Borgarráð - Fundur nr. 4920

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2006, fimmtudaginn 19. janúar, var haldinn 4920. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:05. Viðstaddir voru Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 18. janúar. R06010008
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 6. janúar. R06010026

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R05120109

4. Lagt fram yfirlit stjórnsýslu- og starfsmannasviðs yfir embættisafgreiðslur umsókna um áfengisleyfi, dags. í dag, alls 3 mál. R06010117

5. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 21. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu að breytingu á deiliskipulagi reitar 1.141.2, Kirkjutorgsreitur. R05110029
Frestað.

6. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 16. þ.m., þar sem óskað er eftir að borgarráð tilnefni þrjá fulltrúa úr borgarstjórn í dómnefnd vegna hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrar. R06010045
Borgarráð tilnefnir Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Dag B. Eggertsson og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í dómnefndina.

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 12. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d. um úthlutun styrkja á vegum ráðsins fyrir árið 2006. R06010126

8. Borgarráð samþykkir að kjósa eftirtalda fulltrúa í yfirkjörstjórn vegna borgarstjórnarkosninga 27. maí n.k.: R06010080
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Eiríkur Tómasson
Sigurbjörn Magnússon
Til vara:
Bryndís Hlöðversdóttir
Guðríður Þorsteinsdóttir
Páll Arnór Pálsson
Vísað til borgarstjórnar.

9. Lagt fram bréf formanns stjórnar Faxaflóahafna sf. frá 18. þ.m. um fyrirspurn áheyrnarfulltrúa F-listans varðandi auglýsingu á stöðu framkvæmdastjóra Faxaflóahafna sf., sbr.18. lið fundargerðar borgarráðs 15. f.m. R04110016
- Kl. 11.20 tekur Árni Þór Sigurðsson sæti á fundinum.
10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 10. þ.m. um skilmála vegna útboðs byggingarréttar í Úlfarsárdal. R05090117
Útboðsskilmálarnir samþykktir með 3 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er þekkt að lóðaframboð í Reykjavík hefur í tíð núverandi meirihluta verið í algjöru lágmarki, sem bæði hefur leitt til mikillar hækkunar húsnæðisverðs og íbúaþróunar sem ekki hefur verið borginni í hag. Þessu vilja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins breyta, með því að tryggja nægt framboð fjölbreyttra lóða og með því að afnema lóðauppboð sem meginreglu við úthlutun lóða. Varðandi þá ákvörðun R-listans að gera Úlfarsárdal að forgangsverkefni nýrra íbúðasvæða í Reykjavík, ítreka borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá afstöðu sína að farsælla hefði verið að önnur svæði hefðu notið forgangs hvað varðar skipulag og uppbyggingu. Þannig hefði borgin t.d. fyrir mögum árum getað boðið fyrsta flokks byggingarlóðir fyrir fjölbreytta íbúðabyggð í Geldinganesi, sem hefði svarað þeirri eftirspurn sem til staðar er í borginni. Að auki hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bent á lausnir til að auka byggð í vestari hluta borgarinnar, sem til framtíðar gæti svarað þeim vanda sem nú ríkir í skipulags- og byggingarmálum borgarinnar. Vegna þeirra útboðsskilmála sem liggja fyrir vegna byggingarréttar 1. áfanga í Úlfarsárdal, er því fagnað að íbúar fái einhver tækifæri til að byggja og búa í Reykjavík. Meirihlutinn í borgarstjórn lýsti því reyndar yfir í nóv. 2001 að þessum lóðum yrði úthlutað vorið 2002. Þessar tafir um fjörgur ár lýsa því miður ágætlega þeim vinnubrögðum sem ráða ferðinni í skipulagsmálum í Reykjavík og tekist hefur verið á um í Borgarstjórn Reykjavíkur nú í nærri 12 ár. Vegna skipulags byggðar í Úlfarsárdal ítreka borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá skoðun sína að skilmálar séu of þröngir, byggðin of þétt og lausnir vegna umferðarmála með öllu ófullnægjandi. Skipulagið í Úlfarsárdal ber þess þannig því miður merki að eina ferðina enn hyggst meirihlutinn í Reykjavík hafa vit fyrir borgarbúum, nú með því að skipuleggja íbúðasvæði sem ekki tekur nægilegt mið af þeim brýnu óskum og þörfum sem til staðar eru í Reykjavík varðandi fjölbreytt val í skipulags- og byggingarmálum.
Dagur B. Eggertsson, Stefán Jón Hafstein og Steinunn Valdís Óskarsdóttir óska bókað:
Úthlutun lóða fyrir fleiri en 400 íbúðir í Úlfarsárdal er sérstakt ánægjuefni. Jafn furðulegt er að minnihluti Sjálfstæðisflokksins kjósi að líta framhjá uppbyggingu í Grafarholti, Norðlingaholti og því gríðarlega átaki sem verið hefur í þéttingu byggðar í Reykjavík undanfarin ár. Nýjar íbúðir í Reykjavík á árabilinu 2000-2004 eru nánast jafnmargar og samanlagður íbúafjöldi í Kópavogi, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Reykjanesbæ á sama tímabili, eða 3.572 á móti 3.653. Úthlutunarreglur miða að jafnræði við úthlutun gæða auk þess sem reynt er að tryggja að lóðir falli í skaut fjölskyldna. Fullyrðingar um að útboð á lóðum hækki fasteignaverð hafa verið hraktar í nákvæmum úttektum fagfólks, s.s. greiningardeildum banka. Úlfarsárdalur er ákaflega vel fallinn til byggðar, ekki síst vegna veðursældar, en byggðin mun standa í síðustu óbyggðu suðurhlíðunum á höfuðborgarsvæðinu. Byggð í Úlfarsárdal er betri kostur en á Geldinganesi, sem vegna seinagangs ríkisvaldsins við lagningu Sundabrautar væri ávísun á umferðarteppu í Grafarvogshverfum.
Árni Þór Sigurðsson óskar bókað:
Ég get ekki stutt framkomna tillögu að úthlutunarskilmálum vegna einbýlis- og parhúsa í Úlfarsárdal en þeir gera ráð fyrir að efnahagsleg staða ráði eingöngu hverjir fái byggingarrétt. Að mínu mati er réttlátara að dregið sé úr lóðaumsóknum enda sitja þá allir áhugasamir við sama borð, án tillits til fjárhagslegrar stöðu.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
F-listinn gagnrýnir nú sem fyrr lóðaútboðsstefnu borgarinnar, sem leiðir til hærri fasteigna- og lóðakostnaðar fyrir borgarbúa.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 11. þ.m. um skilmála vegna lóða fyrir leiguíbúðir í Úlfarsárdal. R05090117
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

12. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar og SFR varðandi kjarasamning, dags. 30. desember 2005. R05100111
Borgarráð samþykkir samninginn fyrir sittt leyti.

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra fjármálasviðs frá 17. þ.m., þar sem lagt er til að íþrótta- og tómstundasviði verði falið að ganga til samninga um samstarf um þjónustu í samræmi við áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda við Skátasamband Reykjavíkur og KFUM og K. Samningarnir verði lagðir fyrir borgarráð til staðfestingar. R05110014
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf sviðsstjóra fjármálasviðs frá 17. þ.m., þar sem lagt er til að íþrótta- og tómstundasviði verði falið að endurskoða samninga og gjaldskrár um húsaleigu- og æfingastyrki við íþróttafélög og félagasamtök í ljósi breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Niðurstöðurnar verði lagðar fyrir borgarráð. R04010094
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf menntamálaráðuneytis frá 21. desember s.l. þar sem kynntar eru niðurstöður úr rannsókninni, Ungt fólk 2004, sem gerð var á viðhorfum nemenda til menntunar, menningar, tómstunda og íþróttaiðkunar auk þess að kanna framtíðarsýn íslenskra ungmenna. R03120103

16. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 21. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi vegna staðsetningar bensínstöðvar við Hringbraut. Jafnframt lögð fram yfirlýsing Reykjavíkurborgar, Landspítala-Háskólasjúkrahúss, heilbrigðis- og tryggingamála-ráðuneytis og Háskóla Íslands um uppbyggingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss og þekkingarstarfsemi HÍ í Vatnsmýri. R03020062
Frestað.

17. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Sunnudaginn 15. janúar sl. kom undirritaður á vettvang slyss í Bláfjöllum þegar hann var þar við skíðaiðkun. Starfsmenn á svæðinu höfðu þá búið um hinn slasaða með hálskraga og fest hann á börur og skorðað höfuð og háls vel þar sem grunur var um alvarlegan hálsáverka, þó að rannsókn á slysadeild hafi síðar leitt annað í ljós. Hinn slasaði þoldi hins vegar ekki flutning ofan af fjallinu og var því ákveðið í samráði við undirritaðann að flytja hinn slasaða með þyrlu til Reykjavíkur. Biðin eftir þyrlunni var um ein og hálf klukkustund en í millitíðinni hafði komið sjúkrabíll að skíðasvæðinu og neyðarbíll með lyf og hjálpargögn skömmu síðar. Tekið skal fram að öll vinnubrögð starfsmanna í Bláfjöllum voru yfirveguð og til mikillar fyrirmyndar. Hins vegar vantaði tilfinnanlega lyf og sjúkragögn áður en aðstoð neyðarbíls barst. Í tilefni af framansögðu óskar undirritaður svars við eftirfarandi spurningum:
Telja borgaryfirvöld að þörf sé á heilbrigðisstarfsmanni eða lækni á vakt á annasömum dögum í Bláfjöllum, sem geti gefið lyf og veitt aðra læknishjálp?
Telja borgaryfirvöld að fjölga þyrfti starfsmönnum á svæðinu eða auka þjálfun þeirra til að bregðast við óvæntum óhöppum eða slysum, m.a. með sjúkraflutninganámskeiðum og annarri kennslu?
Telja borgaryfirvöld að nægilegur búnaður sé fyrir hendi í Bláfjöllum til að bregðast við slysum og þá sérstaklega ef nokkrir einstaklingar slasast með stuttu millibili?
Telja borgaryfirvöld að aðalskíðabrekkur í Bláfjöllum geti innan öryggismarka borið aukinn mannfjölda eftir að ný stólalyfta kom til sögunnar? R06010158

18. Rætt um kjaramál og fyrirhugaða launamálaráðstefnu launanefndar sveitarfélaga sem haldin verður 20. þ.m. R06010159

Fundi slitið kl. 12:45

Stefán Jón Hafstein
Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson