Borgarráð - Fundur nr. 4774

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2003, þriðjudaginn 14. janúar var haldinn 4774. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Björn Bjarnason, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat Ólafur F. Magnússon fundinn. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 6. janúar.

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 9. janúar.

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál.

4. Lagt fram svohljóðandi bréf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá 14. þ.m.:

Af ástæðum, sem borgarfulltrúum er kunnugt um, óska ég hér með eftir lausn frá störfum borgarstjóra frá og með 1. febrúar n.k. Af sömu ástæðum segi ég af mér störfum sem kjörinn fulltrúi í borgarráði frá sama tíma. Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til við borgarstjórn að Þórólfur Árnason verði ráðinn borgarstjóri til loka kjörtímabilsins í samræmi við ákvæði 64. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001. Ráðningarkjör hans verði þau hin sömu og gilda skv. reglum um kjör borgarstjóra.

Vísað til borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til við borgarstjórn að Steinunn Valdís Óskarsdóttir taki sæti í borgarráði frá og með 1. febrúar til loka kjörtímabils þess borgarráðs sem nú situr. Varamaður verði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Vísað til borgarstjórnar.

5. Lagt fram bréf embættis borgarlögmanns frá 17. f.m. um niðurfellingu fasteignaskatta af húsnæði íþróttamiðstöðvar Íþrótta- og ólympíusambands Íslands í Laugardal. Samþykkt.

6. Lagt fram bréf jafnréttisráðgjafa frá 8. þ.m., sbr. samþykkt jafnréttisnefndar 6. s.m., ásamt tillögu að nýrri jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar, ódags.

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 23. október s.l. um auglýsingu deiliskipulags vegna afmörkunar svæðis fyrir vatnsgeymi á Reynisvatnsheiði. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá 10. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisnefndar 14. nóvember s.l. varðandi afstöðu nefndarinnar til tillögunnar. Samþykkt að auglýsa deiliskipulagið.

8. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá 16. f.m. ásamt umsögn umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 12. s.m. um athugasemdir sem borist hafa við samþykkt um takmörkun búfjárhalds og bann við lausagöngu búfjár í Reykjavík. Þá er lagt fram bréf skrifstofustjóra Umhverfis- og heilbrigðisstofu, dags. í dag, varðandi málið. Vísað til borgarstjórnar.

9. Lögð fram umsögn forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá 12. þ.m. um frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs. Samþykkt að senda Alþingi umsögnina.

10. Lagt fram bréf borgararkitekts frá 9. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð skipi starfshóp sem vinni tillögur um flóðlýsingu í borginni. Samþykkt.

11. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 13. þ.m. um frumvarp til laga um húsnæðissamvinnufélög. Borgarráð gerir ekki athugasemd við frumvarpið.

12. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 13. þ.m., þar sem óskað er heimildar til þess að ganga frá samningi við húsfélögin að Skeljagranda 1-7 og 2-8, Seilugranda 2-8 og Öldugranda 1-9 varðandi þátttöku í kostnaði við lagfæringu bílskýla. Samþykkt.

13. Lagt fram að nýju bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 9. f.m. ásamt samningi um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut Garðabæjar í Orkuveitunni, dags. 28. nóvember 2002. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns um málið, dags. 13. þ.m. Frestað.

14. Lögð fram skýrsla Nýsis ehf., dags. í janúar 2003, varðandi stefnumörkun Reykjavíkurborgar í byggingamálum framhaldsskóla.

15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 9. þ.m. ásamt drögum að samþykkt fyrir framtalsnefnd, dags. s.d. Vísað til stjórnkerfisnefndar.

16. Lagt fram svar borgarlögmanns frá 7. þ.m. við fyrirspurn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar varðandi málefni borgarendurskoðunar, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs 17. f.m.

17. Lagt fram að nýju bréf starfshóps um greiningu á stöðu Innkaupastofnunar, innkaupastefnu o.fl. frá 9. f.m., ásamt greinargerðum, þar sem eftirtöldum tillögum var vísað til borgarráðs að fengnum umsögnum, sbr. samþykkt borgarráðs 8. okt. s.l.:

1. Endurskoðuð tillaga að Innkaupastefnu Reykjavíkurborgar, dags. 9. desember 2002. 2. Endurskoðuð tillaga að innkaupareglum, dags. 9. desember 2002. 3. Endurskoðuð tillaga að samþykkt fyrir Innkaupastofnun Reykjavíkur, dags. 9. desember 2002. 4. Tillaga starfshópsins í bréfi dags. 7 október s.l. um að borgarráð samþykki að fela fulltrúum Reykjavíkurborgar í stjórnum byggðasamlaga og fyrirtækja í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar að beita sér fyrir því að þær samþykktir og reglur sem um þessi mál gilda hjá Reykjavíkurborg verði teknar upp hjá viðkomandi byggðasamlögum og fyrirtækjum í megindráttum, en lagaðar að aðstæðum á hverjum stað.

Jafnframt lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. í dag, um nánar tilgreindar breytingar á tillögum starfshópsins um innkaupareglur og samþykkt fyrir Innkaupastofnun Reykjavíkur, auk þess sem lagt er til að sett verði á fót Innkauparáð Reykjavíkurborgar. Þá er lögð fram tillaga að samþykkt fyrir Innkauparáð Reykjavíkurborgar, dags. í dag.

Fyrirliggjandi endurskoðaðar tillögur starfshópsins samþykktar með þeim breytingum sem borgarstjóri lagði til. Jafnframt samþykkt að koma á fót Innkauparáði Reykjavíkurborgar. Tillögu að samþykkt fyrir Innkauparáð vísað til borgarstjórnar.

18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 13. þ.m., þar sem lagt er til að Kristni Þór Bjarnasyni og Lindu Björk Ólafsdóttur, verði úthlutað byggingarrétti fyrir einbýlishús á lóð nr. 10 við Jörfagrund. Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

19. Lagður fram 9. liður fundargerðar borgarráðs frá 7. þ.m., greinagerð um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar o.fl. Jafnframt lagt fram bréf Landsvirkjunar frá 10. þ.m. varðandi staðfestingu eigendaábyrgðar vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Undirritaður lýsir miklum vonbrigðum sínum með vinnubrögð eigendanefndar Landsvirkjunar við gerð skýrslu um arðsemi og áhættu Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Eigendanefndin leggur ekki sjálfstætt mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar heldur vinnur nánast gagnrýnislaust út frá gefnum forsendum Landsvirkjunar sem oft eru hæpnar og áróðurskenndar. Engu að síður koma fram margar og alvarlegar viðvaranir í skýrslunni sem stangast á við þá niðurstöðu skýrsluhöfunda að yfirgnæfandi líkur séu á jákvæðri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Fjölmiðlar hafa hent á lofti þetta orðalag í niðurstöðum eigendanefndarinnar og flutt þau villandi skilaboð til almennings að Kárahnjúkavirkjun sé góð fjárfesting enda þótt augljóst megi vera að hún geti engan vegin skilað nægilegri arðsemi til að vega upp þá gífurlegu umhverfisröskun sem af henni hlýst. Miðað við fyrirliggjandi orkusölusamning og gildandi heimsmarkaðsverð á áli mun aðeins fást 1,25 krónur fyrir hverja selda kílówattstund frá fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun. Miðað við 4.400 GWst orkusölu á ári fást því 5,5 milljarðar króna árlegar brúttótekjur af orkusölu virkjunarinnar eða 4,5 milljarða króna tekjur árlega að frádregnum rekstrarkostnaði og mótvægisaðgerðum. Það þýðir nokkurra milljarða króna tap á hverju ári miðað við eðlilega 8-9% ávöxtunarkröfu þess fjár sem varið er til framkvæmdarinnar. Til að hún næðist þyrfti orkuverðið að vera yfir 2 krónur á hverja kílówattstund. Forsendur þess að virkjunin beri sig er stórhækkað álverð og þar með orkuverð frá því sem nú er og að vafasamar áætlanir Landsvirkjunar um stofnkostnað og tímalengd virkjanaframkvæmda haldi. Það er dæmigert fyrir túlkun fjölmiðla á skýrslu eigendanefndarinnar að þeir borgarfulltrúar sem mest hafa lagt sig fram um að kynna sér alla þætti Kárahnjúkavirkjunar eru sakaðir um vanþekkingu á málinu í leiðara Morgunblaðsins. Helstu andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar í borgarstjórn Reykjavíkur á þessu og síðasta kjörtímabili hafa t.d. umfram flesta aðra borgarfulltrúa skoðað þau landssvæði sem munu eyðileggjast verði af Kárahnjúkavirkjun og haldið uppi málefnalegri umræðu um virkjunina og afleiðingar hennar á vettvangi borgarstjórnar og víðar. Undirritaður harmar sérstaklega að embættismaður Reykjavíkurborgar hafi með störfum sínum í eigendanefndinni og óvarfærnu orðalagi um niðurstöður nefndarinnar lagt Kárahnjúkavirkjun meira lið en margir einörðustu stuðningmenn þessarar afdrifaríku framkvæmdar. Lögð fram svohljóðandi tillaga Árna Þórs Sigurðssonar og Ólafs F. Magnússonar varðandi málið:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að Reykjavíkurborg ábyrgist ekki þau lán sem Landsvirkjun hyggst taka vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa farið yfir þau gögn, sem lögð hafa verið fram vegna ábyrgðar Reykjavíkurborgar á lántökum Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Við teljum, að samþykkja beri ábyrgðina. Allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu standa að samþykkt ábyrgðarinnar á fundi borgarstjórnar 16. janúar n.k.

Alfreð Þorsteinsson óskaði bókað:

Með því að borgarfulltrúar Framsóknarflokksins innan Reykjavíkur-listans hafa þegar lýst yfir stuðningi við að borgarstjórn Reykjavíkur veiti Landsvirkjun einfalda ábyrgð vegna Kárahnjúkavirkjunar vil ég lýsa yfir ánægju með afstöðu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þar með er þeirri óvissu, sem ríkt hefur um framgang málsins í borgarstjórn verið eytt og ljóst, að erindi Landsvirkjunar verður samþykkt. Eins og áður hefur komið fram hefur eigendanefnd komist að þeirri niðurstöðu, að eigendur, þ.m.t. Reykjavíkurborg sé ekki að taka teljandi áhættu með því að veita einfalda ábyrgð. Í raun er það eina atriði málsins, sem borgarfulltrúar þurfa að taka afstöðu til. Fyrirhugaðar virkjunar og stóriðjuframkvæmdir skipta sköpum fyrir atvinnulífið í landinu á sama tíma og atvinnuleysi hefur farið vaxandi. Borgarfulltrúar í Reykjavík verða að axla ábyrgð í þeim efnum sem öðrum. Vil ég sérstaklega minna á afstöðu verkalýðshreyfingarinnar, en ASÍ hefur lýst yfir stuðningi við framkvæmdir, þar sem aukinn hagvöxtur mun skila sér til almennra launþega. Kaupmáttur ráðstöfunartekna mun ennfremur aukast að mati ASÍ.

Stefán Jón Hafstein óskaði bókað:

Kárahnjúkavirkjun felur í sér óviðunandi röskun á náttúru landsins. Þær ástæður einar nægja til þess að ég fellst ekki á að Reykjavíkurborg taki ábyrgð á framkvæmdunum.

19. lið frestað.

Fundi slitið kl. 13.50.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Alfreð Þorsteinsson Björn Bjarnason
Árni Þór Sigurðsson Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Stefán Jón Hafstein Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson