Borgarráð - Fundur nr. 4914

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2005, fimmtudaginn 1. desember, var haldinn 4914. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:07. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Stefán Jón Hafstein. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 8. nóvember. R05010034

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 9. nóvember. R05010025

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 30. nóvember. R05010010
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lagðar fram fundargerðir stjórnar skipulagssjóðs frá 22. júní og 16. nóvember. R05010041

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R05110137

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 28. f.m. ásamt tillögum að nýrri samþykkt fyrir innkauparáð og breytingum á samþykktum fyrir barnaverndarnefnd, umhverfisráð, framkvæmdaráð, menntaráð og menningar- og ferðamálaráð. R05020008
Vísað til forsætisnefndar.

7. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 23. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., þar sem lagt er til að umsókn eigenda lóðar nr. 62 við Garðsstaði um stækkun lóðarinnar, verði synjað. R05080009
Tillaga skipulagsráðs samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum, og er umsókninni því synjað.

8. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Skotfélags Reykjavíkur frá 21. f.m. varðandi stöðu framkvæmda á fyrirhuguðu athafnasvæði félagsins á Álfsnesi. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 30. s.m. varðandi málið, þar sem lagt er til að erindinu verði vísað til meðferðar við gerð 3ja ára áætlunar og jafnframt til framkvæmdasviðs til frekari greiningar. R04050166
Minnisblað sviðsstjóra framkvæmdasviðs samþykkt.

9. Lögð fram umsögn sviðsstjóra fjármálasviðs frá 22. f.m. um erindi Karlakórs Reykjavíkur frá 23. febrúar s.l. varðandi rekstur tónlistarhússins Ýmis, þar sem lagt er til að kórnum verði veittur styrkur að fjárhæð kr. 1.239.731,-. R05110122
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf formanns og framkvæmdastjóra Ungmennafélags Íslands frá 17. f.m., þar sem sótt er um lóð undir byggingu nýrra höfuðstöðva UMFÍ í Öskjuhlíð. R03050171
Vísað til skipulagssviðs og framkvæmdasviðs.

11. Lagt fram bréf skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Almenna Músíkskólans frá 21. f.m. varðandi húsnæðismál skólans. R05110118
Vísað til framkvæmdasviðs.

12. Lagt fram bréf stjórnarformanns Sjómannadagsráðs og Hrafnistu frá 24. f.m. þar sem óskað er eftir úthlutun á allri lóð Víðiness til uppbyggingar í þágu aldraðra. R05110151
Vísað til skipulagsráðs.

- Kl. 11.33 tekur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 28. f.m., sbr. samþykkt framkvæmdaráðs s.d., þar sem lagt er til að borgarráð samþykki fyrir sitt leyti kauptilboð Mark-Húss ehf. í Heilsuverndarstöðina, Barónsstíg 47. R05100166
Samþykkt.
Ólafur F. Magnússon leggur fram drög að bókun vegna málsins, sem hann óskar eftir að verði færð í fundargerð.
Formaður úrskurðar að bókunin sé það löng að hún gangi gegn ákvæði 35. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001.
Ólafur F. Magnússon skýtur úrskurði formanns til úrlausnar borgarráðs.
Borgarráð staðfestir úrskurð formanns með 4 samhljóða atkvæðum.

14. Lagt fram minnisblað forstöðumanns innri endurskoðunar, dags. í dag, vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi skýrslu um svokallaðan Stjörnubíósreit, sbr. 20. liður fundargerðar borgarráðs frá 8. september sl. R01020137

- Kl. 12.00 víkur Alfreð Þorsteinsson af fundi og Árni Þór Sigurðsson tekur þar sæti.

15. Kynnt staða undirbúnings lagningar Sundabrautar. R04100023

- Kl. 12.16 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi.

Bókun borgarráðs:

Lagning Sundabrautar er mikið hagsmunamál borgarbúa og landsmanna allra og löngu tímabær. Borgarráð Reykjavíkur fagnar þeim áföngum í undirbúningi Sundabrautar að mati á umhverfisáhrifum sé lokið og að nú liggi fyrir Alþingi tillaga um fjárveitingu til fyrsta áfanga verksins.
Næstu skref verða að vinnast hratt og vel. Því er nauðsynlegt að niðurstöðu umhverfisráðherra verði fylgt eftir í öflugu samráði framkvæmdaaðila og íbúa þar sem kannaðar verði bestu lausnir á útfærslu á innri og ytri leið. Af hálfu Reykjavíkurborgar liggur fyrir tillaga um að samráðshópur skipaður fulltrúum framkvæmdaráðs, skipulagsráðs og umhverfisráðs Reykjavíkurborgar, Íbúasamtökum Grafarvogs og Íbúasamtökum Laugardals, auk fulltrúa Faxaflóahafna og Vegagerðarinnar sinni í senn samráði því sem áskilið er í úrskurði umhverfisráðherra við íbúa og hagsmunaaðila í Sundahöfn sem og samráði vegna undirbúnings fyrirsjáanlegra breytinga á skipulagi vegna lagningar Sundabrautar.
Í greinargerð með frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands er lagt til að fé verði veitt til lagningar Sundabrautar, en “sú ákvörðun tekur mið af því að svokölluð innri leið verði valin”. Fer borgarráð þess á leit við Alþingi að öll tvímæli verði tekin af um að fjárveitingunni fylgi ekki fyrirfram gefin skilyrði varðandi niðurstöðu þess samráðs sem framundan er.

16. Lögð fram skýrsla Árna Þórs Sigurðssonar um Evrópska efnahagssvæðið og íslensk sveitarfélög, dags. í júní 2005. R04020179

- Kl. 13.05 víkja Árni Þór Sigurðsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir af fundi.

17. Lögð fram greinargerð starfshóps um nýtingu lóða við Spöngina, dags. 1. október 2005. R04030045
Borgarráð felur framkvæmdasviði að vinna frumáætlun vegna byggingar þjónustu- og menningarmiðstöðvar á bókasafnslóð í Spönginni í samræmi við þá megin niðurstöðu í greinargerð starfshóps að byggð skuli þjónustu- og menningarmiðstöð þar.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra fjármálasviðs frá 27. f.m. þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að ganga til samninga við Council of Europe Development Bank um að draga allt að 450 mkr. á fyrri lánsheimild frá árinu 1998. Lánið verður notað til að endurfjármagna eldra óhagstæðara lán. Jafnframt óskar sviðsstjóri fjármálasviðs eftir heimild borgarráðs til að undirrita ofangreindan lánasamning. R03060074
Samþykkt.

19. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-september 2005. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra fjármálasviðs, dags. í dag, þar sem lagðar eru til nánar tilgreindar breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2005. R05090043
Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:

Varlega áætlaðar tekjur og raunsæi í útgjöldum hefur verið aðalsmerki fjárhagsáætlunargerðar Reykjavíkurborgar um árabil. Reynslan sýnir að borgaryfirvöld halda sig við gerðar áætlanir í útgjöldum þannig að þegar vel árar skilar það sér í bættum hag sameiginlegra sjóða borgarbúa. Níu mánaða uppgjörið sýnir að það er festa í borgarrekstrinum. Ábyrgð í meðferð skattpeninganna skilar sér í því að hægt er að bjóða öfluga samfélagslega þjónustu án þess að leggja sérstakar álögur á þá sem njóta hennar, en samanburður sýnir að það er ódýrt fyrir fjölskyldufólk að búa í Reykjavík. Staða borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar er traust og fjárhagsleg geta þeirra til að efla þjónustu við borgarbúa og styrkja umgjörð blómlegs mannlífs er mikil svo sem þróttmikil uppbygging í höfuðborginni sannar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Óhætt er að segja að hátt hreyki R-listinn sér í þessari sjálfshólsbókun. Í þessari bókun R-listans láðist að geta þess að skuldir borgarinnar hafa aukist úr 4 milljörðum króna frá 1993 í um 75 milljarða króna til ársins 2005 (tölur á sama verðlagi). Ennfremur láðist að geta þess að á þessu ári var álagning útsvars færð í hámark og fasteignaskattar hækkaðir gífurlega á síðustu árum.

20. Lagt fram bréf sviðsstjóra fjármálasviðs frá 28. f.m. þar sem hann segir starfi sínu lausu. R05110157

Bókun borgarráðs:

Borgarráð þakkar Önnu Skúladóttur fráfarandi sviðsstjóra fjármálasviðs gott starf í þágu Reykjavíkurborgar í rúman áratug. Hún hefur átt stóran þátt í innleiðingu nýrra vinnubragða við fjárhagsáætlunargerð og fjármálastjórn sem aðrir opinberir aðilar hafa tekið til fyrirmyndar. Í hennar tíð hefur yfirsýn yfir fjárhag Reykjavíkurborgar og gagnsæi í rekstri hennar tekið stakkaskiptum. Reykjavíkurborg og Reykvíkingum er akkur að því að hún muni áfram starfa innan borgarrekstursins með því að hún hverfi til starfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur og óskar borgarráð henni velfarnaðar í nýju ábyrgðarmiklu starfi.

21. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á fundi borgarráðs 8. september sl. var eftirfarandi tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks vísað til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar:
#GLBorgarráð samþykkir að beina því til menntaráðs Reykjavíkur að þegar í stað verði settur af stað vinnuhópur sem meti viðbyggingarþörf Ölduselsskóla. Hópurinn ljúki störfum fyrir áramótin. Veitt verði fjármagn til verkefnisins svo og til byrjunarframkvæmda á fjárhagsáætlun 2006. Hönnun verði lokið á fyrri hluta næsta árs svo að framkvæmdir geti hafist haustið 2006.#GL
Óskað er eftir upplýsingum um hvort áætlanir standist miðað við ofangreint. R04100116

22. Ólafur F. Magnússon leggur fram greinargerð vegna sölu á Heilsuverndarstöðinni, dags. í dag, sbr. 13. liður fundargerðarinnar. R05100166

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Sala Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur úr höndum almennings og til annarra nota en hún var reist til að hýsa er einhver versta gjörð sem Borgarstjórn Reykjavíkur hefur staðið fyrir um langt árabil. Hún mun valda heilbrigðisþjónustunni í höfuðborginni óbætanlegu tjóni og lýsir fullkomnu virðingarleysi fyrir þeirri hugsjón sem leiddi til þess að þessi fallega og nytsamlega bygging var reist á sínum tíma og hefur orðið eitt af táknum Reykjavíkurborgar. Ekkert bendir til að kaupandi Heilsuverndarstöðvarinnar ætli að nýta hana undir heilbrigðisstarfsemi eins og stöðin var sérhönnuð fyrir. Þetta mun kalla á breytingar á byggingunni og einnig er rætt um byggingarrétt á nærliggjandi lóð. Reynslan sýnir að bæði borgarfulltrúar R- og D-lista ganga hart fram gegn hagsmunum almennings og menningarsögu borgarinnar þegar um er að ræða þjónkun við byggingarverktaka. Menningarsögulegt slys virðist þannig í uppsiglingu.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:

Vegna sölunnar á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg er rétt að fram komi að Reykjavíkurborg og ríkið hafa sammælst um og látið þinglýsa kvöðum um verndun hins merka húss og lóðar þess. Eignarhluti Reykjavíkurborgar í húsinu hefur að langmestu leyti verið nýttur af ríkisvaldinu án endurgjalds. Vegna þess hefur viðhaldi verið áfátt. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur þegar mælst til þess við heilbrigðisráðherra að sala Heilsuverndarstöðvarinnar verði ekki til þess að þjónusta við borgarbúa skerðist.


Fundi slitið kl. 13:20

Stefán Jón Hafstein

Dagur B. Eggertsson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson