Borgarráð - Fundur nr. 4802

Borgarráð

BORGARRÁÐ

Ár 2003, þriðjudaginn 22. júlí, var haldinn 4802. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:25. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Anna Kristinsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 15. júlí. R03010014 Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð Innkauparáðs frá 21. júlí. R03020113

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál R02110001

4. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. í dag, þar sem lagt er til að Ágúst Hrafnkelsson, viðskiptafræðingur, verði ráðinn í starf forstöðumanns innri endurskoðunardeildar. R03060025 Samþykkt.

5. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. í dag, þar sem lagt er til að Björn Ingi Sveinsson, verkfræðingur, verði ráðinn í starf sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkurborgar. R03060123 Samþykkt.

6. Lögð fram ársskýrsla Leikskóla Reykjavíkur 2002. R03070086

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 9. s.m. um skiptingu jarðarinnar Brautarholts á Kjalarnesi. Jafnframt lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. í dag, varðandi málið. R03010165 Frestað.

8. Lagt fram bréf lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs frá 21. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 9. s.m. varðandi deiliskipulag að Laugarnestanga 65. R00020090 Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 18. þ.m. um breytingar á samþykktum nefnda og ráða m.a. vegna breytinga á samþykkt um embættisafgreiðslur viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001. R03050212 Samþykkt.

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar vegna erindis Brynjars Níelssonar, hrl., f.h. rekstraraðila veitingastaðarins Bóhem, Grensásvegi 7, dags. 19. maí, þar sem óskað er eftir því að borgaryfirvöld endurskoði málsmeðferðarreglur sínar um veitingu leyfa til áfengisveitinga. R02110127 Frestað.

11. Borgarráð samþykkir að veita Neytendasamtökunum styrk að upphæð kr. 500.000 í tilefni af 50 ára afmæli samtakanna á þessu ári, sem greiðist af lið ófyrirséð. R03070089 Samþykkt.

Anna Kristinsdóttir vék af fundi við meðferð málsins.

12. Lagt fram bréf forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá 27. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisnefndar 26. s.m. um skipun nefndar til mótunar stefnu í úrgangsmálum. R03070091 Tillagan samþykkt með þeirri breytingu að hópurinn leiti, eftir því sem við á, eftir samráði við hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

13. Lagt fram bréf forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá 17. þ.m. um erindi Guðna Franssonar, ódags., varðandi niðurrif á húsi við Óðinsgötu 16b og ósk um fjárveitingu vegna þess. R02030075 Frestað.

14. Lagt fram bréf borgarritara frá 14. þ.m. um eftirlit með innkaupum Reykjavíkurborgar samkvæmt nýjum samþykktum. R02040040

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Skýrsla Borgarendurskoðunar sýnir að hjá mörgum fyrirtækjum og stofnunum Reykjavíkurborgar hefur innkaupareglum borgarinnar frá 1995 í mörgum tilvikum ekki verið fylgt og frávik frá þeim á árunum 2000 og 2001 eru veruleg og umfangsmikil. Í skýrslu Borgarendurskoðunar kemur fram að í samþykkt Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar frá 1995 séu reglur um innkaup tiltölulega skýrar og að stjórn ISR skuli meta hvort útboð fari fram og annast útboð. Einnig segir þar að ef frá eru talin ný fjárhæðarmörk sé samþykkt ISR frá 1995 efnislega í fullu samræmi við hinar nýju innkaupareglur. Ennfremur segir þar: "Engar undanþágur eru í reglunum (frá 1995) um tegundir innkaupa, atvik eða aðstæður, sem gefa forstöðumönnum stofnana leyfi til innkaupa án milligöngu ISR eða samþykkis stjórnar. Forstöðumönnum bar að hlíta reglunum.

Spurt er:

1. Hvernig hyggst borgarstjóri bregðast við þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu Borgarendurskoðunar um veruleg frávik frá innkaupareglum borgarinnar árin 2000 og 2001?

2. Fram kemur í skýrslu Borgarendurskoðunar að áreiðanlegu og aðgengilegu skráningarkerfi afgreiðslumála hafi enn ekki verið komið á fót hjá Innkaupastofnun, sem sé afar gagnrýnivert. Hvenær má gera ráð fyrir að slíkt kerfi komist í gagnið?

3. Hvenær má vænta þess að ISR geri átak í gerð afsláttar- og rammasamninga um verð og viðskipti?

4. Hver er skýringin á því að í framhaldi af bréfi Innkauparáðs, dags. 9. júlí s.l., til allra forstöðumanna, þar sem ráðið óskar eftir skýrslu þeirra um innkaup stofnana og fyrirtækja borgarinnar frá 1. febrúar s.l. til 30. júní s.l. með skilafresti til 11. ágúst n.k., sendi borgarritari erindi til sömu aðila, dags. 14. júlí s.l. og óskar eftir nánast sömu upplýsingum fyrir 15. september n.k.?

15. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Verður brugðist við því með einhverjum hætti, ef í ljós kemur að borgarfyrirtæki hafi verið hlunnfarin í innkaupum vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna? Fram hefur komið hjá talsmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna á Alþingi að eðlilegt sé að lögreglurannsókn fari fram vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna. Er hugsanlegt að borgaryfirvöld óski eftir lögreglurannsókn ef niðurstaða Samkeppnisstofnunar verður sú að olíufélögin hafi haft með sér ólögmætt samráð um tilboð í innkaup Reykjavíkurborgar.

Vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vilja borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans taka fram eftirfarandi:

1) Reykjavíkurborg áskilur sér allan rétt til hugsanlegra skaðabóta og mun gæta hagsmuna sinna í hvívetna, komi í ljós að stofnanir og/eða fyrritæki borgarinnar hafi verið hlunnfarin í viðskiptum við olíufélögin.

2) Á þessu stigi er rannsókn málsins ekki lokið og því ekki tímabært að ákveða með hvaða hætti viðbrögð borgarinnar verða, reynist rétt að um ólögmætt samráð hafi verið að ræða. Að öðru leyti er vísað til tl. 1) um þann rétt sem borgin áskilur sér í þessu máli.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Á undanförnum mánuðum hafa tengsl Sjálfstæðisflokksins við spillingamál verið áberandi, einkum varðandi rekstur Landssímans. Nú þegar spillingarumræðan beinist að olíufélögunum vegna meints samráðs þeirra hafa borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins risið upp til varnar almannahagsmunum, sem ber að sjálfsögðu að fagna. Mér finnst hins vegar skjóta skökku við, þegar fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn er stillt upp í fjölmiðlum sem brjóstvörn almennings gegn pólitískri spillingu. Sérstaklega þegar haft er huga að siðferðileg tiltekt er ekki á dagskrá í herbúðum Sjálfstæðisflokksins. Fer ég þess á leit við borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að þeir beini gagnrýni sinni ekki eingöngu út á við heldur einnig inn á við. Þá verður málflutningur þeirra í þessu máli trúverðugri. Sem kjörinn fulltrúi F-listans í borgarstjórn tel ég brýnt að borgarráðsfulltrúar bæði meirihluta og minnihluta í borgarstjórn gæti hagsmuna Reykvíkinga í hvívetna ef þeir hafa verið hlunnfarnir af viðskiptaaðilum sínum. R03070106

16. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Ljóst er að mikil óánægja ríkir meðal foreldra í borginni vegna sumarlokana Leikskóla Reykjavíkur, sem koma sér illa fyrir fjölmargar barnafjölskyldur í borginni. Aðstæður foreldra eru mismunandi og það að skerða þjónustu skólanna með þeim hætti að allir verði að fara í frí á sama tíma í hverjum skóla gerir foreldrum erfiðara fyrir að eyða tíma með börnum sínum. Fjárhagslegur ávinningur fyrir Leikskóla Reykjavíkur er afar lítill og þær faglegu ástæður sem nefndar hafa verið eru mjög umdeilanlegar. Sumarlokanir eru ekki í samræmi við þá þjónustu sem að leikskólar eiga að bjóða fjölskyldum í nútímasamfélagi. Eðlilegt er að kannað verði hvaða áhrif þessar sumarlokanir hafi, m.a. hvað varðar foreldra, atvinnulíf og fleiri afleiðingar sem þessi ákvörðun hefur valdið.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað að hann taki undir bókun sjálfstæðismanna. R02120025

Fundi slitið kl. 15:40

Alfreð Þorsteinsson
Anna Kristinsdóttir Árni Þór Sigurðsson
Dagur B. Eggertsson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson