No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2003, þriðjudaginn 20. maí, var haldinn 4794. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:25. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð Hverfisráðs Austurbæjar norður frá 13. maí. R03010023
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 7. maí. R03010029
3. Lögð fram fundargerð Innkauparáðs frá 14. maí. R03020113
4. Lögð fram fundargerð Jafnréttisnefndar frá 12. maí. R03010013
5. Lögð fram fundargerð samstarfsnefndar um lögreglumálefni frá 16. maí. R03010022
6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 19 mál. R02110001
7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um breytt aðalskipulag og deiliskipulag vegna Hringbrautar. R03020062 Borgarráð samþykkir auglýstar tillögur.
8. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 9. þ.m. um stofnun ráðgjafarskóla fyrir nemendur með félagslegan og geðrænan vanda, sbr. samþykkt fræðsluráðs s.d. Jafnframt lagt fram bréf fræðslustjóra frá 13. þ.m. varðandi málið. R03050064 Borgarráð samþykkir erindið, sbr. bréf fræðslustjóra frá 13. þ.m.
9. Lagt fram bréf forstöðumanns Höfuðborgarstofu og menningarmálastjóra, dags. í dag, þar sem lagt er til að Reykjavíkurborg leggi fram 2,5 milljónir árlega árin 2003, 2004 og 2005 til sjóðsins Reykjavík Loftbrú, sem ætlað er að styrkja tónlistarmenn. R03050130 Samþykkt.
10. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar, s.d., um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi og aðalskipulagi vegna göngutengingar við gatnamót Reykjanesbrautar og Stekkjarbakka. R02100082 Samþykkt.
11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 14. þ.m, sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um breytingu á deiliskipulagi fyrir staðgreinireit 1.182.0, sem afmarkast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg. R03010156 Samþykkt.
12. Lagður fram ársreikningur Strætó bs. fyrir árið 2002. R03040008
13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um breytt deiliskipulag á reit 1.271, sem afmarkast af Stakkahlíð, Bogahlíð og Hamrahlíð. R03050110 Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá og vísuðu til tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarnefnd um frestun málsins.
14. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar s.d. um breytt deiliskipulag á lóðinni nr. 11-21 við Þórðarsveig. R03050109 Samþykkt.
15. Lagt fram bréf Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 9. þ.m., þar sem óskað er eftir heimild til lántöku vegna framkvæmda að Skógarhlíð 14. R00090144 Samþykkt.
16. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 16. þ.m. um sölu byggingarréttar í Grafarholti og þar sem lagt er til að eftirtöldum aðilum verði úthlutaður byggingarréttur sem hér segir:
Lóð fyrir fjölbýlishús: Marteinslaug 8-16, Frjálsi fjárfestingabankinn
Lóðir fyrir raðhús: Gvendargeisli 118-126 (jöfn nr.) Verðbréfastofan hf. Gvendargeisli 128-136 (jöfn nr.) Verðbréfastofan hf. Gvendargeisli 148-156 (jöfn nr.) Verðbréfastofan hf. Gvendargeisli 158-166 (jöfn nr.) Verðbréfastofan hf. R02030065 Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjóra og borgarritara frá 19. þ.m. varðandi styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði. R03050131
18. Lagt fram bréf Halldórs Jónssonar, hdl., f.h. Innréttinganna ehf. frá 9. þ.m., þar sem tilkynnt er að Innréttingarnar ehf. hafi gert verksamning um byggingu hótels við Aðalstræti, breytt aðild. R01110051 Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Fundur landnámsskálans við Aðalstræti er ævintýri og kallar á allsherjarendurskoðun á byggingarframkvæmdum á hinu gamla bæjarstæði Reykjavíkur. Bæjarstæðinu er ekki sýnd virðing með því að byggja þar hótel. Nær er að láta fornleifarnar hafa forgang vegna stórmerks sögulegs gildis þeirra. Ein leið til þess er að breyta gamla bæjarstæðinu og kirkjugarðinum í lítinn garð, Fornleifagarð Reykjavíkur, þar sem sjá má grænar tóftir fyrsta býlisins og hringlaga kirkjugarð með upphlöðnum leiðum og hinum gamla þjóðlega svip. Þannig verða þær best varðveittar. Gripir, sem fundist hafa í rannsóknum á næstu lóðum síðustu áratugi og á reit Alþingishússins, duga vel sem kjarninn í Forngripasafni Reykjavíkur í miðborginni sem sýndi forsögu Reykjavíkur. Flestir ferðamenn, sem til Reykjavíkur koma, mundu fara í fornleifagarðinn, rétt eins og menn fara í slíka garða í Aþenu og Róm. Verði reist hótel á landsnámsskálanum þá verður ekki aftur snúið. Með vísan til þess, sem hér segir, leggjast borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gegn því, að hótel rísi á þessum einstæða stað í sögu Reykjavíkur.
Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:
Ég fagna því, að borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka nú í meginatriðum undir þau sjónarmið sem komu fram í tillögu minni í borgarstjórn frá 15. nóvember 2001 um skipulag svæðisins í kringum landnámsskálann á horni Aðalstrætis og Túngötu. Í tillögunni var lögð áhersla á að varðveisla fornminja á svæðinu og aðgengi að þeim yrði aðalatriði skipulagsins og að ekki yrði þrengt að þeim vegna fyrri áforma, sem þyrfti að endurskoða. Tillagan hlaut litlar undirtektir annarra borgarfulltrúa og lét ég þá bóka að það hæfði ekki þjóðargersemi á borð við landnámsbæinn að vera komið fyrir í kjallara hótels í eigu einkaaðila.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:
Vegna bókana um Aðalstræti 16 benda fulltrúar Reykjavíkurlistans á að ítrekað hefur verið fjallað um menningarleg gildi sem þar eru og lýsa enn þeirri skoðun að vel fari saman að byggja upp í miðbænum ásamt því að sýna fornminjum sóma. Ljóst er að Reykjavíkurborg hyggst leggja í mikinn kostnað svo fornminjar verði verndaðar og verði til sýnis með umgjörð við hæfi í hjarta borgarinnar. Upplýsingar um að fræðimenn séu mjög sáttir við fyrirhuguð áform hafa komið fram áður í borgarráði og er fagnaðarefni að nú má sjá fram á uppbyggingu á umræddri lóð.
19. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 5. þ.m. ásamt starfsreglum um innri endurskoðunardeild, dags. s.d. Jafnframt lagt fram minnisblað borgarritara frá 12. þ.m. varðandi málið. R01030032
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Samkvæmt 39. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 fer byggðaráð ásamt framkvæmdastjóra sveitarfélags með framkvæmdastjórn sveitarfélags. Samkvæmt 51. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar nr. 638/2001 fer borgarráð ásamt borgarstjóra með framkvæmdastjórn Reykjavíkurborgar. Með vísan til þessara ákvæða samþykkir borgarráð að Innri endurskoðun heyri undir borgarráð og borgarstjóra. Forstöðumaður Innri endurkskoðunar skal ráðinn af borgarráði. Borgarstjóri er á grundvelli 5. mgr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga og 1. mgr. 68. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar æðsti yfirmaður starfsmanna Innri endurskoðunar, þ.m.t. forstöðumanns.
Borgarráð samþykkir tillöguna. Nánari útfærsla á starfsreglum verði lögð fram á næsta fundi borgarráðs.
20. Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa frá 23. f.m. um með hvaða hætti ráðist verður í deiliskipulagsvinnu af svæði sem afmarkast af Jaðarseli, milli Klyfjasels og Lækjarsels. R02080075 Borgarráð samþykkir forsögn og að hafist verði handa við gerð deiliskipulags svæðisins.
21. Lagt fram bréf ritara stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 19. þ.m., sbr. samþykkt stjórnarinnar 11. s.m. varðandi meðferð fundargerða gagnvart borgarráði R01030032
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja nauðsynlegt, að málefni Línu.nets, Tetra Íslands og Rafmagnslínu verði tekin til umræðu á vettvangi borgarstjórnar vegna þess, hve fjárhagsstaða þeirra er veik.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:
Fjárhagsstaða Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækja er afar sterk um þessar mundir, samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi OR 2002 og dótturfyrirtækja er hagnaður yfir 3 milljarðar kr. Áhyggjur borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks eru því ástæðulausar.
22. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs, dags. 24. febrúar s.l., ásamt umsögn skipulags- og byggingarnefndar 14. s.m. vegna lóðarumsóknar Frumafls h.f. frá 22. janúar s.l. um lóð við Sóltún 4. Jafnframt lagt fram bréf borgarverkfræðings, dags. í dag, varðandi málið. R03010206 Samþykkt.
23. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins árétta gagnrýni sjálfstæðismanna í fræðsluráði hinn 19. maí vegna aðgerðarleysis R-listans gagnvart einkareknum grunnskólum í Reykjavík. Ber það vott um einstakt ráðleysi að fulltrúar R-listans vísuðu tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um fjárframlag til einkarekinna grunnskóla frá án þess að geta sjálfir gert tillögu til lausnar á fjárhagsvanda skólanna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að Reykjavíkurborg samþykki að greiða sambærilegt fjármagn með hverjum reykvískum nemanda óháð því hvort hann gengur í einkarekinn skóla eða borgarrekinn. Þannig er tryggt jafnræði með nemendum og tekið er tillit til þess að rekstrarþarfir skólanna eru misjafnar. Senn nálgast skólalok á þessu vori án þess að einkareknir grunnskólar viti hvað við tekur næsta haust. Með töfum og vandræðagangi sínum skapar R-listinn enn frekar á óvissu og kvíða meðal foreldra, nemenda, skólastjórnenda og annars starfsfólks skólanna. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara fram á að úttekt verði gerð á fjárhagsstöðu einkarekinna leikskóla. Leikskólaráði verði falið að fylgja samþykktinni eftir. R03010118 Frestað.
Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:
Sú ógn og skelfing sem lýst er í bókun Sjálfstæðisflokks um málefni einkaskóla á sér enga samsvörun í þeim veruleika sem blasir við þeim sem átt hafa í viðræðum við forsvarsmenn skólanna og eiga enn. Margoft hefur komið fram að ekki stendur hugur til annars hjá meirihluta en tryggja betur þá einkaskóla sem nú starfa í borginni. Vísað er í bókun meirihluta fræðsluráðs í gær um framvindu málsins.
Fundi slitið kl. 14:25
Alfreð Þorsteinsson
Björk Vilhelmsdóttir Björn Bjarnason
Guðlaugur Þór Þórðarson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Stefán Jón Hafstein Steinunn Valdís Óskarsdóttir