Borgarráð - Fundur nr. 4778

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2003, þriðjudaginn 4. febrúar, var haldinn 4778. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Björn Bjarnason, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Stefán Jón Hafstein, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat Ólafur F. Magnússon fundinn. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

Í upphafi fundar bauð varaformaður borgarráðs, Árni Þór Sigurðsson, borgarstjóra Þórólf Árnason velkominn til starfa.

1. Formaður borgarráðs til júní n.k. var kosinn Alfreð Þorsteinsson með 4 samhljóða atkvæðum.

2. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 27. janúar.

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Skipulagssjóðs frá 29. janúar.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 30. janúar.

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 30. janúar.

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál.

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 29. s.m. varðandi endurbyggingu að Laugavegi 40. Samþykkt.

8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 29. s.m. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi að Tunguhálsi 1-3. Samþykkt.

9. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 29. s.m. um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi að Smiðshöfða 19. Frestað.

10. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 29. s.m. um deiliskipulag reits nr. 1.181.0, sem markast af Skólavörðustíg, Týsgötu, Spítalastíg og Óðinsgötu. Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 3. þ.m., þar sem lagt er til að hafnað verði forkaupsrétti á lóð nr. 12-18 við Andrésbrunn og að Þórhalli Einarsson ehf. og Tréfag ehf. verði lóðarhafar lóðarinnar með þeim skilmálum sem fram koma í bréfinu. Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

12. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 30. f.m. um tilboð í uppsteypu og utanhússfrágang á tengibyggingu við Laugalækjarskóla. Samþykkt að taka tilboði lægstbjóðanda, Framkvæmdar ehf.

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs og hafnarstjóra frá 3. þ.m., þar sem lagt er til að stofnaður verði stýrihópur um skipulag Mýrargötu-Slippasvæðis, sem í eigi sæti formaður skipulags- og byggingarnefndar, formaður hafnarstjórnar og einn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Með stýrihópnum starfi sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs, hafnarstjóri og sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs. Samþykkt. Af hálfu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks var Hanna Birna Kristjánsdóttir tilnefnd í hópinn.

14. Lagt fram endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E 11662/2002 varðandi mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar.

15. Lagt fram endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E 8271/2001 varðandi Húsnæðisnefnd Reykjavíkur, bótamál.

16. Lagt fram bréf menntamálaráðuneytis frá 24. f.m. ásamt viðauka við samkomulag um Menningarborgarsjóð frá 5. janúar 2001. Samþykkt.

17. Lagt fram bréf borgarlögmanns og borgarverkfræðings, dags. í dag, um uppbyggingu á lóðunum nr. 14-18 við Aðalstræti og nr. 2 við Túngötu ásamt samningi við Innréttingarnar ehf., dags. 31. janúar 2003. Frestað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýna vinnubrögð við gerð þessa samnings – hann hefði átt að kynna í borgarráði fyrir undirritun. Þá ítreka þeir andstöðu sína við að ráðist sé í uppgröft í Víkurkirkjugarði. Að lokum er þess krafist, að fyrir liggi umsögn Árbæjarsafns um frágang fornminja og sérstaklega á hvern hátt Aðalstræti 16 verður verndað.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Ekkert nýtt er að koma fram í málinu nú. Málið hefur margoft verið kynnt í borgarráði og öðrum fagnefndum borgarinnar. Þar hafa m.a. komið fram sjónarmið borgarminjavarðar, þjóðminjavarðar og annarra sem málið varðar. Einnig er það áréttað, að samkvæmt fyrirliggjandi tillögu er ekki gert ráð fyrir röskun í Víkurkirkjugarði. Sjálfsagt er þó vegna óska um frestun að fresta málinu til næsta fundar og leggja fram þau gögn sem málið varðar. Vísað er á bug gagnrýni á vinnubrögð vegna samningsins – alvanalegt er að borgarstjóri undirriti samninga með fyrirvara um samþykkt borgarráðs.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Ég vísa til tillögu minnar í borgarstjórn 15. nóvember 2001 um að fornminjar á horni Aðalstrætis og Túngötu hafi forgang í skipulagi suðausturhluta Grjótaþorps og aðliggjandi svæðis, umfram hagsmuni hótelbyggjenda. Fyrirliggjandi samningur um uppbyggingu hótels og landnámsskála við Aðalstræti, dags. 31. jan. 2003, kemur á óvart. Ég hvet til vandaðri vinnubragða en hér eru viðhöfð þar sem varðveislusjónarmið eru höfð í heiðri.

18. Lagt fram bréf Sigríðar Pétursdóttur frá 1. desember, þar sem hún óskar lausnar úr Hverfisráði Nesja. Tilnefningu frestað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að nafni Hverfisráðsins verði breytt í Hverfisráð Kjalarness.

Tillögunni vísað til sjórnkerfisnefndar.

19. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra um húsnæðismál framhaldskólanna í Reykjavík ásamt greinargerð, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar: Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja löngu tímabært að Reykjavíkurborgar sýni frumkvæði og áhuga á endurnýjun og uppbyggingu framhaldsskólanna í Reykjavík og taki upp viðræður við menntamálaráðuneytið og nágrannasveitarfélög um uppbyggingu þeirra og fjármögnun. Við framkvæmd tillagnanna verði sérstaklega hugað að málefnum Menntaskólans í Reykjavík, Menntaskólans við Hamrahlíð, Menntaskólans við Sund og Kvennaskólans í Reykjavík.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Fulltrúar Reykjavíkurlistans fagna því að fyrrverandi menntamála-ráðherra sýni málefnum framhaldsskólanna í borginni áhuga.

20. Borgarráð samþykkir að fela forseta borgarstjórnar og borgarstjóra, í samráði við formenn borgarstjórnarflokka, að fjalla um tillögur um laun borgarfulltrúa og fjalla einnig um önnur starfskjara- og aðstöðumál borgarfulltrúa.

21. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2003 á fundi borgarstjórnar 2. janúar 2003 bókuðu borgarfulltrúar sjálfstæðismanna m.a. eftirfarandi: Við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr stóli borgarstjóra er eðlilegt að gerð sé úttekt á þróun fjármála Reykjavíkurborgar í hennar tíð. Slíkt er til þess fallið að auðvelda nýjum borgarstjóra að horfast í augu við hina ótrúlegu skuldasöfnun borgarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem lofaði kjósendum árið 1994 að skuldir Reykjavíkurborgar yrðu lækkaðar undir hennar forystu. Á fyrsta borgarráðsfundi nýs borgarstjóra vilja borgarráðsfulltrúar sjálfstæðismanna vekja athygli á því, að hreinar skuldir Reykjavíkurborgar án lífeyrisskuldbindinga hafa aukist um 1100% síðan árið 1993, á sama tíma hafa sambærilegar skuldir ríkissjóðs lækkað um 13%. Þá er staðfest að heildarskuldir á hvern Reykvíking eru 733 þúsund krónur og þar með hærri en í nokkru öðru stóru sveitarfélagi í landinu eða á höfuðborgarsvæðinu. Með vísan til þessara staðreynda er spurt: Ætlar nýr borgarstjóri að óska eftir úttekt á því, hvað veldur þessari miklu skuldaaukningu? Ætlar borgarstjóri að beita sér fyrir því að snúið sé af þessari braut? Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2002 sem samþykkt var í borgarstjórn í desember 2001 var gert ráð fyrir því að hreinar skuldir borgarinnar í árslok 2002, án lífeyrisskuldbindinga, yrðu 33.2 milljarðar króna. Útkomuspá fyrir árið 2002 gerir nú ráð fyrir því að niðurstaðan verði rúmir 43 milljarðar króna eða tæpum 10 milljörðum hærri. Frávikið er því 30% miðað við það sem áætlunin gerði ráð fyrir. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 er reist á sama grunni og áætlunin fyrir árið 2002. Með vísan til þessa er spurt: Ætlar nýr borgarstjóri að grípa í taumana, svo að þróunin verði ekki hin sama í ár og árið 2002, að skuldir aukist 30% umfram áætlun?

22. Sú leiðrétting var gerð við 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. janúar, að nafn varafulltrúa í Innkauparáð misritaðist þar á að standa Steinar Harðarson.

23. Afgreidd 19 útsvarsmál.

Fundi slitið kl. 14.50.

Alfreð Þorsteinsson
Árni Þór Sigurðsson Björn Bjarnason
Stefán Jón Hafstein Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson