Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2004, þriðjudaginn 27. apríl, var haldinn 4840. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:25. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Fundarritun önnuðust Gunnar Eydal og Ólafur Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 14. apríl. R04010039
2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 21. apríl. R04010018
3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R04030160
4. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 21. s.m. um breytt deiliskipulag lóðar Vesturbæjarsundlaugar. R03090107 Samþykkt.
5. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 21. s.m. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 17 við Borgartúni. R04040111 Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
6. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 21. s.m. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi lóðar Laugarnesskóla. R04040112 Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
7. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 23. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 21. s.m. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 15-27 við Klettagarða og nr. 6-10 við Köllunarklettsveg. R04040113 Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
8. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 23. þ.m, sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 21. s.m. um auglýsingu á deiliskipulagi lóðar bensínstöðvar Esso að Kringlumýrarbraut 100. R04040114 Samþykk. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
9. Lagðir fram ársreikningar Listahátíðar í Reykjavík og Menningarborgarsjóðs fyrir árið 2003. R04040084
10. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjóra og borgarritara frá 15. þ.m. yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði. R04040102 Samþykkt að veita Sjálfsbjörg styrk að fjárhæð kr. 150.000 vegna utanferðar unglingahóps félagsins. Jafnframt samþykkt að veita Skákfélaginu Hróknum styrk að fjárhæð 1.500.000 vegna stórmóts félagsins, sem haldið var í febrúar og mars sl.
11. Lagður fram ársreikingur Strætó bs. fyrir árið 2003. R04040067
12. Kynnt drög að nýju leiðakerfi Strætó bs. R02030079
13. Lögð fram drög að samkomulagi ríkisins og Reykjavíkurborgar um skipulag lóðar Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut, dags. í dag, ásamt bréfi borgarverkfræðings, dags. 26. þ.m. R01010020 Borgarráð samþykkir samkomulagið fyrir sitt leyti.
14. Lagðir fram ársreikningar Íþrótta- og sýningarhallarinnar hf. og Fasteignafélagsins Laugardals ehf. fyrir árið 2003. R04010075
15. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 20. þ.m., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um stjórnkerfi barnaverndarmála, sbr. 21. liður fundargerðar borgarráðs 13. s.m. R04040021
16. Lagður fram orkusölusamningur Orkuveitu Reykjavíkur sf. og Hitaveitu Suðurnesja hf. annars vegar, og Norðuráls hins vegar, dags. 17. apríl 2004, ásamt bréfi forstjóra Orkuveitunnar, dags. 26. þ.m. R03090081 Vísað til borgarstjórnar.
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar því að samningar um sölu á raforku til Norðuráls eru í höfn. Þar með er tryggður grundvöllur fyrir hagkvæmri jarðvarmavirkjun Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði. Sérstakt ánægjuefni er að allri orku samkvæmt samningunum er aflað með jarðvarma. Framkvæmdirnar í heild sinni eru þannig mikilvægir áfangar á vegi sjálbærar þróunar og til þess fallnar að losun úrgangsefna við framleiðslu áls verði sem minnst. Það endurspeglar mikilvægi málsins fyrir atvinnulíf landsins að við uppbyggingu orkuvera og álvers munu allt að 800 manns starfa. Þegar framkvæmdum lýkur koma um 30 manns til með að starfa við virkjanirnar og um 320 manns munu starfa hjá Norðuráli, en þar af bætast við um 130 ný störf vegna stækkunarinnar. Þar fyrir utan verður um fjölda afleiddra starfa að ræða. Samningur þessi markar einnig tímamót í raforkusölu hérlendis því þetta er í fysta sinn sem önnur orkufyrirtæki en Landsvirkjun gera samning um raforkusölu af þessu umfangi. Samanlögð fjárfesting vegna þessa samnings er tæpir 50 milljarðar króna. Fjárfesting í virkjunum og flutningsvirkjum verður rúmlega 20 milljarðar og í álveri rúmlega 23 milljarðar.
17. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 21. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Orkuveitunnar 20. s.m. þar sem óskað er heimildar borgarstjórnar til lántöku hjá Norræna fjárfestingabankanum að andvirði 70 milljóna evra. R04030167 Vísað til borgarstjórnar.
18. Lögð fram að nýju skýrsla orkustefnunefndar Reykjavíkurborgar, dags. í mars 2004, ásamt svohljóðandi tillögu borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlista:
Borgarráð telur að Orkustefnunefnd hafi skilað góðu starfi og tekið á helstu verkefnum eins og þau voru skilgreind í erindisbréfi, dags. 12. nóv. 2002. Borgarráð tekur undir þau meginsjónarmið sem nefndin gerir tillögur um að stefna borgarinnar í orkumálum byggi á og undirstrikar mikilvægi þess að orkustefnan taki mið af umhverfisstefnu borgarinnar og markmiðum um sjálfbæra þróun. Sérstaklega er bent á þýðingu þess að einhugur er í nefndinni um að Reykjavíkurborg, í samráði við aðra eigendur Orkuveitu Reykjavíkur, setji félaginu það meginmarkmið að tryggja framboð orku og örugga afhendingu á starfssvæði sínu, og að gagnaflutningar verði skilgreindir sem hluti af kjarnastarfsemi OR. Sömuleiðis tekur borgarráð undir þá niðurstöðu nefndarinnar að Orkuveitan verði áfram rekin sem eitt fyrirtæki þar sem orkumálum Reykvíkinga er vel fyrir komið. Borgarráð tekur undir þá niðurstöðu nefndarinnar að stofnun Orkuveitu Reykjavíkur hafi skilað borgarbúum bæði fjárhagslegum ávinningi og fjölbreyttari og betri þjónustu. Enginn vafi leikur á að sameinað fyrirtæki hefur gert það að verkum að Orkuveitan er nú vel í stakk búin til að takast á við stórverkefni eins og nýjar virkjanir, nýjar veitur og stækkun þjónustusvæðis, eins og reynslan hefur sýnt. Borgarráð telur ekki efni eða tilefni til að breyta rekstrarformi OR. Þvert á móti er mikilvægt fyrir festu í rekstri og traust fyrirtækisins að skýrt sé og afdráttarlaust að félagið sé og verði í samfélagslegri eigu. Þá styður borgarráð þau sjónarmið nefndarinnar að Reykjavíkurborg eigi að losa sig út úr eignarhaldi og ábyrgðum á raforkuframleiðslu Landsvirkjunar og felur borgarstjóra að óska eftir viðræðum við iðnaðarráðherra um það langtímamarkmið og vinna að því að koma því ferli af stað. R02060149
Tillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:
Á borgarráðsfundi 30. júlí árið 2002 var tillögu borgarfulltrúa F-listans, sem beindist gegn þátttökunni í Kárahnjúkavirkjun vísað til meðferðar orkustefnunefndar, sem skilaði ekki áliti sínu fyrr en í marsmánuði sl., eða 14 mánuðum eftir að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti þátttöku Reykjavíkurborgar í Kárahnjúkavirkjun. Hér er um óafsakanlegan seinagang að ræða hjá nefndinni, enda búið að binda hendur Reykjavíkurborgar vegna þátttöku í Kárahnjúkavirkjun næstu árin og borgarbúar verða í fjárhagslegri ábyrgð fyrir lántökum vegna virkjunarinnar til frambúðar, jafnvel þó að hlutur Reykvíkinga verði síðar seldur. F-listinn í borgarstjórn mótmælti því að engir kjörnir fulltrúar skyldu eiga sæti í orkustefnunefndinni við skipan hennar í nóvember árið 2002. F-listinn hefur haft skýrari stefnu og verið samkvæmari sjálfum sér í orkumálum en hinar fylkingarnar í borgarstjórn. Því er bagalegt að hann skyldi hvergi koma nærri við þessa stefnumörkun. Ástæða er til að árétta eftirfarandi: F-listinn vill að Reykjavíkurborg losi um hlut sinn í Landsvirkjun en telur það erfiðara í framkvæmd eftir að Reykjavíkurborg tók á sig ábyrgðir vegna lána í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Þar er um stórfelld og óafsakanleg mistök að ræða hjá meirihluta R-listans, sem nú ber sér á brjóst og vill losa um hlut borgarinnar í Landsvirkjun. F-listinn leggur ríka áherslu á að Orkuveita Reykjavíkur verði áfram í eigu almennings og að fyrirtækið verði hvorki hlutafélaga- né einkavætt. F-listinn varar við áformum Sjálfstæðisflokksins um að koma sterkustu fyrirtækjum og verðmætustu auðlindum almennings í hendur einkaaðila, oftast á undirverði til útvalinna aðila. F-listinn vill að Orkuveita Reykjavíkur einbeiti sér að sölu heits og kalds vatns ásamt rafmagni. Þannig verði fyrirtækið best rekið og þjóni best hagsmunum almennings. Fyrirtækið á ekki að taka þátt í áhættusömum rekstri ótengdum ofanskráðu meginmarkmiði eins og t.d. við gagnaflutninga, rækjueldi o.fl. Stórfelldur taprekstur ýmissa dótturfyrirtækja Orkuveitunnar sannar þetta best.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Þessi skýrsla og tillögur eru eingöngu unnar á forsendum meirihlutans og ber því að skoða niðurstöður í því ljósi, enda kom R-listinn í veg fyrir aðild borgarfulltrúa sjálfstæðismanna að þessari skýrslugerð. Borgarráðsfulltrúar sjálfstæðismanna vekja athygli á því, að í skýrslu orkustefnunefndar Reykjavíkurborgar er að finna harða gagnrýni á þá stefnu, sem fylgt hefur verið af R-listanum. Hafnað er þeirri skoðun forstjóra OR, að hækka þurfi raforkuverð í Reykjavík vegna EES-reglna. Mótmælt er þeirri ákvörðun R-listans á sínum tíma, að breyta OR ekki í hlutafélag. Nefndin leggur til að markmið OR verði þrengd nokkuð að því er varðar starfsemi utan kjarnastarfsemi, tilgang OR þurfi að endurskilgreina auk þess sem fundið er að fjárfestingarstefnu OR. Í ljósi athugasemda nefndarinnar um hlutverk OR er með ólíkindum, að orkunefndin skuli líta á það sem framtíðarhlutverk OR að reka ljósleiðara. Í skýrslunni er lagning ljósleiðara skilgreind sem kjarnastarfsemi en engin tilraun gerð til að skilgreina nánar þetta hlutverk OR og því síður að rökstyðja þá niðurstöðu. Hér skulu nefnd sjö atriði úr tillögu orkustefnunefndar, sem staðfesta þessa gagnrýni á meirihluta stjórnar OR og skipulag fyrirtækisins. 1. Nefndin átti erfitt með að fá upplýsingar frá OR um hvernig raforkuverð til neytenda er samsett. Verðlagning á vegum OR er ekki gagnsæ. Raforkunotendur geta t.d. ekki séð hvernig orkuverð skiptist í framleiðslukostnað, flutning, dreifingu; sölu, skatta og verðjöfnun (bls. I) 2. Nefndin telur, að ekki þurfi að koma til hækkunar raforkuverðs í höfuðborginni vegna EES-reglna (bls. III) 3. Allir nefndarmenn nema einn vilja breyta OR í hlutafélag í því skyni að draga úr fjárskuldbindingu og ábyrgðum Reykjavíkurborgar vegna fyrirtækisins og auka sveigjanleika þess (bls. V og bls. X) 4. Nefndin telur nauðsynlegt að endurskilgreina tilgang OR og að fjárfesting OR tengist fyrst og fremst þeim sviðum, þar sem fyrirtækið hefur sérþekkingu og tengist verkefnum þess sem orkuframleiðandi og alhliða veitufyrirtæki. Í þessu sambandi tekur nefndin fram, að brýnt sé að ákvarðanir á þessu sviði og skipulag starfseminnar sé með þeim hætti, að kostnaður við hann sé gagnsær og að markmið og líkur á árangri í einstökum verkefnum liggi fyrir (bls.XI) 5. Nefndin telur sumt af þeirri starfsemi, sem OR hefur fjárfest í á undanförnum árum mjög líklega utan við hinn nýja og þrengri tilgang, sem hún vill setja OR (bls XII) 6. Nefndin telur OR ekki eiga að standa að sprotafyrirtækjum. Vilji Reykjavíkurborg standa að þeim eigi hún að gera það sjálf en OR að greiða samsvarandi hærri arð til borgarinnar (bls. XII) 7. Nefndin vill ekki að OR fjárfesti í fyrirtækjum í því skyni að styðja við nýja starfsemi, sem nota afurðir OR. Það kalli á þá hættu, að OR blandist inn í starfsemi, sem er langt fyrir utan þau verkefni, sem nefndin telur að OR eigi að sinna. Ljóst er að skýrsla orkustefnunefndar vekur með skýrum hætti athygli á því að stefnumörkun OR er á mörgum sviðum óljós og víða pottur brotinn í starfsemi fyrirtækisins. Full þörf er á því að rekstur og framtíðarmarkmið fyrirtækisins verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Því er vísað á bug að hin þverpólitíska orkustefnunefnd hafi unnið á forsendum meirihluta Reykjavíkurlistans að öðru leyti en því að orkustefna meirihlutans og þverpólitísk niðurstaða orkustefnunefndar byggir hvoru tveggja á faglegu mati á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga. Mest er um vert að borgarstjórn efni til varnaðarumræðu á þeim góða grunni sem orkustefnunefnd hefur lagt í stað þess að efna til ómálefnalega pólitískra upphlaupa. Að öðru leyti vísast til samþykktrar tillögu borgarráðs.
Fundi slitið kl. 14:00.
Alfreð Þorsteinsson
Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Hanna Birna Kristjánsdótti
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson