Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2005, fimmtudaginn 10. febrúar, var haldinn 4879. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Anna Kristinsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 2. febrúar. R05010035
2. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 2. febrúar. R05010041
3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál. R05020027
4. Lagður fram kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Verkstjórasambands Íslands, dags. 31. janúar 2005. R03120175
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.
5. Lagt fram bréf sviðsstjóra Skipulagssviðs frá 2. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu deiliskipulags reits 1.151.4, Þjóðleikhússreits. R05020029
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
Bókun borgarráðs:
Borgarráð áréttar mikilvægi þess að vel takist til með arkitektúr og útlit viðbyggingu við merkisbyggingar á borð við Þjóðleikhúsið.
6. Lagt fram bréf sviðsstjóra Skipulagssviðs frá 2. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Suður Mjóddar, íþróttasvæði ÍR. R05020030
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
7. Lagt fram bréf sviðsstjóra Skipulagssviðs frá 2. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á aðalskipulagi Sléttuvegar. R04100098
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
8. Lagt fram bréf sviðsstjóra Skipulagssviðs frá 28. desember sl., sbr. samþykkt skipulagsráðs 22. s.m., varðandi auglýsingu á breyttu deiliskipulagi á lóð Sorpu að Sævarhöfða 21. Jafnframt lögð fram umsögn Umhverfissviðs frá 31. f.m., sbr. samþykkt umhverfisráðs 7. þ.m. R05020042
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra Framkvæmdasviðs frá 7. þ.m., þar sem lagt er til að Jóhanna R. Jónasdóttir verði lóðarhafi lóðar nr. 15-21 við Lindarvað, með nánar tilgreindum skilmálum. R05020001
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
10. Lagt fram að nýju bréf forstjóra Umönnunar- og hjúkrunarheimilisins Skjóls frá 26. þ.m., þar sem óskað er tilnefninga í fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar Skjóls. R03030050
Samþykkt að tilnefna til fjögurra ára Helga S. Guðmundsson, Pál Gíslason og Láru Björnsdóttur, til vara Önnu Kristinsdóttur og Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur.
11. Lagt fram yfirlit forstjóra Innkaupastofnunar frá 25. f.m. yfir viðskipti í desember 2004. R03030048
12. Lagt fram bréf ritara menningar- og ferðamálaráðs frá 3. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins 2. s.m., varðandi samstarfssamning Reykjavíkurborgar og Main Course ehf. um matgæðingahátíðina Food & Fun in Reykjavík árin 2005-2007. R05020028
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.
13. Lögð fram skýrsla Innri endurskoðunar um niðurstöður stjórnsýslu- og rekstrarúttektar á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, dags. í desember 2004. R05010103
14. Lagt fram bréf staðgengils forstjóra Landsvirkjunar frá 21. f.m. þar sem óskað er samþykkis Reykjavíkurborgar á skuldabréfaútgáfu Landsvirkjunar að fjárhæð allt að 22 milljarðar króna. Jafnframt lögð fram umsögn sviðsstjóra Fjármálasviðs, þar sem lagt er til að orðið verði við erindinu. R05010156
Vísað til borgarstjórnar.
Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:
F-listinn lýsir nú sem fyrr yfir andstöðu sinni við að Reykjavíkurborg veiti Landsvirkjun heimildir til lántöku vegna Kárahnjúkavirkjunar og beri ábyrgð á þessum lántökum.
15. Lagt fram bréf forstjóra Landsvirkjunar frá 20. desember sl. þar sem óskað er eftir samþykki Reykjavíkurborgar á gerð skiptasamninga, framvirkra samninga og/eða beitingu vilnana, að fjárhæð allt að 350 milljónir Bandaríkjadala. Jafnframt lögð fram umsögn sviðsstjóra Fjármálasviðs frá 9. þ.m. þar sem lagt er til að orðið verði við erindinu, þó með þeirri breytingu að gildistími samninga verði styttur úr 30 árum í 20 ár. R04010060
Vísað til borgarstjórnar.
Ólafur F. Magnússon óskaði bókað að hann vísi til bókunar sinnar undir 14. lið fundargerðarinnar.
16. Kynntar fyrirætlanir Orkuveitu Reykjavíkur varðandi lagningu ljósleiðaranets í Reykjavík.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að ganga til viðræðna við Orkuveitu Reykjavíkur um það á hvern hátt sé unnt að hraða ljósleiðaravæðingu heimila í Reykjavíkurborg. Í því sambandi verði athugað hvernig borgin getur komið að markaðssetningu ljósleiðarans. Niðurstaða þeirra viðræðna verði kynntar í borgarráði til samþykktar. R03040066
Tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
17. Lagt fram bréf sviðsstjóra Skipulagssviðs frá 8. þ.m. varðandi fyrirspurn Ólafs F. Magnússsonar um niðurrif gamalla húsa við Laugaveg, sbr. 49. liður fundargerðar borgarráðs frá 3. febrúar. R03120054
Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:
Svar við fyrirspurn undirritaðs um niðurrif húsa á Laugavegi, sem lögð var fram á fundi borgarráðs 3. febrúar sl., leiðir í ljós að skv. deiliskipulagi heimilar R-listinn að rífa 25 hús við Laugaveg, byggð fyrir 1918. Þar af hefur húsið Laugavegur 22A frá árinu 1892 þegar verið rifið.
Af þessum 25 húsum sem öll eru á svæðinu frá Laugavegi 1-73 og er þriðjungur húsa á því svæði, eru 22 hús 100 ára og eldri, þar af 13 frá 19. öld. Elst er húsið Laugavegur 5 frá árinu 1875.
Engum ætti að dyljast, að í uppsiglingu er allt of mikil röskun á byggingarsögu og heildstæðri götumynd Laugavegarins.
Endurskoða þarf deiliskipulag Laugavegarins á svæðinu frá Laugavegi 1-73 og skoða málið heildstætt. Ekki verður unað við þá niðurstöðu sem starfshópur um endurskipulagningu Laugavegarins komst að fyrir nokkrum árum, en þar var lagt til mun meira niðurrif gamalla húsa við Laugaveg en áður hafði verið talið verjandi.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Í bókun borgarfulltrúa Ólafs F. Magnússonar kemur fram ákveðinn misskilningur. Mikil áhersla hefur verið lögð á það við deiliskipulag Laugavegar að tryggja nauðsynlega uppbyggingu nýs verslunar- og atvinnuhúsnæðis en tryggja í leiðinni að yfirbragð og karakter gömlu húsanna við Laugaveg haldi sér. Til að tryggja nauðsynlega sátt þessara sjónarmiða var sett á laggirnar vinnuhópur með sérfræðingum minjaverndarinnar, rekstraraðilum á svæðinu, kjörnum fulltrúum og arkitektum frá Skipulagssviði. Sá vinnuhópur skilaði af sér niðurstöðum sem skipulagið byggir á.
Nú er lokið miklu átaksverkefni varðandi deiliskipulag á Laugavegi sem tryggir nauðsynlegt jafnvægi verndunar og uppbyggingar. Allt tal um annað er fyrst og fremst til þess fallið að slá ryki í augu fólks.
18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. þ.m.:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að skilyrði þess að breytt sé skipulagi í Elliðaárdal, hvort sem er aðalskipulagi eða deiliskipulagi, eða heimilaðar þar framkvæmdir, verði að liggja fyrir umsögn umhverfisráðs. Þetta eigi þó ekki við um framkvæmdir sem séu í samræmi við gildandi skipulag, enda sé um að ræða eðlilega úrvinnslu og framkvæmd á skipulagi svæðisins og verkið unnið í samráði við Umhverfissvið. Samþykkt þessi komi í stað samþykktar borgarstjórnar um þetta efni 7. júlí 1994.
Greinargerð fylgir tillögunni. R05020045
Vísað til borgarstjórnar.
19. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra skipulagssjóðs frá 7. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar skipulagssjóðs 2. s.m. varðandi kaup á fasteign að Lágholtsvegi 20. R05020046
Samþykkt.
20. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvernig er háttað strætósamgöngum milli Grafarholts og Árbæjar fyrir og eftir leiðakerfisbreytingar? R02030079
21. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fela stjórnsýslu- og starfsmannasviði að láta fara fram nú þegar einfalda viðhorfskönnum meðal borgarstarfsmanna. Í könnuninni verði spurt hvernig borgarstarfsmönnum líði í vinnunni og hvort þeir séu ánægðir í vinnunni.
Greinargerð fylgir tillögunni. R04100035
Frestað.
22. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fela Innri endurskoðun að gera úttekt á þeim stjórnkerfisbreytingum sem staðið hafa yfir frá 20. júní 2002, þegar borgarstjórn fól stjórnkerfisnefnd að #GLfara yfir stjórnkerfi Reykjavíkurborgar#GL og væntanlega munu taka enda 1. desember 2005.
Óskað er eftir upplýsingum og úttekt á eftirfarandi þáttum:
1. Hve margir starfsmenn hafa skipt um störf og munu skipta um störf á næstu mánuðum innan borgarkerfisins við breytingar vegna þjónustumiðstöðva og vegna breytinga á stjórnkerfi borgarinnar?
2. Hve margir starfsmenn hafa ekki fengið endurráðningu við þessar breytingar og með hvaða hætti voru starfslok þeirra leyst?
3. Hver verður heildarkostnaður við þessar breytingar, hvað varðar starfsmenn, húsnæði og flutninga?
4. Hve miklum fjármunum þ.m.t. vinnutími starfsmanna hefur verið varið í þessar breytingar innan borgarkerfisins?
5. Hve mikill kostnaður er vegna utanaðkomandi ráðgjafar vegna innleiðingu þjónustumiðstöðva og breytinga á stjórnkerfinu á þessu tímabili?
6. Hve margir kjörnir fulltrúar sátu í nefndum og ráðum á árinu 2004 og hve margir eru þeir nú eftir breytingar á nefndarkerfi borgarinnar?
7. Hvaða þjónusta borgarinnar verður ekki tengd fyrirhuguðum þjónustumiðstöðvum? R05020062
Frestað.
23. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir því að á næsta borgarráðsfundi verði lagt fram eitt eintak af öllum skýrslum sem unnar hafa verið frá því í janúar 2003 vegna þjónustumiðstöðva og stjórnkerfisbreytinga. Jafnframt að lagður verði fram listi um þessar skýrslur og upplýsingar um áætlaðan kostnað við gerð þeirra. R05020063
24. Afgreidd 9 útsvarsmál. R05010128
Fundi slitið kl. 13:05.
Alfreð Þorsteinsson
Anna Kristinsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Guðlaugur Þór Þórðarson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Stefán Jón Hafstein Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson