Borgarráð - Fundur nr. 4901

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2005, fimmtudaginn 1. september, var haldinn 4901. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:10. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 25. ágúst. R05010027

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 26. ágúst. R05010029

3. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 26. og 30. ágúst. R05010035

4. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar um löggæslumálefni frá 26. ágúst. R05010040

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 31. ágúst. R05010010
Borgarráð samþykkir b-hluta fundargerðarinnar.

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R05080147

7. Lagt fram bréf forstöðumanns og prests Fríkirkjunnar í Reykjavík frá 22. f.m., þar sem óskað er eftir viðræðum við borgarráð um hugsanleg kaup á húsinu að Fríkirkjuvegi 3, húsi Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar. R04030152
Vísað til framkvæmdaráðs.

8. Lagt fram bréf ritara innkauparáðs frá 29. þ.m., sbr. samþykkt innkaupráðs 26. s.m., þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að kaupa efni til forvörslu rústar í Aðalstræti, áætluð fjárhæð án vsk. er 9,5 mkr. R05080137
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 29. f.m. varðandi meðferð útsvarsmála. R04120169
Vísað til borgarstjórnar og forsætisnefndar.

10. Lagt fram bréf ritara innkauparáðs frá 31. f.m., sbr. samþykkt innkauparáðs 30. s.m. um að gengið verði til samninga við Mími-símenntun um kennslu í íslensku fyrir útlendinga og þróun kennsluhátta í íslensku sem erlendu máli.
Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra menntasviðs frá 30. f.m. ásamt drögum að samningi Námsflokka Reykjavíkur, menntasviði, við Mími-símenntun. R05080140
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka andstöðu sína við ákvörðun R-listans að leggja niður Námsflokka Reykjavíkur í þeirri mynd sem þeir hafa starfað um áratugaskeið en þeir voru stofnaðir árið 1939. Undir stjórn Guðrúnar Halldórsdóttur sérhæfðu Námsflokkar Reykjavíkur sig í að veita borgarbúum sem hafa orðið utanveltu við skólakerfið og ýmis önnur félagsleg gæði tækifæri til menntunar og félagslegrar uppbyggingar. Þar hefur einnig farið fram mjög öflug kennsla í íslensku fyrir útlendinga. Eftir aðgerðir R-listans er lítið eftir nema nafnið eitt.
Í ljósi þessa sitja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks hjá við afgreiðslu málsins.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Tekið er undir bókun Sjálfstæðisflokksins um andstöðu við að leggja niður Námsflokka Reykjavíkur í þeirri mynd sem þeir hafa starfað um áratugaskeið.

11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 17. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d. varðandi breytingu á deiliskipulagi Smáragötureita. R04120102
Frestað.

12. Lögð fram skýrsla embættis lögreglustjórans í Reykjavík um minna ofbeldi í miðborg Reykjavíkur, ódags. R05080160
Borgarráð þakkar embætti lögreglustjórans í Reykjavík fyrir rannsóknir og kynningu er sýna glögglega minnkandi ofbeldi í Reykjavík, sérstaklega í Miðborginni. Það er ánægjuleg þróun að ofbeldi minnki og leiðir það vonandi til þess að borgarbúar og gestir þeirra upplifi sig örugga. Samkvæmt upplýsingum frá embætti lögreglustjórans er Reykjavíkurborg í fremstu röð hvað varðar öryggi borgaranna. Borgarráð telur mikilvægt að auka öryggi borgaranna enn frekar og lýsir því yfir áhuga á frekara samstarfi við lögregluna til að ná því markmiði.

13. Lagt fram minnisblað starfsmannaskrifstofu, dags. í dag, um málefni starfsmanna gæsluvalla. R03030171

Bókun borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista óska bókað:

Fulltrúar Reykjavíkurlistans í borgarráði telja rétt að farið að bjóða starfsmönnum gæsluvalla laun í 3-6 mánuði eftir lokun gæsluvalla en jafnframt að þeir fái störf að þeim tíma liðnum.
Á komandi mánuðum býðst þessum starfsmönnum endurmenntun til að styrkja stöðu sína gagnvart öðrum störfum hjá borginni.
Þá þakka borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans starfskonum gæsluvalla vel unnin störf í þágu reykvíkskra barna á undanförnum áratugum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma þá meðferð sem gæslukonur hafa þurft að hlýta af hálfu borgaryfirvalda í kjölfar ákvörðunar R-listans um lokun gæsluvalla í Reykjavík og uppsagnar 22 gæslukvenna.
Forystukonur gæslukvenna hafa ítrekað bent á það í umfjöllun um málið að borgaryfirvöld hafi ekki staðið við gefin fyrirheit um gerð starfslokasamnings eins og menntaráð samþykkti á sínum tíma.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

F-listinn leggur áherslu á að gætt verði sanngirni og ívilnana í samningum við starfsfólk gæsluvalla vegna lokunar þeirra. Um er að ræða kvennastétt í umönnunarstörfum sem hefur þjónað borgarbúum vel um áratugaskeið. Borgaryfirvöld þurfa að sýna í verki að þetta sé metið að verðleikum.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:

Reykjavíkurborg hefur að fullu staðið við fyrirheit um ívilnandi starfslokakjör starfskvenna gæsluvalla og unnið að málinu öllu í nánu samráði og fullkomnu samkomulagi við stéttarfélag starfmanna.

14. Lögð fram umsögn lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs frá 29. þ.m. varðandi umsókn Flugteríunnar ehf. um rýmri tíma til áfengisveitinga. R04040157
Frestað.

15. Lögð fram umsögn lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs frá 29. f.m. varðandi umsókn Hressingarskálans ehf. um framlengingu á útiveitingaleyfi í bakgarði veitingastaðarins til kl. 23.30. R03080060
Borgarráð samþykkir umsögnina.

16. Lögð fram umsögn lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs frá 29. f.m. varðandi skráningu lögbýla í lögsögu Reykjavíkur, sbr. 11. liður fundargerðar borgarráðs 25. s.m. R05080131
Borgarráð samþykkir umsögnina.

17. Lagt fram bréf sviðsstjóra fjármálasviðs frá 29. f.m., varðandi samkomulag Ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar um C-lið samkomulags sömu aðila um uppgjör lífeyrisskuldbindinga vegna samreksturs frá 5. apríl 2004 er samþykkt var í borgarráði 21. júlí sl. R03010128
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra fjármálasviðs, dags. í dag, þar sem lagt er til að fjárhagsrammi menntasviðs verði hækkaður um 16,5 mkr. með ráðstöfun af ófyrirséðum útgjöldum að sömu fjárhæð. R05030053
Samþykkt.

19. Lagt fram árshlutauppgjör fjármálasviðs um rekstur og framkvæmdir borgarsjóðs 01.01.-30.06.2005, dags. í ágúst sl. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra fjármálasviðs frá 30. f.m. um breytingar á fjárhagsáætlun 2005 með sex mánaða uppgjöri.
Samþykkt. R05060164

Bogarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óska bókað:

Sex mánaðauppgjör reksturs og fjárfestinga borgarsjóðs sýnir bætta afkomu og að festa og aðhald ríkir í rekstri Reykjavíkurborgar. Það er og hefur verið aðalsmerki í rekstrinum að áætlanagerð sé vönduð og að áætlanir um útgjöld standist. Árshlutauppgjörið gefur til kynna að festa í fjármálastjórn hefur haldist óbreytt þrátt fyrir umfangsmiklar skipulagsbreytingar. Það er grundvallaratriði í opinberum rekstri að stjórnendur haldi þær fjárhagsáætlanir sem kjörnir fulltrúar borgarbúa samþykkja. Ljóst er af sex mánaða uppgjöri borgarsjóðs að stjórnendur hjá borginni standa fullkomlega undir ábyrgð og er þeim þakkað fyrir vel unnin störf.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það vekur athygli að hækkun tekna borgarinnar er næsta einungis tilkomin vegna hækkandi skatttekna. Þannig hækka áætlaðar útsvarstekjur um 300 milljónir. Einnig hækka fasteignaskattar um 200 milljónir, sem er aðallega tilkomin vegna óhóflegrar skattheimtu núverandi meirihluta, hækkandi fasteignamats og lóðaskortsstefnu R-listans.
Það er til merkis um mikið metnaðarleysi í fjármálum borgarinnar að borgarráðsfulltrúar R-listans skuli sjá ástæðu til að hrósa sér af þessari stöðu. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir að rekstrarhalli borgarsjóðs yrði 626 mkr. en verður, þrátt fyrir 500 mkr. tekjuaukningar vegna aukinna skatttekna, um 490 mkr.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa margsinnis lagt fram tillögur um lækkun skatta í Reykjavík. Af þessu tilefni ítreka borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá skoðun sína að skattar á Reykvíkinga séu of háir og þá beri að lækka.

20. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt framkvæmdaráðs s.d., ásamt samningi Reykjavíkurborgar, Þróttar og Ármanns um kaup á fimleikahúsi Ármanns og byggingu nýs fimleikahúss í Laugardal. R04020032
Samþykkt.

21. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt framkvæmdaráðs s.d., varðandi 30 mkr. aukafjárveitingu vegna framkvæmda við hjúkrunarheimilið Droplaugastaði. R04010182
Samþykkt.

22. Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að verja 1,5 mkr. til gerðar samstarfssamnings um aðkomu Reykjavíkurborgar að sýningunni Verk og vit 2006 - íslenskur byggingariðnaður, sbr. meðfylgjandi samningsdrög. Komi framlagið af ófyrirséðum útgjöldum. R05080085

Samþykkt.

23. Rætt um skort á starfsmönnum á frístundaheimilum og í leikskólum. R05080094

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka áhyggjur sínar vegna ástandsins í leikskólum borgarinnar sem virðist síst hafa batnað frá síðasta fundi borgarráðs. Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins í morgun eru foreldrar áhyggjufullir og álag á starfsfólkið mjög mikið. Leikskólastjóri í Grandaborg segir ekki um annað að ræða en að skerða þjónustu vegna manneklu og til að ofgera ekki starfsfólki. Þá kemur fram í sömu frétt að enn séu 480 börn á biðlista frístundaheimila og skv. upplýsingum frá ÍTR eru þar af 280 börn sem sóttu um í vor. Staðan er með öllu óviðunandi fyrir alla hlutaðeigandi aðila og nauðsynlegt að Reykjavíkurborg grípi til einhverra aðgerða til að tryggja öryggi og samfellu í svo miklvægri starfsemi og þjónustu.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:

Reykjavíkurborg leggur allt kapp á að leita lausna á þeim vanda sem foreldrar margra barna í borginni standa frammi fyrir vegna erfiðrar stöðu starfsmannamála leikskóla og frístundaheimila. Það er slæmt fyrir Reykjavíkurborg, sem leggur mikinn metnað í að veita íbúum sem besta þjónustu við sem vægustu gjaldi, að standa frammi fyrir slíkri stöðu. Því er mikið kapp lagt á að bæta úr því hið fyrsta.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

F-listinn lýsir þungum áhyggjum sínum vegna skorts á starfsfólki hjá leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar. Sú staðreynd að af 2.235 börnum sem sóttu um á frístundaheimilum borgarinnar í vor séu 480 börn á biðlista er óviðunandi.

Fundi slitið kl. 14:00

Stefán Jón Hafstein

Alfreð Þorsteinsson Björk Vilhelmsdóttir
Dagur B. Eggertsson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson