No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2004, þriðjudaginn 6. janúar, var haldinn 4825. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:30. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Gísli Helgason. Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 15. desember. R03010028
2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 30. desember. R03020113
3. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Fasteignastofu frá 15. og 22. desember. R03020199
4. Lögð fram fundargerð stjórnar skipulagssjóðs frá 17. desember. R03010017
5. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 12. desember. R03010005
6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R03120161
7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 17. s.m. varðandi breytt deiliskipulag við Esjumela á Kjalarnesi. R03090108 Samþykkt.
8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 17. s.m. varðandi auglýsingu á breyttu deiliskipulagi í Laugardal. R03120158 Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 17. s.m. varðandi auglýsingu á breyttu deiliskipulagi á lóð nr. 1A við Rafstöðvarveg. R03120159 Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir samþykkja auglýsingu með hefðbundnum fyrirvara um endanlega afstöðu.
10. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. varðandi auglýsingu á breyttu deiliskipulagi í Norðlingaholti. 99010050 Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks vísuðu til bókunar fulltrúa flokksins í skipulags- og byggingarnefnd svohljóðandi:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka ósk um skriflegan rökstuðning vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar til, sérstaklega um breytingar vegna sprungusvæða.
11. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkur-borgar frá 15. f.m. varðandi breytingar á samþykktum sjóðsins að því er varðar endurskoðun reikninga sjóðsins. R03120126 Vísað til borgarstjórnar.
12. Lagt fram bréf bæjarstjórans á Seltjarnarnesi frá 23. f.m., þar sem óskað er viðræðna og undirbúnings að byggingu hjúkrunarheimilis á lóð Lýsis hf. við Grandaveg. R03050098 Samþykkt að fela borgarstjóra ásamt félagsmálastjóra að ganga til viðræðnanna.
13. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 15. f.m., sbr. samþykkt samstarfsnefndar um lögreglumálefni s.d. varðandi endurskoðun lögreglusamþykktar Reykjavíkurborgar, ásamt frumvarpi að lögreglusamþykkt, greinargerð og yfirliti yfir lög og reglugerðir, dags. 11. s.m. R03070052 Frestað.
14. Lagt fram bréf borgarverkfræðings frá 5. þ.m. varðandi uppgjör við lóðareiganda Vélamiðstöðvarreits, byggingarfélagið Eykt ehf. R00050063 Samþykkt.
15. Lagt fram bréf Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar frá 15. f.m. varðandi ályktun fulltrúaráðs félagsins vegna kjarasamninga. Jafnframt lögð fram umsögn forstöðumanns kjaraþróunardeildar, dags. í dag, um málið. R00080097
16. Lagt fram bréf Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, dags. í dag, þar sem lagt er til að Rúna Malmquist taki sæti í hverfisráði Háaleitis í stað Margrétar Einarsdóttur, sem óskað hefur lausnar frá störfum. R03050213 Vísað til borgarstjórnar.
17. Lagt fram að nýju bréf félagsmálastjóra frá 15. október s.l., sbr. samþykkt félagsmálaráðs s.d. um breytingar á reglum um verkaskiptingu milli félagsmálaráðs og barnaverndarnefndar Reykjavíkur og tillaga að breytingum á verklagsreglum varðandi verkaskiptingu barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Fjölskylduþjónustunnar Miðgarðs í Grafarvogi. Jafnframt lögð fram að nýju skýrsla Félagsþjónustunnar um útfærslu á tillögum stýrihópsins, dags. 29. september s.l., ásamt umsögnum borgarlögmanns um málið, dags. 22. október og 17. nóvember s.l. Þá er lagt fram erindi borgarritara um málið, dags. 5. þ.m., ásamt fylgiskjölum. R02120145
Borgarráð samþykkir tillögur félagsmálaráðs að breytingum á reglum um verkaskiptingu milli félagsmálaráðs og barnaverndarnefndar Reykjavíkur (viðauki VIII) og tillögu að breytingum á verklagsreglum varðandi verkaskiptingu barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Fjölskylduþjónustunnar Miðgarðs í Grafarvogi við vinnslu barnaverndarmála (viðauki IX), sbr. bréf félagsmálastjóra frá 15. október s.l. og 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. nóvember s.l. Jafnframt er borgarstjóra falið að leggja fyrir borgarráð tillögu að fyrirkomulagi á stjórnkerfi barnaverndarmála í Reykjavík og tengslum barnaverndarnefndar og félagsmálaráðs. Greingargerð fylgir tillögunni.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Í ljósi þess að Barnaverndarstofa, sbr. bréf dags. 8. desember 2003, sér ekkert því til fyrirstöðu að starfsmönnum Miðgarðs verði falið að annast meðferð barnaverndarmála og vald til að taka einstakar ákvarðanir eftir nánari reglum og í samræmi við 14. gr. nr. laga 80/2002, geta borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks fallist á tilgreinda verkaskiptingu. Á hinn bóginn koma fram fjölmargar ábendingar í bréfi Barnaverndarstofu um úrbætur á reglum og málsmeðferð í heild sinni. Þeirri endurskoðun verður að ljúka sem fyrst.
18. Lögð fram að nýju skýrsla Land-ráðs, Bjarna Reynarssonar, dags. í nóvember 2003, varðandi húsnæðis- og búsetuóskir Reykvíkinga, og gæði íbúðahverfa. R03110316
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Skýrsla um húsnæðis- og búsetuóskir Reykvíkinga er enn ein staðfesting á röngum áherslum R-listans í skipulagsmálum þar sem ekki hefur verið komið til móts við óskir Reykvíkinga um búsetu og húsnæði. Þannig kemur skýrt fram í skýrslunni að Reykvíkingar vilja mun meira framboð af lóðum fyrir sérbýli og betri aðstæður fyrir bíla og bílaumferð. Til móts við hvoruga þessara óska hefur verið komið í tíð núverandi meirihluta þrátt fyrir ábendingar okkar, íbúa og hagsmunaaðila. Sem dæmi má nefna að á síðustu þremur árum hefur einungis verið seldur byggingaréttur fyrir 115 einbýlishús í Reykjavík. Því er ástæða til að hvetja borgaryfirvöld til að nýta sér þessa skýrslu og niðurstöðu hennar vel þegar teknar eru ákvarðanir um skipulags- og byggingarmál í borginni. Sjálfstæðismenn fagna þessari skýrslu og munu áfram berjast fyrir þeim viðhorfum sem að Reykvíkingar leggja áherslu á í skipulagsmálum.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:
Hæpið er að oftúlka þær niðurstöður sem fram koma í skýrslunni um húnæðis- og búsetuóskir Reykvíkinga. Ekki er hægt að taka einstaka niðurstöður og fullyrða að á grundvelli þeirra sé stefnumörkun borgaryfirvalda röng. Könnunin gefur fremur vísbendingar um óskhyggju fólks frekar en getu, s.s. að margir kjósa að búa í sérbýli þrátt fyrir að fjárhagsleg geta þeirra leyfi ekki slíkt. Sjálfsagt er að nota þær vísbendingar sem koma fram í könnuninnni til frekari stefnumótunar í samgöngu- og skipulagsmálum. Það eru hins vegar borgaryfirvöld sem bera ábyrgð á að halda réttu jafnvægi milli íbúðagerða og tryggja jafnvægi milli gangandi og akandi vegfarenda. Þar þarf að taka tillit til mjög margra þátta.
19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um heildarsímakostnað hjá Reykjavíkurborg, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. desember s.l. R03120001
Fundi slitið kl. 14:05.
Alfreð Þorsteinsson
Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson