Borgarráð - Fundur nr. 4780

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2003, þriðjudaginn 18. febrúar, var haldinn 4780. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Björn Bjarnason, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat Ólafur F. Magnússon fundinn. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð Hverfisráðs Austurbæjar-norður frá 11. febrúar.

2. Lögð fram fundargerð Hverfisráðs Grafarvogs frá 13. janúar.

3. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 10. febrúar.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Vinnuskólans frá 3. febrúar.

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál.

6. Lögð fram umsögn borgarlögmanns og forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sf. frá 17. þ.m. um frumvarp til raforkulaga.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa undrun sinni yfir því að í borgarráði skuli tekin til afgreiðslu málefni sem heyra undir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur án þess að þau hafi verið borin undir hana. Er ástæða til að sérstaklega sé kannað hvort þessar ákvarðanir eru lögmætar án atbeina stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, sem er sameignarfélag og starfar á grundvelli sérstakra laga. Hefur borgarlögmaður túlkað lögin á þann veg að þau veiti Orkuveitu Reykjavíkur stöðu einkaréttarlegs fyrirtækis. Lagt er til að afgreiðslum varðandi Orkuveitu Reykjavíkur sé frestað, svo að stjórn fyrirtækisins gefist kostur á að fjalla um málið.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er byggð á misskilningi. Það er hefðbundið að lagafrumvörpum sem Reykjavíkurborg berast frá Alþingi sé vísað til umsagnar borgarlögmanns og eftir atvikum forstöðumanns málaflokks/fyrirtækis. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur mun fjalla um málið á næsta stjórnarfundi sem fyrirhugaður er í næstu viku. Ástæða er að benda á hinn skamma fyrirvara sem Alþingi gefur til umsagnar.

7. Lögð fram umsögn borgarlögmanns og forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sf. frá 17. þ.m. um frumvörp til laga um Orkustofnun, Íslenskar orkurannsóknir og um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði.

8. Lögð fram umsögn borgarlögmanns og forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sf. frá 14. þ.m. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991, með síðari breytingum.

9. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sf. frá 17. þ.m. varðandi flýtingu framkvæmda Orkuveitunnar.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Reykjavíkurlistinn telur nauðsynlegt vegna nokkurrar óvissu í atvinnu- og efnahagsmálum á næstu mánuðum og misserum að flýta verkefnum innan ramma þriggja ára fjárhagsáætlunar borgarinnar sem lögð verður fram á næstunni. Í heild mun flýting verkefna á vegum borgarinnar, stofnanna hennar og fyrirtækja nema á bilinu 2-3 milljörðum króna. Ástæða þessa er að búast má við mikilli þenslu og spurn eftir verklegum framkvæmdum á árunum 2005-2006 vegna stórvirkjunar og álversframkvæmda. Talið er að á þeim tíma verði nauðsynlegt að draga úr opinberum framkvæmdum til að sporna við þenslu. Vegna slaka á vinnumarkaði nú og mikilvægis margra nýframkvæmda fyrir borgarbúa þykir rétt að flýta þeim innan ramma þriggja ára áætlunar og ráðast í þau á árunum 2003 og 2004. Telja má að þannig megi fjölga störfum að einhverju marki í borginni fljótlega auk þess sem auðveldara og ódýrara verði að fá verktaka nú en síðar á tímabilinu. Af hálfu borgarsjóðs verður um að ræða verkefni sem Reykjavíkurlistinn leggur mikla áherslu á svo sem í þjónustuíbúðum fyrir aldraða, skóla- og leikskólamálum, samgöngum, húsnæðismálum, sumarvinnu ungmenna auk annars. Gerð verður grein fyrir einstökum efnisþáttum við framlagningu þriggja ára áætlunar. Á vegum Orkuveitu Reykjavíkur er um að ræða verkefni sem eru á bilinu 1,2-1,7 milljarðar króna. Sá verkefnalisti liggur þegar fyrir og verður kynntur sérstaklega. Ekki er um að ræða útgjaldaaukningu Reykjavíkurborgar vegna þessa, heldur tilfærslu verkefna innan ramma þriggja ára tímabils.

10. Lagt fram bréf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá 12. þ.m., þar sem hún óskar eftir tímabundnu leyfi sem borgarfulltrúi. Vísað til borgarstjórnar.

11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 17. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 12. s.m. um auglýsingu deiliskipulags Norðlingaholts. Jafnframt lagt fram bréf borgarverkfræðings frá 3. þ.m. varðandi umfjöllun og niðurstöðu Vegagerðarinnar og umhverfis- og tæknisviðs vegna skipulagstillögunnar. Samþykkt.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Ég vísa til bókunar minnar í skipulags- og byggingarnefnd 12. þ.m., þar sem lýst er stuðningi við að breytt deiliskipulag Norðlingaholts verði auglýst. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á fyrra deiliskipulagi eru mjög til bóta og komið hefur verið á móts við athugasemdir í veigamiklum atriðum. Engu að síður lýsi ég áhyggjum mínum af svo þéttri byggð í námunda við vatnasvið og lífríki Elliðavatns og Elliðaánna, einkum nálægð byggðarinnar við vatna- og flóðasvæði Bugðu austan hverfsins. Tryggja þarf betri umferðartengingu við hverfið og öruggari gönguleiðir barna innan hverfisins. Loks þarf að tryggja betur aðgreiningu reiðleiða frá annarri umferð.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað að þeir vísi til bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarnefnd. Með sama hætti vísuðu borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista til bókunar fulltrúa sinna í nefndinni.

- Kl. 13.30 vék Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Guðlaugur Þór Þórðarson tók þar sæti.

12. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 29. s.m. um auglýsingu deiliskipulags reits 1.132.1, Naustareits, sem afmarkast af Grófinni, Vesturgötu, Norðurstíg og Tryggvagötu. Samþykkt.

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 17. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 12. s.m. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi á lóðinni nr. 2-6 við Lóuhóla. Samþykkt.

14. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 6. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 5. s.m. um auglýsingu deiliskipulags Heiðargerðisreits. Jafnframt lögð fram greinargerð Húss og skipulags, dags. 14. febrúar 2002 með breytingum 6. febrúar 2003. Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

15. Lagt fram bréf Dagnýjar Jónsdóttur frá 12. þ.m., þar sem hún óskar lausnar úr félagsmálaráði vegna brottflutnings. Samþykkt að leggja til við borgarstjórn að Alfreð Þorsteinsson taki sæti í ráðinu í hennar stað.

16. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 14. þ.m. um skiptingu kjörsvæða og kjörstaði í Reykjavík við alþingiskosningar 10. maí n.k. Samþykkt.

17. Lagt fram bréf forstöðumanns Eirar hjúkrunarheimilis frá 10. þ.m., þar sem óskað er eftir tilnefningu frá Reykjavíkurborg í fulltrúaráð sjálfseignarstofnunarinnar Eirar. Frestað.

18. Borgarráð samþykkir að leggja til við borgarstjórn að Kolbrún H. Jónsdóttir taki sæti í Hverfisráði Nesja í stað Sigríðar Pétursdóttur, sem beðist hefur lausnar í ráðinu.

19. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 12. þ.m. um erindi Péturs Gunnlaugssonar, hdl. varðandi kaup á veitingastaðnum L.A. Café og húsnæði að Laugavegi 45. Borgarráð samþykkir umsögnina.

20. Lagt fram bréf gatnamálastjóra frá 10. þ.m. varðandi endurnýjun Skólavörðustígs frá Týsgötu að Baldursgötu, Vegamótastíg og Bergstaðastrætis milli Skólavörðustígs og Laugavegar auk Bankastrætis frá Ingólfsstræti að Skólastræti. Samþykkt.

21. Lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi fjármál, sbr. 21. lið fundargerð borgarráðs 4. þ.m.

22. Lagt fram að nýju bréf fræðslustjóra frá 10. þ.m. um fyrirkomulag tónlistarfræðslu, sbr. samþykkt fræðsluráðs frá 7. s.m. Jafnframt lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 11. þ.m. varðandi málið.

Vegna tillögu sem frestað var á síðasta fundi borgarráðs um fyrirkomulag tónlistarfræðslu í grunnskólum leggja borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans til svohljóðandi breytingar:

Í stað yfirskriftarinnar „Reglur vegna styrkumsóknar tónlistarskóla til Reykjavíkurborgar er lagt til að yfirskrift hljóði svo: „Viðmiðunarreglur vegna þjónustusamnings Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla”. Ekki er um efnislega breytingu að ræða heldur hugtakaskýringu, þar sem notkun orðsins styrkur í þessu sambandi er villandi. Síðasta setning 11. gr. falli niður „Einnig getur borgin sett frekari viðmið til leiðsagnar við val á skólum.” Með þessari breytingu er tekið mið af athugasemdum sem framkom í umræðum í borgarráði við framlagningu málsins.

Samþykkt. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks drógu til baka tillögu sína frá fundi borgarráðs 11. þ.m. með tilvísun til samþykktar fræðsluráðs, sbr. 2. tölulið fundargerðar fræðsluráðs frá 17. s.m.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Með tillögum um fyrirkomulag tónlistarnáms eru reglur vegna styrkumsóknar tónlistarskóla til Reykjavíkurborgar. Til þess að geta sótt um styrk til starfsemi tónlistarskóla skal skv. 9. gr. reglnanna menntun skólastjóra vera „Tónlistarskólakennari IV hið minnsta og/eða háskólanám á sviði menntunar eða stjórnunar”. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks benda á að ekki hefur áður verið gerð krafa um kennararéttindi enda ekki kveðið á um það í lögum þar sem starfið er ekki lögverndað. Af þeim sökum leggja borgarráðsfulltrúarnir til að gefa eigi umsækjendum aðlögunartíma og þar með færi á að sækja sér umtalin réttindi.

Samþykkt.

- Kl. 14.15 tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum og Guðlaugur Þór Þórðarson vék af fundi.

23. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 17. þ.m., þar sem lagt er til að Stillingu hf., Skeifunni 11, verði úthlutað byggingarrétti fyrir starfsemi sína á lóð nr. 5 við Klettháls. Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum. - Stefán Jón Hafstein vék af fundi við meðferð málsins.

24. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á borgarráðsfundi 11. febrúar, 2003, var samþykkt að auglýsa breytt deiliskipulag vegna færslu Hringbrautar frá Rauðarárstíg í austri að Þorfinnstjörn í vestri. Í Morgunblaðinu 14. nóvember, 1997, segir Ólafur Bjarnason yfirverkfræðingur að vonast sé til að breyting á Hringbrautinni komist á ákvörðunarstig árið 1998. Í Morgunblaðinu 2. september, 1998, er sagt frá því, að borgarráð hafi fyrir sitt leyti samþykkt samkomulag við ríkisstjórnina um færslu Hringbrautar, verkið kosti 580 milljónir króna, Reykjavíkurborg láni allt að 200 milljónir króna til verksins, framkvæmdir hefjist sumarið 2001 og ljúki haustið 2002. Samkomulagið gerir ráð fyrir því, að verði tafir á lokaframkvæmdum við byggingu barnaspítala Hringsins, verði framkvæmdum frestað sem því nemur, þannig að ekki verði þörf á láni frá Reykjavíkurborg. Í Morgunblaðinu 22. desember, 1999, er haft eftir Ólafi Bjarnasyni, að framkvæmdir við færslu Hringbrautar hefjist árið 2001 og eigi að ljúka árið 2002. Í Morgunblaðinu 15. nóvember, 2000, er sagt frá því, að borgarráð hafi samþykkt tillögu um flutning Hringbrautar. Haft er eftir Stefáni Hermannssyni borgarverkfræðingi, að áætlað sé að framkvæmdir hefjist haustið 2001 og ljúki 2002. Í Morgunblaðinu 22. mars, 2001, er sagt frá því, að ferill umhverfismats vegna fyrsta áfanga í færslu Hringbrautar sé að hefjast og stefnt sé að því að hefja framkvæmdir haustið 2001. Með vísan til þess, sem hér segir, er spurt 18. febrúar, 2003:

Hvenær er þess að vænta, að framkvæmdir hefjist við flutning Hringbrautar?

Fundi slitið kl. 14.50.

Alfreð Þorsteinsson
Árni Þór Sigurðsson Björn Bjarnason
Stefán Jón Hafstein Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson