Borgarráð - Fundur nr. 4812

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2003, þriðjudaginn 7. október, var haldinn 4812. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 25. september. R03010023

2. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 29. september og 1. október. R03020113

3. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 29. september. R03010013

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Vinnuskólans frá 3. október. R03010009

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál. R03090151

6. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 1. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um breytt deiliskipulag á reit 1.132.1, Naustareit. R03010275 Samþykkt.

7. Lagt fram minnisblað borgarstjóra frá 7. þ.m., svar við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um lóðaverð, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. f.m. R03090118

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Í fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 23. september s.l. segir eftirfarandi: Nú liggur fyrir að lóðaverð vegna íbúða í fjölbýli í Reykjavík hefur hækkað verulega á þessu ári. Þetta kemur fram þegar bornar eru saman meðaltalstölur úr lóðauppboði á Grafarholti fyrr á þessu ári og meðaltalstölur úr lóðauppboði á Norðlingaholti nú nýlega. Svar borgarstjóra staðfestir að þessi fullyrðing er rétt. Eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu greiddu byggingaraðilar 1.464 þús.kr. (ath. allar tölur á núvirði) fyrir íbúð í fjölbýli í Grafarholti skv. meðaltalstölum úr útboðum í janúar og mars 2003 en greiða 1.715 þús.kr. fyrir íbúð í fjölbýli í Norðlingaholti. Hækkunin nemur því tæpum 18%. Lóðaverð hefur hækkað ótæpilega undir stjórn R-listans. Fullyrðingar borgarstjóra um að verð í útboðum lóða í Grafarholti hafi lækkað samfellt frá árinu 2000 og sú þróun hafi haldið áfram á yfirstandandi ári flokkast bæði undir útúrsnúning og rangfærslur. Slíkur málflutningur er ekki samboðinn embætti borgarstjóra. Einnig er sú fullyrðing borgarstjóra að lóðaframboð í Reykjavík hafi ekki verið meira áratugum saman röng. Á níu ára valdatíma R-listans hefur verið úthlutað lóðum undir um 3.400 íbúðir en á jafn löngum tíma undir stjórn sjálfstæðismanna í Reykjavík var úthlutað lóðum undir um 4.250 íbúðir. Borgarstjóri treystir sér ekki til að svara fyrirspurn okkar sjálfstæðismanna um hvort R-listinn hyggist beita sér fyrir lækkun lóðaverðs.

Borgarstjóri óskaði bókað:

Lóðaverð í sambærilegum útboðum í sama hverfi, þ.e. opnum útboðum lóða í Grafarholti, hefur farið lækkandi frá árinu 2000. Reykjavíkurborg hefur ekki ráðstafað fleiri lóðum en í ár frá árinu 1984. Þetta er óumdeilt og er brigslum um rangfærslur vísað á bug. Reykjavíkurborg hyggst halda áfram að bjóða lóðir í opnum útboðum jafnframt því að ráðstafa lóðum undir m.a. félagslegt húsnæði og almennt leiguhúsnæði gegn greiðslu gatnagerðargjalda. Vantrú og skilningsleysi borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokkins á að útboðsleiðin við úthlutun gæða geti átt rétt á sér, vekur furðu, sér í lagi þar sem flokkssystkin þeirra í nágrannasveitarfélögum eru sem óðast að opna augun fyrir þeim möguleika. Útboð tryggir jafnræði, þar sem byggingaraðilar keppa í því hverjir byggja best og hagkvæmast, ekki hverjir hafa best sambönd við borgarkerfið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Lóðaverð fyrir íbúð í fjölbýli í maí 2001 var 1.726 þús.kr., í apríl 2002 1.201 þús.kr. og 1.059 þús.kr., í janúar 2003 1.505 þús.kr. í mars 2003 1.383 þús.kr. og í september 2003 á Norðlingaholti 1.715 þús.kr. Eins og sjá má er ekki um að ræða samfellda lækkun í Grafarholti eins og borgarstjóri heldur fram og mikil hækkun frá síðasta útboði í Grafarholti til fyrsta útboðs í Norðlingaholti, sem eru sambærileg nýbyggingarhverfi. Sjálfstæðismenn vilja tryggja nægt framboð lóða. Þá þarf hvorki skömmtun né uppboðskerfi við ráðstöfun lóða á nýbyggingarsvæðum. Viðvarandi lóðaskortur í borginni á undanförnum árum hefur á hinn bóginn leitt R-listann inn á leið lóðauppboða sem hefur m.a. valdið mikilli hækkun lóðaverðs. Borgin á ekki að innheimta hærri gjöld af lóðum en sem samsvarar kostnaði við undirbúningsgerð nýrra byggingarsvæða, sbr. lög um gatnagerðargjöld nr. 17/1996.

8. Lagður fram úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 22. f.m. í málinu Guðmundur Arason ehf. gegn Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar, varðandi kaup á stálþili og stagefni fyrir Reykjavíkurhöfn. R03070043

9. Lagt fram bréf félagsmálastjóra frá 2. þ.m., sbr. samþykkt félagsmálaráðs 1. s.m. um breytingar á reglum um leigurétt og úthlutun á félagslegum leiguíbúðum. R03100022 Samþykkt.

10. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 3. þ.m., þar sem tillaga um afturköllun lóðarinnar nr. 74 við Gvendargeisla er dregin til baka að svo stöddu, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. f.m. Jafnframt lagt fram bréf Yngva Sindrasonar frá 30. f.m. varðandi málið. R02030065 Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 2. þ.m. varðandi bætur fyrir skerðingu lóða við Lokastíg 6, 8 og 10 og Baldursgötu 37. R03100014 Samþykkt.

12. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Austurhafnar-TR ehf. frá 6. þ.m. ásamt skýrslu bandaríska ráðgjafarfyrirtækisins Artec Consultants um athugun á möguleikum til að breyta Borgarleikhúsinu, dags. í september 2003, og áætlun VSÓ ráðgjafar, dags. 5. þ.m. R03010259

13. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra fjármála Orkuveitu Reykjavíkur frá 6. þ.m. um samþykki eigenda vegna erlendrar lántöku Orkuveitunnar. R03080038 Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. í dag, varðandi samþykkt borgarráðs 30. f.m. og borgarstjórnar 2. þ.m. ásamt bréfi forstjóra Landsvirkjunar og greinargerð, dags. 6. þ.m. R03100054

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Á fundi borgarráðs 30. f.m. og á fundi borgarstjórnar 2. þ.m. hafa kjörnir fulltrúar R- og D-lista ekki viljað styðja tillögur mínar, þar sem gagnrýni er beint að Landsvirkjun og eigendum hennar vegna þeirra vinnubragða sem hafa viðgengist við Kárahnjúkavirkjun. Á sama tíma hafa forystumenn Samfylkingar og Vinstri grænna á Alþingi átalið harðlega þessi vinnubrögð og þá íslensku aðila sem bera ábyrgð á þeim. Ég lýsi því furðu minni á því að kjörnir fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna innan R-listans í borgarstjórn skuli fremur kjósa að sýna samstöðu með ríkisstjórnarflokkunum í þessu máli en að styðja þau sjónarmið sem fram komu í tillögum mínum í borgarstjórn og í málflutningi forystumanna Samfylkingar og Vinstri grænna á Alþingi. Bæði Reykjavíkurborg og ríkisstjórnin bera ábyrgð á því ófremdarástandi sem ríkir við Kárahnjúka í samræmi við eignarhlut borgarinnar og ríkisins í Landsvirkjun, sem hefur yfirumsjón með framkvæmdum við Kárahnjúka.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Bókun borgarfulltrúa F-listans einkennist af útúrsnúningi og rangfærslum. Í umræðum um málið í borgarstjórn 2. október sl., kom ítrekað fram af hálfu borgarfulltrúa R-listans gagnrýni á þau vinnubrögð verktaka við Kárahnjúkavirkjun, sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa greint frá. Þar var ennfremur lögð áhersla á að leikreglur á vinnumarkaði yrði að halda í heiðri. Í því efni skiptir engu hvaða afstöðu menn höfðu til Kárahnjúkavirkjunar sem slíkrar. Þessum sjónarmiðum hefur verið komið á framfæri við stjórnendur Landsvirkjunar.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókaði:

Bókun undirritaðs inniheldur hvorki rangfærslur né útúrsnúninga og er þeirri fullyrðingu vísað til föðurhúsanna. Borgarráðs- og borgarfulltrúar R-listans hafa ekki viljað samþykkja tillögur mínar sem fela í sér gagnrýni á Landsvirkjun og eigendur hennar vegna óverjandi vinnubragða við Kárahnjúkavirkjun. Þetta er vandræðalegt fyrir borgarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, þar sem forystumenn þeirra á Alþingi hafa undanfarna daga haft uppi svipaða gagnrýni og undirritaður. Ljóst er að framsóknarmenn innan R-listans halda fulltrúum Samfylkingar og Vinstri grænna í óþægilegri spennitreyju í þessu máli og það er ekki hlutverk undirritaðs að losa þá úr henni. Að öðru leyti verður þessari mjög svo síðbúnu bókun R-listans í borgarráði svarað á næsta borgarstjórnarfundi.

15. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn vegna fornleifauppgraftar við Aðalstræti:

1. Stórvirkar vinnuvélar vinna nú að jarðvinnuframkvæmdum við Aðalstræti vegna fyrirhugaðrar stórbyggingar á svæðinu. Er nægileg varúð viðhöfð við þessar framkvæmdir með tilliti til þeirra fornminja sem þar eru eða kunna að finnast? 2. Víðast hvar erlendis tíðkast að fornleifafræðingar séu á stöðugri vakt við slíkar framkvæmdir. Hvernig er slíkri vöktun háttað við hið mikla jarðrask sem á sér nú stað við Aðalstræti? 3. Er hinn svonefndi landnámsskáli nægilega vel varinn miðað við umfang þeirra framkvæmda sem nú eiga sér stað á svæðinu? 4. Hafa áður óþekktar fornminjar komið í ljós við eða nálægt hinum þekkta skála eftir að jarðraskið hófst? Ef svo er, hvernig hafa þær verið meðhöndlaðar og hvernig er staðið að varðveislu þeirra? 5. Hefur hinn svonefndi landnámsskáli, sem nú er hulinn sandi og varinn með stálþili, verið aldursgreindur? Ef svo er, með hvaða aðferðum og hverjar voru niðurstöður þeirrar greiningar? R01110051

Fundi slitið kl. 14:30.

Árni Þór Sigurðsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Stefán Jón Hafstein Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson