Borgarráð - Fundur nr. 4829

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2004, þriðjudaginn 3. febrúar, var haldinn 4829. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:30. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Dagur B. Eggertsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 21. janúar. R04010038

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 28. janúar. R04010018

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Fasteignastofu frá 27. janúar. R04010020

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R04010203

5. Lagður fram nýr sameignarsamningur Orkuveitur Reykjavíkur frá 29. f.m., ásamt bréfi borgarstjóra, dags. s.d. R04010111
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.

6. Lagt fram bréf forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs frá 21. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um auglýsingu á deiliskipulagi reits 1.152.5, sem afmarkast af Vatnsstíg, Frakkastíg, Lindargötu og Hverfisgötu. R04010164
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m. varðandi auglýsingu á nýju deiliskipulagi svæðis í Bústaðahverfi sem afmarkast af Hæðargarði, Bústaðavegi, Grensásvegi og Réttarholtsvegi. R04020006
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.

8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi í Sogamýri og samsvarandi breytingu á landnotkun svæðisins í aðalskipulagi. R02080063
Frestað.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 14. s.m. varðandi fyrirspurn Barðans ehf. um byggingu bílastæðapalls við Skútuvog 2. 99050239
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfæðings frá 29. f.m., þar sem lagt er til að borgarráð gefi Inga Pétri Ingimundarsyni, f.h. óstofnaðs hlutafélags, fyrirheit um úthlutun byggingarréttar á lóðinni nr. 6 við Starengi til byggingar leiguíbúða. R04010217
Samþykkt.
Guðlaugur Þór Þórðarson vék af fundi við meðferð málsins.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 1. þ.m., þar sem lagt er til að Frjálsi fjárfestingabankinn hf. verði lóðarhafi lóðar nr. 118-126 við Gvendargeisla í stað Verðbréfastofunnar hf. og að Verðbréfastofan hf. verði lóðarhafi lóðar 138-146 við Gvendargeisla í stað Frjálsa fjárfestingabankans hf. R04020001
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

12. Lagt fram bréf Árna Þórs Sigurðssonar frá 2. þ.m. þar sem hann óskar lausnar frá setu í hverfisráði Vesturbæjar. Jafnframt óskar hann eftir sex mánaða leyfi frá setu í samgöngunefnd. Þá leggur hann til að Katrín Jakobsdóttir taki sæti hans í hverfisráði Vesturbæjar og gegni þar formennsku, auk þess sem hún taki sæti hans í samgöngunefnd og gegni þar jafnframt formennsku á meðan á leyfi hans stendur. Loks leggur hann til að Grímur Atlason verði kosinn varamaður í hverfisráð Vesturbæjar í stað Kristjáns Hreinssonar og að Svandís Svavarsdóttir verði kosinn varamaður í menningarmálanefnd í stað Ármanns Jakobssonar, sem nú skipar sæti aðalmanns í nefndinni. R04010224
Vísað til borgarstjórnar.

13. Lögð fram umsögn menningarmálanefndar frá 26. f.m. vegna tillögu Ólafs F. Magnússonar frá 4. september s.l. varðandi málefni Austurbæjarbíós, sbr. bréf ritara nefndarinnar frá 27. f.m. R03070007
Samþykkt að vísa umsögn menningarmálanefndar til þeirrar deiliskipulagsvinnu, sem stendur yfir hjá skipulags- og byggingarsviði.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Allt frá því að F-listinn í borgarstjórn hóf baráttu gegn fyrirhuguðu niðurrifi Austurbæjarbíós hefur hann mætt nær órofa samstöðu R- og D-lista um niðurrif þessa merka húss í menningarsögu Reykjavíkur. Samþykkt menningarmálanefndar vekur vonir um að forða megi niðurrifi Austurbæjarbíós og að dregið hafi úr stuðningi R- og D-lista við slík áform.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Eins og bent er á í bókun menningarmálanefndar er menningarsögulegt gildi hússins einn af þeim þáttum sem borgaryfirvöld líta til þegar deiliskipulag er unnið. Eigendur hússins hafa farið fram á það að fá að fjarlægja húsið og hafa ekki áætlanir um að reka þar menningarstarfsemi. Ekki hefur komið til tals að borgaryfirvöld reki menningarhús í gamla Austurbæjarbíói enda kostar það óhemju fé fyrir utan þann kostnað sem færi í að gera við húsið og lagfæra það. Ákvörðun um friðun hússins er í höndum menntamálaráðuneytisins og ef tekin er ákvörðun um friðun er málið hjá eigendum hússins að ákveða hvað gert verður.

14. Lögð fram umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 29. f.m. varðandi umsókn Skallagrímsveitinga ehf. um leyfi til veitinga léttvíns og áfengs öls á nýju veitingahúsi, Sportbitanum, sem staðsett er á 2. hæð Egilshallar, þar sem lagt er til að umsótt leyfi verði veitt til reynslu í eitt ár. R03100169
Vísað til umsagnar hverfisráðs Grafarvogs.

15. Lagt fram bréf félagsmálastjóra frá 28. f.m., sbr. samþykkt félagsmálaráðs s.d. varðandi umsögn til lögreglustjóra um umsókn Knattborðsstofunnar Klappar ehf., Skúlagötu 26, um leyfi til reksturs knattborðsstofu að Faxafeni 12. R03090128
Samþykkt.


16. Lagt fram bréf félagsmálastjóra frá 29. f.m., sbr. samþykkt félagsmálaráðs s.d. um tillögu að breytingum á 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. R01060013
Frestað.

17. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 30. f.m. þar sem lögð er til styrkveiting að fjárhæð kr. 250.000,- vegna hátíðardagskrár í tilefni af aldarafmæli Ragnars í Smára. R04010190
Samþykkt.

18. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 1. þ.m. um erindi Golfklúbbs Reykjavíkur frá 23. f.m. varðandi nýtt golfæfingaskýli á athafnasvæði klúbbsins í Grafarvogi, þar sem lagt er til að félaginu verði veittur styrkur til greiðslu gatnagerðargjalda, byggingarleyfisgjalds og úttektargjalds. R04010176
Samþykkt.

19. Lagt fram bréf borgarverkfræðings frá 2. þ.m. um skipun byggingarnefndar vegna framtíðaruppbyggingar að Hlíðarenda. 99030094

20. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 27. f.m. þar sem hann segir starfi sínu lausu í því skyni að hverfa til fyrri starfa að nýju. R03080048

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma það að borgarlögmaður hafi séð ástæðu til að segja upp starfi sínu eftir aðeins þriggja mánaða starf. Fráfarandi borgarlögmanni er óskað velfarnaðar í starfi á nýjum vettvangi.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað að hann taki undir bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks.

21. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi málefni Leikfélags Reykjavíkur, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs 13. þ.m.:

Lagt er til að Leikfélagi Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu verði veitt aukafjárveiting vegna leikársins 2003-2004 að fjárhæð 25 mkr. og jafnframt 8 mkr. viðbótarfjárveiting til að standa undir starfslokasamningum við eldri leikara og nokkra aðra starfsmenn. R04010098

Borgarráð samþykkir svohljóðandi ályktun:

Reykjavíkurborg á nú í viðræðum við Leikfélag Reykjavíkur (LR) um viðauka við gildandi samning þessara aðila frá árinu 2001. Taka þær viðræður einkum til þess að:
· endurskoða til hækkunar samningsbundið rekstrarframlag borgarinnar til leiklistarstarfsemi í Borgarleikhúsinu, enda skýr vilji borgarinnar að styðja vel við starfsemi atvinnuleikhúss á vegum LR.
· endurskoða hlutverk samráðsnefndar og tengsl LR við Reykjavíkurborg, ásamt því að skoða nýjar hugmyndir um rekstrarfyrirkomulag hússins.
· leita leiða til að styrkja ímynd hússins sem menningarstofnunar og menningarmiðstöðvar með samstarfi við aðrar menningarstofnanir borgarinnar.
· setja skýrar leikreglur um aðkomu annarra menningarhópa en LR að húsinu.
Borgarráð telur mikilvægt að renna styrkari fjárhagslegum stoðum undir listrænt starf í Borgarleikhúsinu. Með viðaukasamningi sem nú er í vinnslu, er Reykjavíkurborg reiðubúin til að veita auknu fjármagni til starfseminnar, svo LR geti eflt listrænt starf sitt, ekki aðeins á þessu ári, heldur einnig til lengri tíma. Borgarráð leggur áherslu á að yfirstandandi viðræðum verði lokið fyrir miðjan marsmánuð nk. og verði niðurstöður þá kynntar borgarráði. Þar sem ákvörðun um endanlega upphæð viðbótarfjárveitingar bíður niðurstaðna úr ofangreindum viðræðum, er ekki tímabært að taka afstöðu til tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Hvað varðar þann hluta tillögu D-listans sem lýtur að viðbótarfjárveitingu til að standa undir starfslokasamningi eldri leikara og nokkra aðra starfsmenn er rétt að komi fram að ekkert er því til fyrirstöðu að Leikfélagið ljúki samningum við þá starfsmenn m.v. samþykkta fjárhagsáætlun og gildandi samning félagsins við borgina. Hvetur borgarráð til þess að LR ljúki þeim hið fyrsta.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að R-listinn hafi nú loksins viðurkennt fjáhagsvanda Leikfélags Reykjavíkur og ákveðið að hefja alvöruviðræður við stjórnendur LR um lausn þess vanda og jafnframt að gengið verði til þess nú þegar að ljúka gerð starfslokasamnings við eldri leikara og nokkra aðra starfsmenn. Ljóst er að tillöguflutningur sjálfstæðismanna hefur orðið þess valdandi. Þessi niðurstaða gengur þvert á yfirlýsingar borgarstjóra um að rekstur LR væri í góðu jafnvægi, þar sem gefið er til kynna að LR þyrfti ekki á viðbótarfjárveitingu að halda. Í ljósi þess að ákvörðun um endanlega upphæð viðbótarfjárveitingar bíði niðurstöðu úr viðræðum við stjórnendur LR sem lokið skal fyrir miðjan mars n.k. og þá kynntar borgarráði, draga borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillögu sín til baka.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Meirihlutinn í borgarstjórn hefur að undanförnu unnið að því að endurskoða samstarfsamning Leikfélags Reykjavíkur og borgarinnar. Þau sjónarmið sem koma fram í ályktun borgarráðs í dag, hafa áður komið fram af hálfu borgarstjóra og borgarfulltrúa R-listans. Það er því bæði hlálegt og mikill misskilningur hjá borgarfulltrúum D-listans að þeirra málflutningur hafi ráðið úrslitum í málinu.

22. Lagt fram bréf borgarbókara frá 1. þ.m. varðandi fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um ferðakostnað, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs 20. f.m. R04010132


Fundi slitið kl. 14:10

Alfreð Þorsteinsson

Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Guðlaugur Þór Þórðarson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson