stað þeirra komi byggingar sem á engan hátt falla að eldri byggð við Laugaveg.
Nái þessi áform fram að ganga lýsir það fullkomnu virðingarleysi fyrir menningar- og húsasögu Laugavegarins. Furðulegt má telja ef slíkt gerist 30 árum eftir að naumlega tókst að koma í veg fyrir niðurrif Bernhöftstorfunnar. Sömu rök eru notuð nú gegn elstu byggðinni við Laugaveg og gert var þegar rífa átti húsin á Bernhöftstorfunni.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:

Á síðasta kjörtímabili var mikil vinna lögð í að fjalla um og móta tillögur um verndun og uppbyggingu við Laugaveg. Í þeirri vinnu tóku þátt fulltrúar borgarinnar, hagsmunaaðila við Laugaveg og talsmenn húsverndar og varðveislu byggingar- og menningarminja. Samstaða náðist um þá stefnumörkun og var hún samþykkt í borgarstjórn. Fyrirhuguð uppbygging á Laugavegi 4 og 6 er hluti þeirrar heildarstefnu.

14. Lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs, dags. í dag, varðandi fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar um skipulag við Mýrargötu, sbr. 17. liður fundargerðar borgarráðs frá 9. febrúar sl. R03020008

15. Lagt fram bréf formanns rekstrarstjórnar Skíðasvæðis höfuðborgarsvæðisins frá 17. þ.m. varðandi fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um slys í Bláfjöllum, sbr. 17. liður fundargerðar borgarráðs frá 19. janúar sl. R06010158

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra menntasviðs frá 13. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 19. f.m., um endurskoðaða fjölmenningarstefnu fyrir leikskóla Reykjavíkurborgar. R06020103

17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 20. þ.m. þar sem lagt er til að B.Þ. Fjárfestingu ehf. verði úthlutað byggingarrétti á lóð nr. 20 við Kistumel, í stað lóðar nr. 22 við sömu götu, með nánar tilgreindum skilmálum. R04020047
Samþykkt.

- Kl. 11.25 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að fela framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar að ganga til viðræðna um eftirfarandi sölu byggingarréttar á lóðum í Úlfarsárdal.
- Um byggingarrétt á 24 fjölbýlishúsalóðum, þ.e. 225 íbúðir. Viðræður verði við þá lögaðila eða einstaklinga sem eiga hæstu gildu kauptilboðin.
- Um byggingarrétt á 13 raðhúsalóðum, þ.e. 57 íbúðir. Viðræður verði við þá lögaðila eða einstaklinga sem eiga hæstu gildu kauptilboðin.
- Um byggingarrétt á 43 parhúsalóðum, þ.e. 86 íbúðum. Viðræður verði um byggingarrétt á hverri lóð fyrir sig. Þeir tveir einstaklingar sem standa saman að hæsta gilda kauptilboði fái fyrsta val. Tveir aðrir einstaklingar sem standa að baki næst hæsta gilda tilboði velji næstu lóð og þannig koll af kolli.
- Um byggingarrétt á 40 einbýlishúsalóðum. Viðræður verði um byggingarrétt á hverri lóð fyrir sig. Sá einstaklingur sem á hæsta gilda kauptilboð fái fyrsta val. Annar einstaklingur sem á næst hæsta gilda tilboð velji næstu lóð og þannig koll af kolli.
Framkvæmdasvið geri tillögu til borgarráðs um ráðstöfun byggingarréttar á einstökum lóðum, þegar niðurstöður viðræðna liggja fyrir.

Greinargerð fylgir tillögunni. R05090117
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Árni Þór Sigurðsson óskar bókað:

Ég tel mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem skapast hefur í kjölfar útboðs lóða í Úlfarsárdal. Óumdeilt er að það var ásetningur borgarinnar að sérbýlishúsalóðir yrðu fyrir einstaklinga og fjölskyldur en ekki verktaka. Enda þótt ég hafi ekki stutt útboðsleiðina tel ég nauðsynlegt að tryggja að markmið borgarinnar nái fram að ganga og réttaróvissu þeirra fjölmörgu sem buðu í lóðirnar verði eytt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:

Sú erfiða staða sem nú er uppi vegna lóðauppboðs meirihlutans í Úlfarsárdal, endurspeglar það öngstræti sem stefna meirihlutans í skipulags- og byggingarmálum er fyrir löngu komin í. Meirihlutinn virðist ekki skilja þá einföldu staðreynd að svo lengi sem hér er í gildi lóðaskortsstefna og framboð á lóðum með öllu ófullnægjandi, verður ávallt vandræðaástand í skipulagsmálum í Reykjavík.
Það virðist alveg sama hvaða reglugerðarverk fráfarandi meirihluti hefur sett upp, þær leiðir virðast allar hafa leitt til vandræða bæði fyrir borgaryfirvöld og borgarbúa.
Það alvarlegasta í öllu þessu máli er þó sú staðreynd að borgaryfirvöld virðast hvorki hafa vilja né vera fær um að tryggja almennum íbúum þau sjálfsögðu réttindi að geta byggt og búið í Reykjavík.
Í samræmi við þá afstöðu sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ætíð haft varðandi lóðauppboðsstefnu vinstri meirihlutans, sitja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hjá við afgreiðslu tillögu borgarstjóra.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

F-listinn ítrekar andsöðu sína við stefnu meirihluta R-listans um lóðaútboð í Úlfarsárdal.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:

Með samþykkt borgarráðs er hnykkt á þeim markmiðum borgaryfirvalda með reglum um lóðaútboð í Úlfarsárdal er fram komu í bókun við samþykkt þeirra 19. janúar sl. Þrátt fyrir metframboð lóða í Reykjavík og nágrenni, allt til Suðurnesja og Suðurlands, einskorðast málflutningur Sjálfstæðisflokksins við gamlar klisjur. Þrátt fyrir fjölda tækifæra á vettvangi borgarinnar og öðrum opinberum vettvangi hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki sett fram neinar tillögur um hvernig þeir vilja standa að ráðstöfun þeirra verðmæta sem í lóðum eru fólgin. Sjálfstæðisflokkurinn getur því ekki boðið borgarbúum neina framtíðarsýn í þessum efnum fremur en svo mörgum öðrum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Bókun borgarráðsfulltrúa meirihlutans færir því miður eina ferðina enn heim sannin um það hversvegna fulltrúar þessara flokka eru með öllu ófærir um að laga það ástand sem þeir hafa skapað í skipulags- og byggingarmálum í Reykjavík. Að kalla það sjálfsagða hlutverk sveitarfélags, að tryggja nægt framboð fjölbreyttra lóða, gamlar klisjur segir allt sem segja þarf um afstöðu meirihlutans til málsins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lýst þeirri skoðun sinni að lausn vandans felist í því að tryggja öllum sem vilja búa og byggja í borginni tækifæri til þess, afnámi lóðauppboðs sem almennri reglu á nýbyggingarsvæðum, og því að hverfa frá því að nýta lóðasölu sem gróðaleið fyrir borgaryfirvöld. Í stuttu máli er því besta leiðin til að tryggja að Reykjavík fái tækifæri til að vaxa og dafna í samræmi við óskir og þarfir íbúa, augljóslega fólginn í því að breyta um stjórn og áherslur í borginni og koma núverandi vinstri meirihluta frá.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:

Enn á ný opinberar minnihluti Sjálfstæðisflokksins algert ráðleysi sitt og hugmyndaleysi um hvernig best er staðið að ráðstöfun byggingarréttar í borginni.

19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 22. þ.m. við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa F-listans um lóðaúthlutanir, sbr. 14. liður fundargerðar borgarráðs 16. febrúar s.l. R05090117

20. Lagður fram viðauki við kaupsamning Reykjavíkurborgar og Kers hf. vegna Geirsgötu 19 frá 17. desember 2004, dags. 14. þ.m., ásamt bréfi sviðsstjóra framkvæmdasviðs, dags. 21. s.m. R04030015
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka efasemdir sínar vegna staðsetningar bensínstöðvar í Vatnsmýri, á svokölluðum U-reit.

21. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra lögfræðiskrifstofu frá 17. þ.m. um frumvörp til laga um opinber hlutafélög, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 10. s.m. R06020072
Umsögnin samþykkt.

22. Lögð fram drög að samþykkt fyrir Borgarskjalasafn Reykjavíkur, dags. 16. þ.m. R05120044
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
Kjartan Magnússon óskar bókað að hann sitji hjá við afgreiðslu málsins.

23. Kynnt staða undirbúnings tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar í Austurhöfn. R06020037

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir að fela framkvæmdasviði að ganga frá lóðarleigusamningi við Háskóla Íslands um lóðina Sturlugötu 2 undir starfsemi vísindagarða, sbr. hjálagt stofnskjal dags. 13. þ.m. R05120092
Frestað.

25. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Vegna bréfs foreldraráða skóla og leikskóla í Háaleitishverfi til borgarfulltrúa dags. 18. febrúar um umferðaröryggi barna og unglinga við Háaleitisbraut er spurt:
1. Hver er umferðarþungi á Háaleitisbraut norðan og sunnan Miklubrautar.
2. Beðið er um upplýsingar um hraðamælingar á Háaleitisbraut.
3. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að draga úr umferðarhraða og tryggja umferðaröryggi gangandi vegfarenda við Háaleitisbraut.
4. Telja borgaryfirvöld tilefni til sérstakra aðgerða vegna nýlegs slyss á Háaleitisbraut, sem rætt er um í bréfi foreldraráðanna? R05030049

Fundi slitið kl. 12:27

Stefán Jón Hafstein

Alfreð Þorsteinsson Árni Þór Sigurðsson
Björk Vilhelmsdóttir Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon