Borgarráð - Fundur nr. 4746

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2002, föstudaginn 28. júní, var haldinn 4746. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15.05. Viðstaddir voru Árni Þór Sigurðsson, Alfreð Þorsteinsson, Stefán Jón Hafstein, Anna Kristinsdóttir, Björn Bjarnason, Kjartan Magnússon og Guðrún Ebba Ólafsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 27. þ.m. varðandi kosningu nefnda og formanna þeirra í Borgarstjórn Reykjavíkur, sbr. 27. liður fundargerðar borgarráðs 25. júní s.l.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlistans:

Á fundi borgarstjórnar 20. þ.m. var Stefán Jóhann Stefánsson kjörinn formaður stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar. Samkvæmt grein 3.2 í samþykkt um stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar skal formaður stjórnar vera aðal- eða varaborgarfulltrúi. Stefán Jóhann Stefánsson er ekki meðal þeirra sem hafa fengið útgefin kjörbréf og telst því hvorki til aðal- né varaborgarfulltrúa. Hann var því ekki kjörgengur í formannskjöri. Var því um ógilda kosningu að ræða. Borgarráð samþykkir því að ógilda kosningu formanns stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar sem fram fór á fundi borgarstjórnar 20. þ.m. Tillagan samþykkt með samhljóða atkvæðum.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlistans:

Borgarráð samþykkir að grein 3.2 í samþykkt fyrir stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar hljóði svo: “Stjórn stofnunarinnar er skipuð fimm mönnum kjörnum af borgarstjórn. Borgarstjórn kýs formann úr hópi kjörinna nefnarmanna. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.”

Tillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Reykjavíkurlistans:

Borgarráð samþykkir að kjósa Stefán Jóhann Stefánsson sem formann Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar.

Tillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun: Stjórnendur Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar gegna því meginhlutverki að fjalla um mál á hlutlægan hátt, samkvæmt skýrum almennum leikreglum. Á síðasta ári var gagnrýnt, hvernig staðið var að því að ráða forstjóra stofnunarinnar og talið, að einum umsækjanda hefði verið hyglað á kostnað annarra. Nú hefur meirhluti borgarráðs ákveðið að breyta samþykktum Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar til að sérsníða þær að frambjóðanda sínum til formennsku í stjórn stofnunarinnar. Með þessu er horfið frá almennum reglum um kjörgengi til formennsku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum borgarinnar, án þess að um málefnaleg rök sé að ræða. Sjálfstæðismenn mótmæla þeim einstæðu vinnubrögðum að hverfa frá almennum reglum um kjörgengi við val á formanni stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar. Með þeim skapast trúnaðarbrestur gagnvart stofnun, þar sem brýnt er að hafa hlutlægar reglur í hávegum og hverfa ekki frá þeim til að draga taum eins á kostnað annars. Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað: Þegar í ljós kom að sá sem kjörinn var formaður stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkur reyndist ekki vera kjörgengur sem slíkur, sbr. samþykkt um stjórn ISR, höfðu borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans frumkvæði að því á fundi borgarráðs hinn 25. júní sl. að samþykktum um stjórn Innkaupastofnunar yrði breytt og að því loknu færi á nýjan leik fram kjör formanns stjórnar. Sjálfstæðismenn gerðu, eins og þeim er tamt, athugasemd við form framkominnar tillögu og töldu nauðsynlegt að ógilda fyrri kosningu og kröfðust einnig frekari gagna um framkvæmd kosninganna í borgarstjórn þann 20. júní sl. Þótt ekkert benti til að frestun á afgreiðslu málsins á síðasta fundi borgarráðs myndi leiða ný sannindi í ljós, féllst meirihluti borgarráðs á umbeðna frestun og hefur nú verið lögð fram greinargerð um reglur sem gilda um kosningu nefnda á vegum borgarinnar og formannskjör sem og um framkvæmd kosninganna í borgarstjórn þann 20. þ.m. Fulltrúar Reykjavíkurlistans telja að þótt almenna reglan sé sú að formenn nefnda og ráða séu borgarfulltrúar eða varaborgarfulltrúar þá eigi sú regla ekki við í öllum tilvikum. Það er t.d. ekki nauðsynlegt í framtalsnefnd, barnaverndarnefnd, stjórn Orkuveitunnar, stjórn Strætó bs. eða stjórn Sorpu bs. og stjórn Innkaupastofnunar á að mörgu leyti heima í þessum hópi.

Fundi slitið kl. 15.22.

Árni Þór Sigurðsson

Alfreð Þorsteinsson Anna Kristinsdóttir
Björn Bjarnason Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Kjartan Magnússon Stefán Jón Hafstein