Borgarráð - Fundur nr. 4851

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2004, þriðjudaginn 6. júlí, var haldinn 4851. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:20. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Anna Kristinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kjartan Magnússon og Stefán Jón Hafstein. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 8. júní. R04010016

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 16. júní. R04010040

3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 30. júní. R04010018

4. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 25. júní. R04010003

5. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 28. júní. R04010005

6. Lögð fram fundargerð menningarmálanefndar frá 28. júní. R04010017

7. Lögð fram fundargerð samgöngunefndar frá 29. júní. R04010011

8. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar um lögreglumálefni frá 2. júlí. R04010025

9. Lögð fram fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 30. júní. R04010004
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur með samhljóða atkvæðum.

10. Lögð fram fundargerð stjórnar Fasteignastofu frá 29. júní. R04010020

11. Lögð fram fundargerð umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 24. júní. R04010024

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál. R04060243

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 30. f.m., sbr. samþykkt samgöngunefndar 29. s.m. varðandi afmörkun 30 km svæða á árinu 2004, þar sem lagt er til að gatnamálastjóra verði falið að haga framkvæmdum við hraðahindranir í samræmi við tillögur Verkfræðistofu Umhverfis- og tæknisviðs frá 15. apríl sl. og uppsetningu skilta vegna 30 km hámarkshraða verði hagað eftir samþykkt lögreglustjóra. R03040136
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 1. þ.m. þar sem lagt er til að bætt verði við gjaldskrá gatnagerðargjalda nýju ákvæði varðandi innheimtu gatnagerðargjalda af svalaskýlum sem uppfylla kröfur 102. gr. byggingarreglugerðar, sbr. einnig 14. liður fundargerðar borgarráðs 1. f.m. R04030091
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur frá 30. f.m. varðandi staðsetningu útilistaverksins “Friðarsteinn frá Hírósíma#GL við suðvesturenda Tjarnarinnar. R04020078
Samþykkt.

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 1. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 30. f.m., varðandi auglýsingu deiliskipulags lóða nr. 151 og 153 við Bústaðaveg. R04070011
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
Ólafur F. Magnússon óskaði bókað að hann vísi til fyrri bókanna sinna um þetta mál í borgarráði og skipulags- og byggingarnefnd.

- Kl. 12.55 vék borgarstjóri af fundi.

17. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 2. þ.m, sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 30. f.m., varðandi breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 3 við Þingholtsstræti. R04020101
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 29. apríl sl., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m., varðandi auglýsingu deiliskipulags Borgartúnsreits 1.220.2, sem afmarkast af Skúlagötu, Skúlatúni, Borgartúni og Snorrabraut. R04010137
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

19. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 2. þ.m. þar sem lagt er til að borgarráð samþykki kauptilboð eftirfarandi aðila í byggingarrétt í Norðlingaholti, 2. áfanga, með nánar tilgreindum skilyrðum:

Lóðir fyrir fjölbýlishús:
Helluvað nr. 1-5 (stök númer) 24-28 íbúðir, Fasteignafélagið Hlíð ehf.
Hestavað nr. 1-3 (stök númer) 14-18 íbúðir, Rúmmeter ehf.
Hestavað nr. 5-9 ( stök númer) 21-24 íbúðir, Fasteignafélagið Hlíð ehf.
Kambavað nr. 1-3 (stök númer) 17-20 íbúðir, Frjálsi Fjárfestingabankinn hf.
Hólmvað nr. 6-8 ( jöfn númer) 12 íbúðir, JB Byggingafélag ehf.

Lóðir fyrir samtengd tvíbýlishús:
Krókavað nr. 2-12 ( jöfn númer) 12 íbúðir, Sparisjóður Hafnarfjarðar
Krókavað nr. 13-23 (stök númer) 12 íbúðir, Frjálsi Fjárfestingabankinn hf.
Krókavað nr. 14-18 (jöfn númer) 6 íbúðir, Sparisjóður Hafnarfjarðar
Kólguvað nr. 1-13 (stök númer) 14 íbúðir, Sparisjóður Hafnarfjarðar

Lóðir fyrir raðhús:
Hólmvað nr. 38-52 (jöfn númer) 8 íbúðir, Sparisjóður Hafnarfjarðar
Hólmvað nr. 54-68 (jöfn númer) 8 íbúðir, Pálmar ehf.
Hólavað nr. 1-11 (stök númer) 6 íbúðir, Sparisjóður Hafnarfjarðar
Hólavað nr. 13-27 (stök númer) 8 íbúðir, Sparisjóður Hafnarfjarðar
Hólavað nr. 29-43 (stök númer) 8 íbúðir, Sparisjóður Hafnarfjarðar
Hólavað nr. 45-61 (stök númer) 9 íbúðir, Sparisjóður Hafnarfjarðar

Lóðir fyrir einbýlishús:
Þingvað nr. 1, 3, 5, 7, 9 og 11 (stök númer), Frjálsi Fjárfestingabankinn hf.
Þingvað nr. 17 (stakt númer), Jón Ríkharð Kristjánsson
R04050026

Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

20. Lagt fram að nýju bréf ritara samgöngunefndar frá 24. f.m., sbr. samþykkt nefndarinnar 16. s.m. varðandi gjaldskyldu á bílastæðum við Grettisgötu, milli Snorrabrautar og Barónsstígs. R04060198
Samþykkt.

21. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 2. þ.m. varðandi úthlutun útgjaldaramma í fjárhagsáætlun ársins 2005 til fagnefnda. R04070012
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

22. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 2. þ.m. varðandi þær reglur sem gilda um opinbera umfjöllun um það sem fram fer á lokuðum fundum nefnda og ráða Reykjavíkurborgar. R04070013

23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjóra og borgarritara frá 5. þ.m. yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði. R04040102

24. Lögð fram áfangaskýrsla samráðshóps um Elliðaár, ódags., ásamt bókun hópsins frá 9. f.m., sem lögð var fram í umhverfis- og heilbrigðisnefnd 24. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra Umhverfis- og heilbrigðisstofu 5. þ.m. R02110164

25. Lagðar fram að nýju tillögur Ólafs F. Magnússonar frá 22. og 24. f.m. þar sem lagt er til að gerðar verði nánar tilgreindar úttektir á hugmyndum um lagningu Hringbrautar í stokk á 600 metra kafla og um gerð mislægra gatnamóta Hringbrautar og Bústaðavegar með hringtorgi, sbr. 37. liður fundargerðar borgarráðs 22. f.m. og 20. liður fundargerðar borgarráðs 29. s.m. Jafnframt lagðar fram að nýju umsagnir embættis borgarverkfræðings frá 28. f.m., sbr. samþykkt samgöngunefndar 29. s.m. Þá er lögð fram umsögn skipulags- og byggingarsviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 1. þ.m. R04010106

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista:

Í umsögnum samgöngunefndar og skipulags- og byggingarnefndar er svarað þeim spurningum sem lagt er til að leitað verði svara við í tillögum Ólafs F. Magnússonar frá 22. og 24. júní. Frekari afgreiðslu á tillögunum er því ekki þörf og er þeim því vísað frá.

Tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Fram hefur komið að Átakshópur Höfuðborgarsamtakanna og Samtaka um betri byggð dregur mjög í efa greinargerð þá sem lögð var fram á fundi borgarráðs 29. júní sl. og segir að hún byggist m.a. á eldri hugmyndum þeirra um lokaðan stokk. Óskað er eftir svörum við athugasemdum hópsins varðandi tæknilega útfærslu og kostnaðarmat. Jafnframt verði kannað að fela hlutlausum aðila að meta hugmyndir átakshóps varðandi færslu Hringbrautar. Mikilvægt er að borgarráð leiti leiða til að ná betri sátt um þessa mikilvægu framkvæmd.

Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Óskað er eftir frekari greinargerð um umferð um eldri Hringbraut eftir að framkvæmdum um nýja Hringbraut hefur verið lokið. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að mikil umferð verði áfram um eldri Hringbraut. Lagt er til að unnar verði tillögur sem geri ráð fyrir því að dregið verði verulega úr fyrirhugaðri umferð á eldri Hringbraut þegar ný Hringbraut verður tekin í notkun.

Afgreiðslu tillagna borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks frestað.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Undirritaður er almennt andvígur hugmyndum um að setja verulegan hluta umferðar miðsvæðis í borginni í neðanjarðargöng. Það gildir einnig um þá hugmynd Átakshóps Höfuðborgarsamtakanna og Samtaka um betri byggð að setja Hringbraut í 1100 metra langan neðanjarðarstokk þar sem aðeins væri gert ráð fyrir tveim akreinum í hvora átt. Sú lausn tryggði hvorki nægilega umferðarrýmd né umferðaröryggi. Hún minnir sumpart á hugmyndir R-listans frá 1996 um að auka ekki umferðarrýmd vestan Elliðaáa, sem urðu til þess að fresta gerð mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.
Málamiðlunartillaga átakshópsins um opinn 600 metra stokk þar sem gert er ráð fyrir þrem akreinum í hvora átt er mun skynsamlegri en fyrri tillögur um lengri og lokaðan stokk. Þess vegna flutti undirritaður tillögu um það í borgarráði 22. júní sl. að þar til bærum embættismönnum borgarinnar væri falið að gera faglega úttekt og kostnaðarmat á þeirri tillögu.
Á borgarstjórnarfundi 24. júní sl. lagði undirritaður síðan til að auk úttektar á opnum stokki væri borgarverkfræðingi falið að kanna með sama hætti tillögu átakshópsins um mislæg hringtorgsgatnamót á mótum Bústaðavegar og Miklubrautar.
Samkvæmt ákvörðun meirihluta borgarstjórnar hafa tvær nefndir borgarinnar veitt umsögn um áðurnefndar tillögur.
Umsögn samgöngunefndar frá 28. júní sl. er byggð á áliti borgarverkfræðings og forstöðumanns verkfræðistofu umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkurborgar. Þar kemur fram margvísleg gagnrýni á tillögur átakshópsins en tengingar samkvæmt aðalskipulagi við Hlíðarfót og inn á Umferðarmiðstöð og Landspítalareit eru sagðar erfiðastar í útfærslu. Ennfremur segir í umsögninni að gatnamót við Bústaðaveg eru ekki leyst á fullnægjandi hátt með mislægu hringtorgi.
Umsögn skipulags- og byggingarnefndar frá 30. júní sl. er byggð á áliti sviðsstjóra og lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs. Þar er bent á að verði gamla Hringbrautin felld niður þarf að gera ráð fyrir akandi umferð og tengingum við svæðið einhvers staðar annars staðar sem tækju sambærilegt pláss. Þá segir m.a. að við gerð deiliskipulags af Vatnsmýrarsvæðinu og svæði Landspítala Háskólasjúkrahúss geti þurft að endurskoða skipulag gatna á svæðinu. Því umfangsmeiri framkvæmdir sem búið verður að ráðast í þá þeim mun erfiðara verður það.
Í þessum ummælum sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs felst að mínu mati viss gagnrýni á þau vinnubrögð, að ráðast í færslu Hringbrautar án þess að búið sé að gera deiliskipulag aðliggjandi svæða, einkum Landspítalalóðarinnar. Sams konar gagnrýni hefur komið fram af hálfu átakshóps Höfuðborgarsamtakanna. Ég tek undir þessa gagnrýni en legg jafnframt áherslu á að ég tek á engan hátt undir gagnrýni átakshópsins á sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs eða aðra embættismenn borgarinnar. Ekki er við þá að sakast vegna margháttaðra mistaka R-listans í skipulags- og umferðamálum allt frá því að hann komst til valda fyrir tíu árum.
Yfirstandandi færsla Hringbrautar felur í sér lagningu gatna á yfirborði sem kostar minna og hefur vissulega í för með sér minni óafturkræf áhrif m.t.t. stöðu skipulagsmála á svæðinu en bygging gangna eða stokks fyrir umferð. Verði það hins vegar raunin að menn vilji síðar meir færa götuna í stokk hefur það verulegan kostnaðarauka í för með sér miðað við að það hefði verið gert í einum og ódýrari áfanga. Sá valkostur hefur verið gerður nær ómögulegur með því að ráðast í færslu Hringbrautar án þess að hafa áður skipulagt a.m.k. aðliggjandi svæði Landspítala Háskólaskjúkrahúss og umferðartengingar við það. Þetta er enn eitt dæmið um fljótfærni R-listans í skipulagsmálum.

Fundi slitið kl. 13:20

Alfreð Þorsteinsson
Anna Kristinsdóttir Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Kjartan Magnússon Stefán Jón Hafstein