Borgarráð - Fundur nr. 4904

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2005, fimmtudaginn 22. september, var haldinn 4904. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 16. september. R05010027

2. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 21. september. R05010010
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

3. Lagðar fram fundargerðir stjórnar skipulagssjóðs frá 17. ágúst og 7. september. R05010041

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R05080147

5. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi Víðidals. R03030036
Samþykkt.

6. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsvið frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi endurauglýsingu á deiliskipulagi reits sem afmarkast af Ægisíðu, Hofsvallagötu, lóðarmörkum austan Ægisíðu og Lynghaga. R05060065
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað að þeir samþykki auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

7. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar og Háskólans í Reykjavík um uppbyggingu háskólans í Vatnsmýri, dags. 16. þ.m., ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 13. s.m. Jafnframt lögð fram að nýju drög skipulagsfulltrúa að forsögn deiliskipulags lóðar háskólans við Hlíðarfót, dags. í september 2005, sbr. samþykkt skipulagsráðs 14. s.m. R03030023
Borgarráð staðfestir samkomulagið fyrir sitt leyti með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað að þeir vísi til bókunar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks á fundi borgarstjórnar 20. þ.m.

8. Lagt fram yfirlit yfir þau verkefni sem ReykjavíkurAkademían hefur unnið fyrir Reykjavíkurborg frá gerð þjónustusamnings 31. ágúst 2004, ásamt bréfi fv. framkvæmdastjóra Akademíunnar frá 31. f.m. R04070087

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarmála frá 16. þ.m., sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs 14. s.m., varðandi leigu til tveggja ára á sýningarrétti verksins Blind Pavilion eftir Ólaf Elíasson, ásamt drögum að samningi við eiganda verksins, Sigurjón Sighvatsson, dags. í september 2005. R05090062
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað að þeir vísi til bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokks á fundi menningar- og ferðamálaráðs 14. þ.m.

10. Lögð fram drög að skipulagsskrá fyrir Guðrúnarsjóð, sjóð til heiðurs Guðrúnu Halldórsdóttur, ódags., sbr. 20. liður fundargerðar borgarráðs frá 3. mars sl., ásamt bréfi skrifstofustjóra borgarstjóra frá 19. þ.m. R05030003
Samþykkt.

11. Lagt fram afrit bréfs Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl. til Skeljungs hf., Kers hf. og Olíuverslunar Íslands hf. frá 20. þ.m., þar sem hann, f.h. Reykjavíkurborgar, krefst skaðabóta vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna, samtals að fjárhæð kr. 151.535.494,-, auk dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. R03070106

12. Árni Þór Sigurðsson leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Að undanförnu hefur mikið borið á kvörtunum vegna aðgengis gangandi og hjólandi vegfarenda í og við Hringbraut hina nýju og því haldið fram að hagsmunir óvarðra vegfarenda séu ætíð látnir víkja fyrir hagsmunum akandi. Af því tilefni er spurt:
1. Gilda einhverjar verklagsreglur hjá Vegagerðinni og framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar um jafnt aðgengi vegfarenda þegar unnið er að umferðarframkvæmdum?
2. Fá verktakar einhverjar leiðbeiningar eða fyrirmæli um að veita akandi umferð forgang umfram gangandi og hjólandi? R04010106

13. Lagt fram tölvubréf flugmálastjóra, ódags., varðandi flug breskra herþotna yfir Reykjavík 16. þ.m. R05090113

14. Lagt fram minnisblað borgarstjóra um nýtingu fjárheimildar vegna undirmönnunar á leikskólum og frístundaheimilum, o.fl., dags. í dag.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja jafnframt fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á fundi borgarráðs 8. september sl. var samþykkt tillaga borgarstjóra um sérstaka fjárheimild, allt að 50 milljónum króna, til að veita stjórnendum olnbogarými til að greiða fyrir yfirvinnu og álag vegna undirmönnunar á leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar og koma í veg fyrir skerta þjónustu. Stjórnsýslu- og starfsmannasviði var falið að annast útfærslu og framkvæmd samþykktarinnar og kynnti borgarstjóri minnisblað þar að lútandi á fundi borgarráðs 15. september sl. Ekki voru lagðir fram neinir útreikningar með minnisblaðinu. Hvað er gert ráð fyrir að eingreiðslurnar nái til margra einstaklinga/stöðugilda á leikskólum og frístundaheimilum miðað við fulla mönnun? Hvernig skiptast þær eftir starfsheitum? Hver er staðan í ráðningarmálum í dag? Hve marga starfsmenn vantar á leikskóla og frístundaheimili? R05080094

15. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 20. þ.m. þar sem lagðar eru til nánar tilgreindar breytingar á fjárhagsrömmum í fjárhagsáætlun ársins 2006. R05060167
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

16. Rætt um fjárhagsáætlun ársins 2006. R05060167

17. Kynnt niðurstaða samkeppni um hönnun, byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfn. R05010047
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar þeim frábæru tillögum sem samkeppni um hönnun, byggingu og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfn hefur skilað. Samkeppnisaðilar hafa fyllilega staðið undir væntingum Reykjavíkurborgar um metnaðarfulla uppbyggingu sem verður tónlistarlífi og þjónustu við ferðamenn lyftistöng til langrar framtíðar.
Sigurtillaga Portusar boðar uppbyggingu sem verður glæsilegt tákn miðborgarinnar, Reykjavíkur og landsins alls.
Borgarráð þakkar öllum þeim sem unnið hafa að undirbúningi verkefnisins síðustu ár og væntir farsæls samstarfs við ríkisvaldið hér eftir sem hingað til og væntir mikils af samstarfinu við Portus.

Fundi slitið kl. 12:15

Stefán Jón Hafstein
Alfreð Þorsteinsson Árni Þór Sigurðsson
Dagur B. Eggertsson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson