Borgarráð - Fundur nr. 4761

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2002, þriðjudaginn 22. október, var haldinn 4761. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Björk Vilhelmsdóttir, Björn Bjarnason, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Stefán Jón Hafstein. Jafnframt sat Ólafur F. Magnússon fundinn. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 10. október.

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 17. október.

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Vinnuskólans frá 14. október.

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 15 mál.

5. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarnefndar frá 20. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 18. s.m., þar sem deiliskipulag vegna Vættaborgar 84-96 er vísað til borgarráðs, sbr. frávísunarúrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarnefndar 12. s.m.

Samþykkt borgarráðs: Frávísunarúrskurður nefndarinnar er byggður á þeim rökum að samþykkt borgarráðs frá 7. september 2000, þar sem skipulags- og byggingarnefnd er falin fullnaðarafgreiðsla á tilteknum minni háttar breytingum og afgreiðslumálum, fari í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Umrædd breyting var gerð á grundvelli 2. mgr. 44 gr. sveitarstjórnarlaga og kynnt félagsmálaráðuneytinu. Í tilefni af umræddum úrskurði nefndarinnar hefur borgarstjóri skrifað ráðuneytinu bréf þar sem óskað er formlegs álits á túlkun umrædds ákvæðis sveitarstjórnarlaga jafnfamt því sem viðræður hafa átt sér stað við fulltrúa þess. Er álits ráðuneytisins að vænta á næstunni. Ljóst er að hér er um mikilvæga hagsmuni sveitarfélaganna á landinu að ræða varðandi dreifstýringu og stjórnsýslubreytingar í anda laga um reynslusveitarfélög. Þótt ekki verði fallist á rök úrskurðarnefndarinnar og frávísun málsins samþykkir borgarráð breytingu á deiliskipulagi Borgahverfis, B-hluta, að því er varðar lóð nr. 84-96 við Vættaborgir, í því skyni að komið verði í veg fyrir tjón lóðarhafa vegna frekari tafa á framkvæmdum.

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 18. þ.m., þar sem lagt er til að Guðjón Páll Einarsson verði lóðarhafi lóðar nr. 58 við Einarsnes og að Friðrik Weisshappel Jónsson verði lóðarhafi lóðar nr. 58a við sömu götu, með sömu réttindum og giltu áður gagnvart þeim sameiginlega. Samþykkt.

7. Lagt fram bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 17. þ.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 16. s.m. um auglýsingu að breytingu deiliskipulags Fylkisvegar. Samþykkt.

8. Lögð fram umsögn borgarverkfræðings frá 18. þ.m. um erindi André Bachmann frá 9. júlí s.l. um land undir jarðvegsmóttöku.

9. Lagt fram bréf félagsmálastjóra frá 18. þ.m. ásamt ársskýrslu Félagsþjónustunnar fyrir árið 2001.

10. Lagt fram bréf menningarmálastjóra frá 18. þ.m. ásamt skýrslu verkefnisstjórnar menningarnætur 2002.

11. Lagt fram bréf félagsmálastjóra frá 17. þ.m. um skipan þjónustuhóps aldraðra í Reykjavík. Samþykkt.

12. Lögð fram fréttatilkynning, dags. 16. þ.m., um samkomulag milli fulltrúa eigenda Alþjóðahúss og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands um að gengið verði til samninga við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands um að hún taki yfir rekstur starfseminnar frá og með næstu áramótum. Borgarráð samþykkir fyrir sitt leyti að gengið verði til samninga við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands um að hún taki yfir rekstur starfseminnar frá og með næstu áramótum. Nýr þjónustusamningur ásamt breytingum á núgildandi þjónustusamningi verði lagður fyrir borgarráð til staðfestingar.

13. Lagt fram bréf verkefnisstjóra þróunar- og fjölskyldusviðs frá 21. þ.m. ásamt ársskýrslu fjölmenningarnefndar Reykjavíkur fyrir árið 2001.

14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 21. þ.m. um breytingar á 9. gr. og 10. gr. fyrirmyndar að samþykkt fyrir nefndir og ráð Reykjavíkurborgar frá 19. febrúar s.l. Vísað til borgarstjórnar.

15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 21. þ.m. ásamt tillögum að samþykkt fyrir stjórn Höfuðborgarstofu. Vísað til borgarstjórnar.

16. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 11. þ.m. um breytingar á samþykkt fyrir samgöngunefnd. Vísað til borgarstjórnar.

17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 11. þ.m. um breytingar á samþykkt fyrir fræðsluráð. Vísað til borgarstjórnar.

18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 18. þ.m. um breytingar á samþykkt fyrir hverfaráð. Vísað til athugunar stjórnkerfisnefndar.

19. Lagt fram bréf félagsmálastjóra frá 17. þ.m., sbr. samþykkt félagsmálaráðs 16. s.m. um jöfnun og hækkun á leigu Félagsbústaða. Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði lýsa yfir stuðningi við bókun fulltrúa flokksins í félagsmálaráði vegna þessa máls.

Málsmeðferð R-listans veldur leigutökum meiri búsifjum en unnt er að rökstyðja með hækkun á vöxtum vegna nýrra lána til félagslegs húsnæðis úr 1% í 3,5% í ársbyrjun 2001. Ef brugðist hefði verið við vaxtahækkuninni strax hefðu byrðar vegna hennar orðið minni á leigutaka en þegar það er gert tæpum tveimur árum síðar. R-listinn ákvað að fresta því að taka á þessu máli fram yfir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Vildi R-listinn forðast umræður um óhjákvæmilega hækkun. Pólitískir hagsmunir R-listans auka þannig byrðar leigutaka hjá Félagsbústöðum hf. Málsvarar R-listans létu ranglega í veðri vaka, að þeim mætti þakka ákvörðun ríkisstjórnar og alþingis um að fella niður skatta á húsaleigubætur. Nú hefur hagur leigutaka vegna skattalækkunarinnar verið hrifsaður frá þeim með 12% hækkun leigu. Brýnt er að félagsmálaráð fylgist rækilega með áhrifum þessarar hækkunar á einstaka leigutaka, einkum barnmargar fjölskyldur. Jafnframt verði fylgst með áhrifum hennar á félagsleg útgjöld Reykjavíkurborgar. Er eðlilegt að metið verði, hvort skynsamlegra sé fyrir borgarsjóð að axla hluta leigukostnaðar eða auka félagsleg útgjöld sín.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Fulltrúar Reykjavíkurlista í borgarráði ítreka þann ásetning sinn að jafna leigu á sambærilegum íbúðum hjá Félagsbústöðum og vekja athygli á að röksemdir um réttmæti þess standa óhaggaðar. Þessi jöfnun felur í sér hækkun á leigu í um 900 íbúðum en lækkun í um 500 íbúðum. Nær lækkunin öðru fremur til stórra íbúða sem keyptar hafa verið á undanförnum árum fyrir barnmargar fjölskyldur. Á það er jafnframt bent að leigutökum hefur verið hlíft við leiguhækkun vegna vaxtahækkunar Íbúðalánasjóðs í tæp 2 ár sem hlýtur að hafa verið þeim til hagsbóta en ekki búsifja.

Hvað sem líður hækkunum á leiguverði í hluta íbúða þá liggur fyrir að húsaleiga hjá Félagsbústöðum er almennt lág og undir þeim heimildum sem um slíkar íbúðir gilda hjá Íbúðalánasjóði. Fyrir liggur að félagsmálaráð mun fylgjast vel með stöðu þeirra sem verða fyrir hækkun á húsaleigu vegna þeirra aðgerða sem samþykktar hafa verið.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Vegna bókunar fulltrúa R-listans vilja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins árétta, að við stofnun Félagsbústaða hf. 1997 var gengið út frá því að reksturinn yrði sjálfbær. Nú er verið að bæta Félagsbústöðum upp vaxtahækkun frá 1. janúar 2001.

20. Lagt fram bréf forstjóra og varaformanns Eirar hjúkrunarheimilis frá 1. mars s.l. varðandi stækkun heimilisins. Borgarráð lýsir ánægju sinni með að 40 ný hjúkrunarrými við hjúkrunarheimilið Eir eru nú í augsýn og samþykkir að styrkja fyrirhugaðar framkvæmdir um sem nemur 30% af heildarkostnaði, þó mest 180 milljónir króna. Styrkveitingin er háð því skilyrði að full fjármögnun verkefnisins liggi fyrir. Borgarráð felur jafnframt borgarstjóra að láta ganga frá samningi við hjúkrunarheimilið Eir um aðkomu Reykjavíkurborgar, þar sem komi fram gjalddagar styrkfjárhæðar og annað sem máli skiptir. Samningurinn komi aftur fyrir borgarráð til staðfestingar. 21. Lagt fram minnisblað borgarhagfræðings um leigukjör í borginni, dags. í dag, varðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarráðs 17. f.m., sbr. 20. lið.

22. Rætt um slökkvistarf og löggæslu við eldsvoða við Laugaveg aðfararnótt 20. þ.m.

23. Lögð fram svohljóðandi bókun borgarstjóra varðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um málefni Línu.nets, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. þ.m. Jafnframt lagt fram minnisblað borgarlögmanns frá 21. þ.m.:

Í upphafi þessa árs var Orkuveitu Reykjavíkur breytt í sameignarfyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar, Akraness, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar. Fyrirtækið heyrir því ekki með sama hætti og áður undir Borgarstjórn Reykjavíkur en í gildi er sameignarsamningur og sérstök lög sem fyrirtækið starfar eftir. Eftir þessa breytingu þarf Orkuveita Reykjavíkur ekki að bera fjárhagsáætlun sína, gjaldskrá eða einstakar ákvarðanir undir borgarráð eða borgarstjórn með þeirri undantekningu þó að leita þarf fyrirfram samþykkis eigenda til að fyrirtækið geti tekið á sig nýjar skuldbindingar sem fara fram úr 5% af höfuðstól fyrirtækisins. Eins og fram kemur í framlögðu minnisblaði borgarlögmanns á þetta ákvæði ekki við í því tilviki sem hér um ræðir. Í lögum um Orkuveitu Reykjavíkur er skýrt kveðið á um verksvið og ábyrgð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur en henni ber m.a. að annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Fulltrúar D-listans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa óskað eftir ýmsum upplýsingum um forsendur samninga um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á ljósleiðaraneti Línu.nets. Formaður stjórnar hefur lýst því yfir að þeirra upplýsinga verði aflað. Málið er því til meðferðar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og þ.a.l. í eðlilegum farvegi.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í 3. mgr. 7. gr. sameignarsamnings vegna Orkuveitu Reykjavíkur segir: “Hver eigandi um sig er í einfaldri hlutfallslegri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins. Hlutfallsleg einföld ábyrgð hvers eigenda um sig tekur mið af eignarhluta hans í fyrirtækinu, sbr. 4. gr.” Af þessu leiðir, að Reykjavíkurborg er í ábyrgð fyrir 92,22% allra skuldbindinga Orkuveitu Reykjavíkur. Ábyrgðir sveitarfélaga hafa áhrif á lánskjör þeirra. Hve mikil áhrif hefur ábyrgðin vegna kaupanna á ljósleiðarakerfi Línu.nets á lánskjör Reykjavíkurborgar? Mælst er til þess, að borgarstjóri leggi fyrir borgarráð skýrslu um áhrif skuldbindinga Orkuveitu Reykjavíkur á lánskjör Reykjavíkurborgar.

Ólafur F. Magnússon óskaði bókað:

Ég tek undir ábendingar og áhyggjur borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna síaukinna skuldbindinga og ábyrgða Reykjavíkurborgar vegna Línu.nets. Ég bendi hins vegar á eindreginn stuðning borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins við þátttöku Reykjavíkurborgar í Kárahnjúkavirkjun með miklu stærri skuldbindingum og alvarlegri afleiðingum fyrir borgarbúa en vegna Línu.nets. Í þessum málflutningi Sjálfstæðisflokksins felst fullkomin þversögn.

24. Rætt um fjárhagsáætlun 2003. Borgarráð samþykkir með 4 samhljóða atkvæðum svohljóðandi breytingar á fjárhagsramma 2003: Málaflokurinn stjórn borgarinnar: Var kr. 738.300 þús. verður kr. 748.230 þús.

25. Afgreidd 58 útsvarsmál.

26. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fram hefur komið að viðræður standi yfir milli Kolaportsins og Þróunarfélags miðborgarinnar vegna mikilla vanskila á leigugreiðslum Kolaportsins til Þróunarfélags miðborgarinnar. Hafa borgaryfirvöld komið að eða haft afskipti af þessum viðræðum?

Fundi slitið kl. 15.20.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Alfreð Þorsteinsson Björn Bjarnason
Björk Vilhelmsdóttir Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Stefán Jón Hafstein Hanna Birna Kristjánsdóttir