Borgarráð - Fundur nr. 4732

Borgarráð

5

B O R G A R R Á Ð

Ár 2002, þriðjudaginn 9. apríl, var haldinn 4732. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.00. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Helgi Hjörvar, Jóna Gróa Sigurðardóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir jafnréttisnefndar frá 21. og 24. mars.

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Innkaupastofnunar frá 8. apríl.

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál.

4. Lagt fram yfirlit um byggingarframkvæmdir í Reykjavík 2001, ásamt bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. þ.m.

5. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 8. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi heimild til að ganga til samninga við Suðurverk hf. um grjótfyllingu við skolpdælustöð í Gufunesi. Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

6. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 8. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi tilboð í byggingu 6. áfanga Hlíðaskóla. Samþykkt að taka tilboði Pálmatrés ehf., sem átti næst lægsta tilboð.

7. Lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 8. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar Innkaupastofnunar s.d. varðandi tilboð í endurbætur á göngum undir Austurberg og lagfæringu brúar á Skothúsvegi. Borgarráð samþykkir að gengið verði til samninga við Þ.G. verktaka ehf.

8. Lagt fram bréf menntamálaráðuneytis frá 15. f.m. varðandi tilnefningu fulltrúa í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Borgarráð samþykkir að tilnefna Hilmar Oddsson í stjórnina og Ingu Backman til vara.

9. Lagt fram bréf menntamálaráðuneytis frá 18. f.m. varðandi tilnefningu fulltrúa í verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Borgarráð samþykkir að tilnefna Steinunni Birnu Ragnarsdóttur í nefndina.

10. Lagt fram bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 20. f.m. varðandi umsókn um takmarkaðan opnunartíma lyfjaverslunar Lyfjavers ehf. að Suðurlandsbraut 22. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. 4. þ.m. Borgarráð samþykkir umsögnina og gerir því ekki athugasemdir við umsóknina.

11. Lagt fram bréf hafnarstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt hafnarstjórnar 25. s.m. varðandi tívolí á Miðbakka.

12. Ráðstefna í Stokkhólmi í byrjun júní 2002, “Huvedstadskonference”. Borgarráð ákveður að tveir kjörnir fulltrúar sæki ráðstefnuna. Auk þess sækir einn embættismaður ráðstefnuna.

13. Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar frá 14. f.m. varðandi skýli á lóðinni nr. 22 við Bröndukvísl. Vísað til meðferðar byggingarfulltrúa.

14. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 8. þ.m. varðandi yfirfærslu fasteigna til Skipulagssjóðs Reykjavíkurborgar, ásamt eignaskrá, sbr. samþykkt borgarráðs 21. ágúst 2001. Samþykkt.

15. Lögð fram ársskýrsla Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. fyrir árið 2001.

16. Lagðar fram til kynningar athugasemdir sem bárust við tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, ásamt drögum að svörum, dags. 8. þ.m.

17. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 8. þ.m. varðandi fyrirspurn Júlíusar Vífils Ingvarssonar um sölu byggingarréttar í Grafarholti, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs 12. f.m.

Júlíus Vífill Ingvarssonar óskaði bókað:

Forsendur forvals vegna útboða verða að vera ljósar og mælikvarðar skýrir. Þátttakendur í forvali eiga lagalegan rétt á því að geta gengið að upplýsingum um það á hverju forval byggir. Forval vegna útboðs á byggingarrétti í Grafarholti byggir á því óskilgreinda viðmiði að “stærri” fyrirtæki gangi fyrir í útboðinu. Forsendur þess eru skýrðar með því að nokkur “minni” fyrirtæki sem buðu í byggingarrétt í fyrri útboðum hafi ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar vegna útboðanna. Dæmin sýna hins vegar að stærri byggingarfyrirtæki eru ekki undanskilin sveiflum byggingarmarkaðarins. Í forvalinu er ekki tekið mið af fyrirfram skilgreindum fjárhagslegum styrkleika tilboðsgjafa, sem er þó eini sanngjarni mælikvarðinn sem hægt hefði verið að miða við, vilji menn á annað borð fara þessa leið. Forvalið er brot á jafnræðisreglu stjórnvalda, þar sem verið er að hygla stórum verktökum en minni fyrirtækjum í sömu grein haldið utan við, án skynsamlegs rökstuðnings. Forvalið endurspeglar þann vandræðagang sem einkennt hefur útboð byggingarréttar í Grafarholti. Öll þessi málsmeðferð er bæði ósanngjörn og óeðlileg, e.t.v. lögleg en algjörlega siðlaus.

18. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 8. þ.m., um tilboð vegna sölu byggingarréttar í Grafarholti. Lagt er til að eftirtöldum aðilum verði úthlutað byggingarrétti:

Katrínarlind 1-7: KS verktakar ehf., Kópavogi Katrínarlind 2-8: Byggingafélagið Gylfi og Gunnar hf. Þorláksgeisli 1-3: Járnbending ehf., Kópavogi Þorláksgeisli 5-7: Járnbending ehf., Kópavogi Þórðarsveigur 2-12: Íslenskir aðalverktakar hf. Þórðarsveigur 14-18: Byggingafélagið Breki ehf., Garðabæ Þórðarsveigur 20-24: Byggingafélagið Breki ehf., Garðabæ

Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Enn á ný veldur lóðaskortur í Reykjavík því að byggingarfyrirtæki bjóða í lóðirnar langt umfram hefðbundin gatnagerðargjöld og eru hæstu tilboð rúmlega 100% hærri en venjuleg gatnagerðargjöld. Þetta þýðir að gatnagerðargjald fyrir meðalstóra íbúð í fjölbýli er u.þ.b. 1.5 mkr. Þessi uppboðsstefna hækkar byggingarverð, söluverð íbúða, fasteignaskatta og holræsagjöld, sem eigendur íbúða og atvinnuhúsnæðis í Reykjavík greiða.

Borgarstjóri óskaði bókað:

Enginn skortur er á lóðum í Reykjavík, eins og sést best á því að stefnt er að því að úthluta lóðum fyrir um 500 íbúðir í Grafarholti á þessu ári, auk lóða í Bryggjuhverfi, nýju hverfi í Gufunesi, í Norðlingaholti og jafnvel í suðurhlíðum Úlfarsfells. Að auki er sjálfsagt gert ráð fyrir talsverðum úthlutunum í nágrannasveitarfélögum. Staðreyndin er einfaldlega sú, að þau fyrirtæki sem taka þátt í útboðinu eru að framleiða íbúðir fyrir markað og hljóta því í tilboðum sínum að taka mið af markaðsaðstæðum hverju sinni. Þau vita hvaða markaðsverð er á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og hvað eðlilegt er að bjóða í byggingarréttinn.

19. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d. og Bláfjallanefndar 11. febrúar s.l. varðandi framtíðarskipan reksturs og framkvæmda í Bláfjöllum og Skálafelli. Jafnframt lögð fram drög að þjónustusamningi milli sveitarfélaga og Bláfjallanefndar, ódags. Borgarráð lýsir yfir stuðningi við framkomnar tillögur Bláfjallanefndar um samrekstur skíðasvæða og felur íþrótta- og tómstundaráði f.h. Reykjavíkurborgar og Bláfjallanefnd að vinna að frekari framgangi málsins í samvinnu við sveitarfélögin sem eiga aðild að Bláfjallanefnd.

20. Lögð fram umsögn forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá 8. þ.m. um frumvörp til laga um Landgræðsluáætlun, landgræðslu og afréttarmál. Samþykkt að senda Alþingi umsögnina.

21. Lögð fram drög að samningi við Laugar ehf., ódags., um samstarf, samvinnu og verkaskiptingu vegna framkvæmda við heilsumiðstöð í Laugardal. Borgarráð samþykkti samningsdrögin fyrir sitt leyti.

- Kl. 13.20 tók Inga Jóna Þórðardóttir sæti á fundinum og Jóna Gróa Sigurðardóttir vék af fundi.

22. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 5. þ.m. um úrskurð óbyggðanefndar frá 21. f.m. varðandi Gnúpverjaafrétt, Þjórsárdal og efstu jarðir í Gnjúpverjahreppi.

23. Lagt fram bréf samstarfsráðs Kjalarness frá 5. þ.m. varðandi niðurstöður opins þings um vistvæna byggð á Kjalarnesi 26. janúar s.l.

24. Lagt fram að nýju bréf menningarmálastjóra frá 21. f.m. ásamt mati borgarminjavarðar á varðveislugildi húsa í miðborg Reykjavíkur, dags. 20. s.m. Vísað til umsagnar skipulags- og byggingarnefndar og borgarlögmanns.

25. Lagt fram bréf vinnuhóps um eftirlit og endurskoðun hjá Reykjavíkurborg frá 8. þ.m. ásamt skýrslu KPMG um innra eftirlit og endurskoðun hjá Reykjavíkurborg, dags. 9. þ.m., ásamt viðauka. Jafnframt lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um sjálfstætt eftirlit með stjórnsýslu, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs 26. f.m.

Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að Borgarendurskoðun annist innri endurskoðun borgarinnar ásamt ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi en ytri endurskoðun verði komið á hendur utanaðkomandi aðila. Þá er lagt til að Borgarendurskoðun verði færð undir borgarráð í skipuriti borgarinnar og að borgarendurskoðandi sitji fundi ráðsins. Breytingar taki gildi frá áramótum 2002/2003.

Greinargerð fylgir tillögunni. Frestað.

- Kl. 15.20 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

26. Lögð fram drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins, ódags., um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík. Samþykkt að fela borgarstjóra undirritun samningsins. Inga Jóna Þórðardóttir vék af fundi við meðferð málsins

27. Lögð fram drög að samþykkt fyrir Kirkjubyggingasjóð Reykjavíkur, ódags., ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. 8. þ.m. Vísað til borgarstjórnar.

28. Lagt fram að nýju minnisblað framkvæmdastjóra þróunar- og fjölskyldusviðs frá 25. f.m. varðandi samning um rekstur Viðeyjarferju ásamt greinargerð forstjóra Innkaupastofnunar, dags. 21. s.m., og greinargerð borgarminjavarðar, dags. 26. s.m. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns, dags. í dag. Borgarráð samþykkir umsögn borgarlögmanns.

29. Lögð fram að nýju umsögn fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 22. f.m. varðandi umsókn um leyfi til áfengisveitinga fyrir veitingastaðinn Casa grande, Tryggvagötu 8. Borgarráð samþykkir umsögnina.

30. Lagt fram bréf Knattspyrnusambands Íslands frá 8. þ.m. varðandi stækkun stúkubyggingar við Laugardalsvöll og uppbyggingu þjónustuhúsnæðis við völlinn. Formanni og framkvæmdastjóra ÍTR falið að taka upp viðræður við bréfritara. Stefnt verði að því að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en 1. maí n.k.

31. Borgarstjóri lagði fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að námsmannastyrkur, þegar annað foreldri er í námi og barn er vistað hjá dagforeldri eða í einkareknum leikskóla verði tekinn upp til samræmis við gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkurborgar frá og með 1. maí 2002. Námsmannastyrkurinn nemi kr. 31.000,- fyrir hvert barn í einkareknum leikskóla miðað við 8-9 tíma vistun og kr. 16.000,- fyrir hvert barn sem vistað er hjá dagforeldri í sama tíma en lægri í sama hlutfalli og aðrir styrkir ef um styttri dvöl barns er að ræða. Til að mæta kostnaði við framkvæmdina á árinu 2002 komi til viðbótarfjárveiting handa Leikskólum Reykjavíkur að fjárhæð 6.7 milljónir króna sem færist á kostnaðarstað 09205, ófyrirséð.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Jafnframt kynnti borgarstjóri erindisbréf fyrir starfshóp um endurskoðun gjaldskrár og styrkja vegna dagvistunarúrræða fyrir börn á leikskólaaldri.

Borgarráð samþykkir tillöguna.

32. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 8. þ.m. um byggingarstyrk til Landakotsskóla, kr. 10.000.000. Samþykkt.

33. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag, ásamt tillögum borgarstjóra um styrkveitingar. Borgarráð samþykkir tillögur borgarstjóra.

34. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Orkuveitan byggir nú nýjar höfuðstöðvar sínar við Réttarháls. Komið hefur í ljós að Orkuveitan hyggst leigja út u.þ.b. 500 m2 salarkynni í húsinu undir starfsemi líkamsræktarstöðva. Um síðustu helgi var auglýst í Morgunblaðinu eftir aðilum til að reka slíka starfsemi, sem yrði í samkeppni við aðrar líkamsræktarstöðvar. Óskað er upplýsinga um hve stór hluti af nýjum höfuðstöðvum Orkuveitunnar verður leigður út fyrir samkeppnisrekstur og hve hár stofnkostnaður þess verður. Jafnframt er óskað upplýsinga um áætlaðan heildarkostnað vegna byggingar nýrra höfuðstöðva Orkuveitunnar.

Fundi slitið kl. 16.15.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Alfreð Þorsteinsson Inga Jóna Þórðardóttir
Helgi Hjörvar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Steinunn Valdís Óskarsdóttir