Borgarráð - Fundur nr. 4834

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2004, þriðjudaginn 9. mars, var haldinn 4834. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:25. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 2. mars. R04010035

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 1. mars. R04010038

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 24. febrúar. R04010040

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 27. febrúar. R04010042

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 8. mars. R04010018

6. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 3. mars. R04010019

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 27. febrúar. R04010012

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 18 mál. R04020161

9. Lagt fram bréf hafnarstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt hafnarstjórnar s.d. varðandi viljayfirlýsingu um sameiningu Reykjavíkurhafnar, Grundartanga-hafnar, Akraneshafnar og Borgarneshafnar frá og með 1. janúar 2005. Jafnframt lögð fram drög að viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar, Borgar-byggðar, Akraneskaupstaðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps, Skorra-dalshrepps, Leirár- og Melahrepps, Skilmannahrepps, Hvalfjarðarstrandar-hrepps og Innri Akraneshrepps, dags. í dag. R04030057 Borgarráð samþykkir viljayfirlýsinguna fyrir sitt leyti.

Samþykkt borgarráðs:

Borgarráð fagnar þeim ásetningi sem fram kemur í viljayfirlýsingu tíu sveitarfélaga um sameiningu Reykjavíkurhafnar, Akraneshafnar, Grundartangahafnar og Borgarneshafnar í eitt fyrirtæki frá og með 1. janúar 2005. Ljóst er að með sameiningu verður til öflugri og sterkari höfn sem skapar ný sóknarfæri í uppbyggingu þjónustu og atvinnurekstrar á svæðunum. Með sameiningunni næst fram hagkvæmari samnýting innviða sveitarfélaganna á svæðinu. Þessi samnýting verður enn hagkvæmari með tilkomu Sundabrautar, sem hvatt er til að ráðist verði í sem allra fyrst. Með sameiningu Reykjavíkurhafnar, Akraneshafnar, Grundartangahafnar og Borgarneshafnar, verður ekki lengur þörf fyrir uppbyggingu nýs hafnarsvæðis fyrir Reykjavík í Geldinganesi. Því er skipulags- og byggingarnefnd falið að hefja undirbúning að breytingu aðalskipulags Geldinganess. Þannig verði hluta svæðisins breytt í blandaða byggð, með áherslu á íbúða- og atvinnusvæði.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna sérstaklega þeirri ákvörðun að falla frá hafnargerð í Geldinganesi, sem allt frá 1996 hefur verið baráttumál sjálfstæðismanna. Í framhaldi af samþykkt borgarráðs hvetjum við til þess að íbúðabyggð á Geldinganesi komi á undan byggð við Úlfarsfell. Jafnframt hvetjum við til þess að grjótnámi í Geldinganesi verði hætt nú þegar.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Borgarráð hefur nú þegar samþykkt að fela skipulags- og byggingarnefnd að undirbúa breytingar á skipulagi Geldinganess í tengslum við áform um sameiningu 4ra hafna við Faxaflóa. Sú sameining er forsenda þess að höfnin fái þróunarmöguleika til framtíðar í stað Geldinganess. Ástæða er til að fagna þessum áfanga sérstaklega. Málið fer nú til meðferðar í skipulags- og byggingarnefnd og á þessari stundu er því ekki tímabært að ákveða tímasetningu uppbyggingar.

10. Lögð fram bréf forstjóra Landsvirkjunar frá 27. f.m. þar sem óskað er eftir tilnefningu eins fulltrúa á ársfund og fjögurra fulltrúa á samráðsfund Landsvirkjunar 2. apríl n.k., auk varamanna. R04030011 Tilnefningu frestað.

11. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur frá 27. f.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs s.d. um úthlutun úr rannsóknarsjóði Leikskóla Reykjavíkur. R03030183

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar í umboði borgarritara frá 4. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar skipulagssjóðs 3. s.m. varðandi breytingar á samþykkt fyrir sjóðinn. R02020104 Vísað til borgarstjórnar.

13. Lagt fram bréf borgarverkfræðings og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 3. þ.m. varðandi framkomna ósk Knattspyrnufélagsins Þróttar og Glímufélagsins Ármanns um viðræður um byggingu íþróttahúss á svæði Þróttar í Laugardal og aukna samvinnu félaganna. R04020032 Samþykkt að fela borgarverkfræðingi, sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs að ganga til viðræðna við félögin.

14. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs og forstöðumanns Fasteignastofu frá 4. þ.m. varðandi fjárveitingar til framkvæmda við gerfigrasvelli. R03030075 Samþykkt.

15. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 5. þ.m. varðandi umsókn Liber ehf. um leyfi til áfengisveitinga á veitingastaðnum Kaffi 22, Laugavegi 22, þar sem lagt er til að umsótt leyfi verði veitt til reynslu í eitt ár. R03120101 Samþykkt.

16. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 5. þ.m. varðandi umsókn Laugakaffis ehf. um leyfi til veitinga léttvíns og áfengs öls á veitingastaðnum Laugakaffi, Sundlaugavegi 30a, þar sem lagt er til að umsótt leyfi verði veitt til reynslu í eitt ár. R04030043 Samþykkt.

17. Lagt fram bréf borgarverkfræðings og sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 8. þ.m. þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs til að ganga til samningaviðræðna við Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. um nýtt sameiginlegt húsnæði fyrir umhverfis- og tæknisvið og skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar. R03110006 Samþykkt.

18. Lögð fram tillaga skipulags- og byggingarsviðs að breytingu á aðalskipulagi vegna Mýrargötusvæðis, dags. 14. f.m., ásamt umsögn hafnarstjórnar frá 8. þ.m., sbr. bréf hafnarstjóra, dags. s.d. R03020008 Samþykkt að auglýsa framkomna tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

19. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 19. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 18. s.m. varðandi umsókn Atlantsolíu ehf. um lóðina nr. 151 við Bústaðaveg undir sjálfsafgreiðslustöð eldsneytis og auglýsingu breytingar á aðalskipulagi vegna þessa. Jafnframt lögð fram bréf Bensínorkunnar ehf. frá 6. f.m., forstjóra Olíufélagsins ehf. frá 20. s.m. og fjármálastjóra Skeljungs hf. frá 26. s.m. varðandi málið. R03080015 Samþykkt að auglýsa framkomna tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Ég vísa til bókunar minnar í skipulags- og byggingarnefnd frá 18. febrúar s.l. Þar er tilkoma nýs samkeppnisaðila í bensínsölu talin mikilvæg fyrir íbúa Reykjavíkur en jafnframt varað við þeirri umferðarhættu sem getur hlotist af staðsetningu bensínstöðvar á horni Bústaðavegar og Reykjanesbrautar.

20. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt fræðsluráðs 2. s.m. um úthlutun styrkja fræðsluráðs og styrkja úr Þróunarsjóði grunnskóla Reykjavíkur á árinu 2004. R04030054

21. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt fræðsluráðs 2. s.m. um fjárframlög til þriggja ára, annars vegar til Myndlistarskólans í Reykjavík, að fjárhæð 10 mkr. á ári skv. þjónustusamningi, og hins vegar til Kennaraháskóla Íslands, að fjárhæð 600 þkr. á ári, vegna samningar og útgáfu ritverksins Almenningsfræðsla á Íslandi 1880-2007. R04030059 Samþykkt.

22. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 8. þ.m. þar sem lagt er til að gerður verði lóðarleigusamningur við Orkuveitu Reykjavíkur og Gatnamálastofu um lóðina nr. 57 við Ólafsgeisla. R04030052 Samþykkt.

23. Bókun borgarráðs varðandi heimahjúkrun í Reykjavík:

Borgarráð fagnar því að samkomulag hefur tekist milli ríkisvaldsins og starfsmanna við heimahjúkrun hjá Heilsugæslunni í Reykjavík. Með því að starfsemin er sem óðast að komast í eðlilegt horf, eru forsendur til staðar til að hrinda í framkvæmd samkomulagi Reykjavíkurborgar og heilbrigðisráðuneytisins um samþætta heimaþjónustu, fjölda borgarbúa til mikilla hagsbóta. R04030063

Fundi slitið kl. 13:30.

Alfreð Þorsteinsson
Árni Þór Sigurðsson Björk Vilhelmsdóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson