Borgarráð - Fundur nr. 4843

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2004, þriðjudaginn 18. maí, var haldinn 4843. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:50. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 29. apríl. R04010042

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Fasteignastofu frá 11. maí. R04010020

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 6. maí. R04010021

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R04040136

5. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um breytingu á aðalskipulagi hvað varðar Bústaðaveg 151. R03100062 Samþykkt. Ólafur F. Magnússon óskaði bókað að hann vísi til fyrri bókunar sinnar í borgarráði um málið.

- Kl. 12.05 vék Dagur B. Eggertsson af fundi.

6. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi reits 1.184.1, sem afmarkast af Spítalastíg, Óðinsgötu, Bjargarstíg og Bergstaðastræti. R04050082 Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

7. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi reits 1.184.0, sem afmarkast af Óðinsgötu, Bjargarstíg, Grundarstíg og Spítalastíg. R04050083 Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

- Kl. 12.18 tók Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum.

8. Lögð fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings, dags. 14. þ.m. og í dag, varðandi útboð byggingarréttar í 2. áfanga Norðlingaholts og forgangsrétt Reykjavíkurborgar, ásamt útboðsskilmálum, dags. í maí 2004. R04050026 Útboð byggingarréttar og útboðsskilmálar samþykktir með 4 samhljóða atkvæðum.

9. Lagt fram yfirlit forstjóra innkaupastofnunar frá 10. þ.m. yfir viðskipti stofnunarinnar í apríl 2004. R03030048

10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. þ.m., um fjárveitingu vegna landnámsminja við Aðalstræti:

Borgarráð samþykkir að veita 14 milljónum króna til verkefna sem tengjast landnámsminjunum á lóðunum Aðalstræti 14-18 til viðbótar þeirri fjárveitingu sem þegar er til ráðstöfunar árið 2004. Fjárveitingin færist af kostnaðarstaðnum ófyrirséð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R04010059 Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

11. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. þ.m. um ráðningar borgarinnar á skólafólki til sumarvinnu. R04020002

12. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 29. f.m. í málinu nr. 54/2002, er varðar byggingarleyfi veitingastaðar að Laugavegi 53b. R02120113

13. Lagt fram erindi Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla frá 4. þ.m. varðandi frístundaheimili fyrir nemendur 1.-4. bekkjar skólans. Jafnframt lagt fram bréf fjármálastjóra frá 17. s.m. þar sem lagt er til að íþrótta- og tómstundaráði verði falið að undirbúa rekstur frístundaheimilis við Öskjuhlíðarskóla, og að vegna þessa verði veitt viðbótarfjárveiting að fjárhæð kr. 4.060.000, er færist af liðnum ófyrirséð útgjöld. R01080110 Samþykkt.

14. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs frá 17. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um staðgreiðsluafslátt af aukastöðugjöldum, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs 11. s.m. R03040061

15. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista:

Vegna umræðu um starfsumhverfi fjölmiðla vill borgarráð vekja athygli þingmanna á nauðsyn þess að fjölmiðlar búi við stöðugleika og öruggt lagaumhverfi ekki síður en önnur atvinnustarfsemi. Fjölmiðlarekstur og útgáfa er mikilvæg atvinnugrein í Reykjavík. Nægir að nefna að tvö til þrjú þúsund einstaklingar starfa við fjölmiðla og þar með eiga jafnmargar fjölskyldur lífsafkomu sína að hluta eða heild undir blómlegum rekstri þeirra. Gera verður þá kröfu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar stofni ekki rekstri fjölmiðlafyrirtækja og atvinnuöryggi starfsfólks í hættu nema brýna nauðsyn beri til og ljóst sé að mildari úrræði nái ekki sömu markmiðum. Borgarráð varar eindregið við því að málið verði keyrt fram með hraði og hvetur til vandaðrar og ítarlegrar umræðu áður en lög verði samþykkt frá Alþingi. Borgarráð bendir á að þrátt fyrir þær breytingar sem boðaðar hafa verið í meðförum Alþingis er ljóst að rekstur öflugra fjölmiðla og atvinnuöryggi hundruða er í uppnámi verði frumvarpið að lögum. Alls óvíst virðist hins vegar hvort markmið frumvarpsins um fjölbreyttni í umfjöllun og öfluga dagskrágerð náist. Það er lágmarkskrafa að nægilegur tími gefist til að fullkanna hin víðtæku áhrif sem samþykkt frumvarpsins gæti haft í för með sér. R04050092

Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt að komið sé í veg fyrir óæskilega eignasamþjöppun á fjölmiðlamarkaði eins og stefnt er að með fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir þá skoðun R-listans að starfsemi fjölmiðla byggist á öruggu lagaumhverfi og telja fjölmiðlafrumvarpið stuðla að því. Með því að hafa skýrar reglur um eignarhald og aðkomu markaðsráðandi fyrirtækja er ekki verið að veikja forsendur fyrir fjölmiðlastarfsemi heldur breikka og styrkja. Frumvarpið hefur nú verið í meira en tvær vikur til umræðu á Alþingi. Umræður um það hafa verið mjög ítarlegar og enn er eftir þriðja umræða um frumvarpið. Það hefur því gefist og gefst góður tími til að meta efni frumvarpsins en að baki því liggur ítarleg rannsókn og skýrsla nefndar á vegum menntamálaráðherra. Hagsmunaaðilar og sérfræðingar hafa komið fyrir þrjár nefndir Alþingis vegna málsins. Miklar breytingar eru á starfsháttum fyrirtækja og starfsfólki fjölgar eða fækkar eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni á atvinnumarkaðinum. Á þetta jafnt við atvinnufyrirtæki á vegum einkaaðila og opinberra aðila. Það vekur athygli að flutningsmenn þeirrar ályktunartillögu sem hér liggur fyrir hafa ekki séð ástæðu til þess að flytja sérstakar ályktunartillögur vegna starfsöryggis hundraða starfsmanna stofnana og fyrirtækja, m.a. hjá Landsspítalanum og Íslenskri erfðagreiningu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja framlagða tillögu byggða á röngum forsendum sem engin tilraun hefur verið gerð til að rökstyðja og lýsa þess vegna andstöðu sinni við hana.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Ég lýsi stuðningi við þau sjónarmið sem fram koma í bókun borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlistans og vænti öflugs stuðnings við tillögu mína um fjölmiðlafrumvarpið, sem tekin verður fyrir í Borgarstjórn Reykjavíkur síðar í dag. Framganga Sjálfstæðisflokksins í þessu máli er aumkunarverð. Vegna bókunar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er fullljóst að undirritaður mun flytja tillögu í borgarstjórn í haust, ef ríkisstjórnin ræðst enn einu sinni á heilbrigðis- og velferðarþjónustuna í landinu og borginni með niðurskurði á stöðugildum og þjónustu Landspítala Háskólasjúkrahúss. Ekki er að vænta stuðnings Sálfstæðisflokksins við slíka tillögu, enda flokkurinn hollari ríkisstjórninni en starfsfólki Landspítala Háskólasjúkrahúss.

16. Lagt fram bréf Jóns Kára Jónssonar, dags. í dag, þar sem hann óskar lausnar sem varamaður í hverfisráði Hlíða og hverfisráði Háaleitis. R03110063 Samþykkt að leggja til við borgarstjórn að Björn Ársæll Pétursson verði kosinn varamaður í hverfisráð Hlíða í hans stað, og Gísli Þór Gíslason í hverfisráð Háaleitis.

Fundi slitið kl. 13:00.

Alfreð Þorsteinsson

Dagur B. Eggertsson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Stefán Jón Hafstein
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson