Borgarráð - Fundur nr. 4882

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2005, fimmtudaginn 3. mars, var haldinn 4882. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Björk Vilhelmsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir framtalsnefndar frá 11. og 25. janúar. R05010034

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 22. febrúar. R05010023

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 26. janúar. R05010024

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 25. febrúar. R05010029

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 23. febrúar. R05010035

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R05020145

7. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 28. f.m., þar sem lagt er til að leyfi G.L.I.T. ehf. til áfengisveitinga á Café Victor, Hafnarstræti 1-3, verði endurnýjað og að heimilaður veitingatími áfengis verði til kl. 01.00 alla daga, þó til kl. 05.30 aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og almennra frídaga, ásamt heimild til útiveitinga áfengis til kl. 23.30 alla daga. R04120152
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf sviðsstjóra Skipulags- og byggingarsviðs frá 23. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um deiliskipulags reits 1.133.2, Framnesreits, sem afmarkast af Framnesvegi, Holtsgötu, Seljavegi og Vesturgötu. R04120049
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra Skipulags- og byggingarsviðs frá 23. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu breytingar á deiliskipulagi lóðar nr. 14 við Suðurlandsbraut. R05020151
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra Framkvæmdasviðs frá 23. f.m., þar sem lagt er til að Byggingafélagi námsmanna verði úthlutað byggingarrétti fyrir allt að 200 námsmannaíbúðir á lóð nr. 1-11 við Klausturstíg og lóð nr. 1-13 við Kapellustíg, með nánar tilgreindum skilmálum. R03110079
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra Framkvæmdasviðs frá 25. f.m., þar sem lagt er til að Ísdekki ehf. verði úthlutað 1.394 ferm. viðbótarlóð að Tunguhálsi 6, með nánar tilgreindum skilmálum. R05020155
Samþykkt.

12. Rætt um fyrirhugaða úthlutun lóða við Lambasel. R05030013

Borgarstjóri óskaði bókað:

Borgarstjóri hefur óskað eftir því við skrifstofustjóra Framkvæmdasviðs að hann móti tillögur að úthlutunarskilmálum 30 einbýlishúsalóða við Lambasel, með það að markmiði að með þeim verði einstaklingum og fjölskyldum gefinn kostur á að byggja sér einbýlishús til eigin nota í grónu íbúðahverfi. Verða tillögur að skilmálum lagðar fyrir borgarráð að viku liðinni.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra Umhverfissviðs frá 22. f.m. ásamt drögum að samþykkt um kattahald í Reykjavík, sbr. samþykkt umhverfisráðs 21. s.m. R05020141
Vísað til borgarstjórnar.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra Umhverfissviðs frá 22. f.m. ásamt drögum að samþykkt um gæludýrahald í Reykjavík, sbr. samþykkt umhverfisráðs 21. s.m. R05020142
Vísað til borgarstjórnar.

15. Lögð fram tillaga umhverfisráðs frá 7. f.m. að launum unglinga hjá Vinnuskólanum sumarið 2005, sbr. bréf skrifstofustjóra Umhverfissviðs, dags. 8. s.m. Jafnframt lögð fram umsögn kjaraþróunardeildar frá 28. s.m. R04040041
Tillaga umhverfisráðs samþykkt.

16. Lagt fram afrit bréfs oddvita Kjósarhrepps frá 17. f.m. til nefndar um sameiningu sveitarfélaga, þar sem lagt er til að hætt verði við áform um sameiningu Kjósarhrepps og Reykjavíkurborgar. R04010181

17. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Sorpu bs. frá 28. f.m. varðandi tillögu og fyrirspurn um lokun móttökustöðvar Sorpu við Bæjarflöt í Grafarvogi, sbr. 47. liður fundargerðar borgarráðs 3. f.m. R05010171

18. Lagt fram minnisblað forstöðumanns Innri endurskoðunardeildar, dags. í dag, varðandi úttektaráætlun Innri endurskoðunar árið 2005. R05030005

19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 1. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um málefni Viðeyjar, sbr. 25. liður fundargerð borgarráðs frá 17. f.m. R03040071

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. þ.m.

Borgarráð samþykkir að stofna í samstarfi við Eflingu-stéttarfélag heiðurssjóð Guðrúnar Halldórsdóttur, forstöðukonu Námsflokka Reykjavíkur, í tilefni af sjötugsafmæli hennar og starfslokum hjá Reykjavíkurborg. Stofnfé sjóðsins verði kr. 1.000.000.- Úthlutunarnefnd, skipuð tveimur fulltrúum Reykjavíkurborgar og einum frá Eflingu-stéttarfélagi, úthluti árlega úr sjóðnum framlagi til verkefna eða félagasamtaka sem starfa á þeim sviðum sem Guðrún Halldórsdóttir er best þekkt fyrir, en þeim má lýsa með þremur einkunnarorðum; jafnrétti, fræðsla og fjölmenning.
Skrifstofustjóra borgarstjóra verði falið að vinna í samstarfi við Eflingu-stéttarfélag skipulagsskrá fyrir sjóðinn og leggja fyrir borgarráð til afgreiðslu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R05030003
Samþykkt.

21. Lögð fram að nýju drög að fyrirmynd að samþykkt fyrir fagráð Reykjavíkurborgar ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 2. f.m. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 3. þ.m., þar sem lagðar eru til nánar tilgreindar breytingar á drögunum. R05020008
Borgarráð samþykkir drögin með þeim breytingum, sem skrifstofustjóri borgarstjórnar leggur til.
Vísað til forsætisnefndar.

22. Lagt fram svar borgarstjóra frá 2. þ.m. við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um deiliskipulag Laugavegar, sbr. 21. liður fundargerðar borgarráðs frá 24. f.m. R03120054

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Frá því að R-listinn komst til valda í Reykjavík, hafa 4 hús, sem reist voru fyrir 1918, horfið úr götumynd Laugavegarins á svæðinu milli Skólavörðustígar og Snorrabrautar. Þetta eru húsin við Laugaveg nr. 22a (1892), 53b (1904) og 92 (1898), en húsið að Laugavegi 40 (1906) brann árið 2003.
Þau hús byggð fyrir 1918, sem enn standa við Laugaveginn og er heimilað að rífa samkvæmt áformum R-listans, eru 24 talsins. Þetta eru húsin við Laugaveg nr. 4, 5, 6, 11, 12b, 19, 20, 21, 23, 27, 28b, 29, 33, 33a, 33b, 35, 38, 41, 45, 55, 65, 67, 69 og 73.
Þannig geta allt að 28 hús, byggð fyrir 1918, og voru hluti götumyndar Laugavegarins þegar R-listinn tók við völdum, horfið, en aðeins 25 hús frá þessu tímabili fá að standa. Er þá miðað við að húsin við Laugaveg nr. 30 og 32 og sjö hús á svokölluðum timburhúsareit (nr. 48, 50, 52, 54, 56, 58 og 60) fái að standa, en starfshópur sem vorið 2002 vann að endurmati á deiliskipulagi Laugavegarins, lagði til að þessi hús skyldu víkja. Auk áðurnefndra níu húsa eiga húsin við Laugaveg nr. 1, 2, 10, 12, 17, 20b, 22, 37, 42, 44, 46, 64, 70, 72, 74 og 76 að fá að standa.
Árið 2002 voru eftir 20 hús frá 19. öld á umræddu svæði við Laugaveg, þar af 18 hús við götuna sjálfa, en á baklóðum standa húsin nr. 36 (1892), sem má rífa og 37b (1894), sem fær að standa. Tvö húsanna 18 í götumyndinni hafa þegar verið fjarlægð (Laugavegur 22a og 92). Heimilað hefur verið niðurrif 12 húsa til viðbótar þ.e. húsin við Laugaveg nr. 4 (1890), 5 (1875), 6 (1871), 11 (1868), 12b (1898), 19 (1890), 21 (1884), 23 (1899), 27 (1899), 35 (1894), 41 (1898) og 45 (1897).
Aðeins 4 af 16 húsum, sem enn eru eftir í 19. aldar götumyndinni fá að standa. Það eru húsin nr. 1 (1848), 2 (1887), 10 (1896) og 48 (1899).
Húsið nr. 1 við Laugaveg er elsta húsið við götuna og friðað samkvæmt þjóðminjalögum, þar sem það er byggt fyrir 1850. Það virðist vera eina 19. aldar húsið við Laugaveg, sem ekki hefur komið til tals að rífa!
Fátt vitnar betur um virðingarleysi R-listans fyrir byggingarsögu helstu götu borgarinnar og ekki ofmælt að tala um niðurrifsæði R-listans gagnvart 19. aldar húsum við Laugaveg.
Af framansögðu er ljóst að undirritaður telur það skyldu sína sem kjörins fulltrúa Reykvíkinga að bregðast til varnar gegn þessum yfirgengilegu niðurrifsáformum, sem beinast ekki bara gegn gömlum húsum við götuna heldur alveg sérstaklega gegn flestum elstu húsunum við götuna. Um varðveislugildi flestra þeirra þarf ekki að fjölyrða, enda Reykjavíkurborg ekki rík af húsamenningu 19. aldar.
Í varnarbaráttu minni fyrir gömlu húsin við Laugaveginn að undanförnu hef ég mætt harkalegum viðbrögðum tveggja forystumanna R-listans, þ.e. núverandi og fyrrverandi borgarstjóra, sem báðar eru sagnfræðingar að mennt og ættu því að skilja alvöru þessa máls. Málflutningur þeirra beggja á síðasta borgarstjórnarfundi beindist aðallega gegn trúverðugleika mínum í þessu máli en minna að innihaldi málsins sjálfs. Sú tillaga, sem ég flutti á þeim fundi hefur ekki fengið nægilega eða eðlilega umfjöllun, enda var R-listinn þegar búinn að kynna í fjölmiðlum gagntillögu í málinu, sem var borin upp á fundi skipulagsráðs 23. febrúar sl. Sú tillaga var greinilega sett fram til höfuðs nauðsynlegri umræðu um þá tillögu mína, að nýr starfshópur yrði fenginn til að endurmeta deiliskipulag við Laugaveg.
Framkomin tillaga R-listans gengur þvert á heiðursmannasamkomulag, sem varð til milli mín og borgarstjóra að loknum borgarráðsfundi 10. febrúar sl. Þá tilkynnti ég að ég myndi flytja áðurnefnda tillögu um nýjan starfshóp um endurmat á deiliskipulagi við Laugaveg á næsta borgarstjórnarfundi, sem yrði haldinn 15. febrúar sl. Að eindreginni ósk borgarstjóra frestaði ég tillögunni um einn borgarstjórnarfund eða til 1. mars sl. Það lá skýrt fyrir að forsenda þeirrar frestunar var sú, að R-listinn kæmi ekki með aðra tillögu í málinu á meðan. Borgarráðsfulltrúarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Stefán Jón Hafstein voru vitni að þessu og hafa skýrt frá því, að ég greini satt og rétt frá.
Með framkomu sinni gagnvart mér í þessu máli og með því að halda ekki áðurnefnt heiðursmannasamkomulag, hefur borgarstjóri, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sýnt að ekki er hægt að treysta orðum hennar.
Sú óorðheldni má þó ekki leiða til þess að niðurrifsæði R-listans gagnvart 19. aldar húsum við Laugaveg nái fram að ganga.
Að lokum vísa ég harðlega á bug dylgjum og ósannindum borgarstjóra um að andstaða mín við fyrirhugað niðurrif meirihluta gamalla húsa við Laugaveg hafi ekki legið ljós fyrir.
Fyrirspurnir undirritaðs í skipulagsnefnd og fjölmiðlaumfjöllun um málið þegar í ársbyrjun 2004 vitna um hið gagnstæða.

Borgarstjóri óskaði bókað:

Borgaryfirvöld hafa átt mikið og gott samstarf við Minjavernd um uppbyggingu og endurbyggingu gamalla húsa í Reykjavík. Þannig hefur Geysishús verið endurgert, Aðalstræti 2-4 byggt upp, Ísafoldarhús sem var í algerri niðurníðslu í Austurstæti endurgert og flutt í Aðalstræti. Þannig hefur mikil áhersla verið lögð á að endurheimta yfirbragð gömlu byggðarinnar í Reykjavík. Með því hafa borgaryfirvöld lagt sitt af mörkum til verndunar en um leið uppbyggingar í elsta kjarna borgarinnar. Miklar breytingar hafa orðið á húsverndarmálum í tíð núverandi meirihluta. Árið 1994 var samþykkt í fyrsta sinn að hefja undirbúning að framtíðarstefnumörkun í húsverndarmálum í Reykjavík. Niðurstaða var gefin út sem fylgiskjal með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016. Árið 1997 ákvað borgarráð að fá breskt ráðgjafarfyrirtæki til aðstoðar við undirbúning þróunaráætlunar fyrir miðborgina. Stefna borgaryfirvalda í verndunarmálum miðborgar endurspeglast í þróunaráætlun sem tryggir m.a. að tryggð sé varðveisla svæða, bygginga og götumynda sem hafa sérstakt menningarsögulegt og/eða fagurfræðilegt gildi fyrir borgina. Að gerðar verði miklar kröfur um að hönnun og útlit nýrra bygginga séu í hæsta gæðaflokki og falli vel að þeirri heild sem fyrir er. Eftir samþykkt þróunaráætlunar var vinna við deiliskipulag sett á fullt skrið. Mikil kynning fór fram með bréfum, opnum fundum og loks opinni sýningu á tillögunum. Fullyrða má að sjaldan hafi verið staðið eins faglega að undirbúningi skipulagstillagna og í þessu verkefni. Það er ákaflega mikilvægt að ræða þessi mál æsingalaust og á málefnalegan hátt. Rauði þráðurinn í tillögunni er að verndun og uppbygging fari saman, þar sem haldið er í karakter gamla Laugavegar, um leið og tryggð eru nauðsynleg skilyrði fyrir verslun og þjónustu.

23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að fela verkefnisstjórn um menningarminjar í Aðalstræti, sem skipuð var á fundi borgarráðs 22. júní 2004, að starfa áfram og undirbúa sýningu á landnámsminjum í fornminjaskálanum í Aðalstræti í samræmi við tillögur verkefnisstjórnarinnar sem lagðar voru fram á fundi borgarráðs 30. desember sl. Starfshópurinn skili skýrslu um störf sín til menningarmálaráðs.

Greinargerð fylgir tillögunni. R04010059
Samþykkt.

24. Staða vinnu við skipulag Mýrargötusvæðisins kynnt. R03020008

25. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Mikil óvissa ríkir um framtíðarrekstraröryggi sjálfstæðra grunnskóla í Reykjavík. Hvenær má búast við því að forráðamönnum sjálfstæðu grunnskólanna berist formleg tillaga frá Reykjavíkurborg varðandi framtíðarrekstur þeirra? R05030022

26. Afgreidd 14 útsvarsmál. R05010128

Fundi slitið kl. 12:40

Alfreð Þorsteinsson
Björk Vilhelmsdóttir Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Katrín Jakobsdóttir
Stefán Jón Hafstein Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson